Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Enginn er óhultur

Á annan í jólum fór ég í gönguferð upp á Hengil, nánar tiltekið á Skeggja, þar sem Hengillinn kemst lengst frá sjávarmáli. Það gekk á með éljum þarna uppi og þoka svo fín ísskán lagðist á grjót og menn. Ekki mikill snjór en hjarn og ís undir og dásamlegt broddafæri.

Þegar upp var komið leituðum við að gestabókarhylkinu sem er þarna í grjóthrúgaldi. Þetta er vel gerður hólkur úr ryðfríu stáli en nú brá svo við að engin gestabók var í hylkinu. Aðeins eitt nafnspjald. Raunar ekkert venjulegt nafnspjald, heldur nafnspjald manns sem titlar sig "Economist" og það var plastað. Því var ætlað að þola vind og veðurbreytingar. Þessi maður kynnti sig á ensku og íslensku og sagðist starfsmaður Askar Capital, fjármálaundurs og síðasta stórvirkis útrásarinnar sem Tryggvi Þór Herbertsson, maðurinn sem hvíslaði góðum ráðum að Geir Haarde á síðustu andartökum góðærisins, kom á koppinn með peningum Wernersystkina. Þótt fátt heyrist af þessu fyrirtæki opinberlega mun það að sögn kunnugra ramba á barmi hrunsins.

Óneitanlega þótti þetta undarlegt og einhverjum varð á orði: "Stálu þeir meira að segja gestabókinni?!"

Við ætlum að komast að því hvort nafnspjöld leynist í fleiri hylkjum á fjöllum í nágrenni Reykjavíkur og hafi komið í staðinn fyrir gestabækur sem nú  brenna vísast í eignasöfnum fallítt fyrirtækja. Eða eru kannski grafnar í kistu á strönd Tortuga.


Ekki uppseld ... bara búin

Flora Islandica, hátíðarútgáfa flóruteikninga Eggerts Péturssonar, hefur fengið afar vinsamlegar viðtökur. Bókin er gefin út í 500 tölusettum og árituðum eintökum, en því miður komu aðeins 100 eintök til landsins fyrir jólin með flugsendingu, hin 400 eintökin eru á leiðinni í skipi. Ætli þau séu ekki á slóðum sjóræningja á Adenflóa eins og stendur.

Þessi fyrstu 100 eintök hurfu á þremur dögum. Fyrsta sending er algerlega uppseld. En það verða til bækur um miðjan janúar og því erum við hjá Crymogeu búin að gefa út gjafakort sem hægt er að kaupa og eru ígildi bókar. Eigendum verða síðan afhent eintök um leið og þau berast til landsins.

Fréttablaðið sló því upp í fyrirsögn að bókin væri "uppseld", en það er sum sé ekki allskostar rétt, enda kom annað á daginn þegar maður síðan las fréttina. Þarna var hið klassíska misræmi fréttar og fyrirsagnar á ferðinni. Enn eru til um 340 eintök og hægt að panta þau, fá gjafakort og innheimta síðan, eða þá bara skrifa sig fyrir eintaki. crymogea@crymogea.is eða í síma 8997839.

Bókin verður til sýnis í Iðu í Lækjargötu fram á aðfangadag en einnig er hægt að bera hana augum, þó ekki fletta, í glerkassa í versluninni Leonard í Kringlunni, en þar er lika til sölu hjartaarfamenið sem Eggert teiknaði en Sif Jakobs smíðaði og útfærði. Að sjálfsögðu er bókin opin á hjartaarfanum og þar hangir líka málverk Eggerts af hjartaarfa, þannig að þarna í Leonard gefst í raun magnað tækifæri til að virða fyrir sér þróun mótvís hjá sama listamanni, allt frá teikningu sem gerð er árið 1982 til málverks sem unnið er á síðustu árum til teikninga sem sýna hugmyndina á bak við skartgripinn.

FLORA ISLANDS

 


Best seldu bækurnar

Á miðvikudögum birtast bóksölulistar Morgunblaðs og Eymundssonar. Listarnir í dag eru "stóru listarnir", þeir sem gefa gleggsta mynd af þróuninni og sýna um leið hvert straumurinn liggur síðustu söludagana, en nú eru 6 söludagar eftir, stór helgi og svo mjög stórir dagar á mánudag og þriðjudag næstu viku.

Fyrir viku síðan virtist markaðshlutdeild forlaganna, annarra en hins stóra Forlags, vera að þynnast út, því alls skiptu 18 forlög 25 sætum á milli sín. Þetta breytist nú nokkuð. Forlög á borð við Hóla og Æskuna koma nú inn með ákveðnari hætti, enda gefa þau saman út megnið af ævisöguflóru ársins. Það hefði einfaldlega verið undarlegt ef enginn þessara bóka hefði náð að komast inn á ævisagnalistann. Hins vegar nær engin ævisaga inn á lista 10 mest seldu bókanna, sem segir sitt um þann mikla þunga sem er á skáldverkunum þessi jólin.

Hlutdeild forlaganna í 50 bóka listum og 5 flokkum Mbl. listans er svona:

  • Forlagið 25
  • Bjartur/Veröld 4
  • Hólar 3
  • Hagkaup 2
  • Salka 2
  • Tindur 2
  • Ugla 2
  • Æskan 2
  • Dimma 1
  • Edda 1
  • EXPO 1
  • Nói-Síríus 1
  • Sjómannadagsráð 1
  • Sögur 1
  • Uppheimar 1
  • Útkall 1

Forlagið heldur sinni stöðu. Ber raunar höfuð og herðar yfir aðra á skáldsagna- og barnabókalista en á einnig sína hlutdeild í almenna listanum og ævisagnalistanum, alls 3 titla á báðum. Þar eiga önnur forlög hins vegar leik, sem og stórmarkaðirnir og fyrirtækin, en slík útgáfa er svo sem engin nýjung, en er áberandi þessi jólin. Fyrirtæki eða aðliar sem stunda annars konar starfsemi en bókaútgáfu eiga 5 titla á listunum þessi jólin.

Þessi þróun er áhugaverð. Þegar smásalinn gefur út bók sem hann selur í samkeppni við aðra vöru hlýtur að halla á "útlendingana". Það er því á mörkunum að bók Nóatúns, Veisluuppskriftir Nóatúns, uppfylli það sem stendur í haus Bóksölulistans, að hann skuli ná yfir bækur sem eru "í almennri dreifingu". Hún er nú komin í hinar Kaupássbúðirnar, en ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að salan hafi í upphafi verið einskonar "forlagssala", þ.e. öll salan var skrifuð út úr Nóatúni á Selfossi, og þótt Sunnlendingar séu bókelskir er erfitt að sjá að þeir hafi keypt mörg þúsund eintök á einni viku af Veisluuppskriftum Nóatúns. Forlög eru ekki með sína heimasölu inni á listunum, sem er þó talsverð, og því skýtur þetta skökku við.

Yfirburðir Forlagsins algerir. Það munar 21 sæti á þeim og næsta forlagi, Bjarti/Veröld. Forlagsflóra okkar er stödd á milli mjög öflugs og stórs útgefanda sem forvaltar megnið af andans auði okkar samtíma og svo Haga, Kaupáss og Nóa-Síríuss og annarra slikra sem hasla sér nú völl sem útgefendur. Spurning næstu missera er hvernig framtíð þeirra sem eru á þessu bili getur litið út, hvernig verður best að marka sér áherslur og finna sína viðskiptavini.

 


Enginn er spámaður ...

Sigurður Gylfi Magnússon, ofursagnfræðingur, skrifar mjög skemmtilegan og ítarlegan ritdóm um bókina Skuggamyndir úr ferðalagi eftir Óskar Árna Óskarsson á kistan.is.

Þar segir hann:

"Ég get fullyrt að það [Skuggamyndir úr ferðalagi] verður hvorki tilnefnt né vinni til bókmenntaverðlaunanna í ár. Til þess er það alltof áhugavert og – það sem mest er um vert – hnitmiðað."

Nú þegar búið er að tilnefna bókina til Íslensku bókmenntaverðlaunanna hlýtur næsta skrefið í hinum öfuga spádómi að vera að Óskar Árni fái bókmenntaverðlaunin, eða hvað?


Bjart er yfir bóksölum

Í morgun var skemmtilegt viðtal við Bryndísi Loftsdóttur, vörustjóra íslenskra bóka hjá Eymundsson, í morgunfréttum RÚV. Þar staðfesti hún það sem hefur verið að teiknast upp að undanförnu: Bóksala er góð, en allra best er hún í íslenskum skáldskap.

Það er sum sé bjart yfir bóksölunni.

En hverjir eru það þá sem njóta einkum ávaxtanna af góðri bóksölu? Ef marka má Bryndísi eru það útgefendur íslenskra skáldsagna og glæpasagna fyrir börn og fullorðna. Það er breiður hópur útgefenda sem gefur út slíkt, en þar ber langmest á hinu stóra Forlagi, síðan á Bjarti/Veröld og síðan hafa ákveðnir titlar annarra útgefenda verið sterkir í umræðunni: Taka má sem dæmi Land tækifæranna eftir Ævar Örn Jósefsson, Fluga á vegg eftir Ólaf Hauk Símonarson, Sólkross eftir Óttar Martin Norðfjörð og Hvar er systir mín? eftir Eyrúnu Ýr Tryggvadóttur. Mest ber á titlum eins og Myrká Arnaldar, Auðn Yrsu, Ofsa Einars Kárasonar, Vetrarsól Auðar Jónsdóttur, Ódáðahrauni Stefáns Mána og 10 ráðum til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp eftir Hallgrím Helgason, Skaparanum eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Rökkurbýsnum Sjóns.

En hvernig er ástandið í öðrum deildum?

Það kemur síst minna út af ævisögum fyrir þessi jól en áður. Af þeim virðist hafa fjórar hafi markað sér sérstöðu hvað varðar sölu og umtal: Saga af forseta eftir Guðjón Friðriksson, Magnea eftir Sigmund Erni Rúnarsson, Ég skal vera Grýla eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur og Ég hef nú sjaldan verið algild - saga Önnu á Hesteyri eftir Rannveigu Þórhallsdóttur, en ég held að ekki sé á neinn hallað þegar því er haldið fram að hún sé óvenjulegasta og frumlegasta metsölubók jólanna. Hins vegar er "stemmningin" í kringum ævisögurnar ekki sú sama og í kringum skáldsögurnar. Um þær er minna talað og þær ná ekki sömu hæðum á almenna sölulista Mbl. og skáldsögur og barnabækur.

Langstærsti flokkur útgefinna bóka á Íslandi er "almenn nonfiksjón", "bækur almenns efnis". Þar er mikil gróska í matreiðslubókum. Raunar er sá flokkur athyglisverðastur frá sjónarmiði vöruþróunar bókarinnar. Mest hugkvæmnin í framsetningu í bókarformi er lögð í þessar bækur sem og vinna við útfærslu og frágang. Ákaflega margar frambærilegar bækur koma út í ár og það er að skila sér í umtali og viðhorfum fólks. Hvort sem það eru risabækur eins og Silfurskeiðin eða standardar eins og Af bestu lyst 3 eða þá persónulegar bækur á borð við Náttúran sér um sína eftir Rúnar Marvinsson, þetta eru allt mjög athyglisverðir titlar. Hins vegar eru best seldu bækurnar í þessum flokki enn sem fyrr Útkallsbækur Óttars Sveinssonar, það virðist vera viss passi hver jól.

Almennt staðfesta útgefendur það sem bóksalinn Bryndís sagði í morgun. Salan er góð, en best er hún í ákveðnum flokkum, og þar er raunar mikil aukning. Nú er ein og hálf vika eftir af vertíðinni og síðasti stóri sölulistinn verður birtur nú á miðvikudag. Þar með er vertíðin teiknuð upp. Í augnablikinu lítur út fyrir að þetta verði ár íslensks skáldskapar, einkum íslensks lausamáls, ár skáldsögunnar.


Mest seldu bækurnar

Í dag var birtur metsölulisti Morgunblaðsins. Enn á eftir að birta mikilvægasta listann sem kemur í næstu viku, þann lista sem helst mælir bóksöluna. Niðurstaðan af listanum í dag kemur svo sem ekkert á óvart, en er samt athyglisverð fyrir margra hluta sakir.

Í fyrra var Forlagið með 25 bækur á lokalistanum. Í þessum fyrsta desemberlista eru þær einnig 25. Miðað við að Forlagið er með 7 af 10 bókum á aðallista hefði ég haldið að þetta væru fleiri bækur, en svo er ekki. Þar munar um að Forlagið er ekki sterkt á ljóðalista og lista yfir almennar bækur, en ríkir yfir skáldsögum og barnabókum. Á sama tíma í fyrra voru Bjartur/Veröld með 7 titla á listunum en eru nú með 4, Salka var með 3 en er nú með 2. Útkall heldur sínu striki því Útkallsbókin - Flóttinn frá Heimaey er í þriðja sæti aðallista. Nokkur áberandi forlög eru ekki með bók á lista: Skrudda, Uppheimar, Opna. 

Hagkaup ársins í ár er Nóatún. Hagkaupsbókin Þú getur eftir Jóhann Inga og Martein Jónsson nær ekki flugi og kemst ekki inn á aðallista. Hins vegar er Matreiðslubók Nóatúns í öðru sæti yfir mest seldu bækurnar.

Niðurstaðan er þessi: Árið 2006 voru 13 forlög á Bóksölulista Mbl., 2007 voru 16 forlög á listanum, í ár eru þau 19. Forlagið er með helminginn. Hitt dreifist á milli 18 forlaga. Í raun eru aðeins Útkall og Bjartur/Veröld með eiginlegar metsölubækur utan Forlagsins, því "Vöruþróunardeild EXPO" er vart útgáfufyrirtæki. Samþjöppun á einum stað leiðir til enn meiri sundgurgreiningar á öðrum. Millistóru forlögin detta milli skips og bryggju. Annað hvort er maður risastór eða mjög sérhæfður. Það virðist vera lexía dagsins.

 


Að redda öxi fyrir aftöku

Við Sölvi Sveinsson stóðum fyrir kynningu á bókinni Einbúinn á amtmannssetrinu eftir Kristmund Bjarnason á Sjávarborg í Þjóðmenningarhúsi í dag. Við skiptum með okkur verkum, Sölvi sagði frá Kristmundi en ég frá bókinni, sem er ævisaga Gríms Jónssonar amtmanns. Síðan lásum við hvor sinn bútinn.

Þarna var sæmileg mæting og góð stemmning. Sölvi gerði grein fyrir ferli Kristmundar sem er nú níræður og ætti ásamt Villa á Brekku að vera seníór þessa jólabókaflóðs. Hann gerði grein fyrir stíl Kristmundar, starfsævi og sagði jafnframt sögur af honum sem fengu marga til að brosa í kampinn, ekki síst sögunni um að Kristmundur hafi gert út Björn á Sveinsstöðum til að afla skjala fyrir Héraðsskjalasafn Skagafjarðar, en því veitti Kristmundur lengi forstöðu. Björn settist þá nánast upp á bændur, át og spjallaði og tafði menn frá verkum þangað til þeir gátu ekki meir og afhentu honum gögnin sem hann var á höttunum eftir. Með þessu móti varð Héraðsskjalasafn Skagafjarðar að stærsta skjalasafni utan Reykjavíkur.

Bókin um einbúann á amtmannssetrinu hefur ekki verið ein þeirra sem mest hefur verið látið með þetta árið. Raunar sýnist mér ekki létt að komast að í fjölmiðlum með kynningar á bókum þessa dagana sökum plássleysis og bækur á borð við þessa líða fyrir það. Hún hefur hins vegar fengið ágætis dóma hér og þar og "ratað til sinna" eins og sagt er.

Allir sem hafa gaman af því að lesa kjarnyrt og safaríkt íslenskt mál ættu að hafa nokkra ánægju af því að lesa þessa bók, auk þess sem hún er mikil heimild um sögu 19. aldarinnar, þótt hún sé kannski ekki endilega stórnýstárleg í framsetningu. Hins vegar er höfundur á engan hátt ógagnrýninn á heimildir sínar. Þvert á móti. Hann er í líflegri samræðu við 19. aldarmenn um hvernig skilja beri þennan konungholla og vandvirka embættismann sem sagt var að Skagfirðingar hefðu drepið með Norðurreiðinni vorið 1848. Grímur verður í frásögn Kristmundar að næstum tragískri fígúru. Örlög hans eru okkur nú á dögum skiljanlegri en þau voru Norðlendingum á fyrstu áratugum 19. aldar. "Fjölmenningarfjölskylda" hans verður honum erfið í skauti uns hann að endingu verður að halda heimili í tveimur löndum. Hann deilir því með nútímafólki að vera í senn staurblankur og geta ekki slegið af kröfum um lúxus og gott líf og deyr skuldugur þrátt fyrir að vera einn hæstlaunaðasti maður landsins.

En það sem er svo magnað við þessa bók og sker hana frá flestu því sem maður les þessa dagana er að Kristmundur skrifar eins og hinn innbyggði lesandi bókarinnar sé algerlega verseraður í 19. öldinni og skilji illrekjanlegar tilvitnanir, vísanir til smáatvika, manna og jafnvel slúðurs á fyrri hluta aldarinnar.  Það er þessi sterki 19. aldar andi í bókinni, þessi fullkomni skilningur á samfélaginu sem skapaði heimildirnar sem hrífur mann mest. Fyrir vikið verður bókin krefjandi, hún krefst innsæis, nánast algerrar einbeitingar svo maður nái utan um þráhyggjur fólksins, skapferli einstakra manna, lausavísur, orðaskak, hneykslismál og vandkvæði jafnt embættismanna sem smábænda. Að maður komi sér í algjöran 19. aldar gír.

Ég las í dag upp smá bút sem mér fannst birta þetta ljóslega. Þar er fjallað um aftöku Friðriks og Agnesar og um þau fjallað þannig að allir viti hvað átt er við, en sjónarhornið dvelur við praktísk úrlausnarefni amtmannsins. Til að mynda verður hann að útvega öxi og höggstokk. Kristmundur rekur í smáatriðum hvað varð svo um öxina, vandkvæði við að flytja vopnið frá aftökustað í Vatnsdalshólum norður að Möðruvöllum og vitnar í bréf amtmanns þar sem hann lýsir aðstæðum á aftökustað 12. janúar 1830. Ég helda að yngri sagnfræðingur hefði horft á annað, reynt að draga okkur inn í dramatík aftökunnar eða stefnt að því að setja refsinguna í samhengi við valdaformgerðir samfélagsins. Hjá Kristmundi er ekkert slíkt. Fyrir vikið verður frásögnin sjálf sérkennilega nakin og hrífandi.


Dýrasta bók jólabókaflóðsins

Flora Islandica, heildarsafn teikninga Eggerts Péturssonar af íslenskri flóru, er nú til sýnis í Iðu í Lækjargötu og hefur vakið gríðarleg viðbrögð ef marka má fyrirspurnir og pantanir sem borist hafa um helgina. Bókina má panta á netfanginu crymogea@crymogea.is

Stöð 2 fjallaði um bókina í kvöldfréttum sunnudaginn 7. desember undir fyrirsögninni "Dýrasta jólabókin í ár kostar 75.000 krónur". Fréttakonan, Guðný Helga, flettir bókinni og fjallar um hana. Hún er hrifin af orðinu "háplöntur". Hér er fréttin eins og hún birtist á visir.is

Dýrasta jólabókin í ár kostar 75.000 krónur

mynd
Bókin fæst ekki í bókabúðum.

Dýrasta jólabókin í ár kostar 75.000 krónur. Hún fæst ekki í bókabúðum en verður til sýnis í nokkra daga nú fyrir jól.

Bókin Flora Islandica verður til sýnis í nokkra daga í bókaversluninni Iðu í Lækjargötu. Um er að ræða heildarútgáfu á teikningum Eggerts Péturssonar myndlistarmanns af íslenskum háplöntum sem hann vann í upphafi ferils síns fyrir bókina Íslensk Flóra.

Teikningunum er raðað í grasafræðilegri röð og hverri teikningu fylgir texti Ágústs H. Bjarnasonar um viðkomandi háplöntu. Myndirnar hafa aldrei fyrr verið sýndar í sinni réttu stærð en teikningarnar sýna 271 háplöntu íslensku flórunnar í raunstærð.

Bókin kostar 75.000 krónur og fæst ekki í bókabúðum. Aðeins er hægt að nálgast hana hjá útgefanda og verður hún afhent kaupendum 17. desember næstkomandi.



Lesarinn

Því miður er stundum eins og allt sem gerist, gerist í sápukúlu og að sápukúlurnar snertist aldrei. Frétt um átök Kate Winslet, þeirrar góðu leikkonu, við hlutverk Hönnu í Lesaranum, er slík mónadafrétt. "The Reader" er nefnilega kvikmyndaaðlögun skáldsögunnar Lesarinn eftir Bernhard Schlink, einhverrar vinsælustu skáldsögu síuðust ára. Bókin var margföld metsölubók í Þýskalandi en öðlaðist heimsfrægð þegar hún varð fyrsta sagan sem Ophru Winfrey bókaklúbburinn sendi upp á himinhvolfið.

Lesarinn kom upphaflega út í íslenskri snilldarþýðingu Artúrs Björgvins Bollasonar árið 1998 og var seinna endurútgefinn í kilju. Bernhard Schlink, lögfræðingur sem ritar bækur í hjáverkum, hefur haldað áfram á þessari braut og er enn feykivinsæll höfundur á þýska málsvæðinu.

Og nú er loksins komin kvikmynd. Ég vona að hún fái að heita Lesarinn á íslensku en ekki The Reader.


mbl.is Winslet í hlutverki fangavarðar nasista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókmenntaverðlaunin og listin að elska þau

Man einhver til þess að tilnefningar til Edduverðlauna veki blaðadeilur? Ráðast leiklistargagnrýendur að Grímuverðlaununum og heimta að þau verði ýmist lögð niður, að þau verði algerlega stokkuð upp eða kalli þau "samkvæmisleik"? Ekki minnist ég þess, en þetta eru hins vegar standardviðbrögð við tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Það er ekki langt síðan hreyfing var í mótun sem vildi stofna "and"-bókmenntaverðlaun. Búnir voru á sínum tíma til "and"-tilnefningamiðar og hvað eftir annað heyrast raddir um róttæka uppstokkun verðlaunanna. Í dag reið þessi ritúalíska mótbárualda yfir, þó með þeim varnagla að fólk var þrátt fyrir allt nokkuð sátt við tilnefningar í flokki skáldverka. Úlfhildur Dagsdóttir sagði álit sitt í hádegisfréttum RÚV og síðan Kolbrún Berþórsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson í Kiljunni í kvöld.

Enn og aftur sést hve furðulegt þetta er í samanburði við aðrar listgreinar. Sæi maður fyrir sér að nokkrir myndlistargagnrýnendur sætu saman í sjónvarpssal eftir Sjónlistarverðlaunin og ræddu hversu fánýt þessi verðlaun væru almennt, að þau væru ekki rétt sett upp og að þeir sem þau hefðu fengið væru að fá þau á hæpnum forsendum. Þetta er einfaldlega óhugsandi. Hvað þá hin gleðiríku Edduverðlaun. Ég hef engan séð gagnrýna þau nema eilífðargagnrýnandann Maríu Kristjánsdóttur, sem aldrei gefur tommu eftir í nokkru máli. Ekki einu sinni þegar hún heldur uppi merki Hugo Chavezar.

Listin að elska bókmenntaverðlaunin flest hins vegar i eftirfarandi: Við höfum mjög fáar hefðir til að styðja okkur við í menningarlífi okkar. Verðlaun og viðurkenningar eiga sér flest mjög skamma sögu. Bókmenntaverðlaunin hafa skrimt í 20 ár. Það er einstakt í okkar samhengi. Oft hefur verið rætt um bað breyta þeim, í góðærinu kom jafnvel til greina að fá "styrktaraðila" og hækka verðlaunaféð. Það þótti hins vegar ekki alfarið góð hugmynd vegna þess að menn sögu: En, hvað ef þeir bregðast? Nú sér held ég enginn eftir því að hafa ekki fengið "styrktaraðila". Félag íslenkra bókaútgefenda stendur eitt og óstutt að verðlaununum. Það fær tilnefninganefndir til að sinna dómnefndarstörfum en skiptir sér annars ekkert af þeirra vinnu. Oddamaður lokadómnefndar er skipaður af forsetaembættinu. Viss festa er á gangvirkinu sem á ekki að hnika mikið til ef menn vilja að verðlaunin lifi í önnur 10 ár, önnur 20. Það held ég að sé gáfulegt og gæfulegt og því eigi þau að vera á vissan hátt íhaldssöm í formi. Ég bendi á Brageprisen í Noregi og Augustprisen í Svíðþjóð, helstu bókmenntaverðlaun þessara tveggja landa, eru líkt upp byggð og þar eru aðeins þrír verðlaunaflokkar, menn hafa bætt við barnabókum, sem ég tel raunar æskilegt að gera hér einnig í fyllingu tímans. En festa er lykilorðið og sannast sagna hefur tryggð við fastan grunn tryggt að verðlaunin lifa af jafnt góðæri sem kreppu, og það er ekki sjálfgefið.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband