Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Það verður tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna næstkomandi þriðjudag, 2. desember. Spennan er einkum í flokki fagurbókmennta þar sem mjög margir af okkar fremstu höfundum senda frá sér skáldverk í ár.

Tilnefningaathöfnin fer fram á Háskólatorgi sem er nýjung þar sem tilnefningaathöfnin hefur verið bundin við sjónvarpssal um langt árabil. Nú breytir Félag íslenskra bókaútgefenda hins vegar til og verður spennandi að sjá hvernig það virkar.

Hvet alla áhugamenn um bækur og bókmenntir til að fylgjast með.  

 


Gagnsiðbótin

Gagnsiðbótin er hafin. Páfabulla hefur verið send út að undirlagi róttækra ungkardínála frjálshyggnu kirkjunnar sem una lausunginni ekki lengur. Ef allt á ekki í barbarísku að detta verður að koma til öflugt kirkjuþing í HR sem ályktar þegar í stað um takmarkanir á tjáningarfrelsi, eindregna hefðartúlkun á hugtökum í stjórnmálum og stjórnskipan og útilokun og þöggun siðbótarhópa á borð við femínista, krútt og öryrkja. Trúvillingum sem tekist hefur með djöfullegri slægð að villa á sér heimildir og komast inn í Collegium Libertinum með andborgaralegt ráðabrugg í huga beri að vísa umsvifalaust á dyr og excomúníkera láti þeir ekki segjast.

Á Snjáldurskjóðunni sjást þeir koma þeysandi úr öllum fjórðungum hins mikla andlega veldis, reiðubúnir að sverja páfa sínum trúnaðareiða um að fyrr skuli þeir farast en sjá veldi kirkjunnar steypast í gerningarveðri lausungarinnar. 

Á meðan þegir rektor kollegísins þunnu hljóði. Sjálfsagt upptekinn við að skrifa nýja bullu: Contra hostes imagorum islandorum.

Kannski hið nýja kirkjuþing ungfrjálshygginga gangi nú sjálfviljugt til liðs við sérsveitir lögreglunnar? Munum '49! Munum Varið land!

Þegar ég taldi síðast voru meðlimir "Áskorunar gegn Áskorun á Háskólann í Reykjavík" tvöfalt fleiri en meðlimir "Áskorunar á Háskólann í Reykjavík."

Contra-Contra Reformation skæruliðarnir voru fleiri en Contrarnir og er þó líklegast búið að opna leynireikning til að styðja hina síðarnefndu, fjármagnaður með sölu á gömlum byggingarkrönum og búkollum til Írans.


Meiri bóksala en í fyrra?

Það er víst ekki hægt að bera saman epli og appelsínur og bókamarkaðurinn er aldrei eins ár frá ári, en sé miðað við orð útgefenda virðist bóksala vera ívið meiri en í fyrra á sama tíma. Við fáum hvarvetna meldingar um að fólki finnist verð á bókum vera ótrúlega lágt. Það liggi beint við að gefa bækur í jólagjöf.

En þetta er merkilegt, mitt í kreppunni, að fá svona fréttir. Ég hafði vonað að bókin myndi ekki missa mikla markaðshlutdeild, en að bóksala myndi aukast, það datt manni eiginlega ekki í hug.

 

 


Ofmælt um Jón Ásgeir

Mér var bent á í dag að Eyjan hefði vitnað í litla sögu sem ég sagði hér á blogginu um bók sem John Blake hefur haft í bígerð um árabil um Jón Ásgeir Jóhannesson. Þegar ég skoðaði fréttina sá ég að Eyjan hafði nokkuð hert á áherslum og fullyrðir að málaferli eða hótanir um málaferli komi í veg fyrir útgáfu bókarinnar.

Þetta er ekki rétt, þótt ég viti jafnframt að það hljómi betur.

Samkvæmt því sem mér var tjáð af þeim djörfu ævisagnaframleiðndum hjá John Blake sjá þau ekki ástæðu til að gefa bókina út á meðan lögfræðingar Jóns Ásgeirs hafa ekki lýst sig ánægða með það sem þar stendur. Þeim þótti það einfaldlega ekki taka því að gefa bókina út og hætta svo á eitthvert vesen fyrir kannski nokkur þúsund eintök. Tekjur af sölu hefðu einfaldlega ekki réttlætt slíkt havarí.

Ég get í það minnsta ekki fullyrt að nokkur hafi hótað málsókn vegna útgáfu bókarinnar. Einfaldast er náttúrlega bara að hringja í John Blake sjálfan á mánudaginn og spyrja.

Maður verður að gæta sín í návist viðkvæmninnar og hinna sköruglegu riddara sem vilja gjarnan veifa lensunni að stórhertogum útrásarinnar.


Árásin á Bastilluna við Hverfisgötu

Ég hafði ekki ætlað mér að fara niður í bæ í dag, heldur baka laufabrauð, en það varð úr á endanum að við pápi lögðum frá okkur skurðarjárnin og brugðum okkur á Austurvöll að skoða mótmælin.

Ég var þarna líka um síðustu helgi og þá fannst mér vera létt stemmning í loftinu. Bjartsýn og umbótaglöð. Maður hitti ótrúlegasta fólk og leið eins og á Þorláksmessukvöldi. Eins og aðfangadagur væri að renna upp. Viðar Þorsteinsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Andri Snær Magnason voru öll með mjög fínar ræður, eða það sem maður heyrði af þeim, því hátalarakerfin voru ekki gerð fyrir mannfjöldann. Mest heyrði ég til Viðars sem kom mér á óvart, þeas það kom mér ekki á óvart að hann væri rökfastur og andkapítalískur, heldur að hann flutti mál sitt mjög sköruglega og með nokkrum tilþrifum. "Nú er pólískt lofttæmi að myndast, kannski er lag fyrir menn eins og hann?" hugsaði ég með mér. Maður vissi svo sem að auðvitað myndi ekkert breytast næstu vikuna , en manni fannst fólk upplifa sig sem gerendur, að það væri í það minnsta að koma einhverju verk, fremur en bara harma sinn hlut.

Í dag var búið að bæta hljóðkerfismálin en stemmningin var niðurdrepandi og þunglyndisleg. Það ýrði úr lofti og svörðurinn á Austurvelli spændist upp og varð að svaði. Ræðurnar voru ýmist örvæntingarfulllar eða hreinlega deprímerandi misheppnaðar. Enginn sem tók til máls hitti á rétta tóninn þrátt fyrir að peppkórinn reyndi hvað hann gat. Við fórum að skoða tómatagengið við Alþingishúsið. Þar voru einhver grey að spandera rándýru grænmeti, vonandi þó ekki innfluttu, á blágrýtið undir vökulu fjölmiðlaauga. Þetta var ekki alvöru. Þetta var bara sviðsetning fyrir myndavélar. Fólk kastaði eins og aular, með hálfum huga og næstum eins og til að prófa, þunglyndislega.

Getur þetta gengið svona áfram? Laugardag eftir laugardag? Er endurtekningin og hið einarða neitunarvald á hinum endanum ekki að hafa það af að kæfa þessa mótmælaglóð?  Samfylkingarfólk hefur uppnefnt þá Geir, Davíð og Árna "hið þrískipta neitunarvald" en svo virðist sem ISG hafi bæst í þann hóp og sé nú orðin "fjórða neitunarvaldið". Ekkert á að gera. En auðvitað að að hlusta á almenning. Það á að taka Groundhoug Day á málið.

Jón Kaldal lýsti því vel um daginn í Fréttalbaðsleiðara að við værum föst í Groundhoug Day. Alltaf sami dagurinn og engin útleið úr svífandi ástandi aðgerðarleysisins. Í myndinni fer Phil Connor (Bill Murray) í gegnum mörg stig þunglyndis uns hann nær að sætta sig við endurtekninguna. Eftir upphaflega undrun og gleði yfir að lifa alltaf sama daginn aftur og aftur kemur tímabil geðdeyfðar, loks sjálfsmorðshneigðar sem ekkert leiðir því endurtekningin þýðir að hann er ódauðlegur. Að lokum brotna hlekkir endurtekningarinnar fyrir tilstilli ástarinnar. Veturinn getur loks haldið áfram. Þau Bill og Andie McDowell kyssast og allt er gott.

Það varð eitthvað að gerast. Þegar Hörður Torfa hrópaði að það yrði að mótmæla á Hverfisgötu skildi ég hann ekki. Af hverju Hverfisgötu? En svo sá maður það í kvöldfréttunum. Liðð marseraði upp brekkuna úr Kvosinni og að Rauðará til að frelsa bandingjann úr "klóm fastistanna". Árásin á Bastilluna líkist hins vegar meira hinum dæmigerðu árásum sem ég man eftir úr æsku minni þegar fullir unglingar og æsingamenn af eldri kynslóð gerðu aðsúg að löggustöðinni á Króknum á gamlárskvöld. Slíkar árasir voru áratugum saman standardar á efnisskrá áramóta og þrettánda víða um land, þar á meðal í Reykjavík. Halldór Laxness taldi þessar óspektir skýrt dæmi um ömurlega firringu unglinga af nýríkri borgarastétt eftirstríðsáranna. Um 1980 kom til gríðarlegra óspekta á Selfossi og Ölfusárbrúnni var lokað klukkustundum saman af unglingum. Hvað eftir annað voru gerðar árásir á lögreglumenn og lögrelgustöðvar í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, Sauðárkróki og Selfossi um áramót og þrettánda. Síðan hurfu þessar óspektir bara einn daginn. Enginn veit af hverju þær komu og af hverju þær hættu.

Þetta voru þunglyndisleg mótmæli vegna þess að þau eru föst í endurtekningunni. Groundhoug Day. Ekkert virðist geta greitt úr stöðunni. Áhrifaleysi mótmælendanna er algert, en um leið er mikill ótti við að mótmælin fari úr böndunum, að eitthvað gerist. Því varð eitthvað að gerast. Það er erfitt að segja hvert leiðin liggur nú. En ef jafn ömurleg stemmning verður á Austurvelli næsta laugardag og ef kröfurnar og hrópin hafa jafn lítið að segja og nú verður þörfin fyrir að drepa óánægjuna úr dróma enn ríkari.

En vonandi sjá menn hversu atburðir dagsins voru fáránlegir. Stendur löggan fyrir efnahagshruninu? Kommon. Stefán Eiríksson og Geir Jón stunduðu ekki flókin afleiðuviðskipti eða nýttu sér rúmar heimildir löggjafar Evrópska efnahagssvæðisins til að stofna til innlánsviðskipta í Evrópulöndum. Mótmælendur eru að komast hægt og rólega á sjálfsmorðsskeiðið. Bráðum finnst þeim þeir hafa engu að tapa. 


Bókin um Jón Ásgeir

Undanfarið hafa verið birtar litlar smáfréttir hér og þar í fjölmiðlum um bókina um Jón Ásgeir sem aldrei kom út. The Iceman Cometh hét hún undir það síðasta en vinnutitillinn í upphafi var Sex, Lies and Supermarkets. Bókin er margboðað verk sem átti í upphafi að koma út árið 2006 en hefur nú verið slegið á frest af útgáfunni.

Útgáfan, John Blake Publishing, er ekkert venjulegt útgáfufyrirtæki. Þetta er lítið forlag sem sérhæfir sig í að gefa út sögu fræga fólksins og semifræga fólksins og hefur fitnað mikið á þeirri verðbólgu stjörnukerfanna sem einkennt hefur Bretland á undanförnum árum. Það virðist stundum sem nærri hver einasti þátttakandi í Big Brother hafi gefið út ævisögu, og þótt aðeins hafi dregið úr þessu gríðarlega flóði, er enn mikið gefið út af óskiljanlegum gerviævisögum sem himinháar réttindagreiðslur er lagðar út fyrir. Síðustu tvö árin hefur magnið verið yfirgengilegt og mörg forlög hafa tapað miklu á þessu.

Ég heyrði fyrst af þessari bók árið 2005. Það ár átti John Blake eina söluhæstu bók á breskum bókamarkaði fyrr og síðar, bók sem margir segja að hafi einmitt verið aflmótor celebrity ævisögumarkaðarins, fyrra bindi af sögu Jordan, Being Jordan. Mér fannst þetta athyglisvert og setti mig í samband við fólkið hjá John Blake og heyri í þeim alltaf annað slagið, síðast nú síðla sumars.

Samkvæmt þeim er það lögfræðingahjörð Jóns Ásgeirs sem stoppar bókina og þau segjast ekki nenna að fara með hana lengra, það sé einfaldlega allt stopp. En þau segja jafnframt að þetta sé í eina skiptið sem þau hafi lent í vandræðum með útgáfubækur sínar, og kalla þau ekki allt ömmu sína í því sambandi. Eitt sinn komu upp vandræði þegar maður var rifinn út úr skápnum í óopinberri ævisögu, og þau voru knúin til að lýsa því yfir að hann væri "ekki hommi" sem náttúrlega var fyrst og fremst kómískt. En þau segjast aldrei hafa kynnst annarri eins hörku og pressu og frá lögmönnum Jóns Ásgeirs. Þau segja að lætin geri það að verkum að ekki sé hægt að draga aðra ályktun en þá að maðurinn sé annað hvort meiriháttar viðkvæmur eða hafi eitthvað stórkostlegt að fela. "Þetta fólk virðist ekki skilja leikreglur frjálsrar miðlunar," sagði einn starfsmannanna við mig á bókamessunni í London síðastliðið vor.

Ég sagði á móti að ég skildi ekki áhuga þeirra á Jóni Ásgeiri. Af hverju að gefa út bók um hann í Bretlandi? Því svaraði síðan blaðamaður The Times sem kom hingað til lands um svipað leyti: "Við viljum vita þegar Jón Ásgeir, gengur yfir götu í Reykjavík. Almenningur hefur náin tengsl við fyrirtækin sem hann á og hann á rétt á að vita allt um eigandann."

En hvað þá með okkur Íslendinga?


Á Degi íslenskrar tungu

Við lifum nú einhverja merkilegustu og stormasömustu tíma íslenskrar sögu. Allar helstu fjármálastofnanir landsins, fyrirtæki sem voru táknmyndir fyrir sókndirfsku og hugvit íslensku þjóðarinnar, hafa beðið skipbrot, orðstír Íslands á alþjóðavettvangi er alvarlega laskaður og almenningur býr sig undir að mæta miklum efnahagserfiðleikum. Líkt og önnur fyrirtæki í landinu hafa bókaútgáfur ekki farið varhluta af ástandinu. Erfiðleikar við erlend viðskipti og fjármögnun sem flest íslensk fyrirtæki stríða við gera bókaforlögunum einnig skráveifu.

Ef marka má Bóktíðindi í ár hafa bókaútgefendur engu að síður mikla trú á að þeir eigi hlutverki að gegna á íslenskum neytendamarkaði. Árið 2007 höfðu titlar í Bókatíðindum aldrei verið fleiri, rétt 800 talsins. Þeir eru ívið færri í ár, 760, en samt fleiri en árið 2006 og sé horft áratug aftur í tímann sést að fjölgunin er mikil, árið 1998 voru titlar í Bókatíðindum 418 talsins. Bókaútgáfa stendur því með blóma á Íslandi um þessar mundir. 

Bókaútgáfa er einn elsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Ef landbúnaður og sjávarútvegur eru frátöld stendur engin atvinnustarfsemi í landinu á jafn gömlum grunni. Frá því fyrir miðja sextándu öld hafa Íslendingar hætt fé sínu í því skyni að koma út á þrykk bókum. Fyrst í því skyni að kynna landsmönnum ný viðhorf í byltingarumróti siðbreytingarinnar. Seinna í því skyni að treysta í sessi lúterska guðfræði og enn seinna til að skemmta, fræða og opna nýjar víddir, færa heiminn heim til fólks.

Bókaútgefendur samtímans byggja enn á sama grunninum. Þeir gefa út bækur fyrir íslenskt málsamfélag svo þar fái þrifist frjáls tjáning og öflug skoðanaskipti, sagnagleði og ljóðalist. Það er enginn bilbugur á þeim og ástæðan er einföld: Varan sem þeir senda á markað hefur algera sérstöðu. Enginn getur haldið því fram að hún sé það korn sem fylli mæli íslenskrar efnishyggu. Enginn trúir því að hún æsi upp kaupæði almennings og setji þjóðarhag á slig. Þvert á móti. Allir vita að bókin svarar spurn fólks jafnt eftir andlegri uppbyggingu sem andlegu umróti á tímum þegar allt virðist gert úr vindi. Hafi einhvern tíma verið þörf fyrir að lesa bækur til að skerpa á reiðinni, sefa hugann, skemmta sér á síðkvöldum eða átta sig á sjálfum sér þá er það nú. Nú er tími bókarinnar.

(Aðfaraorð Bókatíðinda 2008)


Ef það væri ekki fyrir Breta, Dani, Svía, Hollendinga, ESB, bandaríska seðlabankann og alla hina helvítis útlendingana ... væri hér allt í blóma

Þjóðernisrembingsrennan sem reynt er að láta reiði og hatur íslensku þjóðarinnar flæða eftir svo hún berji ekki fyrrverandi eigendur bankanna til óbóta og steypi ríkisstjórninni með valdi er svo niðurlægjandi heimskuleg að hún ein nægir sem ástæða til að sækja um vinnu sem trésmiður í Sogni og Mæri.

Hámarki dellunnar náði í dag furðufrétt Morgunblaðsins af einhverju greyi sem Danir voru vondir við af því að hann stímdi upp á sandrif. Blaðamenn Bild og Sun hefðu verið fullsæmdir af þessari undarlegu frásögn af manni sem virtist hafa dottið einsamall ofan úr skýjunum úti í Danaveldi en ekki betur tekist til með lendingu en svo að hann þurfti að skrifa upp á kúgunarbréf frá Baunum til að komast burt. Frásögnin var eins og skopstæling á skopstælingu af Íslandsklukkunni og náði að krækja aftur í stækt Danahatur góðærisáranna þegar greiningarmenn Danske bank voru helstu óvinir "okkar", nema hvað þessir "okkar" voru Jón Ásgeir, Sigurður Einarsson og Nordic Partners, ekki "við". En við erum raunar fyrst núna að fatta þennan aðskilnað.

Allt vonda fólkið í Hollandi sem heimtar aftur peningana sína og miskunnarlausu Bretarnir sem og vondu Danirnir sem klippa íslensk krítarkort eða þá hræðilegi geðlæknirinn sem leyfði sér að hlæja að íslensku hjúkkunum á Ítalíu: Hryllingssögurnar af skipbroti sjálfsmyndar þjóðarinnar eru með slíkum ógnarblæ að manni verður ómótt. Kostuleg lýsing af uppákomu Magnúsar þyrlukóngs úr Eyjum á morgunfundi SA sem vildi ekkert rugl og bara vera harður Íslendingur og láta ekki þessa útlendinga rugla í sér var mjög athyglisverð. Þar átti sveitungi hans Þór Sigfússon meiriháttar innkomu sem ein af örfáum skynsemisröddum landsins í þessum hysteríska brjálæðiskór. Eða vill eigandi Toyota umboðsins að við skilum öllum óþjóðlegu Land Cruiserunum sem óþjóðlega ríka fólkið keypti af honum fyrr á árinu og sendum druslunar aftur með þjósti aftur heim til föðurhúsanna?

Verkefni dagsins er það sama og verkefni Sjálfstæðisflokksins: Að hamra á að við erum einstaklingar og frjáls sem slík. Við erum ekki fangar þjóðernisins. Þótt við tölum íslensku og eigum íslenskt vegabréf eru það hæfileikar okkar, menntun, gildi og mennska sem gerir okkur að því sem við erum. Ég þekki enga bókaútgáfu, þýðanda eða fræðimann í veröldinni sem snýr baki við íslenskri menningu vegna þess að Icesave reikningarnir fást ekki greiddir til baka. Við þurfum ekki á þessari frumstæðu dellu að halda. Ég var á Bókamessunni í Frankfurt í upphafi kreppunnar og taldist til að ég hefði rætt þessa blessuðu kreppu á léttu nótunum við fólk frá Argentínu, Taívan, Suður-Kóreu, Danmörku, Frakklandi .... listinn er ógnarlangur. Allir vissu um hana, við gátum slegið á létta strengi. Svo sneri maður sér að bókmenntum, bókum, hugmyndum ... heimurinn stoppar ekki við Atlantshafið. Við erum óþægilega minnt á það þessa dagana. En við þurfum ekki að skilgreina okkur stöðugt sem eitthvert lið sem líður sálarkvalir fyrir vandræði fjármagnseigenda og ríkisstjórnar. Við erum meira en það. "Við" berum ekki ábyrgð á dellunni. "Við" eigum að hlæja með útlendingunum. Já, við erum á hausnum. Svo miðlum við því sem við kunnum, vitum og getum.

Þessi útlendingafæð gerir endanlega úr okkur aumingja. Það er eins og við höfum ekki aðra sjálfsmynd en þá að vera klinkið í bankahólfum Landsbanka og Kaupþings. Við erum hvert og eitt okkar meira en það. Hættum þessari píslargöngu. Hættum að húðstrýkja okkur sjálf.


Ástandið

Hvernig lítur þetta "ástand" út sem allir eru að tala um? Á morgun ætla ég niður á Austurvöll að forvitnast betur um það. Þetta "ástand" virðist vera einhvers konar andi sem sveimar um, draugur sem gengur ljósum logum um landið og miðin og allir eru helteknir af nema ríkisstjórnin, auðmennirnir, fjármálaeftirlitið og seðlabankastjórnin. Þar fer hin fjórhöfða eining ástandsleysisins.

Vandamálið virðist því vera þetta: "Ástandið" sem maður er að mótmæla án þess að vita nákvæmlega í hverju það felst skilgreinist af andstæðu sinni: Það er ekkert ástand í FME, ríkisstjórn, í ríkamannaklúbbnum og Seðlabanka. Þar er valdastéttin að plotta en almenningur er allur í "ástandinu". Ástandið sem konur voru í á árunum 1940 og fram til stríðsloka er því hlutskipti allra núna. Við erum ástandsbörn. Ef marka má auglýsingar og eldmóðsgreinar Einars Más Guðmundssonar. Sú nýjasta í dag er reyndar ekki ástandsgrein nema að hluta. Að mestu leyti er hún framboðsræða Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs með dæmigerðum pólitískum málskrúðsrósum.

Hvað er þá "ástandið"? Ég er mjög spenntur að sjá það og þess vegna fjölmenni ég á Austurvöll á laugardaginn.


Almannatengsl á 16. öld

Ég held á fyrsta eintaki Bókatíðinda 2008. Það kom úr vélinni hjá Odda í morgun. Bókatíðindin eru mjög stór, raunar eru þetta önnur stærstu Bókatíðindi allra tíma, með um 750 titla á skrá. Þau hafa heldur aldrei verið prentuð í jafn stóru upplagi, 125.000 eintökum.

Í þeim er auglýsing um nýja þýðingu á fyrstu útgefnu bók hins mikla andlega verndara Crymogeu, Arngríms Jónssonar lærða frá Mel í Miðfirði. Þetta er ritið Brevis commentarius de Islandia sem kom út í Kaupmannahöfn árið 1593. Þar tekst Arngrímur á við aðstæður sem okkur eru nú að góðu kunnar:

Ísland er útsett fyrir misskilningi, rangfærslum og níði í erlendum fjölmiðlum. Til að mæta þessari neikvæðu mynd skrifar hann bók eftir bók á latínu og kemur í dreifingu og prent erlendis, fyrst í Kaupmannahöfn en síðan í Hamborg. Markmiðið er að bæta ímynd Íslands á erlendum vettvangi. Í því skyni túlkar Arngrímur sögu landsins upp á nýtt og setur menningu þess og bókmenntir og sögu í nútímalegt samhengi endurreisnarinnar.

Sögufélagið gefur þessa bók út. Hér kynnist fólk því enn og aftur að almennatengsl eru samofin nútímanum. Arngrímur notaði bókaútgáfuna og prentið, sem þá var helsti fjölmiðill heims og notaði helsta samskiptamiðilinn innan fjölmiðlunarinnar, latínuna, til að koma á framfæri hugmyndum um hvernig bæri að skilja ímynd Íslands og þar með sjálfmynd íslensku valdastéttarinnar.

Þetta varð meginverkefni lífs hans. Hann sat á Hólum í nærri 30 ár og sinnti ímyndarkynningu meðfram öðrum störfum, s.s. að reka prentsmiðju, stýra skóla og kennslu og halda utan um rekstur biskupssetursins og ríkja á stólnum sem einskonar skiptaráðandi um hríð. Afraksturinn var sá að í nærri tvær aldir tókst honum að ná merkilegu tangarhaldi á orðræðu útlendinga um Ísland, en ekki síst að byggja upp orðræðu Íslendinga sjálfra um sig. Hugmyndir hans um að íslenska sé elsta tungumál heims eða að Íslendingar séu frjálsbornir menn sem ekki láti kúga sig, eru okkur enn í dag síður en svo framandi. Þær voru hins vegar dæmigerðar endurreisnarhugmyndir.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband