Lífið í Auschwitz og harði bissnessmaðurinn

Í Kaupmannahöfn býr einn helsti bókaútgefandi Íslands, Snæbjörn Arngrímsson, og segist sjálfur vera hörku bissnessmaður, eins og kemur fram í viðtali við hann í Fréttablaðinu. Árangur hans og konu hans Susanne í Danmörku er eftirtektarverður. Forlag þeirra, Hr. Ferdinand, er lítið fyrirtæki en hefur náð að koma bókum sínum að í öllum bókaverslunum, hvert sem maður kemur hér í Kaupmannahöfn sér maður þessum bókum stillt fram í gluggum og á söluborðum og plagöt með þeim hanga uppi í verslunum, ekki síst egypska sagan Yacoubian byggingin eftir Aala Al-Aswany, sem líka er til á íslensku.

Forleggjarinn er hins vegar rólegur og yfirvegaður að venju þegar við lyftum te- og kaffibollum á köldum og sólríkum laugardegi í bókaverslun Arnolds Busck við Kaupmangaragötu. Að sjálfsögðu er Jakobínabyggingin úti í glugga. Bók sem hefur fengið svo glimrandi dóma hjá dönsku blöðunum að leitun er á öðru eins. Snæbjörn segir að bókin hafi eiginlega gengið of vel. Fyrsta upplagið hafi horfið um leið og góðu dómarnir komu og endurprentunin erfið á haustin þegar allar prentsmiðjur Norðurlanda eru á fullu að framleiða jólabækurnar. Loks hafi fundist prentari í Noregi og nú sé bókin aftur komin inn á lista. Maður verður víst að fara að lesa þetta.

Annars er ég að lesa nokkuð sérstaka bók sem Haukur Ingi Jónasson stórsnillingur lánaði konunni minni en sem ég greip niður í og gat ekki hætt að lesa. Þetta er ensk þýðing á pólskri útgáfu bókar upphaflega var skrifuð á ungversku af lækninum Miklós Nyiszali. Ég kann ekki ungversku en orðið Auschwitz kemur þar fyrir í titlinum, á ensku heitir bókin hins vegar I Was Doctor Mengele's Assistant.

Þetta er einfaldlega rosalegasta reynslusaga sem ég hef nokkru sinni lesið. Ég hef áður lesið tvær Auschwitz sögur, Ef þetta væri maður eftir Primo Levi og æviminningar Rudolfs Höss, sem var fangabúðastjóri í Auschwitz Birkenau. Bók Levis er listaverk og bók Höss er sjálfsagt einhver furðulegasta frásögn sem fest hefur verið á blað fyrr og síðar, ekki síst óhuganleg vegna þess að hún lýsir frá fyrstu hendi að útrýmingin var rekin eins og stórfyrirtæki með öllu því sem tilheyrir, líka risnuferðum, umbun fyrir vel unnin störf, forréttindum og lífsstíl sem er síðan órjúfanlegur hluti af morðunum. Lýsing Höss á hve mikið hann elskar litlu börnin sín beint á eftir lýsingu á hnakkaskotum er svo geggjuð að leitun er á örðu eins. En bók Nyiszalis er á margan hátt yfirgengilegri en þessi rit vegna þess að höfundurinn er allan tímann staddur í helvítinu miðju, hann býr beinlínis í sama húsi og gasklefarnir og brennsluofnarnir eru í frá sumrinu 1944 fram til síðustu vetrarmánuðanna 1945.

Nyisali var rúmenskur læknir sem lærði læknisfræði í Þýskalandi, nánar tiltekið í Breslau, sem nú er í Póllandi og heitir Wroclaw, höfuðborg Slesíu. Hann varð ungverskur ríkisborgari eftir að Ungverjar fengu sneið úr Rúmeníu í stríðsbyrjun, studdir af Þjóðverjurm. Líkt og aðrir gyðingar í Ungverjalandi, en þeir voru um 700.000 talsins, var þrengt að honum og fjölskyldu hans smám saman uns hann var sendtur með örðum gyðingum landsins til Auschwitz, en þangað var öllum ungverskum gyðingum mokað á árinu 1944.

Hann var sérfræðingur í meinafræði og varð sem slíkur einn nánasti aðstoðarmaður hins snarbilaða Jósefs Mengele, læknisins sem notaði útrýmingarbúðirnar sem risavaxna tilraunastofu fyrir fáránlegar og brjálaðar kenningar sínar um kynþáttalífræði sem áttu sér enga vísindalega stoð. Mengele komst seinna undan og slapp til Brasilíu þar sem hann dó af hjartaslagi árið 1979. Nyisali hafði einstaka aðstöðu til að hafa yfirsýn yfir hvað fór fram í Auschwitz og hefur greinilega einsett sér að taka vel eftir öllu, þótt hann hafi vitað frá því að honum er komið fyrir í gasklefabygginunni að hann ætti aldrei afturkvæmt. Hann var hluti af svokölluðum Sonderkommandos, vinnuflokki sem sá um að leiða tæma gasklefana og brenna líkin og hafði það því betra en allir í búðunum, en sem vissi um leið að hann ætti aldrei afturkvæmt lifandi því SS drap alla sem höfðu nasasjón af því hvernig útrýmingin fór fram. Eins og Nyisali lýsir vissi svo sem enginn í búðunum í raun og veru hvernig fólk var nákvæmlega drepið í gasklefunum og annað slagið drap SS einnig menn úr eigin röðum sem taldir voru vita of mikið.

Þetta er átakanleg lesning en segir manni ótrúlega margt um hvernig valdaformgerðir vinna, hvernig fólk brest við aðstæðum sem það ratar í. Tilvistarstefnan verður manni hér dagljós. Í Auschwitz hafði fólk áttað sig á því að það myndi deyja brátt og að dauði þess var algerlega tilgangslaus og út í hött og ekki hluti af öðru en geggjaðir dauðaverksmiðju sem slátraði ómetanlegum mannauði, hámenntuðu og hæfileikaríku fólki svo hundruðum þúsunda skipti. Samt vinnur það sín daglegu störf og hefur einhverja reisn, í það minnsta Sonderkommandomennirnir, sem höfðu efnislegar forsendur til að haga sér vel, þeir þurftu ekki að berjast um brauðbita eins og fólkið í sjálfum búðunum þar sem miskunnarleysið og harkan var meiri. Tæknilegar lýsingar á því hvernig dauðann ber að í gasklefunum, hvað fylgir þessum dauða í smáatriðum, hvernig gasklefarnir voru tæmdir og þrifnir, hvernig var staðið að því að græða á dauða fólksins með því að raka af því hár og rífa úr því tennur og hvernig ákveðið efnahagskerfi myndast í búðunum sem byggist á gullbræðslu og stuldi á gullplötum: allt þetta veitir manni nákvæma og yfirvegaða innsýn í drápsvélin óg þá sem unnu við hana, hvor sem þeir gerðu það nauðugir eða af hugsjón. Raunar kemur skýrt fram að SS-mennirnir höfðu fæstir úthald í þetta og voru að þrotum komnir andlega nema einn og einn yfirmaður. Yfirmennirnir virðat hins vegar hafa verið hreinræktaðir glæpamenn, algerlega ófærir um samíðan með öðrum, valdasjúkir hrottar og eineltingar sem litu á storfin í Auschwitz sem eftirsóknarverðan lífsstíl. Lýsingin á Otto Moll sem dæmdur var að stríði loku til dauða fyrir glæpi í Dachau sýnir þetta hvað best. Þetta var fólk sem þjóðfélagið hefði ekki getað umborið á friðartímum og hefði setið í fangelsum mest af ævinni hefði það ekki verið svo "heppið" að fá starf í útrýmingarbúðum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband