Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Flóra Íslands aftur fáanleg

"Girndargrip", kallaði Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun bókina Flora Islandica í Kiljunni í gærkvöldi. Þetta heildarsafn teikninga Eggerts Péturssonar af íslenskum háplöntunum hefur vakið mikla athygli og það má skilja ástæðurnar fyrir því eins og glöggt sást í Kiljunni í gær.

Fyrir jól komu aðeins 100 eintök af 500 eintaka upplagi til landsins. Þau gjörseldust upp og urðu þeir sem ekki fengu að panta sérstök gjafabréf fyrir þeim eintökum sem seinna kæmu. Nú er afgangurinn að upplaginu kominn úr langferð frá Kína og búið að fá öllum kaupendum sín eintök í hendur. Fyrir vikið eru nú 300 eintök fáanleg.

Sem fyrr er bókin aðeins til sölu hjá útgáfunni því haldinn er kaupendalisti. Hvert eintak er tölusett og áritað af Eggerti Péturssyni. Bókin kostar 75.000 kr. Hana er hægt að panta á netfanginu crymogea@crymogea.is eða í síma 8997839 og hún er send heim að kostnaðarlausu.

FLORA ISLANDS


Lesarinn

Kvikmyndin Lesarinn (The Reader) er ein af þeim fágætu kvikmyndum sem byggðar eru á bókum sem bæta við nýrri vídd í skilninginn á því sem bókin fjallar um og gera bókina í raun betri en maður hélt að hún væri.

Bókin er eitt vinsælasta bókmenntaverk síðustu áratuga í Þýskalandi og ein örfárra þýskra bóka á síðari árum sem hafa náð heimsathylgi, þrátt fyrir að bókmenntalíf Þjóðverja standi nú með talsverðum blóma. Höfundurinn, Bernhard Schlink, náði að fanga nýja hugsun í uppgjöri Þjóðverja á fortíðinni með sögunni af ólæsa fangaverðinum úr Auschwitz sem naut þess að láta fangana lesa fyrir sig. Frægt er hvernig Ophra Winfrey tók þessa bók upp á arma sína og beindi að henni kastljósinu í Bandaríkjunum. Lesarinn er ein þeirra örfáu þýðinga úr erlendum málum sem hafa náð hylli á bandarískum bókamarkaði á undanförnum árum.

Kvikmyndin er aðlögun Davids Hare og þar er svo sem enginn aukvisi á ferð. Hare skerpir á undirtexta bókarinnar sem manni var stundum aðeins mátulega ljós þegar maður las hana, því bókin er knöpp og raunar ekki stíllega mjög hárísandi . Hins vegar er sagan sjálf gríðarlega sterk, eins og best sést í aðlöguninni. Hún styrkist við aðlögunina og kvikmyndaformið sýnir vel hve gríðarmargir þættir í sjálfsmynd Þjóðverja koma saman í mynd ólæsa dauðabúðavarðarins sem spannar hina illskiljanlegu mótsögn að ein menntaðasta og forframaðasta þjóð Evrópu skyldi murka á skipulegan hátt lífið úr saklausum borgurum með kynþáttahugmyndafræði að vopni. Þátttaka almennings í þessum hörmungum, samsektin og uppgjörið verða svo áþreifanleg andspænis þessu frumafli sem býr í Hönnu Schmitz, sem er í senn erótísk bomba, hrotti, tilfinninganæm kona og fagurkeri. Í landi "hugsuða og skálda" verður ólæsi að slíku vandræðamáli að þessi alþýðustúlka gerir hvað sem er til að komast hjá því að uppljóstra um vanmátt sinn, þar á meðal tekur hún á sig stærri sök en sem nemur gjörðum hennar. Hún verður einskonar kollektívur píslarvottur, en um leið er píslarvætti hennar merkingalaust því það er engin sátt, engin fyrirgefning eða aflausn fyrir glæpina.

Þegar lögfræðingurinn Berger hittir fórnarlambið í lúxus Upper East Side íbúðinni í lok myndar og hlustar á þessa hástéttarkonu í hinni "Nýju Jerúsalem", New York, segja að það sé tilgangslaust að fyrirgefa eða yfirleitt að hugsa um útrýminguna því "úr búðunum kemur ekkert gott", þá verða örlög Hönnu nánast hláleg. Um leið verður allt það kreppta og erfiða í umgengi Þjóðverja við fortíðina fyrst létt þegar "böðlarnir" eru horfnir af sviðinu. Hanna í fangelsinu er meinsemdin sem étur upp líf Bergers, hann getur ekki fengið af sér að heimsækja hana, en sendir henni kasettur með upplestri sínum á heimsbókmenntunum. Þegar hann loksins ætlar að "frelsa" hana, er hún dáin. Þar með frelsast hann sjálfur og opnar sig, fyrst gagnvart fórnarlömbunum, síðan gagnvart sinni eigin dóttur og sinni eigin fortíð. Hið nýja Þýskaland getur fyrst gengið á hólm við fortíðina eftir aflausn dauðans. Heimfæra má þessa sögu nánast upp á öll þau þjóðfélög þar sem saklaust fólk hefur dáið vegna hugmyndafræði og glæpaverka og sektin og glæpirnir liggja áfram sem mara á þjóðinni.

Niðurstaða myndarinnar er því í raun miskunnarlaus.  Sektin, ekki aðeins sem sekt þeirra sem tóku þátt í útrýmingu Gyðinga og frömdu þar glæpi sem standast fyrir rétti sem glæpir (en munurinn á "tæknilegri" og siðferðilegri sekt er einmitt aðalumfjöllunarefni myndarinnar, sérstaklega seinni hlutans), heldur sekt alls þjóðfélagsins, verður ekki þvegin af. Um leið er nánast ómögulegt að gera hana upp nema að böðlunum gengnum, jafnvel þótt þeir séu "bældir" (Hanna verður eftir því sem líður á myndina æ sterkara tákn þess bælda, grá og gugginn, tengslalaus við annað en vitund þess eina sem man eftir henni en vill um leið gleyma henni).  Glæpirnir segja ekkert merkilegt um manninn. Þeir eru eins og hverjir aðrir glæpir og verða aðeins metnir á grundvelli laganna. Síðan verður hver og einn að gera upp við sig hvernig hann gerir þau mál upp á grundvelli siðferðisins. Samviskubit Bergers snýst ekki um glæpi hans sjálfs, heldur að hafa orðið ástfanginn af böðlinum og komast að því að ást hans var spegilmynd sambands fangavarðarins og hinna dauðadæmdu gyðinga. Það var hlaðið sömu mótsögn hins ómenntaða og frumstæða - hvatalífsins og hins siðferðilega blinda - og þess upphafna og fágaða.

Kate Winslet er stórkostleg Hanna. Hún er afburða leikkona en það David Kross sem hinn ungi Berger er ekki síður magnaður. The Reader er sérkennilega magnað samband af bandarískri mynd eftir breskan handritshöfund með breskum og þýskum leikurum sem fjallar af óvenjulegri dýpt um þýska sögu.


Óvinur ríkisins

Undanfarin ár, á meðan enn ríkti góðæri, heyrðist lítið um lögbundna afgreiðslu stjórnar listamannalauna annað en smávægilegar deilur um hver ætti að fá ákveðinn mánaðafjölda. Raunar var ekki farið að lögum við afgreiðslu launasjóðs rithöfunda á síðasta ári þar sem mjög litlir styrkir voru teknir upp, minni styrkir en 3 mánuða styrkir, en skýrt er kveðið á um í lögum um sjóðinn að slíkt sé ekki leyfilegt. Ég bloggaði um þetta í fyrra, því þá blöskraði mér hvernig staðið var að því að nota þetta fé og fannst það ákaflega ómarkvisst. Það gleðilega við ákvörðun nefndarinnar í ár er að aftur er fylgt lagabókstafnum í þessum efnum. Smásporslunar hætta.

Þetta er bókaútgáfunni í landinu mikið fagnaðarefni því þessi stuðningur er gríðarlega mikilvægur fyrir öflugt bókmenntalíf. Það gleymist alltof oft að síðustu 25 ár eru eitt glæsilegasta skeið í sögu íslenskra bókmennta. Fjármögnun þessa blómaskeiðs hefur ekki falist í því að höfundarnir lifðu á ölmusu auðmanna eða afgreiddu bensín og páruðu þess á milli langar skáldsögur á næturvaktinni. Hún hefur heldur ekki falist í því að bókaútgefendur auglýstu sig rænulausa hver jól í von um að trekkja almenning að söluborðunum í Bónusi. Hún hefur einfaldlega byggist á því að ákveðinn hópur fólks er á einskonar tilraunastyrk í að skrifa bækur. Sumir detta út, aðrir þrjóskast við. Það gleymist alltof oft að starfslaun listamanna eru ekkert eilífðarfyrirbæri. Enginn er á launum að eilífu. Enginn fær starfslaun aftur og aftur nema hann sé virkur höfundur.

En nú kreppir að og þá vakna gamlir draugar.

Hefðbundin hægri rök gegn stuðingi hins opinbera við listamenn eru að "sjálfstæðir listamenn" þurfi ekki "fyrirgreiðslu" ríkisins, heldur starfi sjálfir á eigin vegum, einir og óstuddir og það sé best fyrir listina og almenning, enda sé "Ríkið" óhæft til að leggja mat á "gæði", aðeins "markaðurinn", hvert mannsbarn þekkir þessi sjónarmið. Við þetta bætist einhverskonar skringileg rökhenda: Þeir sem nái árangri á markaði eigi ekki að fá starfslaun, því það sé óréttlátt, hins vegar séu þeir sem fái starfslaun sjálfkrafa varðir fyrir tekjumissi og hafi því engan hvata til þess að koma verkum sínum á framfæri. Ef seinni röksemdin er skoðuð má benda á að þetta er náttúrlega erfitt í því markaðsfyrirkomulagi sem við búum við. Útgefandi hefur engan hag af því að sjá höfund sinn í hýði en skipar honum fram að koma vörunni í lóg. Og ef menn hafa áhyggjur af því að þeir sem njóti vinsælda almennings séu einnig um of styrktir af Stjórn listamannalauna þá er það fyrst og fremst spurning um tæknilega lagabreytingu. Úthlutunarnefnd starfslaunanna getur ekki brotið lög með því að mismuna fólki á grundvelli tekna sem ekki er skilt að gefa upp við umsókn. Svo einfalt er það. Þessu væri hægt að breyta nokkuð auðveldlega með því að setja tekjuþak á listamenn og marka pólitíska stefnu sem fæli í sér að listamenn sem ekki ættu hljómgrunn á markaði fengju fremur styrki en aðrir.

Þessi sjónarmið voru reifuð í gær, föstudaginn 6. feb., í hinu borgaralega vefriti amx.is þar sem frétt birtist um starfslaunin. Raunar virðist þó ekki tilgangur fréttarinnar að fjalla sérstaklega um þessar röksemdir, heldur að tilgreina að einn ákveðinn maður hafi fengið þriggja ára starfslaun, Hallgrímur Helgason. Enginn listamaður eða rithöfundur annar er nefndur á nafn, en birt er mynd af Hallgrími og Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir utan Valhöll föstudaginn afdrifaríka þegar Geir H. Haarde tilkynnti þjóðnni um veikindi sín. Hvergi er minnst á þátttöku Hallgríms í mótmælunum að undanförnu en tengingin er skýr, auk þess sem amx.is hafði áður fjallað um mótmælin og Hallgrím og þá vikið að því sérstaklega að hann hefði þegið starfslaun.

Amx.is getur svo sem fundist hvað sem er um Hallgrím Helgason og að hann fái 3 ára starfslaun, en þessari umfjöllun fylgja fullyrðingar um bókamarkaðinn sem eru ónákvæmar og misvísandi. Besta yfirlit um bókaútgáfu 21. aldar er að finna í Íslenskri útgáfuskrá. Þar sést vel og sundurliðað hvers eðlis bækur sem koma út á Íslandi eru. Starfslaun listamanna gera ekki ráð fyrir að t.d. höfundar þýddra erlendra barnabóka eða matreiðslubóka Hagkaupa og Nóatóns geti sótt um. J.K. Rowling eða kokkalandsliðið teljast einfaldlega ekki í menginu. Amx.is segir eftirfarandi:

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hafa síðustu ár komið út á bilinu 1.000 til 1.500 íslenskar bækur árlega á Íslandi. Ef listamenn hins opinbera gefa út eina bók á ári næstu 3 árin þá eru það samtals 9 bækur eða 0,6% af heildarfjölda íslenskra titla.

Látum hið gildishlaðna og pólitíska hugtak "listamenn hins opinbera" liggja á milli hluta, en skoðum þó til gamans lista yfir þá rithöfunda sem komast líklegast næst því að vera "listamenn hins opinbera", enda á heiðurslaunum alþingis til æviloka:

  • Fríða Á. Sigurðardóttir
  • Guðbergur Bergsson
  • Hannes Pétursson
  • Jóhann Hjálmarsson
  • Matthías Johannessen
  • Thor Vilhjálmsson
  • Vigdís Grímsdóttir
  • Vilborg Dagbjartsdóttir
  • Þorsteinn frá Hamri
  • Þráinn Bertelsson  

Ef hver þessara höfunda gefur "út eina bók á ári næstu 3 árin" eru það 30 bækur. Þrír höfundar fengu úthlutað 3 starfslaunum í ár, sem gera þá 9 í viðbót, og fyrir eru 6 höfundar á 3 ára launum sem gerir þá 18 bækur í viðbót. Þannig að til að vera með raunverulega rétta tölu væri hún 57.

Næst hlýtur að þurfa að átta sig á því hve margar bækur koma út árlega. Samkvæmt Íslenskri útgáfuskrá komu t.d. út 1438 bækur árið 2005. Í skránni eru þýðingar og innlend launsamálsverk ekki brotin niður, en gefin heildartala fyrir skáldsögur sem er 333. Ef miðað er við að meðalfjöldi íslenskra skáldsagna í Bókatíðindum er um 50 og fjöldi ljóða og leikrita lögð við auk kannski 10 verka úr flokkum eins og ævisögum, sem er eðlilegt því höfundar þeirra og fræðibókahöfundar fá oft úr sjóðnum, sést að stofn til útreikingar tölunni sem amx.is setur fram er ekki "1000 til 1500", heldur 150. Af 150 væri þá ársgeta "hinna opinberu listamanna", þ.e. þeirra sem eru m. 3 ára laun eða meira: 19 bækur. Það gerir 12,6% af árlegri "framleiðslu". En auðvitað segir þessi tölfræði ekki baun um eitt né neitt. Þetta er bara réttara svona.

Talnaleikur amx varpar heldur engu ljósi á þá staðreynd að stuðningur hins opinbera við bókaútgáfu á Íslandi utan starfslaunanna er ómarkviss. Einkareknar bókaútgáfur fá ekki einu sinni að bjóða í verk sem eru á fjárlögum og engar reglur eru um hvernig ríkisstyrkt útgáfuverk eru gefin út. Ekkert gagnsæi er í ferlinu og hvað eftir annað er ráðist í stórvirki á borð við Sögu stjórnarráðsins, Tónlistarsögu Íslands, Kirkjusögu og annað af því tagi alfarið á kostnað hins opinbera en síðan er ekkert ferli til um hvernig einkareknar bókaútgáfur geti boðið í pakkann og hagrætt þannig og sparað. Amatörar í útgáfumálum, stofnanir hins opinbera, gefa út bækur og hafa engan áhuga á að miðla þeim til almennings. Af þessu hafa menn sjaldnast miklar áhyggjur.

Þessi "hægri" gagnrýni er líka merkileg þegar haft er í huga að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið menntamálaráðuneytinu samfleytt í 18 ár og verið í lófa lagið að breyta starfslaunafyrirkomulaginu eftir höfði hinna "sjálfstæðu" rithöfunda, hefði hann virkilega viljað. Hins vegar varð ég aldrei var við annað en t.d. núverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefði þroskað og djúpt viðhorf til þess hvernig stuðla bæri að menningarlegri sjálfsmynd Íslendinga, og raunverulegan inngróinn kúltúr og umburðarlyndi. Ég hef til að mynda ekki orðið var við að Þorgerður Katrín liti svo á að það væri hlutverk ríkisins að mismuna listamönnum eftir skoðunum þeirra eða að það beri að refsa þeim fyrir að mótmæla stjórnvöldum.

Raunar var það svo að síðasta ríkisstjórn og síðasti menntamálaráðherra ætluðu að bæta í starfslaunin. Fyrir lágu drög að nýju lagafrumvarpi um starfslaun listamanna þar sem stuðningur við listamenn, arkitekta og hönnuði var aukinn, allt í þeim tilgangi að styrkja enn menningarlega innviði landsins, auka á sköpun og stuðla að verðmætasköpun til heilla fyrir avinnulíf, mannlíf og stöðu landsins í alþjóðlegu samhengi. Það færi vel á því að einhver fjölmiðillinn rifjaði þær tillögur upp, svona svo hægt væri að átta sig á framfarasinnaðri menningarstefnu Sjálfstæðisflokksins undir forystu Geirs H. Haarde og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband