Barnabókaárið mikla

Bókatíðindin eru komin úr prentun. Þau eru 288 síður, í raun eins og bók. Þau eru þykkari en IKEA bæklingurinn. Í þeim eru tæpir 800 titlar skráðir, fleiri en nokkru sinni. Það voru 677 titlar í Bókatíðindum árið 2006. Í ár eru þeir 797. Hvar má sjá þessarar miklu aukningar stað?

Í barnabókum ekki hvað síst.

Þetta er barnabókaárið mikla. Úrval bæði frumsaminna og þýddra barnabóka er gríðarlegt og nú koma inn á markaðinn bókaflokkar sem fyrst og fremst er beint að drengjum, en lengi var um það kvartað að slíkt vantaði. Fyrir vikið verður samkeppnin í ákveðnum efnisflokkum nokkuð hörð: Mál og menning sendir því frá sér Risaeðlubók en það gerir Skjaldborg líka, sömuleiðis Sögur sem senda frá sér bókina Risaeðlurannsóknir og einnig Æskan sem er með "uppsprettibók" sem heitir Risaeðlur, varúð! Sum sé: 4 risaeðlubækur að velja úr. Í sjóræningageiranum logar allt: Bjartur sendir frá sér Sjóræningjafræði, Steinegg sendir frá sér Leyndardómar sjóræningjakafteins og JPV útgáfa er með bókina Sjóræningjar. Allar þessar bækur höfða til fleira en lestraránægjunnar einnar, eru með fylgihlutum og glóa og lýsa og snúast og góla. En einnig er að finna bækurnar Sjóræningjar Karíbahafsins og Sjóræningjar Karíbahafsins - þrautabók, sem eru Disney útfærslur á sjóræningjamyndum Jerry Bruckheimers og Edda útgáfa (þe. klúbbahlutinn), gefur út. En einnig má nefna bókina Sjóræningjar skipta ekki um bleiur sem JPV útgáfa gefur út og skoðar sjóræningjaheiminn frá skondnu sjónarhorni. Þá er ógetið límmiðabókar Unga ástin mín sem heitir: Límmiðafjör: Sjóræningjar.

Árið 1994, sem var eitt slappasta útgáfuár síðustu tveggja áratuga, komu út 35 frumsamdar íslenskar barnabækur og 43 þýddar. Í ár koma út 77 frumsamdar barnabækur og 182 þýddar. Árið 2006 komu út 51 frumsamin bók og 155 þýddar. Það ber að skoðast að þessar tölur eru skv. talningu úr Bókatíðindum sem þýðir að þetta eru bækurnar sem útgefendur ætla inn á samkeppnismarkað. En samkvæmt þessu er aukning í útgáfu barnabóka ein og sér nærri helmingur af aukningunni milli áranna 2006 og 2007.

Árið 2007 er með öðrum orðum barnabókaárið mikla.

Já, og fyrir 10 árum, árið 1997, voru 392 titlar í Bókatíðindum. Það eru með öðrum orðum helmingi fleiri bækur í Bókatíðindum í ár en fyrir áratug.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband