Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Hvenær varð meistaraverk til á þremur mánuðum?

Úthlutanir á starfslaunum listamanna eru jafnan mikið stressmál hjá stéttum rithöfunda, myndlistarmanna, tónlistarmanna og leiklistarfrömuða. Rithöfundar taka þessum úthlutunum jafnan sem einskonar stóradómi um sín verk. "Þeir færðu mig niður um flokk," segja menn þegar þeir fá laun í 6 mánuði í staðinn fyrir 12, rétt eins og þar með sé einhver opinber stofnun að lýsa yfir skoðun sinni á verkum þeirra. Ungir rithöfundar ræða oft ákvarðanir úthlutunanefnda eins og verið væri að ráða í tiktúrur illgjarnra og lyginna goðmagna sem hylja "stóra planið" bak við moðreyk stöðugra blammeringa. Þau kosmísku öfl sem talin eru ráða dreifingu skattfjár til listastarfsemi eru á einhvern hátt handan við alla skynsemi, sama hver situr í nefndinni. Sumir listamenn eru með einhvers konar galdraformúlur á takteinum þegar þeir skila af sér umsóknum. Menn ráða í táknin og það sem fyrir þá ber á leiðinni með umslagið til þess mikla Móloks sem tekur við vonum og þrám hinna skapandi stétta.

Sumar úthlutunarnefndir eru greinilega með menningarprógramm, vilja til að mynda gefa nær gleymdum höfundum séns, ég minnist einnar slíkrar nefndar sem vakti mikla úlfúð í hópi atvinnurithöfunda fyrir um áratug síðan. Einn og einn lætur sig svo hafa það að skrifa í blöðin (æ sjaldnar þó) til að spyrja "af hverju ekki ég?" Aðrir til að spyrja: "Af hverju ekki X? Hann er snillingur og þarf marga munna að metta. Hvaða rugl er þetta?" En svo eru nefndir eins og sú sem nú starfar sem ákveður að best sé að nota "haglabyssuaðferðina". Þá er þessum naumu fjármunum sem ekkert hafa hækkað í 15 eða 20 ár smurt þunnt og sem víðast svo allir fái eitthvað. Þetta byrjaði fyrir einum tveimur, þremur árum. Þá sá maður að aftur komu inni þessir tveir og þrír mánuðir sem voru standard úthlutun áður en þessu kerfi var tekið tak á seinni hluta níunda áratugarins. Í staðinn fyrir að allir væru að fá smápeninga sem væru of litilir til að hægt væri að lifa af þeim og of miklir til að hægt væri að deyja af þeim var ákveðið að veita myndarlega styrki til þeirra sem störfuðu að ritstörfum af fullri einurð og gefa þeim tíma til að skrifa. Lægsti styrkurinn var hálft ár, hæsti þrjú ár, en margir fengu eitt ár og stundum tvö.

En nú hefur þessu verið snúið við. Fullt af fólki fær þriggja mánaða starfslaun sem ég hef ekki hugmynd um hvað menn halda að geri eiginlega fyrir listina. Starfslaunasjóðurinn er grundvöllur þeirrar gullaldar í skáldsagnaritun sem hófst um miðjan níunda áratuginn og stendur kannski enn að einhverju leyti með óvæntum krimmasnúningi. Þar fengu menn og konur frið í nokkur ár til að skrifa en þurftu ekki sífellt að búa til nýja umsókn til að fá aðra þrjá mánuði til að nota til að fjármagna stutt hlé áður en brauðstritið byrjaði að nýju. Afleiðingin er að aldrei hafa fleiri íslenskar bækur verið þýddar á erlend tungumál. Samtímabókmenntir okkar byggjast ekki á einum HKL með mörgum sveltandi smástirnum í kringum þann Stóra björn, heldur mörgum sjálfstæðum sólkerfum sem hvert með sínum litum og plánetum aflar lesenda heima og heiman.

Þessi stefna sem útdeiling starfslauna rithöfuna er lent í nú er leið inn á villigötuna. Aftur virðist stefnan að miðjumoð sé best. Menn þora greinilega ekki að taka ákvarðanir og fá svo brjálaða og svekkta rithöfunda í hausinn, heldur ákveða að dreifa smásporslum víða. Auðvitað er grundvöllurinn sá að það vantar fjármuni í pottinn, það er hin raunverulega ástæða. En rústum ekki góðum árangri og kerfi sem hefur sannað að það fúnkerar til þess að búa til smásporslusýstem sem mun ekki nema að takmörkuðu leyti fleyta bókmenntaskrifum áfram. Eða hvenær var meistaraverk samið á þremur mánuðum? Ritstörf eru fullt starf og bókaútgáfa á Íslandi hefur notið þess í um tvo áratugi að það virtist almennur skilningur allra að svo væri.


Læknir lækna sjálfan þig

Tveir læknar. Annar læknar hinn. Síðan ætlar hinn að lækna heila borg, heilt samfélag. Til þess verður hann að svíkja hinn lækninn. "Ger þú það sem þú þarft að gjöra." Læknirinn er einn, allir hafa yfirgefið hann, gamlir samherjar afneita honum. "Ég þekki ekki þennan mann." Innan tveggja vikna byrjum við að íhuga þessa sögu, einhver les í útvarpið eftir tíufréttir: "Upp, upp mín sál" "Þið skiljið ekki nú það sem ég gjöri, en þeir tímar koma að þið skiljið það." Við erum að fást við frásagnarminnið Jesúgervinginn. "Læknir lýða" hefur tekið á sig þann kross að bera íbúa borgarinnar út úr örvinglan, sundrung og ógæfu. Það mun brátt koma að því að hann þarf að opinbera hver sendi hann og hið sanna sem ritað var kemur í ljós.

Borg sem er stjórnað af læknum. Sem lækna hvor annan.

Minnir mann á alla læknana sem skrifuðu skáldskap. Fáar ef nokkrar stéttir eru jafn bókmenntalegar og læknar. Eitt af mínum uppáhaldsskáldum, Gottfried Benn (1886-1956), var læknir. Þjónaði á vígvöllum tveggja heimsstyrjalda. Hér er ljóð úr fyrra stríði, "O Nacht -", tekið úr bókinni "Fleisch" eða "Kjöt" sem kom út 1917 :

  •  
    • Ó, nótt, ég hafði fengið mér kókaín
    • og blóðgjöf var í fullum gangi
    • hárið gránar, árin hverfa
    • ég verð, ég verð svo ógnarhratt
    • að blómstra rétt einu sinni fyrr en fölna

 


Byggó brennur

Ég var eilíitið undrandi yfir því að fréttin um stórbruna á Sauðárkróki var um tíma mest lesna fréttin á mbl.is. Hafði íslenskur almenningur þá svona mikinn áhuga á örlögum míns gamla heimabæjar? Bruninn bendir eina ferðina enn á þá staðreynd að gríðarlegt starf er eftir við að lyfta gamla bænum á Króknum upp og gera hann að fallegu umhverfi. Í rauninni hafa aðeins þrjú eldri hús í bænum verið gerð upp af myndarskap, gamla læknishúsið, Villa Nova og Hótel Tindastóll. Á síðustu árum hefur hræðilegum tækniteiknunar kumböldum verið hent inn í útibæinn og þar með enn aukið á glundroðann sem fyrir var um leið og ýmislegt sem þó var sjarmerandi hefur verið skipulega rifið.

Útibærinn á Króknum er því miður fremur dapurlegur staður og ber fremur merki hrörnunar og hnignunar en uppgangs. Þar ægir öllu saman í óskiljanlegri bendu byggingarstíla og fjárhagsleg not fólks af húsunum virðast ekki vera nógu mikil til að hægt sé að ráðast í að taka umhverfið í gegn. Krókurinn á ekki að skipa neinum Valgeiri á Vatni, sem bjargaði beinlínis Hofsósi frá voða og lagði grunninn að því að hægt er að hugsa sér að sá staður eigi einhverja framtíð. Nú þegar gamla Byggó er brunnið, sem auðvitað er stóráfall fyrir þann góða veitingamann og stórsnilling Jón Daníel og Öldu konu hans, þá ættu góðir menn að reyna að setjast að borðinu og sjá fyrir sér hvernig sögulegur kjarni bæjarins geti orðið til að bæta enn einum steini í annars glæsilega uppbyggingu í Skagafirði. Þar hefur tekist með góðu byggðasafni á Glaumbæ, Hólum í Hjaltadal og Hofsósi að gera héraðið tiltrekkilegt fyrir gesti og búa til vinalega umgjörð fyrir fólkið í héraðinu.


Jöfnunarnefnd vanmetinna og ofmetinna

Það er skrítin lenska í bókmenntaumræðunni að geta sjaldnast nefnt lítt þekkt skáld á nafn án þess að þurfa að hnykkja svo á því í leiðinni að hann eða hún eða það séu vanmetin. Sá góði fræðimaður Matthías Viðar Sæmundsson heitinn var alltaf mikill áhugamaður um þessi vogaskálafræði. Svo mikill raunar að ákafinn í að stilla lóðunum upp á nýtt skyggði oft á helsta styrk hans sem lá í orðræðugreiningunni, Matthías sá einfaldlega stórar línur þar sem aðrir sáu bara spörð og lagða. Ég man að Þórarinn Eldjárn gerði grín að þessu í viðtali og kom með þennan gullvæga frasa, sem alltaf situr í mér, að Matthías væri sjálfskipaður formaður jöfnunarnefndar vanmetinna og ofmetinna. Mér sýnist nokkrir vilja nú taka sæti hans.

Þannig eru vogaskálavísindin nánast ergilegur blettur á einni "vanmetnustu" bók síðasta árs, Nýr penni í nýju lýðveldi eftir Hjálmar Sveinsson sem forlag hans Omdurman gaf út, frásögn af síðustu ævidögum og rithöfundaferli Elíasar Marar. Þessi bók ætti að vera kennslubók öllum skrásetjurum í tækni við að miðla ævi, starfi og lífi viðfangsefna sinna. Hún er skrifuð af innblásnum áhuga á ekki aðeins ævi eins manns, heldur brennandi áhuga á að greina aðstæður hans hverju sinni og setja þær í samhengi, sjálfstætt og án þess endilega að láta viðfangsefnið um að túlka þær. Þegar Hjálmar dregur til að mynda upp skrif Elíasar Marar um London frá 5. áratugnum upp úr glatkistunni verður til ekki aðeins ný mynd af skáldinu, heldur líka nýr sjónarhóll til að horfa á eftirstríðsárin. Ég hafði gríðarlega gaman af þessari bók, sem er persónuleg og gagnrýnin, borin uppi af sterkri sýn höfundarins á lífsverk Elíasar og kjarki hans við að fullyrða, segja frá og lýsa. Hjálmar er mjög góður penni, textinn er þéttur, safaríkur og margbreytilegur og í honum er sífellt verið að opna göng og vegi í allar áttir, rétt eins og textar samtímans hljóta að gera ef þeir eiga að læra eitthvað af "framleiðsluafstæðum síðkapítalismans", hinni miklu verksmiðju Netinu, þar sem við vinnum öll í sjálfboðavinnu við að gera Microsoft, Google, Apple og Morgunblaðið að stórveldum.

En vogaskálafræðin urðu mér þung í skauti. Að halda því fram að Elías Mar sé vanmetinn og að honum hafi verið ýtt út í skuggann er ekki í eðli sínu röng staðhæfing, hún bara leysir engan hnút. Hún staðfestir bara enn einu sinni að það er einhver "kanóna", eins og það er kallað, stórvesíraveldi menningarinnar þangað sem mönnum eins og Elíasi hafi hingað til ekki verið hleypt en nú eigi að opna fyrir þeim dyr. Jöfnunarnefnd vanmetinna og ofmetinna þyrfti þá að funda og raða kapalnum upp á nýtt og þá þyrftum við líka að fá að vita, hverjir eru það sem eru hefðarveldi 6. áratugarins? Líklegast eru það fjórir eða fimm póstar: "atómskáldin", "póst-atómskáldin", Laxness og Þórbergur og Birtingshópurinn. Sjötti áratugurinn var eitt frjóasta sköpunartímabil Þórbergs, tímabil ævisögu Árna Þórarinssonar, Sálmsins um blómið og fleiri rita. Halldór sendi frá sér þrjár stórkostlegar skáldsögur og fékk Nóbelinn. Atómskáldakynslóðin bjó til gull úr tungumálinu, ægifagra og magnaða músík sem mætti heyrast miklu oftar og meira, á þessum tíma komu út margar helstu ljóðaperlur íslenskrar bókmenntasögu og það gildir raunar jafnt um atómskáld, póst-atómskáld og Birtingshóp. Elías Mar orti ekkert sem stenst því snúning, það er nú einu sinni bara þannig. En Hjálmar staðsetur snilld hans á hárréttum stað: Hann veitti lífsviðhorfum og tungumáli þéttbýlisins farveg, lagskiptum veruleika þar sem fátæklingar, gagnsterar, vandræðabörn, drykkjufólk, hermenn og eiturlyfjaneytendur fengu mál. En það gerir Elías Mar ekki "vanmetinn". Samhengið til að túlka hann þannig hefur einfaldlega ekki verið til. Hver átti að meta hann öðru vísi? Því ef maður les Sóleyjar sögu út frá hugmyndum t.d. um fagurfræðileg átök við skáldsagnaformið, margröddun, margræðni eða bara út frá klassískari hugmyndum um formfestu, þá er þetta misheppnað listaverk. Bókin er brokkgeng, ómarkviss, full af prédikanakenndri hugmyndafræði, íhaldssamri þjóðernishyggju sem síðan passar ekki við aðra parta bókarinnar. Þetta er fullkomlega tvíátta verk og þurfti engin kaldastríðsvísindi til að átta sig á því. En með alternatíva bókmenntasögu að vopni sem hefði félagsleg málvísindi að kjölfestu sem og félagslega og hugmyndalega greiningu liti málið öðru vísi út. Hjálmar hefur lagt sitt af mörkum til þess með þessari bók.

Annar jöfunarmaður er Egill Helgason sem þráspurði í Kiljunni hvort Vilhjálmur frá Skáholti væri ekki áreiðanlega vanmetinn. Flestir voru á því. Hann var nokkuð brattur við vogaskálina. Henti stórum lóðum á hana svo Vilhjálmur var skyndilega sagður vera eitt helsta skáld Íslendinga á 20. öld! Hendingin, Fyrst þeir krossfestu þig Kristur, hvað gera þeir þá við ræfla eins og mig? var sögð ein magnaðasta hending bókmenntasögunnar, perla í kórónu bókmenntasögu síðustu aldar. Ég verð að viðurkenna að þetta stóð í mér.

Á námsárunum í HÍ las ég skáldskap Vilhjálms út af verkefni sem okkur var ætlað að gera um "borgarskáld", sem er eitt af þessum úldnu viðfangsefnum sem manni er þvælt í gegnum í náminu. Seinna fór ég í gegnum verk hans þegar ég vann í því mikla rottu- og hamsturshjóli, Orð í tíma töluð, snallyrðasafni Tryggva Gíslasonar, sem Mál og menning lét ganga út á þrykk árið 1999. Þá gat ég vigtað hann í samanburði við hina, Einar, Davíð, Tómas, Þorstein Erlingsson, já, jafnvel Höllu Eyjólfsdóttur og Jón Magnússon (hvort tveggja mjög "vanmetin skáld"), sem og náttúrlega eftirstríðsáraskáldin, og fannst hann satt best að segja fullkomið miðlungsskáld, ef ekki þaðan af verra. Klisjur, sjálfvirkar hugsanir og fremur grunn og almenn hugmyndafræði haganlega rímuð. Hvað heita þannig menn, jú hagyrðingar er það ekki. Vilhjálmur frá Skáholti var góður hagyrðingur, maður á borð við Sigga í Krossanesi sem talinn var mestur höfuðsnillinga í mínu ungdæmi norður í Skagafirði og á örugglega jafn margar snilldarhendingar og Vilhjálmur. Egill gat greinilega ekki bakkað þetta upp með alvöru spekingum, vegna þess einfaldlega að það myndi enginn alvöru fræðimaður nenna að skrifa grein um skáldskap þar sem svo lítið er að finna. Systkinin Kristjónsson voru því fengin til að vitna sem og starfsmaður verslunarinnar Kristjónson og Co., Valdimar Tómasson. Jóhanna af þeirri augljósu ástæðu að hún býr í Skáholti og Bragi vegna þess að hann er jú hvort eð er alltaf í þættinum og getur sagt svo skemmtilega frá gömlu Reykjavík. Þetta var allt á kjaftasögustiginu, var Vilhjálmur launsonur Einars Ben. var aðalmálið! En það er svo sem rétt og kom vel fram að margir hafa tónsett kvæði hans. Það er vegna þess að þau eru rímuð og stuðluð og henta vel til söngs, eru alþýðleg og kátleg og fara vel í munni. En þetta er ekki seriös ljóðlist.

Mér fannst Egill opinbera vel í þessum þætti að bókmenntaskilningur hans er "borgaralegur" eins og það var kallað áður en við urðum öll að misvelstæðri miðstétt. Ég sé hann til að mynda ekki fjalla um lifandi stórskáld eins og Þorstein frá Hamri eða Hannes Pétursson, Kristínu Ómarsdóttur, Steinar Braga og Steinunni Sig. með þessum hætti. Honum finnst gaman af því að fjalla um skrítimenni og kynlega kvisti, en hefur ekki áhuga á bókmenntagildi ljóða. Það sést líka á því við hverja hann talar þegar ljóð ber á góma. Hann talar fremur sjaldan við fólk sem hefur lengið í ljóðum og reynt að greina þau. Hugmyndir hans um skáldskap komu líka berlega í ljós í sumar þegar hann hneykslaði ungu ljóðskáldin með því að lýsa frati á samtímaljóðlist almennt. Þar var "frændi hans" Jón Helgason efstur á blaði yfir alvöru átórítet og kannski er það nú þannig að maður sem dó árið 1986, gaf út síðustu ljóðabók sína 1976 og hafði mestan áhuga á bókmenntum fyrri alda sé í raun helsta heimild okkar um samtímaljóðlist. Yfir því þarf maður ekki að æsa sig, þannig er þetta bara. Kostir Kiljunnar eru ótvíræðir, ekki síst þeir að hann nær til stærri hóps en þess sem alla jafna myndi fylgjast með svona prógrammi.

Eftir slædmyndasjó Hannesar Hólmsteins, sem hefði í raun átt að heita "Davíð og ég", sat hins vegar sú spurning hvort Davíð Oddsson sé vanmetinn eða ofmetinn?

 


Norrænar bókmenntir í leit að heimsyfirráðum

 Á vikulegri ferð um metsölulista hins siðmenntaða heims sér maður sífellt sömu nöfnin, raunar hafa sumir höfundar verið svo lengi á metsölulistum að þeir hljóta að vera fyrir löngu dauðir þótt hvorki þeir né lesendur þeirra viti það.

Ég veit ekki hve margir íslenskir lesendur, og þá sérstaklega krimmalesendur, þekkja nafn Andrea Camillieri, en hann er einn af örfáum krimmahöfundum sem ég hef nennt að lesa mér til ánægju um ævina. Hann sló í gegn á Ítalíu háaldraður maður og síðast þegar ég vissi var hann dauður, en hann er stöðugt á listum á Ítalíu svo handritaskúffan virðist ansi djúp. Hann er til að mynda núna á toppi ítalska bóksölulistans, þ.e. þess sem upplýsingastofa bókaútgáfunnar á Appennínaskaganum, Informazioni Editoriali, tekur saman, með bókina Maruzza Musumeci, og enn er það hin pena Sellerio útgáfa í Palermo sem gefur bækurnar hans út. Bókaútgáfan sú prentar bækur bara á kremaðan eðalpappír og þær eru alltar í sömu litlu quadratstærðinni, ætli það væri ekki sagt að þær séu í 8vo broti með grallarasniði. Mjög handhægar og lesvænar bækur og dæmigerðar fyrir ítalska bókamarkaðinn þar sem útgáfur á borð við Sellerio og Adelphi eða norrænubókaútgáfuna Hyperborea gefa allar bækur sínar út í sama skrítna brotinu með sömu litlausu og ljótu kápunum. Á þessum lista er líka nafn eins leiðinlegasta rithöfundar allra tíma, Stefano Bennis, sem Ítalir virðast geta lesið út í hið óendanlega, en sem ég held ekki að nokkur annar nenni að glugga í. Mjög sérítalskur höfundur sem pínir mann með aulahúmor um sjálfsögð sannindi út í eitt.

En það vekur athygli, og kannski öfund, að Svíar koma sterkir inn á alþjóðlegu bókamarkðassenuna. Sænskir höfundar eru nú á topp 10 í Frakklandi, Spáni og Þýskalandi. Í Þýskalandi er það gamli góði Mankell með sögu sem kallast Ítalskir skór, Italienische Schuhe, í Frakklandi er það Stieg Larsson, sem er hvorki meira né minna en með tvær bækur inni á topp 10, eða tvær fyrstu bækurnar í þúsaldarflokkinum sem hann svo dó frá, og síðan Camilla Läckberg með Ísprinsessuna á topplista Spánverja, sem er eins og venjulega mjög lókal.

Stieg Larsson er langvinsælasti höfundur Svía heimafyrir. Bæði seljast bækurnar hans áfram einsog heitar lummur og hann er sá höfundur sem er mest lánaður út á bókasöfnum þar í landi. Larsson er einnig toppsöluhöfundur í Danmörku og Noregi. Nú mun loksins vera von á bókunum hans á íslensku á þessu ári, Bjartur gefur út.

Það var norskur höfundur, Per Petterson, sem náði því einn þýddra rithöfunda að komast á lista Time Magazine yfir bestu bækur ársins 2007 í Bandaríkjunum. Sagan Úti að stela hestum fékk glimrandi dóma vestra og var höfuðefni bókablaðs sunnudagsútgáfu NYT eina vikuna.

Við eigum að stefna að því fyrir hönd bókmennta okkar að ná samskonar árangri. Að skrifa fyrir heiminn.


Að lesa sig til ríkidæmis

Besta ráðið til að bæta lesskilning er að lesa. Lausnin eru ekki flóknari en svo. Sá sem vill ná árangri í einhverju æfir sig. Lesskilningur er grundvöllur þess að börn og unglingar nái árangri í námi á skólaskylduárum og í framhaldsskóla. En ekki síður grundvöllur þess að sú hægt sé að stunda þá símenntun og þekkingaröflun ævina á enda sem nútímaþjóðfélagið krefst. Grunnur að námsárangri er lestur. Rannsóknir staðfesta þetta æ ofan í æ. Þetta hafa verið líka staðföst skilaboð bókaútgefenda, rithöfunda og samtaka um eflingu bókmenningar og menntunar barna í áranna rás. Þegar rætt er um árangur í PISA og  PIRLS könnunum er niðurstaðan því í raun þessi: Börnin okkar þurfa lesa meira og lesefni þeirra þarf að vera sem fjölbreyttast. Ekki bara lesmálið í skólastofunum. Allur lestur sem krefst einbeitingar og skilnings er gagnlegur.

Fleira hangir á spýtunni. Í rannsókn sem kanadíska hagstofan gerði á sambandi læsis og hagvaxtar fyrir fáeinum árum kom í ljós að læsi fullorðinna og ungs fólks á framhaldsskólaaldri er mælikvarði á getu samfélaga til að standa undir góðum lífskjörum. Betri lesskilningur þýðir bættur hagvöxtur.

Lestur er því ekkert smámál. Fyrirtæki, fjárfestar, hagsmunasamtök og menntastofnanir þrýsta stöðugt á um að hér sé viðhaldið þjóðfélagi í fremstu röð á alþjóðavísu. Þar er að baki eðlileg kappgirni. Aðstæðurnar sem urðu til þess að íslensku efnahagslífi tókst að brjótast út úr sínum gamla stakki eru margbrotnar, en án efa skiptu menntun og þekking þar miklu. Nú spyrja sig margir hvað sé næst. Þá er horft til grunnþáttanna: menntunar, þekkingar og rannsókna. Og við sem berum hag bókmenningar fyrir brjósti minnum þá á sjálfsögð sannindi eina ferðina enn: Lestur er grunnur að glæstri framtíð. Lesum með börunum okkar hvern dag og lesum sjálf.

Þekking heimsins er að mestu bundin í lesmál. Aðeins mannshugurinn getur drepið bókstafina úr dróma og fengið þá til að bæta okkar hag.

(Birtist í Fréttablaðinu 7. janúar 2008)


Tsjekov

Anton Tsjekov var berklaveikur og lést úr tæringu í "Kurort"-inum, Badenweiler í Baden í Svartaskógi 15. júlí 1904. Þar sem Ívanov sat áfram í hausnum á mér og þar sem tilviljunin hagaði því þannig að í góðviðrinu á laugardag mætti ég mörgum þeim á göngu um miðbæinn sem ég hafði hitt á leiksýningunni á föstudagskvöldið, greip ég hina fallegu útgáfu Menningarsjóðs á sögu Tsjekovs í þýðingu Geirs Kristjánssonar, Maður í hlustri og fleiri sögur.

Í stuttum eftirmála um höfundinn þýðir Geir brot úr ummælum Gorkís um dauða Tsjekovs sem ég veit raunar ekki úr hvaða verki er. Ég hafði ekki lesið þetta áður og fannst þetta svolítið skemmtileg saga og gaman að sjá þetta gamla orðfæri sósíalískra höfunda, sem nú er nánast útdautt, vart nema tveir þrír menn hérlendis lengur sem nota orð eins og "smáborgarar", "borgarastétt" eða "auðmagnssinnar" og "verslunarvald".

Dauði Tsjekovs er þjóðsaga sem maður hefur heyrt mörgum sinnum og sem Raymond Carver gerði góð skil í einni af sínum bestu sögum, Errand, sem er þakklætisvottur frá lærisveini til meistara síns. Olga, eiginkona Tsjekovs, var á dánarbeði skáldsins og frá henni er komin sú saga að Tsjekov hafi kallað Ich sterbe, þótt hann annars hafi verið með öllu fákunnandi í þýskri tungu, og síðan pantað kampavínsglas, drukkið það og dáið með það sama. Öllum þessum smáatriðum er gefinn sérstakur gaumur í sögu Carvers.

En til gamans er hér frásögn af endalokum Tsjekovs eftir Maxím Gorkí í þýðingu Geirs Kristjánssonar:

Enginn skildi harmleik smámunanna í lífinu jafn glöggt og vel og Tsjekhov, enginn hafði áður sýnt mönnum af jafn miklu miskunnarleysi hina hræðilegu og svívirðilegu mynd borgaralegrar hversdagstilveru.

Erkióvinur hans var hversdagsleikinn; hann barðist gegn honum ævilangt, hæddist að honum, dró hann sundur og saman með kaldbeittum penna sínum og fann af honum mygluþefinn jafnvel þar sem allt virtist við fyrstu sýn í stakasta lagi, vel til hagað og jafnvel ágætlega - og hversdagsleikinn hefndi sín á honum með ljótum hrekk, því hann sá svo um, að lík hans, lík skálds, yrði flutt til heimalandsins í járnbrautarvagni sem merktur var "Ostrur".

 


Ívanov

Mikið hæp búið að vera kringum Ívanov og dómarnir svona la, la þannig að maður fór fullur af gagnrýnisanda á sýninguna. Raunar var Baltasar í svo miklu sviðsljósi í kynningunni að það virtist eiginlega vera fullkomið aukaatriði að Tsjekov hefði skrifað verkið. Ég verð líka að segja að lýsingar aðstandenda á aðlögunarferlinu voru þess eðlis að upprunalega verkið væri lítið annað en stikla til að standa á, en þannig er nú einu sinni nútímaleikhús og fáránlegur púrismi að vera sífellt að kalla eftir "textanum". Raunar er þetta "textaleikhús" oftast drepleiðinlegt.

Sýningin kom mér á óvart. Var miklu betri en ég ímyndaði mér. Stórskemmtileg raunar þótt dramatísk framvinda hennar sé í raun engin. Ívanov er staddur í "melankólísku ástandi". Hann kemst hvorki fram né aftur því hann er þunglyndur. Í stað samtalsmeðferðar og lyfja drekkur hann, sem eykur aðeins á kvíðaröskunina. Þetta er gott leikrit fyrir þá þjóð sem borðar mest af geðlyfjum í heimi. Hún getur speglað sig í rússneskum meðferðarúrræðum frá 19. öld. Sannast sagna ekki mjög áreiðanleg, en eru efni í leikrit.


Bókaannáll 2007

Íslenski bókabransinn horfir á bak um margt merkilegu ári í sinni 467 ára sögu, en fyrsta sannarlega prentaða bókin á íslensku, Nýja testamentið, var sett á markað sumarið 1540 af útgefanda sínum og þýðanda, Oddi Gottskálkssyni.

Ég lék mér að því í hefðbundinni nýársgöngu minni á fjall í nágrenni Reykjavíkur - þar sem sú margtroðna slóð Þverfellshorn Esju varð fyrir valinu (og ekki sá ég rollurnar frá því um daginn, er einhver búinn að sækja þær?) - að tína til í huganum það sem í raun og veru skipti máli í bókaútgáfunni á árinu og það sem mun hafa áhrif til framtíðar.

Að mínu vitu eru þetta stóru póstarnir:

  • Nýja Biblíuþýðingin
  • Lækkun virðisaukaskatts á bækur
  • Sameiningar bókaforlaga (MM og JPV, Bjartur og Veröld)
  • Stofnun Bókmenntasjóðs
  • Afnám einkaleyfis ríkisins á sölu námsgagna fyrir grunnskólanemendur
  • Góð jólavertíð, metfjöldi í Bókatíðindum og nýir bókakaupendur
  • Negrastrákafárið

1. Biblían

Engum blöðum er um það að fletta að útgáfutíðindi ársins var útkoma nýrrar Biblíuþýðingar. Drög nokkurra kafla höfðu birst áður og raunar var þegar byrjað að gagnrýna þýðinguna fyrir fáeinum árum síðan, Jón Axel Harðarson málfræðingur ritað til að mynda grein strax árið 2005 þar sem hann tíndi til nánast öll deiluefnin sem brunnu á mönnum í haust. Einkum voru það áhrif líffræðilegs kyns á málfræðilegt kyn sem honum þótti of glannaleg nýbreitni sem og þýðingar "lykilhugtaka" á borð við það sem hét í eldri Biblíuþýðingunni "kynvillingur". Þetta var stuttlega rifjað upp í innlenda fréttaannál RÚV á gamlárskvöld. Innslag frá Gunnari í Krossinum talaði sínu máli. Við þessu mátti búast og viðhorf samtímans hlutu að hafa áhrif á endanlegan frágang textans og maður vissi líka fyrirfram að hljóð myndi heyrast úr smásafnaðahorninu.

Nýja útgáfan er mun fallegri en fyrri útgáfur. Hún er lesvæn, aðgengileg og vel hönnuð og einstaklega fallega prentuð. Biblíuþýðendur ráða nú yfir meiri og dýpri þekkingu á aðstæðum og samfélagi þeirra sem rituðu þessa texta, þeirra sem söfnuðu þeim saman í eitt bindi og sem mótuðu viðhorfin að baki textunum. Þessa sér stað í þýðingunni og hugsunin er að jafnvel þótt viss hátíðleiki máist út sé nákvæmnin meiri. Sumir bentu þá að ekki væri mikil nákvæmni fólgin í að þýða ávarpsorðið "bræður" sem "systkini", en aftur og enn var eins og fæstir hefðu sett sig mikið inn í sögulega túlkunarfræði eða þýðingarfræði almennt. Færslan úr einu menningarsvæði yfir í annað virtist fyrst og fremst spurning um að fletta upp í orðabók. Einhvers konar endanleiki þekkingarinnar var hafður að forsendu fyrir öllum umræðum. Kannski er Biblíufélagið eða þýðendahópurinn með einhver námskeið en mér finnst miklu meira hafa heyrst í gagnrýnendum um þessi atriði. Væri ekki hægt að vera t.d. með sjónvarpsþætti þar sem söguleg vitneskja okkar þó ekki væri annað en um Jesú væri á borð borin? Bara að segja frá því að Jesú átti stóra fjölskyldu, bræður og systur, myndi koma fullt af fólki nokkuð á óvart.

En þegar umræðan um kynvillinga og ávörp á borð við "systkini" og fleira úr Kvennakirkjuranni var meira og minna afstaðin hófst önnur umræða sem snerist minnst um guðfræði en fremur um stíl. Þýðendahópurinn þótti draga niður hátíðleika málsins, fletja það út og slíta úr samhengi biblíumálsins eins og það hefur þróast allt frá Hómelíubókinni og Stjórnarþýðingunni á miðöldum til síðustu Biblíuútgáfunnar 1981. Ég man eftir að hafa heyrt menn kasta þeirri hugmynd á loft fyrir áratug að gefa út eldri þýðingar, til að mynda Viðeyjarbiblíuna frá 1841, til mótvægis við þessa "vatnsþynntu þýðingu" sem Biblíufélagið væri að boða. Þessi rödd heyrðist raunar ekki hátt og skýrt fyrr en um miðjan nóvember þegar ég eiginlega fyrir tilviljun rak augun í dálk Jóns G. Friðjónssonar í Morgunblaðinu um íslenskt mál. Þar kvað hann svo sterkt að orði að þýðingin væri vart boðleg. En meira var handan við hornið ...

Tveimur dögum síðar var haldin ráðstefna um þýðinguna í Skálholti. Þar stilltu þeir sér upp sem áður höfðu gagnrýnt þýðinguna, t.d. Jón Axel Harðarson og Guðrún Þórhallsdóttir, sem helst hefur haft sig frammi af þeim sem gagnrýna líffræðilega umritun málfræðilegs kyns í íslensku, auk náttúrlega Jóns G. og samkvæmt fregnum blaða stóð vart steinn yfir steini þegar þau höfðu lokið sér af. Þrátt fyrir að ýmislegt félli Jóni G. Friðjónssyni í geð, var hann samt á því að framsetningin væri svo slöpp að betra hefði verið að sleppa útgáfunni. Frásögn Morgunblaðsins af þessari ráðstefnu beindi sjónum að tvennu: Í fyrsta lagi átti einn af forkólfum þýðingarinnar, Guðrún Kvaran, þau svör ein við gagnrýninni að þýðendurnir hafi orðið að gera eins og erindisbréf þeirra sagði, sem hafi skorið þeim of þröngan stakk og að sér dytti ekki hug annað en þeir fjölmörgu sem unnu að þýðingunni hefðu unnið gott starf. Í öðru lagi fannst manni nánast óskiljanlegt að þetta risaverkefni sem svo margir unnu við og kostaði svo mikið skyldi ekki hafa verið látið í hendur manns eins og t.d. Jóns G., bara til yfirlestrar. Eða las hann þetta yfir og henti þessu svo í þýðendateimið með lunta? Guðmundur Andri Thorsson ritaði nú í desember pistil í Fréttablaðið þar sem hann lýsti einmitt furðu sinni yfir að starfandi rithöfundar skyldu ekki hafa verið látnir fara höndum um textann. Bara svona til að tryggja að hann væri stíllega boðlegur sem íslenska (en ýmis dæmi sem Jón G. tekur eru svo óíslenskuleg að furðu vekur). Maður undrar sig aðeins á þessu, en auðvitað þekki ég ekki alla málavexti.

Í nýársdagspredikun sinni ræddi svo biskup, Karl Sigurbjörnsson, um Biblíuþýðinguna og lauk lofsorði á þá sem þýddu og sagði Biblíuna þola rannsókn og gagnrýni. Þýðir það þá að við sjáum brátt endurskoðaða Biblíuþýðingu?

2. Lækkun á Vsk

Virðisaukaskattur á bækur og fjölmiðla var ekki tekinn upp þegar söluskattinum var breytt í virðisaukaskatt árið 1990 af menningarlegum ástæðum. Það lágu hins vegar engar menningarlegar ástæður að baki þegar 14% skattur var lagður á bækur og tímarit árið 1993 af hinni kátu Viðeyjarstjórn, heldur vildu þeir sem nú eru sífellt mærðir fyrir að hafa "bjargað hagkerfinu" og "opnað það" fækka skattgötum svokölluðum. Slík viðhorf eru nú úrelt hjá öllum stjórnmálflokkum nema Vinstri-grænum sem aldrei vildu lækka né afnema virðisaukaskatt á bækur af þeim ástæðum. Það voru heldur ekki menningarleg rök sem stýrðu lækkun virðisaukaskatts á bækur úr 14% niður í 7% þann 1. mars 2007, heldur var 14% þrepið einfaldlega lagt niður. Merkilegri en lækkunin á bókaskattinum var í raun lækkunin á geisladiskaskattinum úr 24,5% niður í 7% því það þýðir að sama skattprósenta er á hljóðbókum og prentuðum bókum, nokkuð sem er mikið bitbein í nágrannalöndum okkar. Þótt að gamla slagorðið "Don't tax reading" sem breskir bókaútgefendur hafa jafnan notað þegar koma á skatti á bækur á Bretlandseyjum (en þar er enginn vaskur á bókum) fái ekki mikinn hljómgrunn hér sem fyrr er 7% skattur ásættanlegur í evrópskum samanburði og öfundarefni t.d. Dana, sem enn burðast með fullan 25% skatt á sínum bókum.

3. Sameiningar

Það hafði legið fyrir nokkra hríð að Edda-útgáfa hf. yrði ekki langlíft fyrirtæki í þeirri mynd sem það var rekið frá árinu 2002 til 2007, með Björgólf Guðmundsson og tengda aðila sem kjölfestu og Útgáfufélagið Mál og menningu sem minnihlutaeiganda. Björgólfur vildi bakka út úr félaginu og MM taka á sig stærri skuldbindingar. Vendingar sumarsins og haustsins 2007 voru hins vegar nokkuð óvæntar þótt síðar kæmi í ljós að þessi atburðarás hafði gerjast lengur og verið betur hönnuð en menn héldu þegar tilkynnt var um samruna "útgáfuhluta Eddu-útgáfu" og JPV útgáfu í lok ágúst.

Í sjö vertíðir, frá 2000 til 2006, höfðu JPV og Edda verið höfuðkeppinautar á íslenskum bókamarkaði. Edda bólgnaði út á sínu fyrsta starfsári en minnkaði síðan nánast stöðugt uns hægt var að pakka bókaútgáfuhluta hennar snyrtilega saman í höfuðstöðvum JPV á Bræðraborgarstíg í desember 2007. Það voru mikil umskipti frá því fyrirtækið leigði 7 hæða hús við Suðurlandsbraut og var með starfsemi á einum 5 þeirra (þá var talað um að gott væri að hafa eina hæð til að hlaupa uppá þegar fyrirtækið stækkaði) og mörg hundruð starfsmenn haustið 2001. Þótt það sé ekki nógu kunnugt almenningi starfar Edda-útgáfa hf. enn og er blómlegra fyrirtæki en nokkru sinni fyrr að kunnugra sögn, skuldlaust að kalla með góðan traustan rekstur sem felst í traustum áskrifendahópi ýmissa bóka- og blaðaklúbba. Það er alfarið í eigu félags í eigu Björgólfs Guðmundssonar, en hver framtíðin verður, fæst ekki upp gefið. Miklar sögusagnir voru uppi um að Morgunblaðið eða jafnvel Birtíngur myndu vilja eignast það, en þær hafa dáið aftur.

Sameiningu JPV og MM (eða "útgáfuhluta Eddu") undir nafni Forlagsins hefur verið vel tekið í bókabransanum, ekki hef ég heyrt í neinum sem er henni virkilega andsnúinn, og virðist hafa heppnast betur en nokkur þorði að vona. Verkefnin eru auðvitað risavaxin og auðvitað er sameiningin "innlimum" Eddu í JPV, en góð jólavertíð 2007 og ákveðni þeirra sem áfram héldu í að láta hlutina virka virðist hafa skilað sér.

Hin sameiningin var sameining Bjarts og Veraldar, tveggja eðlisólíkra forlaga, sem hvort um sig eru mjög mótuð af persónuleika útgáfustjóranna Snæbjörns Arngrímssonar og Péturs Más Ólafssonar. B/V er nú næst stærsta forlag landsins og fór ákaflega vel út úr jólavertíðinni 2007, líkt og raunar Forlagið líka. Það má gera því skóna að sameinuð muni forlögin brjótast út úr fyrri skapalónum og miða að því að vera alvöru valkostur við risann hinum megin við þilið á Bræðraborgarstígnum.

4. Bókmenntasjóður

Ný lög um sjóðakerfi bókaútgáfunnar voru samþykkt á síðustu þingdögum fyrir kosningar í mars 2007. Þar með er loksins kominn vísir að því að hægt sé að beina fé hins opinbera sem renna á til bókaútgáfu í einn skynsamlegan farveg þar sem stefnumótun hefur farið fram um hvernig beri að deila út þessum fjármunum og hvað beri að styrkja. Stjórn Bókmenntasjóðs hefur ráðið framkvæmdastjóra, Njörð Sigurjónsson, sem brátt lýkur doktorsprófi í menningarstjórnun í London og hefur kennt menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Miklar vonir eru bundnar við að hann láti til sín taka á vettvangi kynningarmála erlendis og skapi bókmenntunum öflugri sess sem einni af burðarstoðum ímyndar Íslands á alþjóðavettvangi. Þar er allt til reiðu en hefur skort á að láta kné fylgja kviði.

5. Grunnskólamarkaðurinn opnast

Það er í raun skandall að á sama tíma og það hefur í raun verið letrað á skjöld Sjálfstæðisflokksins að stuðla að markvissri tilfærslu á rekstrarþáttum ríkis til einkaaðila hefur markaður fyrir námsgögn á skólaskyldualdri verið tæknilega lokaður og samkeppni þar lítil sem engin. Frá því á fjórða áratug 20. aldar hefur Ríkisútgáfa námsbóka, seinna Námsgagnastofnun, haft þessa útgáfu með höndum. Á sama tíma hefur útgáfa á námsefni utan skólaskyldunnar verið alfarið á höndum einkarekinna útgáfufyrirtækja og hafa nú á síðustu árum Edda og Iðnú verið þar atkvæðamest. Lög um nýjan námsgagnasjóð sem einnig endurskoða hlutverk Námsgagnastofnunar og þróunarsjóðs námsgagna voru samþykkt á vorþingi 2007.

Þótt þau kvæðu á um að þegar í haust ætti að úthluta 120 milljónum til kaupa á námsefni sem skólarnir gátu valið sjálfir stóð stöðugt á reglugerð um málið og þegar hún loks kom í nóvember og fjármununum var úthlutað heyrðu fæstir í útáfunni af því. Í raun breytist fátt í fyrstu. Einnig er mjög óljóst hvort útgáfufyrirtæki eiga að þróa námsbækur nú vegna þess að breytingar á lögum um öll skólastigin frá 2 ára til tvítugs standa fyrir dyrum. En glufan hefur verið opnuð. Þessi meginmarkaður bókaútgáfunnar í nágrannalöndum okkar, þ.e. einkarekinna útgáfufyrirtækja, er loksins að opnast. Nú ríður á að nýta tækifærin þótt augljóslega sé menntakerfið enn ekki einu sinni sjálft búið að átta sig á aðstæðum.

6. Metfjöldi titla í Bókatíðindum og góð jólavertíð

Það er sífellt gefið meira út fyrir samkeppnismarkaðinn. Það voru 800 titlar í Bókatíðindum í ár og hafa aldrei verið fleiri. Það þróast nú líka ný tegund sjálfsútgáfu þar sem ævisögur, fræðibækur og handbækur eru gefnar út á kostnað einstaklinga. Ekki veit ég hvort þetta efni selst mikið og stundum er það beinlínis undurfurðulegt auk þess sem erfitt er að nálgast það nema kannski í tveimur bókabúðum, en þótt þetta sé ósköp krúttlegt er þetta ekki allt mjög faglegt frá sjónarhóli alvöru bókaútgáfu. "Vanity publishing" yrði sumt af þessu efni kallað í útlöndum.

Jólavertíðin var góð. Um það ber öllum saman. Bækurnar fengu sinn skerf af almennri aukningu í verslun. Mikið úrval hjálpaði til að gera bækurnar sýnilegar og höfðaði til neytenda. Mikið kapp var lagt í markaðssetningu bóka í ár, það komst enginn í gegnum meðalauglýsingatíma í sjónvarpi nema sjá bókaauglýsingu. Þriggja ára sonur minn segir enn "Skrudda" með miklum þjósti við og við þótt hann sé hættur að segja "Englar dauðans" með dramatískri rödd eins og hann gerði fyrir jólin. En svo styrkist enn og aftur hinn nýi "aðventumarkaður", þar sem fólk kaupir einfaldlega bækur fyrir sjálft sig til að lesa og hendir þá kannski annarri sem það ætlaði kannski ekkert endilega að lesa en hafði heyrt að væri áhugaverð með. Helber gjafamarkaðurinn skýrir ekki alfarið þann gang sem er í bóksölunni. Kiljusala á nýjum þýðingum á vorin og sumrin er annað teikn um breytt neyslumynstur. Ef tekst að fá aðventulesendurna til að bæta við sig aukatitli af nýrri bók í kringum páska eða Viku bókarinnar væri orðinn til nýr bókamarkaður, nokkuð sem bæði útgefendur, fjölmiðla og aðra dreymir um.

7. Negrastrákafárið

Þegar bók fær sérstakt skets um sig í Áramótaskaupi er hún búin að meika það. Það tókst engum nema Tíu litlum negrastrákum og "Ruddu"-útgáfunni. Raunar var það eitt fyndnasta atriði hins annars arfaslappa skaups, þegar drengurinn hrópaði Sieg Heil lak ég niður af hlátri. Afleiður fársins á borð við Tíu litlir kenjakrakkar þeirra Eldjárnssystkina Sigrúnar (fálkaorðuhafa) og Þórarins sýndu að menn voru til í að sjá kómískar hliðar á því. Á tímabili rauk bókin út en svo hljóðnaði um hana þegar nær dró jólum. Umræðan opinberaði ákveðið naívitet andspænis arfleið okkar. Við erum fyrir löngu búin að átta okkur á að fortíðin er ekki bara ein sigurganga, Breiðavíkurdrengir, Íslensku nasistarnir, hlerunarfólkið, innra eftirlitið, barnaníðingarnir osfrv. hafa fært okkur heim sanninn um að fortíðin er vettvangur sársauka og jafnvel skelfingar. Nú er kominn tími til að beina sjónum að kynþáttahyggju og afstöðu stjórnvalda og almennings til útlendinga og sjá þetta í sögulegu ljósi.

En að það þurfi að banna fólki að gefa út bækur á borð við Tíu litla negrastráka ... hver á að úrskurða um það að svona bók sér hættuleg. Sérstök eftirlitsnefnd hins opinbera eða refsiglaðir bloggarar? Því gat enginn svarað. Hámarki náði dellan þegar spurt var: "Hver er munurinn á að brenna bók og gefa hana út?" Enda dó umræðan þar með. Hins vegar væri vert að háskólastofnanir hérlendis héldu henni áfram á hærra plani. Gagnkvæmt tjáningarfrelsi virðist ekki vera almennt viðurkennt á Íslandi. Ef skoðanir sem koma fram í bókum eða í fjölmiðlum stuða okkur erum við til í að banna þeim sem þær hafa að birta þær. Ef marka má marga sem tóku þátt í "negrastrákaumræðunni" voru þeir alveg öruggir á því að lög í þá veru væru nú þegar til. Ýmiss konar "hate speech" lög eru til í nágrannalöndum okkar, oft sett eftir langvinnar umræður um tjáningarfrelsið, en þörf væri á að fleiri og betri rök væru til á vopnahillunni næst þegar svona mál koma upp. Þá væri þetta skrítna fár þó í það minnsta til einhvers.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband