Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Kápan 2007 og tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Niðurstaðan af starfi dómnefnda fyrir Íslensku bókmenntaverðlaunin 2007 liggur fyrir miðvikudaginn 5. desember en þá verður tilkynnt hvaða bækur verða tilnefndar til verðlaunanna. Verðlaunin sjálf verða svo afhent síðla janúarmánaðar að venju. Til að hita sig aðeins upp fyrir tilnefningarnar sem tilkynnt verður um í sérstakri innfellingu Kiljunnar í Kastljósi, sem í sjálfu sér er stórspennandi tilraun til sambræðings tveggja þátta, er hægt að fara inn á mbl.is og kjósa bestu kápuna 2007. Niðurstaðan af því vali verður svo tilkynnt í Kiljunni miðvikudaginn 5. desember.

Kápurnar 30 voru valdar af þriggja manna dómnefnd úr öllum 800 kápum sem eru í Bókatíðindum. Dómnefndina skipuðu Anna Rakel Róbertsdóttir Glad sem hannaði kápuna á Bókatíðindi í ár, Egill Helgason, Kiljustjórnandi og Snæfríð Þorsteins stórhönnuður.

 


Góður gangur í bóksölu

Það er gott hljóð í bókaútgefendum nú þegar vertíðin er komin á fullt. Forlagsmenn eru á því að fram til þessa hafi salan fari fram úr björtustu vonum og sama má segja um Bjart/Veröld og mörg önnur útgáfufyrirtæki: Mikið framboð á bókum hefur hvetjandi áhrif á söluna. Enn er of snemmt að segja til um hvernig topp tíu listarnir raðast upp, en gera verður ráð fyrir að þær bækur sem komist þangað inn um miðjan desember verði eins og á síðustu árum að seljast í um 5000 eintökum hið minnsta.

Sem dæmi um hve mikla trú menn hafa á sölunni má nefna að Forlagið hefur látið setja í gang metprentun á Arnaldi Indriðasyni, en ný sending af Harðskafa er nú á leið frá Svíþjóð svo alls hafa verið prentuð 25.000 eintök. Harry Potter var prentaður í 15.000 eintökum og talið líklegt að 5000 þurfi til viðbótar. Ítalskir réttir Hagkaupa mun víst vera prentuð í 20.000 eintökum til að byrja með en svo þurfi meira brátt að koma. Enn annað dæmi um góða trú á góðri sölu er að Þorgrímur Þráinsson prentaði 10.000 eintök af Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama, og ljóst er að ef sem fram heldur með sölu munu þau ganga til þurrðar. Leyndarmálið mun nú vera farið að tikka í annan tuginn og er enn í sölu þannig að hún gæti endað í um 15.000 eintökum.

Gera má ráð fyrir ríflegum endurprentunum á þeim titlum sem helst eru í umferð eru umtalaðir þessa dagana á borð við Bíbí eftir Vigdísi Grímsdóttur og Ævisögu Guðna Ágústssonar eftir Sigmund Erni Rúnarsson. Það sama á við Hníf Abrahams eftir Óttar Martin Norðfjörð, Ösku Yrsu Sigurðardóttur, Rimla hugans eftir Einar Már Guðmundsson, Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson, Gælur, fælur og þvælur eftir Þórarinn Eldjárn og Sigrúnu Eldjárn.

En það má ekki gleyma því að þegar 800 bækur eru á markaði eru það ekki bara topparnir sem skipta máli, það er að ná sem bestri sölu sem víðast. Á því lifa sérstaklega forlög sem eru með breiðan útgáfulista. Langbreiðasti útgáfulistinn er hjá Forlaginu sem dekkar í raun allar hugsanlegar kategóríur íslenskrar útgáfu. Þar er hugsunin sú að það eru ekki toppsölurnar sem skipta mestu máli, mestu máli skiptir að vera með sem fæst flopp.

 


Hvað er að seljast?

Þrír bóksölulistar eru nú birtir í fjölmiðlum: Listi Eymundssonar í 24 stundum og Fréttablaðinu, listi Félagsvísindastofnunar í Morgunblaðinu og sölulisti Hagkaupa í DV.

Það er á engan hallað þegar sagt er að listi Félagsvísindastofnunar sé sá marktækasti, því þar er úrtakið stærst. Þar var hin nýja ítalska réttabók Hagkaupa efst á lista, en hún er einkum seld í Hagkaupum, eins og gefur að skilja, á ótrúlega lágu verði sem venjulegir bókaútgefendur geta alls ekki keppt við. Samtvinnun dagvörusölu, bókaútgáfu og hárra upplaga gerir það mögulegt að selja litprentaða og veglega bók á aðeins 1500 kall. Það er jafn há upphæð og kostar pr. eintak að prenta bækur í lit í fáum eintökum, bara til að skýra samanburðinn.

Sjálfur listi Hagkaupa sem birtist í DV sýnir hins vegar að áhyggur manna af því að sameining JPV og Eddu útgáfu myndi leiða af sér algjöra yfirburðastöðu eins aðila á bókamarkaðnum eiga ekki við rök að styðjast. Samkvæmt honum á Forlagið eina bók á topp 10 listanum: Harðskafa eftir Arnald Indriðason.

Bjartur/Veröld á flestar bækur á listanum eða 4 (Harry Potter, Skilaboðaskjóðan, Aska, Sjóræningjafræði).

Fjölvi, Hagkaup, Útkall, Salka og Andi eiga hvert sína bókina. Leyndarmálið heldur til að mynda áfram sigurgöngu sinni, Þorgrímur Þráinsson kennir enn hvernig finna má leyndarmál hamingjunnar, enn einu sinni eru björgunarsveitirnar kallaðar út og heimta þyrluna strax! og börn læra nú að elda fyrir foreldra sína sem koma þar með mikilvægum verkþætti á heimilinu yfir á þeirra herðar. Sjálfir ætla hinir fullorðnu nú hins vegar að kokka á ítalska vísu með Leifi á La Primavera.


Lífið í Auschwitz og harði bissnessmaðurinn

Í Kaupmannahöfn býr einn helsti bókaútgefandi Íslands, Snæbjörn Arngrímsson, og segist sjálfur vera hörku bissnessmaður, eins og kemur fram í viðtali við hann í Fréttablaðinu. Árangur hans og konu hans Susanne í Danmörku er eftirtektarverður. Forlag þeirra, Hr. Ferdinand, er lítið fyrirtæki en hefur náð að koma bókum sínum að í öllum bókaverslunum, hvert sem maður kemur hér í Kaupmannahöfn sér maður þessum bókum stillt fram í gluggum og á söluborðum og plagöt með þeim hanga uppi í verslunum, ekki síst egypska sagan Yacoubian byggingin eftir Aala Al-Aswany, sem líka er til á íslensku.

Forleggjarinn er hins vegar rólegur og yfirvegaður að venju þegar við lyftum te- og kaffibollum á köldum og sólríkum laugardegi í bókaverslun Arnolds Busck við Kaupmangaragötu. Að sjálfsögðu er Jakobínabyggingin úti í glugga. Bók sem hefur fengið svo glimrandi dóma hjá dönsku blöðunum að leitun er á öðru eins. Snæbjörn segir að bókin hafi eiginlega gengið of vel. Fyrsta upplagið hafi horfið um leið og góðu dómarnir komu og endurprentunin erfið á haustin þegar allar prentsmiðjur Norðurlanda eru á fullu að framleiða jólabækurnar. Loks hafi fundist prentari í Noregi og nú sé bókin aftur komin inn á lista. Maður verður víst að fara að lesa þetta.

Annars er ég að lesa nokkuð sérstaka bók sem Haukur Ingi Jónasson stórsnillingur lánaði konunni minni en sem ég greip niður í og gat ekki hætt að lesa. Þetta er ensk þýðing á pólskri útgáfu bókar upphaflega var skrifuð á ungversku af lækninum Miklós Nyiszali. Ég kann ekki ungversku en orðið Auschwitz kemur þar fyrir í titlinum, á ensku heitir bókin hins vegar I Was Doctor Mengele's Assistant.

Þetta er einfaldlega rosalegasta reynslusaga sem ég hef nokkru sinni lesið. Ég hef áður lesið tvær Auschwitz sögur, Ef þetta væri maður eftir Primo Levi og æviminningar Rudolfs Höss, sem var fangabúðastjóri í Auschwitz Birkenau. Bók Levis er listaverk og bók Höss er sjálfsagt einhver furðulegasta frásögn sem fest hefur verið á blað fyrr og síðar, ekki síst óhuganleg vegna þess að hún lýsir frá fyrstu hendi að útrýmingin var rekin eins og stórfyrirtæki með öllu því sem tilheyrir, líka risnuferðum, umbun fyrir vel unnin störf, forréttindum og lífsstíl sem er síðan órjúfanlegur hluti af morðunum. Lýsing Höss á hve mikið hann elskar litlu börnin sín beint á eftir lýsingu á hnakkaskotum er svo geggjuð að leitun er á örðu eins. En bók Nyiszalis er á margan hátt yfirgengilegri en þessi rit vegna þess að höfundurinn er allan tímann staddur í helvítinu miðju, hann býr beinlínis í sama húsi og gasklefarnir og brennsluofnarnir eru í frá sumrinu 1944 fram til síðustu vetrarmánuðanna 1945.

Nyisali var rúmenskur læknir sem lærði læknisfræði í Þýskalandi, nánar tiltekið í Breslau, sem nú er í Póllandi og heitir Wroclaw, höfuðborg Slesíu. Hann varð ungverskur ríkisborgari eftir að Ungverjar fengu sneið úr Rúmeníu í stríðsbyrjun, studdir af Þjóðverjurm. Líkt og aðrir gyðingar í Ungverjalandi, en þeir voru um 700.000 talsins, var þrengt að honum og fjölskyldu hans smám saman uns hann var sendtur með örðum gyðingum landsins til Auschwitz, en þangað var öllum ungverskum gyðingum mokað á árinu 1944.

Hann var sérfræðingur í meinafræði og varð sem slíkur einn nánasti aðstoðarmaður hins snarbilaða Jósefs Mengele, læknisins sem notaði útrýmingarbúðirnar sem risavaxna tilraunastofu fyrir fáránlegar og brjálaðar kenningar sínar um kynþáttalífræði sem áttu sér enga vísindalega stoð. Mengele komst seinna undan og slapp til Brasilíu þar sem hann dó af hjartaslagi árið 1979. Nyisali hafði einstaka aðstöðu til að hafa yfirsýn yfir hvað fór fram í Auschwitz og hefur greinilega einsett sér að taka vel eftir öllu, þótt hann hafi vitað frá því að honum er komið fyrir í gasklefabygginunni að hann ætti aldrei afturkvæmt. Hann var hluti af svokölluðum Sonderkommandos, vinnuflokki sem sá um að leiða tæma gasklefana og brenna líkin og hafði það því betra en allir í búðunum, en sem vissi um leið að hann ætti aldrei afturkvæmt lifandi því SS drap alla sem höfðu nasasjón af því hvernig útrýmingin fór fram. Eins og Nyisali lýsir vissi svo sem enginn í búðunum í raun og veru hvernig fólk var nákvæmlega drepið í gasklefunum og annað slagið drap SS einnig menn úr eigin röðum sem taldir voru vita of mikið.

Þetta er átakanleg lesning en segir manni ótrúlega margt um hvernig valdaformgerðir vinna, hvernig fólk brest við aðstæðum sem það ratar í. Tilvistarstefnan verður manni hér dagljós. Í Auschwitz hafði fólk áttað sig á því að það myndi deyja brátt og að dauði þess var algerlega tilgangslaus og út í hött og ekki hluti af öðru en geggjaðir dauðaverksmiðju sem slátraði ómetanlegum mannauði, hámenntuðu og hæfileikaríku fólki svo hundruðum þúsunda skipti. Samt vinnur það sín daglegu störf og hefur einhverja reisn, í það minnsta Sonderkommandomennirnir, sem höfðu efnislegar forsendur til að haga sér vel, þeir þurftu ekki að berjast um brauðbita eins og fólkið í sjálfum búðunum þar sem miskunnarleysið og harkan var meiri. Tæknilegar lýsingar á því hvernig dauðann ber að í gasklefunum, hvað fylgir þessum dauða í smáatriðum, hvernig gasklefarnir voru tæmdir og þrifnir, hvernig var staðið að því að græða á dauða fólksins með því að raka af því hár og rífa úr því tennur og hvernig ákveðið efnahagskerfi myndast í búðunum sem byggist á gullbræðslu og stuldi á gullplötum: allt þetta veitir manni nákvæma og yfirvegaða innsýn í drápsvélin óg þá sem unnu við hana, hvor sem þeir gerðu það nauðugir eða af hugsjón. Raunar kemur skýrt fram að SS-mennirnir höfðu fæstir úthald í þetta og voru að þrotum komnir andlega nema einn og einn yfirmaður. Yfirmennirnir virðat hins vegar hafa verið hreinræktaðir glæpamenn, algerlega ófærir um samíðan með öðrum, valdasjúkir hrottar og eineltingar sem litu á storfin í Auschwitz sem eftirsóknarverðan lífsstíl. Lýsingin á Otto Moll sem dæmdur var að stríði loku til dauða fyrir glæpi í Dachau sýnir þetta hvað best. Þetta var fólk sem þjóðfélagið hefði ekki getað umborið á friðartímum og hefði setið í fangelsum mest af ævinni hefði það ekki verið svo "heppið" að fá starf í útrýmingarbúðum.

 


Svarti Jónas og Bjarti Jónas

Ég hef aldrei rekist á Íslending sem ekki þekkir Jónas Hallgrímsson. Þótt ekki rifjist upp kvæði veit viðkomandi samt að Jónas var skáld. En ég hef heldur aldrei rekist á Íslending sem veit ekki að saga Jónasar er örlagasaga. Dularfullt og spegilslétt fjallavatn bak mikilúðlegum tindum hrifsar til sín föðurinn þegar skáldið er barnungt. Skáldið fetar erfiða slóð í skugga föðurmissis og nærist á metnaði fátækrar móður, berst til mennta. Hann er frelsisunnandi, lífsnautnamaður, skáldmæltur og ör. Hann hefði getað fetað settlega stigu en kýs sér annan veg. Í samræmi við rökfræði borgaralegra skáldsagana úr samtíð hans er viðgangur hans í veröldinni þar með ráðinn. Í hinu melódramatíska úniversi verður sá sem snýr baki við regluverki borgaraskaparins ógæfu sinni og innri djöflum að bráð. Hann hlýtur að falla í valinn, helsjúkur, langdrukkinn og uppétinn af fransós. Dauðann ber að í ísköldu kvistherbergi í borg þar sem tötrum vafðir fátæklingar vafra um göturnar og berjast um brauðmola við rotturnar innan um fætur vellauðugra dándimanna sem hreyta í þá spesíu eða ónotum, allt eftir því hvernig kúrsinn stendur á börsinum. Einu reitur skáldsins eru frakki á slitnum snaga og pappírar á borði þar sem hálfskrifað höfuðkvæði bíður þess að skáldið rísi kaldsveitt af beðnum og skipi sorgmæddum, trúföstum félaga sínum, sem einn vakir þegar aðrir sofa, að pára síðustu hendinguna. Endurminning um einu hreinu ástina kvelur hann. Þá sem hann hlaut að skiljast við því hún var ætluð öðrum og virðulegri kosti. „En anda sem unnast, fær aldregi eilífð ...“ Síðan deyr hann. Hann týnist í ómerktri gröf, fjarri föðurlandi og vinum. Það eina sem lifir eru kvæðin. Örlagagusturinn stendur af þeim. Og við klárum lögfræðina til þess að það fari nú ekki eins fyrir okkur.

Ef ímynd Jónasar er tindaröð á Tröllaskaga gnæfir melódramatískan strýtan þar hæst. Glæsileg uppbygging ógæfunnar stendur styrk þrátt fyrir að rannsóknir, útgáfur og heil ævisaga hafi sundurgreint jafnt banamein skáldsins sem hlutdeild hans í vísindarannsóknum 19. aldar. Yfirveguð ímynd af 19. aldar skáldi sem endurnýjaði ljóðmál íslenskrar bókmenntahefðar og reyndi en mistókst að marka spor í vísindasöguna hefur ekki orðið ofan á. Þegar rætt er um Jónas verður flestum það enn á orði að hann hafi í sínum merkilegu rannsóknarferðum um landið verið meira og minna fullur, og þetta sagt með vorkunn og aðdáun í senn, enda hlýtur að vera hæsta stig sælunnar að fá að velta um á traustum klár kengfullur í boði danskra vísindastofnana. Renna sér svo til Kaupmannahafnar að hausti „með allt niðrum sig“ til að komast aftur upp á hanbjálkann, svangur og umkomulaus með þrá í brjósti eftir sólardögum sumarsins og ástinni sem aldrei varð höndluð. Í þessari dramamynd er Kaupmannahöfn eins og leikmyndin úr Davíð Kopperfield. Þar má líta skítug stræti þar sem hórur og vasaþjófar, barnaræningjar og gráðugir svikahundar keppast um að krækja brauðmolana af borðum hinna ríku og voldugu. Í þessum heimi komast menn hins vegar ekki í álnir nema með ómennskri óbilgirni. Góða fólkið er ríkt og voldugt frá fæðingu og ber í sér erfðaefni göfugmennskunnar. Því geta Íslendingar rasað yfir gráðugu Danahyski en mært í sömu mund kónginn.

 

Og þótt búið sé að sanna vísindalega að banameinið hlýst af fótbroti og að brjóstveikin hafi stafað af því að Jónas forkælist í hrakför um eyðimörkina Nýjabæjarfjall, þá virðist Megas í gríni eða kannski bara einhverjir langdrukknir menningarmenn í höfuðborginni, komið þeirri hugmynd inn hjá alþjóð að „Jónas hafi ekki verið allur þar sem hann var séður“, og hafi gert það sem nú er kallað „að kaupa vændisþjónustu“, smitast fyrir vikið af herfilegum kynsjúkdómi og legið marineraður í sífilis lungann úr sínum efri árum. Ekkert bendir til þess að þetta hafi verið rétt, en þessi fransóssaga er meiriháttar stykki í ímyndarpúsli Jónasar og varpar á hann þeim gangsterblæ sem kannski hefur meira en nokkuð annað haldið minningu hans á lofti meðal þeirra sem nú eru yngri en fimmtugir. Helstu hetjur íslensks samtíma eru fíklar, glæpamenn og auðkýfingar. Með brennivínið og fransósinn að vopni lendir Jónas í tveimur fyrstu flokkunum. Það tryggir honum traustan sess í allraguðahofinu nú á upphafsárum 21. aldar þegar ringlaður almenningshugurinn hringsólar um óöldina í miðbænum, handrukkanir, fíkniefni og óhóflegt ríkidæmi fáeinna fjármagnseigenda.

Skáldskapur Jónasar og raunar heildarverk hans allt er meira og betur rannsakað en nokkurt annað heildarverk íslenskrar ljóðsögu. Við höfum fyllri upplýsingar í höndunum um flest kvæði Jónasar en nokkurs annars íslensks skálds fyrri alda. Og raunar er það svo að við höfum margar mismunandi túlkanir á kvæðum hans í höndum, ögrandi greiningar sem vísa okkur leið inn í ný híbýli. Á bak við hlera koma í ljós óvænt bæjargöng sem liggja inn í búr og baðstofur annarra tímabila bókmenntasögunnar, svið hugsunar þar sem fæstir héldu fyrsta kastið að íslenskt skáld hefði borið niður. Ef skáldskapur Jónasar væri veglegur bær væri ein skemman tileinkuð klassískri hefð elegíunnar þar sem Ísland, farsælda frón trónar á stalli sem frumlegt innlegg í langa röð sem teygir sig aftur til latneskrar fornaldar. Við finnum Jónas fyrir í endurreisnarham í kammersi þar sem tersínur Gunnarshólma hljóma í senn eins og nýlatneskt glæsikvæði og rómantískt goðmagnaljóð. Og við sjáum hann í eldaskála við fótskör margvísra kvenna sem leiða hann inn í Edduhefðir sem verða honum svo inngrónar að þær verða að sjálfsögðum tjáningarmáta fyrir nútíðarfólk. Hvar sem borið er niður hafa góðir menn og konur búið til fyrir okkur skilningsleiðir og göngustíga. En við fylgjum engu að síður ímyndinni og hún er svört. Er þetta ekki kvæði um þyngslin sem koma yfir hann? Hinn þungi Jónas, svarti Jónas. Það er okkar skáld. Fullt með fransós.

Þetta er hins vegar Jónas fyrir fullorðna. Til að gera hann smekklegri fyrir börn og bjartsýnt fólk var fyrir löngu þróuð skilningslína sem um skeið átti meira gengi að fagna sem ímynd. Þetta er myndin af sólarmanninum Jónasi. Margir sem komnir eru af léttasta skeiði kannast vel við hreiminn í þessari björtu rödd sem færði sólina og vorið inn í huga Íslendinga. Að heyra Ég bið að heilsa! sungið af Karlakór Reykjavíkur og Guðmundi Jónssyni heitnum í klassískri upptöku frá árinu 1957 í Óskalögum sjúklinga á hverjum einasta laugardagsmorgni sjöunda og áttunda áratugar 20. aldar hafði varanleg mótunaráhrif á heila kynslóð. Það var stórbrotið að heyra þessu lagi blastað úr risaútvörpum af gerðinni Telefunken eða Philips mitt yfir laugardagshreingerningarnar á meðan grjónagrauturinn eða saltfiskurinn kraumuðu í pottunum og horfa í leiðinni út yfir úfið haf eða á fjarlæg fjöll þar sem skýjaflókar virtust sem snöggvast víkja til hliðar á meðan lagið var leikið. Auðvitað er þrá og þyngsli í þessu ljóði ef maður vill hafa það svo, en túlkun Karlakórsins og Guðmundar óperusöngvara á lagi Inga T. Lárussonar er ekki á þann veg. Raddir kórsins eru léttar, kátar, líkt og trillur sem vagga á bárum eða hross sem hlaupa í haga sér til skemmtunar áður en þau skyndilega nema staðar og sperra eyrun. Frostið er farið úr jörðu, allt er deigt og lint og opið og til í hvað sem er. Farfuglarnir hafa uppi „sælla söngfugla kvak“ og „röðull brosir“, „snjórinn eyðist, gata greiðist“ og nóg er að gera „nóttu bjartri á“. Vorið er komið. Hinn einfaldi og tæri fögnuður yfir vorkomunni og birtunni var bundinn í orð af Jónasi á þann hátt að kynslóðir leituðu til hans eins og flugur í ljós.

Því þegar gætt er að því sérstaklega hafa kvæði Jónasar hafa ótrúlega margar tilvísanir til sólarinnar og birtunnar. Maður getur raunar svo sem skilið að þeim sem eitthvað púður þótti í Jónasi hafi loks þótt nóg komið af upphafningu birtunnar og sætsúputali í kringum „ástmögur þjóðarinar“. En fyrir vikið verður að víkja megninu af skáldskap Jónasar til hliðar eða í það minnsta endurtúlka hann sem afrakstur brennivíns, þunglyndis og kramar. Hins vegar þarf ekki annað en að slá upp í heildarútgáfu þeirra fóstbræðra Haups Hannessonar, Páls Valssonar og Sveins Yngva Egilssonar til að sjá birtuspilið blasa við. Og um leið rifjast upp ímyndin eins og hún eitt sinn var og er enn í munni Mjólkursamsölunnar. Þar birtist Jónas sem einskonar Gandálfur á gangi um landið með ljóðstaf í hönd, ekki hreifur af víni, heldur upphafinn af anda náttúrunnar. Hann slær prikinu við grundir og björg svo hjúpur vana og sljóleika hrekkur af náttúrunni. Hann er eins og forvörður sem kemst í renessanshiminn á ítalskri fresku og fágar burt gamalt gróm en skilur eftir bláma og ljóma. Þessi Bjarti Jónas var raunar sérstakt dálætisefni Halldórs Laxness, sem á efri árum skrifaði frábæra hugleiðingu um eina helstu uppfinningu Jónasar, íslensk landslag, í formálsorðum sínum að bókinni Reginfjöll að haustnóttum eftir Kjartan Júlíusson frá Skáldstöðum Efri. Hann sá að það var verk þessa töframanns að draga niður gömlu skúmtjöldin og birta landið í nýjum ljóma.

Það væri ofsagt að segja að Svarti Jónas og Bjarti Jónas tækjust á. En þótt báðar ímyndirnar hafi margt að sækja til rannsókna og könnunar á skáldskap Jónasar eru þær skemmtilega ósamstæðar og lýsa einskonar geðklofasýn á Jónas Hallgrímsson. Hann verður með öðrum orðum að dæmigerðum sundurklofnum nútímamanni. Annars vegar fórnarlamb menningarinnar. Hins vegar hið hreina barn náttúrunnar. Hann er í senn gangster og krútt.

Birtist í Lesbók Morgunblaðsins 17. nóvember 


Svaka stór íslenskudagur!

Þegar ég kom heim aftur frá Þýskalandi haustið 1996 mætti mér í gættinni dagur íslenskrar tungu sem þá virtist vera í umboði Mjólkursamsölunnar. Á undraskömmum tíma varð þetta fyrirbæri að einum helsta hátíðisdegi ársins og orðinn sameign þjóðarinnar. Það má vera að mér skjátlist, en 1. desember, fullveldisdagurinn, hefur til að mynda algerlega horfið í skuggann af Degi íslenskrar tungu. Áherslan á stjórnmálatengda daga og hátíðarhöld hefur enda sífellt minnkað í samfélaginu, 17. júní er til að mynda hvað sem hver segir ekki lengur sá stórbrotni hátíðisdagur sem hann var. En Dagur íslenskrar tungu nýtur þess að hann er samofinn starfi leik- og grunnskóla og að hann er fæðingardagur skálds sem er ótrúlega lifandi með þjóðinni þrátt fyrir allt. Þar skiptir miklu að stór hluti kvæða Jónasar hefur verið tónsettur. Það hefur alger úrslitaáhrif á viðgang skálda með þjóðinni til lengdar að hægt sé að syngja kvæði þeirra og að söngvarnir nái útbreiðslu.

Í tilefni þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar (umræðan um hvort einhver geti átt 200 ára afmæli hefur reyndar verið nokkuð athyglisverð) eru hátíðarhöldin í ár viðameiri en nokkru sinni fyrr. Ég var viðstaddur þegar MS og Hvíta húsið opnuðu fyrir umferð á hinn frábæra Jónasarvef nú í vikunni og hitti þá skáldið Andra Snæ Magnason sem fannst ekki nógu mikið tilstand, það vantaði allt stórfútt í þetta. Þótt að sönnu hefði verið gaman ef sett hefði verið upp leysersjóv við Hraundranga held ég að mestu skipti hve samofin hátíðarhöldin eru skólastarfi. Það hefur úrslitaáhrif til langframa.

Það er í sjálfu sér ekki mikil útgáfa í kringum 200 ára afmælið enda heildarútgáfa, smærri lestrarútgáfa og ævisaga Jónasar allt fáanlegt á markaði. Og nú er ævisagan líka fáanleg í kilju. En ég er nokkuð spenntur yfir bókinni Yfir Hraundranga sem er safn greina um Jónas sem Sveinn Yngvi Egilsson tekur saman og Hið ísl. bókmenntafélag gefur út. Gott að fá þetta á einn stað því um daginn hnusaði ég aðeins að rannsóknarsögu Jónasar út af smá pistli sem birtist í Lesbók Mbl. á morgun og þá kom mér á óvart hve mikið er til. Felst meginkvæði Jónasar hafa verið rannsökuð niður í kjölinn og túlkanir og greiningar takast oft á. Þröstur Helgason segir í Mogganum í morgun að til séu orðin "Jónasarfræði", og það er áreiðanlega rétt.

En talandi um Mogga. Á forsíðu er fyrirsögnin: "Dagurinn aldrei verið stærri". Er þetta góð íslenska? Stórir dagar? Segir maður ekki: Hátíðarhöldin aldrei viðameiri eða eitthvað í þeim dúr. Eru til dæmis til litlir dagar? Er þetta ekki bara illa þýdd enska? 


DV kemur á óvart

Það er sígilt umræðuefni hver jól hve bókagagnrýni er skammtað lítið pláss í fjölmiðlum. En mig rak í rogastans í morgun þegar ég sá sérstakan bókafjórblöðung í DV. Þar er ekkert smá pláss tekið undir ritdóma og miklar kanónur að skrifa. Þeir Jón Viðar Jónsson og Ármann Jakobsson, margreyndir og marktækir gagnrýnendur, já og báðir sprengmenntaðir menn og engir taglhnýtingar nokkurrar stefnu eða klíku, skrifa þar á ítarlegan og viti borinn hátt um bækur. Þótt þeir séu ekki einir um hituna er mestur veigur í þeim, sérstaklega Jóni Viðari, sem skrifar ítarlegan og gáfulegan dóm um bók Böðvars Guðmundssonar, Sögur úr Síðunni, sem Uppheimar gefa út. Hann er afar hrifinn af bókinni en það skiptir svo sem ekki mestu, heldur að sjálfur dómurinn er með tengingum til margra átta auk þess sem bókin sjálf fær þann sem dæmir til að hugsa út og suður, nokkuð sem verður furðulegt nokk æ sjaldséðara í ritdómum.

Ég vona að standardinn á þessari umfjöllun haldi áfram á þessari braut og að við næstu fjórblöðungar verði jafn magnaðir og þessi. DV kemur hér þægilega á óvart með góðri umfjöllun og flottri uppsetningu á bókadómum.


Barnabókaárið mikla

Bókatíðindin eru komin úr prentun. Þau eru 288 síður, í raun eins og bók. Þau eru þykkari en IKEA bæklingurinn. Í þeim eru tæpir 800 titlar skráðir, fleiri en nokkru sinni. Það voru 677 titlar í Bókatíðindum árið 2006. Í ár eru þeir 797. Hvar má sjá þessarar miklu aukningar stað?

Í barnabókum ekki hvað síst.

Þetta er barnabókaárið mikla. Úrval bæði frumsaminna og þýddra barnabóka er gríðarlegt og nú koma inn á markaðinn bókaflokkar sem fyrst og fremst er beint að drengjum, en lengi var um það kvartað að slíkt vantaði. Fyrir vikið verður samkeppnin í ákveðnum efnisflokkum nokkuð hörð: Mál og menning sendir því frá sér Risaeðlubók en það gerir Skjaldborg líka, sömuleiðis Sögur sem senda frá sér bókina Risaeðlurannsóknir og einnig Æskan sem er með "uppsprettibók" sem heitir Risaeðlur, varúð! Sum sé: 4 risaeðlubækur að velja úr. Í sjóræningageiranum logar allt: Bjartur sendir frá sér Sjóræningjafræði, Steinegg sendir frá sér Leyndardómar sjóræningjakafteins og JPV útgáfa er með bókina Sjóræningjar. Allar þessar bækur höfða til fleira en lestraránægjunnar einnar, eru með fylgihlutum og glóa og lýsa og snúast og góla. En einnig er að finna bækurnar Sjóræningjar Karíbahafsins og Sjóræningjar Karíbahafsins - þrautabók, sem eru Disney útfærslur á sjóræningjamyndum Jerry Bruckheimers og Edda útgáfa (þe. klúbbahlutinn), gefur út. En einnig má nefna bókina Sjóræningjar skipta ekki um bleiur sem JPV útgáfa gefur út og skoðar sjóræningjaheiminn frá skondnu sjónarhorni. Þá er ógetið límmiðabókar Unga ástin mín sem heitir: Límmiðafjör: Sjóræningjar.

Árið 1994, sem var eitt slappasta útgáfuár síðustu tveggja áratuga, komu út 35 frumsamdar íslenskar barnabækur og 43 þýddar. Í ár koma út 77 frumsamdar barnabækur og 182 þýddar. Árið 2006 komu út 51 frumsamin bók og 155 þýddar. Það ber að skoðast að þessar tölur eru skv. talningu úr Bókatíðindum sem þýðir að þetta eru bækurnar sem útgefendur ætla inn á samkeppnismarkað. En samkvæmt þessu er aukning í útgáfu barnabóka ein og sér nærri helmingur af aukningunni milli áranna 2006 og 2007.

Árið 2007 er með öðrum orðum barnabókaárið mikla.

Já, og fyrir 10 árum, árið 1997, voru 392 titlar í Bókatíðindum. Það eru með öðrum orðum helmingi fleiri bækur í Bókatíðindum í ár en fyrir áratug.


Lygaritið Landnáma

Mér var nánast létt í morgun þegar ég sá loksins sjónarmið fræðimennskunnar í sönnunarbyrði Þjóðlendumálsins komin fram í stórum fjölmiðli. Sem tíður gestur á Þjóðdeild Þjóðarbókhlöðunnar heyrði maður hina virðulegu handritalesendur hrista hausinn yfir því að Landnáma skuli notuð eins og meiriháttar heimild og að niðurstöður textafræði, sagnfræði og bókmenntafræði síðustu áratuga skuli ekki hafa ratað í gegn til lögfræðinga og hæstaréttardómara. Samlíking Einar um að það væri líkt og að byggja málssókn á Biblíunni að vitna í Landnámu var hins vegar svolítið tæp í ljósi raunveruleikans.

Staðan er nefnilega þannig að heilt þjóðríki, Ísrael, byggir landakröfur sínar einmitt á Biblíunni, eða öllu heldur ritum Gamla testamentisins.


Besta lesning dagsins

Það er um margt rétt sem sagt er að bloggið hafi ekki gert okkur fróðari eða bættari og að megnið af því sem þar finnist séu óígrunduð og móðursýkisleg upphlaup út af smámunum í fjölmiðlum. En mér finnst vænt um marga bloggara og les skrif þeirra með ánægju. Einn þeirra er Kári Harðarson sem í dag færir okkur þýðingu á grein eftir þann merka mann Thoreau sem er heilnæm lesning á þessum degi. Þær skoðanir og þau viðhorf sem koma þar fram eru fullkomlega á skjön við stefnu íslenskra fjölmiðla, hugmyndafræði íslensks samfélags og þau gildi sem haldið er á lofti í öllum morgunkornum og morgunverðarfundum sem dritað er niður yfir vetrarmánuðina til andlegrar uppbyggingar íslenskum óorðnum auðmönnum.

Sjá blogg Kára.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband