Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Guðbergur í mynd

Guðbergur Bergsson er líklegast eini íslenski rithöfundurinn sem ég lagt mig í líma við að lesa hvert einasta snitti eftir, jafnvel gamlar greinar á blaðavélunum á Þjóðarbókhlöðunni. En ef ég er beðinn um að segja eitthvað um Guðberg vefst mér alltaf tunga um tönn. Það er ákaflega erfitt að nálgast höfundarverk hans, ekki af því að hann sé "erfiður" höfundur, raunar er hann þvert á móti, mjög aðgengilegur höfundur að öllu leyti, heldur finnst manni maður komast alltaf alltof skammt. Á bak við verk hans er flókinn vefnaður sem er ekki heiglum hent að rekja upp og þegar maður fer að fimbulfamba um tengsl og vensl er maður fljótur að reka sig á múra auk þess sem þekkingarleysi mitt á spænskum bókmenntum hamlar för.

Svo má ekki gleyma því að Guðbergur býr sjálfur til ritskýringar við eigin verk. Heimildarmyndin Rithöfundur með myndavél sem var sýnd á RÚV núna á sunnudagskvöldið er gott dæmi um það. Það var mjög skemmtilegt að sjá myndir Guðbergs sjálfs og heyra hann ræða um tilurð þeirra, ekki síst myndirnar frá Portúgal, magnað að sjá Lissabon á áttunda áratugnum og raunar einnig í dag, þá fallegu og raunalegu borg. Hin fagurfræðilega og pólitíska hlið Guðbergs á gríðarlegt erindi til samtímans og þótt mér þættu myndirnir af Guðbergi í eldhúsinu í Barcelona og í Grindavík orðnar nokkuð margar, hýrnaði yfir manni þegar Guðbergur tengdi saman sýn sína á mótstöðu íslensks almennings nú á tímum, byltinguna í Lissabon og viðhorf almennings í Suður-Evrópu til valdhafa. Senan þegar hann tók við heiðursborgaraviðurkenningunni í Grindavík var síðan stórbrotin. Þeir bræður Guðbergur og Hinrik léttir og kátir og í miklum sving en sveitastjórnin sliguð af þunga, konan í upphlutinum var svo alvarleg að það virtist sem ætti að kveða upp dauðadóm yfir skáldinu.

Það er kunnara en frá þurfti að segja að um þessar mundir mæla fæstir því bót sem Guðbergur hefur að segja. "Er hann ekki orðinn elliær, karlinn," sagði maður við mig um daginn. Mér fannst þessi fína heimildamynd einmitt sýna okkur að svo er ekki. En það verður að setja hugsun hans í samhengi og kannski ósanngjarnt að ætlast til þess að hann geri það sjálfur, maður sem hefur þýtt um hundrað bækur, skrifað þúsundir greina og frumsamið marga tugi bóka. Hann hefur ekki setið auðum höndum. Nú er í raun komið að okkur hinum.


Fyrsti þýðandi Nýja testamentisins

Í allri Biblíuþýðingaumræðunni er eins og menn staldri við þýðinguna frá 1981 og svo 1912 sem hinar einu og réttu versjónir af orði Guðs. En er ekki réttara að nota fyrstu þýðinguna, Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar? Ef maður ætlar að vera alveg viss um að vitna í almennilegan orginal. Oddur þýddi Nýja testamentið eins og kunnugt er í fjósinu í Skálholti á árinum 1535-1537 og kom bókinni í prent 1539. Lokið var við verkið 12. apríl 1540 í Hróarskeldu og svo stímdi Oddur heim með upplagið í gámi með alla pappíra í lagi frá Kristjáni III. Að öllum líkindum fékk hann blýsmiði í Danmörku til að búa til stafinn þ til að samrýmast sérkröfum Íslendinga.

Nú eru til fjögur heil eintök af þessari bók sem er fyrsta bókin sem prentuð var á íslensku með fullri vissu. Það furðulega er að útgefandinn var Oddur sjálfur, ekki kirkjan eða krúnan, þótt Oddur hafi að sönnu fengið Skálholtsbiskupsdæmi og Krúnuna sem styrktaraðila fyrir verkefnið. Oddur átti eftir að gefa út bækur fyrir eigin reikning eftir þetta og þýða fjölmargar sem gefnar voru út eftir hans dag og prentaðar hér heima og erlendis.

Það er því fyllilega ástæða til að minnast þessa fyrsta íslenska bókaútgefanda nú þegar við gleðjumst yfir nýjustu Biblíuþýðingunni, sem eins og kunnugt er, er reist á meiri þekkingu á menningu, tungumáli og siðum þeirra sem rituðu bækur Biblíunnar en þýðendur hennar hafa nokkru sinni fyrr tjaldað til.


Davíð Stefánsson, nóbelsskáld?

Ég verð að segja að einhver furðulegasti flötur sem hugsast gat var notaður til að vekja athygli á ævisögu Davíðs Stefánssonar skálds sem Friðrik G. Olgeirsson hefur ritað. Í Fréttablaði sunnudagsins er greint frá því að Davíð hafi ekki komið til álita af hálfu Íslendinga sem kandídat fyrir bókmenntaverðlaun Nóbels vegna þess að hann var ekki nógu vinstrisinnaður. Maður skilur ekki upp né niður í þessu máli. Hefur einhver einhverntíma haldið að Davíð Stefánsson væri á leiðinni að fá bókmenntaverðlaun Nóbels? Ef þetta á að vera framhaldið af hinni frámunalega leiðinlegu umræðu um "ekki-Nóbelsverðlaun" Gunnars Gunnarssonar þá er mér öllum lokið. Er þetta virkilega það eina sem var merkilegt við það frábæra skáld sem Davíð var?


Bókabrennur

Í svo mikið öngstræti er umræða um bókaútgáfu og prentfrelsi á Íslandi komin að einn höfuðbloggari landsins, Katrín Anna Guðmundsdóttir, veltir fyrir sér á bloggsíðu sinni hver munurinn sé á því að "gefa út bók sem byggir á rasisma og að brenna sömu bók?" Að sjálfsögðu er hún að vísa til mest seldu bókar á Íslandi þessa stundina, Tíu litlir negrastrákar eftir Gunnar Egilsson með myndum Muggs.

Það verður vel ljóst af orðum hennar að hún veltir fyrir sér ákveðnum möguleika. Hún er ekki að hvetja til þess að brenna ákveðna bók. Og hún segist heldur ekki vera að hvetja til bókabrenna.

Ég á hins vegar svolítið erfitt með að líta svo á að þessi spurning: Hver er munurinn á því að halda fram skoðun með að gefa út bók og halda fram skoðun með því að brenna bók? sé meinlaust akademískt verkefni. Þetta er ögrandi spurning sem ætlað er að magna upp deildur enda hafa margir lagt orð í belg á bloggsíðu Katrínar. Hún er greinilega undir það búin því hún skrifar: "Spurningarnar hér fyrir ofan eru partur af mínu málfrelsi og ætlaðar sem umræðugrundvöllur. Ég býst þó við að sumir eigi ekki eftir að greina á milli þess að hvetja til einhvers athæfis og að velta upp spurningum."

Vandamálið er að með þessum spurningum haslar hún sér völl sem er einfaldlega rangur miðað við tilefnið. Hún notar eitt helsta og elsta mælskufræðitrikk heimsins: Hún skilgreinir umræðuna og spinnur hana svo þaðan.

Eitt af því mikilvægasta sem umræðan um Tíu litla negrastráka hefur leitt af sér er að einmitt meirihluti þjóðarinnar, og raunar útgefendurnir þar með taldir, litu ekki svo á að þetta væri bók þrungin kynþáttahyggju. Þegar Katrín Anna Guðmundsdóttir segir síðan í einni af mörgum athugasemdum sínm við athugasemdir annarra:

ég er sammála því að bókin á heima í fullorðinsbókahillunni en ekki barnabókahillunni (samt með þeim formerkjum að þetta sé kynþáttahatur, það er ekki eins og allt fullorðna fólkið hafi skilið það við sig) - en ég er líka á því að fólk hefði átt að hafa vit á því að gefa hana ekki út. Útgáfan er vitnisburður um rasisma og sorglegt að sjá að þau hafi í alvörunni ætlað að heiðra minningu einhverra með því að endurútgefa kynþáttafordóma eftir þá... 

þá er hún að gefa sér að allir hafi verið meðvitaðir um kynþáttahyggju bókarinnar. Það voru þeir jú einmitt ekki. Og hvers vegna hefði fólk átt að vera meðvitað um þessa kynþáttahyggju? Engar grundvallarrannsóknir á kynþáttahyggju á Íslandi liggja fyrir. Engin sérstök umræða hefur farið fram um hlutverk kynþáttahyggju í íslenskri menningu. Hvaðan hefði eiginlega þeim fjölmörgu sem ekki hafa þjálfað sig í að lesa hugmyndafræði út úr listaverkum og fjölmiðlum átt að koma þessi vitneskja? Ekki er Katrín Anna í það minnsta að fræða okkur um það. Hennar hlutverk er greinilega að hræra í tilfinningapottinum.

Ég veit að Katrín Anna Guðmundsdóttir er margreynd baráttukona sem hefur einmitt verið ötul við að lesa hugmyndafræðina út úr því sem aðrir telja meinlaust. En þegar "akademíska" spurningin um hvort ekki sé jafn mikið tjáningarfrelsi að brenna bók og að gefa hana út er hrokkin fram á varirnar er dagljóst að umræðan um samband bókaútgáfu og samfélagskilnings þarf að skiljast við hinn hvatvísa vettvang bloggsins og fara annað. Með fullri virðingu fyrir þessari spurningu hefði Katrín Anna átt að undirbúa og undirbyggja þessa umræðu eilítið betur svo hægt væri að taka mark á henni. Hún vildi búa til hasar og fékk hann. En svona áróðursbrellur eru ekki til þess fallnar að byggja upp virðingu fyrir tjáningarfrelsi og baráttu þeirra sem vilja gera meðborgurum sínum ljóst að kynþáttahyggja er aðför að meðbræðrum þeirra.

Að brenna bók er auðvelt. Maður gerir það bara heima hjá sér í baðkarinu. En þannig fara ekki bókabrennur fram. Þær fara fram á torgum þar sem valdhafar safna saman fólki til að horfa á upplög bóka sem bannaðar eru í Ríkinu fuðra upp. Sá sem brennir bók vill setja strik undir reikninginn. Loka á málið. Og býr í leiðinni til píslarvotta. Og þegar fólk er farið að brenna Tíu litla negrastráka ... þá fyrst fáum við alvöru rasista.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband