Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Langt í burtu frá kreppunni

Jólabækurnar, allar nýju skáldsögurnar, eru komnar heim í stofu. Á hæglætiskvöldum þegar norðurljósin dansa úti á Faxaflóanum og lýsa Skerjafjörðinn leggur maður í þær fyrstu. Mér finnst ég ekki hafa mikið orðið var við bækur eins og Dimmar rósir eftir Ólaf Gunnarsson, sem virðist af fyrsta fletti vera tíðarandasaga frá þarsíðustu kreppu, árunum kringum 1970. Ég bara vona að þetta verði ekki of mikil hippaupphafning, en miðað við hvað Ólafur hefur verið gagnrýninn á hippa í gegnum tíðina þarf maður kannski ekki að óttast það.

Eftir að hafa hnusað af Ólafi og einsett sér að lesa mestlofuðu bók vertíðarinnar það sem af er, Ofsa eftir Einar Kárason, ákvað ég engu að síður að byrja á mínum gamla samstarfsmanni og félaga Guðmundi Andra Thorssyni, Segðu mömmu að mér líði vel. Í staðinn fyrir að demba manni beint út í djöfulsfenið sem manni finnst stundum að sé númer eitt tvö og þrjú í íslenskum prósa er maður kominn inn í bók sem sveiflast á öðrum og lengri bylgjum. Maður hefur til að mynda sterklega á tilfinningunni að höfundur hafi áhuga á fólki. Hafi auga fyrir öllum litlu hlutunum sem gefa lífinu gildi.

Svona bækur hafa ekki verið áberandi í íslensku bókmenntalífi, svona borgarastéttarbækur um fólk sem vinnur bara sína vinnu og á sitt líf og þar sem stóru harmrænu efnin eru á sviði siðferðis og lífsgilda en ekki að menn tapi rosalegum peningum. Bókin er líka mjög langt í burtu frá kreppunni. Í henni er einhvers konar sáttmáli um að góð gildi séu ráðandi í samskiptum fólks og að samfélagið sé afrakstur þeirra. Í Íslenska draumnum skrifaði Andri um andstæðu þessa sáttmála, sáttmálann um að halda aldrei loforð, svíkja allt fyrir peninga og gefa skít í gott líf í von um að fá eitthvað meira. Hann var einn af þeim rithöfundum sem vildu að íslenska miðstéttin fengi einfaldlega að vera í friði með lífið, óáreitt frá athafnabrjáluðum stjórnmálamönnum og manískum athafnamönnum sem litu á samfélagið sem blóðugt tilraunaeldhús í framsæknu markaðskokki eða ríkiseinokuðu kúgunarbrasi. Á sinn lágmælta og yfirvegaða hátt er Segðu mömmu að mér líði vel ákall um að svoleiðis samfélag væri gott samfélag. Að við þurfum frí frá stórum hugmyndum. Það sem við þurfum er að sem flestir taki þátt í því verkefni að samfélagið sé eðlilegt og miði að því að fólk lifi þar góðu og stöðugu lífi. Þá hafi það meiri tíma til að taka eftir því smáa og magnaða í kringum okkur. Þetta hljómar mjög blátt áfram. Reynslan sýnir hins vegar að hugmyndafræði íslensks samfélags er algerlega á skjön við svona hugsanir og að þær eru því mjög framandi.


Bókatíðindi 2008

Nú er skráningum lokið í Bókatíðindi, hina árlegu skrá Félags íslenskra bókaútgefenda um bækur á jólamarkaði. Bókatíðindunum 2008 verður dreift á öll heimili fyrstu vikuna í nóvember að venju en hægt er að taka forskot á sæluna með því að skoða skráningar á http://bokatidindi.oddi.is/listi/. Þar er yfirlit yfir allar jólabækurnar.

Bókatíðindi eru eitt af því sem erlendir útgefendur telja hvað mest þroskamerki á íslenskum bókamarkaði. Áþekkt fyrirbæri er til til að mynda í Noregi en hefur miklu minni útbreiðslu, enda erfitt að búa til svo yfirgripsmikla bókaskrá með þrisvar sinnum fleiri titla. Hins vegar heillar hugmyndin um að öll heimili fá skrána senda til sín. Að allir íbúar landsins hafi aðgang að bókaúrvalinu.


Haldreipin

Ísland í dag er eins og land sem hefur tapað í stríði. Við spyrjum okkur í örvæntingu: Hvernig gat þetta gerst? Við sem börðumst fyrir réttlátum málstað. Við sem áttum rétt á því að þenja út áhrifasvæði okkar. Við sem áttum rétt á því að vera stolt. Nú hafa herforingjar okkar tapað og senda óbreytta embættismenn upp í járnbrautavagnana með útsendurum Bandamanna til að undirrita smánarlega friðarsamninga þar sem þjóðinni eru settir afarkostir. Okkar Versalasamningar. Stríðið tapaðist og hugmyndafræðin sem bar það uppi líka. Herforingjarnir eru farnir í útlegð. Þjóðin er eins og sprungin blaðra.

Þá grípa menn í haldreipi. Það er ákaflega mikilvægt að þau haldreipi séu til uppbyggingar góðu samfélagi þar sem gagnrýnin skoðun, siðferðileg heilindi og víðsýni eru höfð að leiðarljósi. Til þess þurfum við að kynna hugmyndir, viðhorf og sjónarmið. Nú þegar nýjar bækur koma út margar á dag og höfuðútgáfutíminn fer í hönd verða sögur og fræði einu leiðsögumennirnir sem við getum treyst til að leiða okkur ekki fram af brúninni.

Allt orkar nú á okkur sterkar en fyrr, við erum vitrari, næmari. Við erum tilbúin að læra. Starx skynjar maður þetta í tali við fólk. Það les öðru vísi en áður, það er til í að túlka og tala, kryfja hlutina og vill sækja sér upplýsingar til að skilja betur. Við lítum til baka og sjáum að það er eins og við höfum verið í transi, leidd áfram af draumum. Nú er tímabili draumanna lokið. Nú er allt sem á vetrarmorgni: Skýrt og klárt. Nú er kominn tími fyrir haldreipi sem við vefum sjálf. Tími til að lesa. 


Síðustu bjartsýnisljóð

Bjartsýnin vefst nú fyrir mér og þér eins og bögglað roð

eins og skorpið og skrælnað roð

á síðkvöldum og snemma nætur ...

 

Alltjent megum við vita: að bjartsýnisafglaparnir eru vorkunnar verðir,

og þó afglapar séu fá þeir sjálfir að súpa seyðið af óvizku sinni;

 

blindan stoðar þá aðeins um sinn,

árátta sjálfsblekkingarinnar býr þeim

eyðilegan næturstað.

 

Því að ótíðindin skella á þeim að lokum, ótíðindin

sem endanleg niðurstaða: slys og ósigur,

svívirðan, auðmýkingin og hneykslið mikla.

 

Hrós á því skilið sá sem segir:

„ég hef ekki ævinlega kjark til að hugsa um morgundaginn",

vegsömum grandvarleik og vizku þess manns!

En engu að síður:

engu að síður kann hann að ganga ótrauður út í morguninn

eftir þvílíka nótt.

 

Sigfús Daðason


Endurkoma Ríkisins

Á einni helgi þurrkuðust út völd fjármálastéttarinnar. Stjórnmálamenn hafa aftur fengið völdin. Þjóðin er ringluð og ráðþrota og fólk er næstum því með óráði, það er Untergangsstimmung í loftinu, síðustu dagarnir í byrginu, Rússarnir eru aðeins 12 kílómetra frá miðborginni, sprengjunum rignir.

Allir mæna til stjórnmálamannanna um leiðsögn en þeir virðast ekki enn hafa áttað sig á því að þeir eru aðalgaurarnir. Þeir eru í hinni fullkomnu aðstöðu hins raunverulega valdamanns. Hann getur haft algera stjórn á lýð sem veit ekki sitt rjúkandi ráð en mænir vonaraugum til Valdsins. En enn virðist ekki nema einn maður hafa áttað sig á tækifærinu: Davíð Oddsson. Í ríkisstjórninni virðist ekki vera einn maður eða kona sem hefur raunverulega tilfnningu fyrir valdinu og hvað í því felst. Hefur virkilega enginn lesið Machiavelli? Sú "fortuna" sem þeim nú fellur í skaut geta þau nýtt til að treysta völd sín, hafi þau það minskunnarleysi sem þarf,  það "virtú" sem skiptir máli. En maður sér þess því miður ekki stað í fari stjórnmálastéttarinnar. Það er eins og hún sakni þess að vera afgreiðslustöð fyrir bankana.

Machiavelli sagði um lukkuna: hana verður að berja til hlýðni og hún elskar þá ungu og djörfu. Nú er hún horfin frá þeim sem eitt sinn voru djarfir og komin til stjórnmálamannanna að nýju. Þá er gott að hafa í huga: "Sia meglio essere impetuoso che respettivo".

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband