Fréttastofa RÚV ruglar og bullar

Frétt sem RÚV sýndi í kvöld um bókaverð var sett fram til að koma höggi á bækur og bóksölu. Það er ekki hægt að skilja hana öðruvísi. Í landi með nærri 9% verðbólgu og með gjaldmiðil sem hefur fallið um tugi prósenta gagnvart evru á síðustu 14 mánuðum var því lýst sem stórskandal að bókaverð hefði hækkað um nokkur hundurð króna miðað við árið 2008. Þar var gripið til þess örþrifaráðs að bera ekki saman raunverð bóka eins og það birtist neytendum í búðum, enda bókaverð frjálst, heldur nota "leiðbeinandi útsöluverð" bóka Arnaldar Indriðasonar og Yrsu Sigurðardóttur sem viðmið, jafnvel þótt "leiðbeinandi útsöluverð" bæði Forlagsins og Bjarts og Veraldar, útgefenda þeirra, sé ekki birt í Bókatíðindum, heldur megi finna sem einhvers konar "forlagsverð", gefið upp á heimasíðum forlaganna.

En leiðbeinandi útsöluverð segir enga sögu af veruleikanum. Bækur kosta allt annað í verslunum og það kom raunar skýrt fram í fréttinni. Vandamálið var bara að fréttamaðurinn kaus að draga ekki ályktanir af því, heldur leiðbeinandi verðinu. Það hentaði málflutningi hans betur. Það hefði verið mjög athyglisvert að sjá raunverulegan verðsamanburð en hann var ekki gerður.

Við sem fylgjumst með bókamarkaðinum og verslun vitum vel að bækur eru mjög ódýrar miðað við aðrar vörur á gjafamarkaði í dag. Ef bókaverð er borið saman við t.d. innflutta gjafavöru sést þetta undir eins. Ég skoðaði gönguskó um daginn. Samskonar par og ég á af gönguskóm og kostaði 25.000 fyrir tveimur árum kostar nú 58.000. Mér þætti gaman að sjá þá bók sem hefði hækkað svo mikið.

En þannig er veruleikinn og neytendur skynja hann mætavel eins og maður heyrir alls staðar. Fólk veit vel að bækur eru ódýrar. Var það kannski ástæðan fyrir fréttinni?

Það sem kom illa við mann í fréttinni var ekki þetta, því raunveruleikatékkið hristir þetta af manni, heldur að fréttamaðurinn vildi greinilega koma höggi á bókaútgefendur. Hann var í herferð. Hann fullyrti því að lækkun virðisaukaskatts árið 2007 hafi ekki skilað sér í lægra bókaverði. Og rökstuðningurinn: Jú, leiðbeinandi útsöluverð á bókum Yrsu Sigurðardóttur og Arnaldar Indriðasonar árin 2006, 2007, 2008 og 2009.

Þegar virðisaukaskattur á bækur var lækkaður 1. mars 2007 var lagt mikið upp úr því að lækkunin væri raunveruleg og skilaði sér til neytenda. Bóksalar voru skilningsríkir enda fylgdist t.d. ASÍ mjög vel með þessum málum og allir kappkostuðu að fylgja eftir lækkuninnni. Lækkunin á kiljum og barnabókum og seinna á námsbókum var sannarlega viðvarandi. En fréttamaðurinn skoðar ekki þetta. Hann skoðar verð á bók eftir Arnald Indriðason jólin 2006 og svo aftur jólin 2007 og kemst að þeirri niðurstöðu að Arnaldarbókin 2007 sé 100 krónum dýrari en bókin 2006 og þar með hafi vasklækkunin engin áhrif haft.

Bíddu við. Átti vasklækkunin ekki að hafa haft áhrif á bókna sem kom út árið 2006 því árið 2007 var önnur bók á markaði? Þetta var jú sitt hvor bókin? Fréttamaðurinn sleppir því sum sér fyrst að afla sér upplýsinga um áhrif vasklækkunarinnar 2007 á bókaverð 2007 og fer síðan að búa til falsfrétt um að vsklækkunin hafi ekki haft áhrif á ALLAR BÆKUR út frá 10O króna hækkun á Arnaldi, sem þó er ekki hækkun á sömu vörunni, þ.e. ný bók sem kom út árið 2007 kostaði í krónutölu í leiðbeinandi útsöluverði 100 krónum meira en bókin sem kom út 2006. Það segi okkur s.s. að lækkun virðisaukaskatts á bækur 1. mars 2007 hafi ekki skilað sér til neytenda!!!!

Upplýsingar, sem honum voru þó látnar í té, um að bækur hafi ekki hækkað neitt í krónum frá 2001 til 2008 en vísitala neysluverð á sama tíma um 44% kaus hann að láta liggja milli hluta. Hann notar öll hálmstrá til að tjakka upp þá sögu að vasklækkun 2ö07 hafi öll runnið í vasa bókaútgefenda og bóksala og fer í því skyni með einfaldlega með fleipur.

Fréttamaðurinn skrumskælir sannleikann til að koma höggi á bækur og bóksölu. Hvers vegna? Ég veit það ekki en ég veit hins vegar að allt á sér ástæður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband