Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Hugleiðingar um kreppuna

Fyrir aðeins ári síðan náði hugmyndafræðileg hugarfarsinnræting kapítalískra kauphátta hér á landi táknrænu hámarki þegar gamla Olíufélagið Esso breyttist í fjölþætta þjónustufyrirtækið N1. Til þess að syngja innsiglissálm fyrir sambræðing sundurleitrar hjarðar smurstaða, bensínsölustaða og varahlutaverslana voru félagarnir í hljómsveitinni Queen kvaddir til og stafnbúi þeirrar sveitar, Freddie Mercury, tónaði yfir þeim örfáu Íslendingum sem enn voru ekki „á þeim tímapunkti" sannfærðir um að Ísland væri heimaland hinna ríku, djörfu og mögnuðu: „Don't stop me now! I'm having such a good time." Allur sá heillandi barnaskapur og bjartsýnisandi sem einkenndi íslenska efnahagsundundrið skrapp saman í einni línu - anda tímans.

Um þetta leyti, fyrir aðeins einu ári, hafði skapast nokkurskonar hefð fyrir því að framfaramenn samfélagsins gæfu tímamótum í lífi sínu inntak með því að kveða til helstu stærðir vestrænnar dægurtónlistarsögu. Með því að stilla þessari hefð upp með myndbrotum sem sýndu heilt samfélag á fullri ferð áfram, sama hvað leið veðri, vindum, fjöllum, firnindum og öðrum náttúrulegum farartálmum, öðluðust hin séríslensku góðærisgildi - The Icelandic way of doing things - sína efnislegu mynd. Hérlendir listamenn höfðu annað hvort ekki enn vaknað upp til veruleika tímans eða höfðu ekki nógu skýra sýn á veruleikann. Þess vegna öðlaðist góðærið ekki varanlega táknmynd í listaverkum og þess vegna varð það hlutverk auglýsingaleikstjóra að orða inntak tímanna til fullnustu: „Don't stop me now! I'am having such a good time."

Miðvikudaginn fyrir páska heyrði ég þetta stef í útvarpinu, rétt ofan í fréttir af lægðagangi efnahagslífsins. Það var í senn þrungið eftirsjá og nöprum beyg. Þessi sjálfumglaði fjörkálfasöngur myndi aldrei aftur hljóma á saklausum forsendum ensku hljómsveitarinnar Queen og hins burtsofnaða forsöngvara hennar heldur aðeins minna mann á það tímabil nýliðinnar sögu að framboð lánsfjár var umfram eftirspurn. Sú staðreynd að söngurinn skyldi enn vera sunginn bar merki einhvers konar hetjulegrar þrákelkni. Stefið í útvarpinu var heldur ekki hinn hraði hluti lagsins þar sem Queen-sveitin tónar öll í öflugum rokksamkór með hetjuróm: „Don't stop me now!", heldur hægi hlutinn, diminuendo-parturinn, þar sem Queen lætur atkvæðin fleyta kerlingar á sléttum sjó svo þau skoppa hnitmiðað út í tómið. Hægagangurinn í söngnum, það hve andstuttur kórinn er, dregur fram að aflið sem meinar fjörinu að halda áfram er of sterkt. Einhver eða eitthvað er grátbeðið um að stöðva ekki ferðina áfram, vitandi að það er ómögulegt. Í ljósi þess að refsisverð Sögunnar hafði höggvið að rótum efnahagslegs sjálfstrausts þjóðarinnar rétt áður varð hljómurinn í laginu svo sorglegur. Það tjáði ekki lengur bjartsýnina og uppganginn. Það tjáði söknuðinn eftir bjartsýninni.

Eins og sakir standa geta fjölmiðlar á Íslandi ekki með góðri samvisku selt bjartsýni og uppgang. Það er kreppan sem selur. Grein í 24 stundum um gamalgróið vandamál, veggjakrot á Laugavegi, fær fyrirsögnina „Kreppa á Laugavegi". Sjónvarpsfréttir RÚV og útvarpsfréttir Rásar 1 rekja samviskusamlega teikn og ummerki hrapsins. En á engan er hallað þegar sagt er að Morgunblaðið hafi haslað sér völl sem helsti söluaðili kreppunnar hérlendis. Þar blasti fyrst við sú fullkomnma eymdarsamfella sem aðrir fjölmiðlar streða við að búa til. Hvern dag greiða árvakrir áskrifendur fyrir breiðsíðu áminninga um tyftun og straff fyrir freklegan hofmóð fjármagnseigenda og almennings. Og þótt skilaboðunum hafi verið komið á framfæri og besta leiðin til að fá ráðvilltan múginn til að hlusta sé að nefna nafn kreppunnar, er enn mikið að starfa. Enn dansa bjánarnir þótt búið sé að skjóta hljómsveitina. Forherðing þeirra sem keyptu Range Rover eða pöntuðu sér utanlandsferð þegar búið var að blása til samdráttar hlýtur að vera steini lík. Því má nú sjá farandpredikara úr leikmannareglum stjórnmálaflokkanna á stjákli í bloggþorpinu með iðrunarólar á lofti í von um að hitta fleiri krossburðarmenn, hrópandi hátt um að menn geri nú yfirbót strax svo afstýra megi enn stærra straffi. Hættið að kaupa!

Er nema von að venjulegt fólk sem búið hefur við uppgíraða bjartsýnisinnrætingu í góðan áratug hiki aðeins. Það þætti ekki góð lexía í tamningu á hrossi að rugla skepnuna svona. Hætt við að hún glutraði niður ganginum eða yrði vitlaus í taumum. Hvað svo þegar næsta uppsveifla kemur? Þá verður aftur að kveikja á hreyflunum og opna fyrir áveitukerfið og aftur að telja sem flestum trú um að það séu mannréttindi að deila lífsstíl sínum með efri millistéttum þróaðra iðnríkja sem eiga sér alvöru gjaldmiðil en ekki skopparaboltakrónu: „Don't stop me now!"

Það er ekki nema ár síðan menningarbylting bjartsýninnar reis hæst með takmarkalausri trú á að engar hindranir væru í vegi Íslendinga, allra Íslendinga. Hugmyndafræði efna- og valdastéttanna varð að sameiginlegum viðmiðum samfélagsins. Árangur þeirra var ausinn lofi af sömu fjölmiðlum og nú stíga varfærin og hikandi skref inn í nýja kreppuorðræðu sem á köflum minnir á talsmáta valdastétta 16. og 17. aldar þar sem áföll samfélagsins og hræringar náttúrunnar voru talin bein afleiðing yfirskilvitlegrar ákvarðanatöku. Sú samlíking er langt frá því út í hött. Enn og aftur er allur almenningur ávarpaður í nafni hagsmuna sem að síðustu eru honum huldir. Einhverjir hafa af því hag að kreppan magnist, annars væri hún ekki boðuð af jafn miklu offorsi. Um leið er talað um kreppuna sem rökrétta afleiðingu þess að grundvallarlögmálum hafi verið storkað. „Don't stop me now!" er ekki lengur kokhraust hróp, heldur klökk bæn: „Don't stop me now ..." í veikri von um að einhver ókunnug öfl heyri og rjóði dyrastaf okkar með blóði svo refsiengill kreppunnar gangi framhjá en rispi ekki kaupleigujeppana. Næstu vikur og mánuðir leiða í ljós hvort einhver sé að hlusta ...

(Birt í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 29. mars)


Froststrókur

Það var stefnt á hópferð á Skírdag upp á fjöll en svo heltust allir úr lestinni nema við Hulda sem minnkuðum aðeins umfangið og fórum bara á Vífilsfell. Í staðinn fyrir að vera komin upp á náð og miskunn torfæruböðlanna í Jósefsdal og þeirra einkavegar fórum við upp Bláfjallaafleggjarann og úr gömlu aflögðu malargrúsinni ofan við Sandskeið, síðan upp á fellin og þaðan til norðurs og upp á sjálft Vífilsfellið.

Þetta var á engan hátt stórsöguleg ferð, enda hef ég ekki tölu á hve oft ég hef komið þarna upp, en Hulda var að fara þetta í fyrsta skiptið, og það er alltaf gaman af því að sýna fólki svæðið, sem er jú eitt besta útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það er jú tiltölulega gott að komast þarna að, miðað við að það eru í raun aðeins þrjár fjallgönguleiðir á öllu höfuðborgarsvæðinu þar sem gert er ráð fyrir að fólk komi akandi í því skyni að ganga á fjöll, við Mógilsá, Helgafell og Hengilsveginn.

Fáránleiki sveitafélagasundurbútunar Reykjanessskagans er hvað sýnilegastur á Vífilsfelli sem tilheyrir þremur ef ekki fjórum sveitarfélögum: Ölfusi, Kópavogi, Reykjavík og Seltjarnarnesi, en mér skilst að Nesið sé með malarnámunar fyrir norðan Vífilsfell á sínum snærum, hvað sem því veldur. Fyrir vikið virðist öll vitræn uppbygging sem miðaði að því að gera þennan stað að alvöru útivistarsvæði vera vonlaus. Umhverfið ber líka vott rányrkjunni og skeytingarleysinu um náttúruna sem hvarvetna blasir við í nágrenni borgarinnar. Opnar og ófrágengnar malarnámur, drasl, sundurgrafnar hlíðar eftir torfæruhjól og tómlæti anspænis þörfum þeirra sem einfaldlega vilja ganga um þetta svæði en ekki moka því í burtu eða spæna það í sundur. Yfir öllu hangir svo Demóklesarsverð hins framkvæmdaglaða Kópavogsbæjar. Alltaf heyrir maður reglulega ávæning af því að þeir ætli að byggja niðri á Sandskeiði, fyrst hesthús, svo háhýsi, hlýtur að vera.

En við vorum nú ekkert að þusa um þetta uppi á fjallinu. Vorum bara minnt á þetta þegar við sáum gestabókarkassann sem merktur er UMSK og vantar nú lokið svo gestabókin var öll vatnssósa og stokkfreðin, minnti helst á ýsuflak. Á leiðinni niður skoðuðum við svo skemmtilegt náttúrufyrirbæri. Vegna þíðunnar á miðvikudag og þriðjudag var enn leysingarvatn að seitla úr skálinni sunnan og vestan við sjálfan Vífilsfellshrygginn og þetta leysingarvatn var ófreðið í lækjum og tjörnum niðri á Sandskeiði og úti á heiðinni. Hins vegar hafði frostið á Skírdag og nóttina á undan þegar skellt þykkri ískápu yfir allt uppi og við þurftum sannarlega á góðum broddum að halda. Vatnið sem kom undan ísnum var því orðið fremur lítið, eiginlega vart nema smá seitla, en nú var svo hvasst af norðvestan að lækurinn feykist beina leið í loft upp og stóð upp af brúninni eins og gosbrunnur. Vatnið féll svo til jarðar í stórum radíus svo grjótið allt og snjórinn umhverfis voru sýluð. Um leið og við komum þarna að féll smá vindregn á okkur sem fraus á jökkunum okkar þegar í stað, líkt og smáar perlur. Þetta var ótrúlega fallegt og um leið dularfullt, þótt við skildum ástæðurnar fyrir því að vatninu ringdi yfir okkur. Móbergsklettarnir voru svo hreinlega hjúpaðir og ísinn svo tær að hver smáarða sást í gegnum hann og samt var ísinn orðinn ótrúlega þykkur. Ég man ekki eftir að hafa séð þetta áður. En alltaf uppgötvar maður eitthvað og undrast yfir einhverju, jafnvel þótt það sé að koma kreppa.

 


Námsefnisútgáfa á Íslandi

Á hlaupaársdag, 29. febrúar, stóð Félag íslenskra bókaútgefenda fyrir morgunverðarfundi um námsefnisútgáfu fyrir nemendur á skólaskyldualdri. Staðan í þeim málum er eins og sakir standa nokkuð skrítin. Vorið 2007 voru lög samþykkt á alþingi um námsgagnasjóð, Námsgagnastofnun og þróunarsjóð námsgagna. Aðdragandi þessarar lagasetningar var langur og mér eldri menn höfðu oft og mörgum sinnum komið á fund ýmissa nefnda og starfshópa sem menntamálaráðuneyti hafði skipað til að ræða hugsanlegar breytingar á tilhögun innkaupa námsgagna fyrir grunnskóla og námsgagnagerð í skyldunámi. Úrskurðir Samkeppniseftirlits í fyrra í kærum Æskunnar og Árna Árnasonar á hendur Námsgagnastofnunar um mismunun á námsefnismarkaði urðu hins vegar til þess að nauðsynlegt þótti að breyta lögum um Námsgagnastofnun og um leið koma til móts við sjónarmið þeirra sem hafa talað fyrir minni miðstýringu á innkaupum námsefnis í grunnskólum.

Fyrirhugað var að formaður stjórnar námsgagnasjóðs, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, tæki til máls, en því miður átti hún ekki heimangengt sökum anna, og aðrir stjórnarmenn voru erlendis. Því varð kannski minni umræða en ella um lögin og vonir og væntinar námsgagnasjóðs. Námsgagnasjóður úthlutaði 100 milljónum á síðasta ári til grunnskóla á Íslandi (frekar lág upphæð í raun og veru, 2.300 kr. á nemanda) og mun aftur úthluta 100 milljónum nú í vor. Við bókaútgefendur höfum orðið áþreifanlega varir við að tilgangur og eðli þessa sjóðs er lítt þekktur meðal kennara, og oft einnig meðal skólastjórnenda. Mjög margir vita t.d. ekki að það er yfirleitt hægt að kaupa beint námsefni af útgefanda eða höfundi.

Þorsteinn Helgason, dósent við KHÍ og Ásdís Olsen, aðjúnkt við KHÍ ræddu námsefnisgerðina á faglegum nótum og voru í raun á öndverðum meiði. Þorsteinn er talsmaður varfærni í námsefnisgerð, þ.e. hann hugar að gæðum og gæðahugtakið er í hans augum óhjákvæmileg afleiðing faglegs ferlis í framleiðslu og umfjöllun. Hann benti á þá einföldu staðreynd að í ómiðstýrðu innkaupakerfi námsgagna yrði líka að vera til gagnrýnisapparat, þriðji aðili, sem gæti lagt mat á námsefnið þannig að kennarar og foreldrar gætu haft stuðning af slíku til að velja námsefnið fyrir nemendur. Þannig væri einhvers konar fagmiðill eða hreinlega bara venjulegir fjölmiðlar sem dæmdu námsefni mjög mikilvægur þáttur í að styðja við gæði námsefnis. Án slíks yrði öll umræða um gæði út og suður. Ég held að þetta sé hárrétt hjá honum.

Ásdís er á ómiðstýrðu línunni og raunar á þeirri línu að námsefnið sem slíkt sé ekki mikilvægt, heldur hvernig nemendum er hjálpað til að afla sér upplýsinga sjálfir. Þetta ferli sé undir kennurum komið og miðstýring upplýsingadreifingar inni í grunnskólum sé úr takti við þá skapandi krafta sem nútímasamfélagið hafi leyst úr læðingi með sinni miklu þekkingardreifingu. Framsaga hennar var fyndin, ögrandi og meðvitað mótsagnakennd - óreiðukennd, og miðaði þannig að því að brjóta niður væntingar okkar um línulega, miðstýrða þekkingarmiðlun. Vandamálið er eins og við allar slíkar kenningar að í samfélaginu eru sífelld átök sjálfsstýringar og skapandi óreiðu sem tímaskortur foreldra og kennara hneigist til að beina í sjálfsstýringarátt. Þorsteinn benti á þetta og sagði að í núverandi kerfi væri óðs manns æði að ætla að kennarar hefðu yfirleitt tíma til að taka grundvallarákvarðanir um hvernig námsefni væri miðlað til nemenda. Þeir væru að drukkna í vinnu. Undir þetta tók í umræðum Tryggvi Jakobsson, útgáfustjóri Námsgagnastofnunar. Veruleikinn þurrkar þó hins vegar ekki í burtu draumsýnina. Hún er takmark sem vonandi sem flestir vinna að. Eitt hamlar þó alltof mikið. Of lítið af þeirri þekkingu sem til er á íslensku er á rafrænu formi.

Nú er það svo að margar mismunandi skoðanir eru uppi um þessa meintu miðstýringu. Illugi Gunnarsson, nú þingmaður, stakk til að mynda niður penna um þessi mál áður en hann fór á þing og var þar að mæla með aukinni samkeppni, það væri ólíðandi að menn væru skikkaðir til að kaupa öll námsgögn frá sama útgefanda og að hann væri auk þess eini drefingaraðili námsgagna til grunnskóla. Þetta yrði líka til þess að "dugmiklir kennarar" (trúin á "dugnað" birtist í mörgum myndum) gætu aukið tekjur sínar með námsgagnaframleiðslu. Skilja mátti á honum að nú væri komið að Sjálfstæðisflokknum að brjóta niður gamla múra, hleypa frelsinu inn. Þessi sjónarmið eiga miklu fylgi að fagna meðal stærstu einkarekinna bókaforlaga landsins, en samt er eitt og annað í þessum málflutningi sem þarf að skoða nánar, eins og kom raunar fram á morgunverðarfundinum.

Kennarar halda því nefnilega margir fram að miðstýringin hafi fyrst hafist fyrir alvöru þegar sjálfstæðismaðurinn Björn Bjarnason setti nýja námsskrá árið 1999. Þar séu hendur kennara bundnar. En enn er unnið að breytingum á námsskrá og raunar skipulagi bæði, leik-, grunn- og framhaldsskóla, greinilega með þau sjónarmið að leiðarljósi að stytta námstíma og skófla krökkunum hraðar í gegnum kerfið svo hægt sé að nýta þau betur á vinnumarkaðnum og þar með stuðla að samkeppnshæfni íslenska atvinnulífsins. Þessi riðlun á kerfinu sýnist manni vera þeim nemendum mjög í hag sem búa við hvatningu að heiman og hafa skýr markmið en kannski síður hinum. Þessi breytingartími er hins vegar námsefnisútgefendum erfiður og gæti orðið til þess að t.d. námsefnismarkaður f. framhaldsskóla yrði vart svipur hjá sjón eftir nokkur ár.

Hin undarlega mótsögn er þessi: Yfirvöld menntamála treysta einkareknum bókaútgáfum alfarið til þess að sjá framhaldsskólanemendum fyrir námsefni en stíga varfærin skref í að leyfa þeim að gefa út efni fyrir grunnskóla. Í framhaldsskólageiranum ríkir samkeppni sem drifin er áfram af þörf útgefenda til að mæta óskum kennara og námsskrár annars vegar og hins vegar að vinna gegn tekjutapi af skiptibókamarkaði og ólöglegri fjölföldun hins vegar. Því er "vöruþróun" þarna mikil. Um leið verða þær raddir innan Samfylkingar háværari sem vilja að ríkið greiði námsefni framhaldsskólanemenda. Hvernig nákvæmlega á að standa að því hef ég hins vegar hvergi séð útfært, og held að núverandi kerfi sé gott því það tryggir einmitt fjölbreytni og sveigjanleika og vinnur gegn miðstýringu. Um leið er þetta mikilvægt f. bókasala. Ef einhverskonar heildarinnkaup ríkisins á námsefni fyrir framhaldsskóla væru tekin upp væri það stórkostlegt afturfaraskref. Miklu betra væri að kostnaður við námsefni fyrir framhaldsskóla væri tæklaður með einhverskonar kúponum beint til nemenda eða stærri framlögum úr þróunarsjóði námsgagna. En þar stendur hnífurinn í kúnni.

Bjarni Þorsteinsson, útgáfustjóri námsbóka og almenns efnis hjá Bjarti-Veröld, flutti hugvekju um undarlegt samband ríkisvalds og einkafyrirtækja í námsgagnageiranum. Hann benti á hvernig yfirburðastaða ríkis í útgáfu og dreifingu námsbóka fyrir grunnskóla allar götur frá árinu 1936 hefði á engan hátt leitt af sér samskonar þróun í málefnum framhaldsskóla. Fyrir vikið væru fámennir kúrsar á framhaldsskólastigi í raun námsgagnalausir. Erling Erlingsson framkvæmdastjóri IÐNÚ, sem einkum gefur út námsbækur fyrir iðnbrautir var ómyrkur í máli í umræðum og sagði að menntamálayfirvöld hefðu í raun hætt að nenna að hafa áhyggjur af iðnnámi. Til að mynda væru greinar á borð við húsasmíði án boðlegs námsefnis og í raun væri öllum sama. Á sama tíma væri sífellt verið að hamra á því opinberlega að starfsnám væri svo mikilvægt. Bjarni og Erling voru sammála um að skref hefði verið stigið afturábak með nýju lögunum í því tilliti að þróunarsjóður námsgagna væri nú alltof vítt skilgreindur og að það væri fáránlegt að hann væri sniðinn að þörfum höfunda, þegar ljóst væri að höfundar gæfu sjaldnast út námsefni að endingu. Í stað þess að stuðla að faglegri þróunarvinnu innan bókaforlaganna væri þróunarvinna námsgagna miðuð við að vera einskonar launauppbót kennara. Sjóðurinn hefði áður einungis styrkt námsefni fyrir framhaldsskóla, en styrkti nú öll skólastigin þrjú, leik-, grunn-, og framhaldsskóla. Fjárveitingar væru algerlega úr takti við þann raunveruleika.

Niðurstaða morgunverðarfundarins var að mínu viti ekki nógu skýr eða uppörvandi. Tækifærin sem margir bundu vonir við með lagasetningunni eru enn utan seilingar vegna óvissu um framtíðarskipan skólakerfisins og raunar fáfræði um hvernig nýta megi fjármuni námsgagnasjóðs. Margskonar hugmyndir og kenningar eru uppi um hvernig beri að standa að námsefnisgerð og innkaupum þess án þess að vera nógu skýrt útfærðar. Hvernig hugsa t.d. ungir jafnaðarmenn skyldukaup menntamálayfirvalda á námsefni fyrir framhaldsskóla? Um leið eru uppi augljósir hagsmunaárekstrar milli Námsgagnastofnunar og einkarekinna bókaforlaga, t.d. þegar kemur að þróun námsgagna og kynningu þeirra sem lög um Námsgagnastofnun "skikka" stofnunina til að sinna en brjóta um leið jafnræðisstöðu einkarekinna forlaga og hins ríkisrekna útgáfurisa. Nýjar kærur til Samkeppnisefirlits eru beinlíns letraðar í lagabókstafinn. Mér fannst gott að heyra hve Tryggvi Jakobsson, útgáfustjóri Námsgagnastofnunar, var jákvæður í garð breytinganna og hugsanlegrar samkeppni og fannst það benda til þess að vonandi muni eitthvað gott koma út úr þessu öllu.

Enn er hins vegar mikið verk að vinna ef þessi þróun á að skila því að verða til eflingar almennri bókaútgáfu á Íslandi og íslenskum nemendum til framdráttar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband