Færsluflokkur: Bækur
21.11.2008 | 12:09
Bókin um Jón Ásgeir
Undanfarið hafa verið birtar litlar smáfréttir hér og þar í fjölmiðlum um bókina um Jón Ásgeir sem aldrei kom út. The Iceman Cometh hét hún undir það síðasta en vinnutitillinn í upphafi var Sex, Lies and Supermarkets. Bókin er margboðað verk sem átti í upphafi að koma út árið 2006 en hefur nú verið slegið á frest af útgáfunni.
Útgáfan, John Blake Publishing, er ekkert venjulegt útgáfufyrirtæki. Þetta er lítið forlag sem sérhæfir sig í að gefa út sögu fræga fólksins og semifræga fólksins og hefur fitnað mikið á þeirri verðbólgu stjörnukerfanna sem einkennt hefur Bretland á undanförnum árum. Það virðist stundum sem nærri hver einasti þátttakandi í Big Brother hafi gefið út ævisögu, og þótt aðeins hafi dregið úr þessu gríðarlega flóði, er enn mikið gefið út af óskiljanlegum gerviævisögum sem himinháar réttindagreiðslur er lagðar út fyrir. Síðustu tvö árin hefur magnið verið yfirgengilegt og mörg forlög hafa tapað miklu á þessu.
Ég heyrði fyrst af þessari bók árið 2005. Það ár átti John Blake eina söluhæstu bók á breskum bókamarkaði fyrr og síðar, bók sem margir segja að hafi einmitt verið aflmótor celebrity ævisögumarkaðarins, fyrra bindi af sögu Jordan, Being Jordan. Mér fannst þetta athyglisvert og setti mig í samband við fólkið hjá John Blake og heyri í þeim alltaf annað slagið, síðast nú síðla sumars.
Samkvæmt þeim er það lögfræðingahjörð Jóns Ásgeirs sem stoppar bókina og þau segjast ekki nenna að fara með hana lengra, það sé einfaldlega allt stopp. En þau segja jafnframt að þetta sé í eina skiptið sem þau hafi lent í vandræðum með útgáfubækur sínar, og kalla þau ekki allt ömmu sína í því sambandi. Eitt sinn komu upp vandræði þegar maður var rifinn út úr skápnum í óopinberri ævisögu, og þau voru knúin til að lýsa því yfir að hann væri "ekki hommi" sem náttúrlega var fyrst og fremst kómískt. En þau segjast aldrei hafa kynnst annarri eins hörku og pressu og frá lögmönnum Jóns Ásgeirs. Þau segja að lætin geri það að verkum að ekki sé hægt að draga aðra ályktun en þá að maðurinn sé annað hvort meiriháttar viðkvæmur eða hafi eitthvað stórkostlegt að fela. "Þetta fólk virðist ekki skilja leikreglur frjálsrar miðlunar," sagði einn starfsmannanna við mig á bókamessunni í London síðastliðið vor.
Ég sagði á móti að ég skildi ekki áhuga þeirra á Jóni Ásgeiri. Af hverju að gefa út bók um hann í Bretlandi? Því svaraði síðan blaðamaður The Times sem kom hingað til lands um svipað leyti: "Við viljum vita þegar Jón Ásgeir, gengur yfir götu í Reykjavík. Almenningur hefur náin tengsl við fyrirtækin sem hann á og hann á rétt á að vita allt um eigandann."
En hvað þá með okkur Íslendinga?
Bækur | Breytt 22.11.2008 kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2008 | 13:54
Á Degi íslenskrar tungu
Ef marka má Bóktíðindi í ár hafa bókaútgefendur engu að síður mikla trú á að þeir eigi hlutverki að gegna á íslenskum neytendamarkaði. Árið 2007 höfðu titlar í Bókatíðindum aldrei verið fleiri, rétt 800 talsins. Þeir eru ívið færri í ár, 760, en samt fleiri en árið 2006 og sé horft áratug aftur í tímann sést að fjölgunin er mikil, árið 1998 voru titlar í Bókatíðindum 418 talsins. Bókaútgáfa stendur því með blóma á Íslandi um þessar mundir.
Bókaútgáfa er einn elsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Ef landbúnaður og sjávarútvegur eru frátöld stendur engin atvinnustarfsemi í landinu á jafn gömlum grunni. Frá því fyrir miðja sextándu öld hafa Íslendingar hætt fé sínu í því skyni að koma út á þrykk bókum. Fyrst í því skyni að kynna landsmönnum ný viðhorf í byltingarumróti siðbreytingarinnar. Seinna í því skyni að treysta í sessi lúterska guðfræði og enn seinna til að skemmta, fræða og opna nýjar víddir, færa heiminn heim til fólks.
Bókaútgefendur samtímans byggja enn á sama grunninum. Þeir gefa út bækur fyrir íslenskt málsamfélag svo þar fái þrifist frjáls tjáning og öflug skoðanaskipti, sagnagleði og ljóðalist. Það er enginn bilbugur á þeim og ástæðan er einföld: Varan sem þeir senda á markað hefur algera sérstöðu. Enginn getur haldið því fram að hún sé það korn sem fylli mæli íslenskrar efnishyggu. Enginn trúir því að hún æsi upp kaupæði almennings og setji þjóðarhag á slig. Þvert á móti. Allir vita að bókin svarar spurn fólks jafnt eftir andlegri uppbyggingu sem andlegu umróti á tímum þegar allt virðist gert úr vindi. Hafi einhvern tíma verið þörf fyrir að lesa bækur til að skerpa á reiðinni, sefa hugann, skemmta sér á síðkvöldum eða átta sig á sjálfum sér þá er það nú. Nú er tími bókarinnar.
(Aðfaraorð Bókatíðinda 2008)
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2008 | 23:57
Ef það væri ekki fyrir Breta, Dani, Svía, Hollendinga, ESB, bandaríska seðlabankann og alla hina helvítis útlendingana ... væri hér allt í blóma
Þjóðernisrembingsrennan sem reynt er að láta reiði og hatur íslensku þjóðarinnar flæða eftir svo hún berji ekki fyrrverandi eigendur bankanna til óbóta og steypi ríkisstjórninni með valdi er svo niðurlægjandi heimskuleg að hún ein nægir sem ástæða til að sækja um vinnu sem trésmiður í Sogni og Mæri.
Hámarki dellunnar náði í dag furðufrétt Morgunblaðsins af einhverju greyi sem Danir voru vondir við af því að hann stímdi upp á sandrif. Blaðamenn Bild og Sun hefðu verið fullsæmdir af þessari undarlegu frásögn af manni sem virtist hafa dottið einsamall ofan úr skýjunum úti í Danaveldi en ekki betur tekist til með lendingu en svo að hann þurfti að skrifa upp á kúgunarbréf frá Baunum til að komast burt. Frásögnin var eins og skopstæling á skopstælingu af Íslandsklukkunni og náði að krækja aftur í stækt Danahatur góðærisáranna þegar greiningarmenn Danske bank voru helstu óvinir "okkar", nema hvað þessir "okkar" voru Jón Ásgeir, Sigurður Einarsson og Nordic Partners, ekki "við". En við erum raunar fyrst núna að fatta þennan aðskilnað.
Allt vonda fólkið í Hollandi sem heimtar aftur peningana sína og miskunnarlausu Bretarnir sem og vondu Danirnir sem klippa íslensk krítarkort eða þá hræðilegi geðlæknirinn sem leyfði sér að hlæja að íslensku hjúkkunum á Ítalíu: Hryllingssögurnar af skipbroti sjálfsmyndar þjóðarinnar eru með slíkum ógnarblæ að manni verður ómótt. Kostuleg lýsing af uppákomu Magnúsar þyrlukóngs úr Eyjum á morgunfundi SA sem vildi ekkert rugl og bara vera harður Íslendingur og láta ekki þessa útlendinga rugla í sér var mjög athyglisverð. Þar átti sveitungi hans Þór Sigfússon meiriháttar innkomu sem ein af örfáum skynsemisröddum landsins í þessum hysteríska brjálæðiskór. Eða vill eigandi Toyota umboðsins að við skilum öllum óþjóðlegu Land Cruiserunum sem óþjóðlega ríka fólkið keypti af honum fyrr á árinu og sendum druslunar aftur með þjósti aftur heim til föðurhúsanna?
Verkefni dagsins er það sama og verkefni Sjálfstæðisflokksins: Að hamra á að við erum einstaklingar og frjáls sem slík. Við erum ekki fangar þjóðernisins. Þótt við tölum íslensku og eigum íslenskt vegabréf eru það hæfileikar okkar, menntun, gildi og mennska sem gerir okkur að því sem við erum. Ég þekki enga bókaútgáfu, þýðanda eða fræðimann í veröldinni sem snýr baki við íslenskri menningu vegna þess að Icesave reikningarnir fást ekki greiddir til baka. Við þurfum ekki á þessari frumstæðu dellu að halda. Ég var á Bókamessunni í Frankfurt í upphafi kreppunnar og taldist til að ég hefði rætt þessa blessuðu kreppu á léttu nótunum við fólk frá Argentínu, Taívan, Suður-Kóreu, Danmörku, Frakklandi .... listinn er ógnarlangur. Allir vissu um hana, við gátum slegið á létta strengi. Svo sneri maður sér að bókmenntum, bókum, hugmyndum ... heimurinn stoppar ekki við Atlantshafið. Við erum óþægilega minnt á það þessa dagana. En við þurfum ekki að skilgreina okkur stöðugt sem eitthvert lið sem líður sálarkvalir fyrir vandræði fjármagnseigenda og ríkisstjórnar. Við erum meira en það. "Við" berum ekki ábyrgð á dellunni. "Við" eigum að hlæja með útlendingunum. Já, við erum á hausnum. Svo miðlum við því sem við kunnum, vitum og getum.
Þessi útlendingafæð gerir endanlega úr okkur aumingja. Það er eins og við höfum ekki aðra sjálfsmynd en þá að vera klinkið í bankahólfum Landsbanka og Kaupþings. Við erum hvert og eitt okkar meira en það. Hættum þessari píslargöngu. Hættum að húðstrýkja okkur sjálf.
Bækur | Breytt 15.11.2008 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2008 | 10:20
Ástandið
Hvernig lítur þetta "ástand" út sem allir eru að tala um? Á morgun ætla ég niður á Austurvöll að forvitnast betur um það. Þetta "ástand" virðist vera einhvers konar andi sem sveimar um, draugur sem gengur ljósum logum um landið og miðin og allir eru helteknir af nema ríkisstjórnin, auðmennirnir, fjármálaeftirlitið og seðlabankastjórnin. Þar fer hin fjórhöfða eining ástandsleysisins.
Vandamálið virðist því vera þetta: "Ástandið" sem maður er að mótmæla án þess að vita nákvæmlega í hverju það felst skilgreinist af andstæðu sinni: Það er ekkert ástand í FME, ríkisstjórn, í ríkamannaklúbbnum og Seðlabanka. Þar er valdastéttin að plotta en almenningur er allur í "ástandinu". Ástandið sem konur voru í á árunum 1940 og fram til stríðsloka er því hlutskipti allra núna. Við erum ástandsbörn. Ef marka má auglýsingar og eldmóðsgreinar Einars Más Guðmundssonar. Sú nýjasta í dag er reyndar ekki ástandsgrein nema að hluta. Að mestu leyti er hún framboðsræða Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs með dæmigerðum pólitískum málskrúðsrósum.
Hvað er þá "ástandið"? Ég er mjög spenntur að sjá það og þess vegna fjölmenni ég á Austurvöll á laugardaginn.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2008 | 12:39
Almannatengsl á 16. öld
Ég held á fyrsta eintaki Bókatíðinda 2008. Það kom úr vélinni hjá Odda í morgun. Bókatíðindin eru mjög stór, raunar eru þetta önnur stærstu Bókatíðindi allra tíma, með um 750 titla á skrá. Þau hafa heldur aldrei verið prentuð í jafn stóru upplagi, 125.000 eintökum.
Í þeim er auglýsing um nýja þýðingu á fyrstu útgefnu bók hins mikla andlega verndara Crymogeu, Arngríms Jónssonar lærða frá Mel í Miðfirði. Þetta er ritið Brevis commentarius de Islandia sem kom út í Kaupmannahöfn árið 1593. Þar tekst Arngrímur á við aðstæður sem okkur eru nú að góðu kunnar:
Ísland er útsett fyrir misskilningi, rangfærslum og níði í erlendum fjölmiðlum. Til að mæta þessari neikvæðu mynd skrifar hann bók eftir bók á latínu og kemur í dreifingu og prent erlendis, fyrst í Kaupmannahöfn en síðan í Hamborg. Markmiðið er að bæta ímynd Íslands á erlendum vettvangi. Í því skyni túlkar Arngrímur sögu landsins upp á nýtt og setur menningu þess og bókmenntir og sögu í nútímalegt samhengi endurreisnarinnar.
Sögufélagið gefur þessa bók út. Hér kynnist fólk því enn og aftur að almennatengsl eru samofin nútímanum. Arngrímur notaði bókaútgáfuna og prentið, sem þá var helsti fjölmiðill heims og notaði helsta samskiptamiðilinn innan fjölmiðlunarinnar, latínuna, til að koma á framfæri hugmyndum um hvernig bæri að skilja ímynd Íslands og þar með sjálfmynd íslensku valdastéttarinnar.
Þetta varð meginverkefni lífs hans. Hann sat á Hólum í nærri 30 ár og sinnti ímyndarkynningu meðfram öðrum störfum, s.s. að reka prentsmiðju, stýra skóla og kennslu og halda utan um rekstur biskupssetursins og ríkja á stólnum sem einskonar skiptaráðandi um hríð. Afraksturinn var sá að í nærri tvær aldir tókst honum að ná merkilegu tangarhaldi á orðræðu útlendinga um Ísland, en ekki síst að byggja upp orðræðu Íslendinga sjálfra um sig. Hugmyndir hans um að íslenska sé elsta tungumál heims eða að Íslendingar séu frjálsbornir menn sem ekki láti kúga sig, eru okkur enn í dag síður en svo framandi. Þær voru hins vegar dæmigerðar endurreisnarhugmyndir.
Bækur | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2008 | 14:23
Skorinn niður
Ég fékk póst frá HÍ áðan. Námskeiðið sem ég átti að kenna á vorönn 2009 hefur verið skorið niður. Það fengust ekki nógu margir nemendur. Þeim leist greinilega ekkert á námskeiðslýsinguna: Hold, heimur, djöfull og fagnaðarerindi: Íslenskar bókmenntir 1540-1799. Ógnvekjandi!
Þetta einfaldar lífið aðeins. Það er bévítans púsl að koma kennslu og rannsóknum inn í hagsmunagæslu, skrifstofustörf og útgáfu og hina mörgu og margvíslegu fundi sem maður situr alla daga vikunnar.
En fróðleiksfúsir nemendur í HÍ! 16. og 17. öldin, árnýöldin, early modern age, er eitt merkilegasta tímabil íslenskrar og evrópskrar sögu. Þá fæðist nútíminn og allt sem við höfum í of stórum skömmtum nú var þá í smærra og hrárra formi. Bókmenntirnar eru kostulegar. Líkt og nú voru allir rithöfundar á 17. öld starfsmenn ríkisstofnunar, kirkjunnar, nú fá þeir bara starfslaun og þurfa ekki að predika nema það sé mótmælafundur á Austurvelli eða viðtal í sjónvarpinu. Þeir þurfa heldur ekki lengur að halda uppi opinberri hugmyndafræði, blaðamenn á Markaðnum og viðskiptakálfunum hafa séð um það.
Æi, líklegast verður maður að leggjast í kynningar- og áróðursherferð fyrir töfrum skáldskapar þessa tíma. Kynning á góðum skáldum svo sem Guðmundi Erlendssyni á Felli í Sléttuhlíð eða Bjarna Gissurarsyni á Þingmúla í Skriðdal verður að bíða betri tíma.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2008 | 12:32
Listin er löng en lífið stutt
Og þess vegna gefum við hjá Crymogeu út listaverkabækur. Sú fyrsta er bók um verk Guðrúnar Einarsdóttur og kemur nú í búðir en formleg útgáfuhátíð var síðasta fimmtudag þegar sýning Guðrúnar var opnuð í i8 galleríi. Hún kostar ekki nema 2.980 kr. út úr búð.
Þetta er fyrsta bókin í ritröð sem Crymogea gefur út um íslenska samtímalistamenn og sem Listasjóður Dungal styrkir. Mitt í eymdartalinu sem er að verða að sérstakri íþróttagrein er hægt að búa til fallega gripi sem treysta þræðina sem halda saman stolti okkar og trú á að andlegt líf verði með blóma hér um slóðir til framtíðar þótt mörgum sýnist annað blasa við einmitt nú. Þetta er hægt með dyggum stuðningi framsýns fólks á borð við þau hjón Gunnar Dungal og Þórdísi Öldu Sigurðardóttur sem veita Listasjóðnum forstöðu.
Bókin er hönnuð af Snæfríði Þorsteins. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar undanfarin ár fyrir hönnun. Hún var tilnefnd til Myndstefsverðlauna nú í ár fyrir hönnun sína ásamt Hildigunni Gunnarsdóttur. Þær hafa fengið margvísleg verðlaun saman og í sitt hvoru lagi, til að mynda hönnunarverðlaun FÍT fyrir hönnun á sælgæti fyrir safnabúð Þjóðminjasafns Íslands og fyrir prentefni og útlit safnaverslunar Landnámsseturs í Aðalstræti.
Kíkið endilega: http://bokatidindi.oddi.is/listi/lysing.php?book_id=5505
Bókin fæst í Eymundsson í Austurstræti og Kringlu, BMM við Laugaveg og í Listasafni Reykjavíkur auk i8 Gallerís.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2008 | 11:52
Rithöfundar og erindi þeirra
Rithöfundar starfa við að segja sögur, beisla tungumálið, hugsa. Á tímum þegar fólk er í sífelldri leit að hugmyndum og samræðu er erindi þeirra mikið. Þeir koma til sögunnar eins og kallaðir, ekki vegna þess að þeir hafi endilega vísindakenningar um framtíðina á takteinum, heldur vegna þess að þeir geta fangað samtíman í orðum, búið til orsakakeðjur og frelsað okkur um stundarsakir frá hinum eilífa Spuna, sem gerir það að verkum að orð allra verða svo varhugaverð. Rithöfundar hafa þann höfuðkost að vera í það minnsta á jaðri spunans, þótt spunamenn reyndi jafnan að vefja þeim upp á sína þráðarspólu.
Á síðustu vikum hafa nokkrir rithöfundar lagt orð í belg og umsvifalaust fundið að á þá er hlustað. Einar Már Guðmundsson hefur fengið heilu síðurnar í Morgunblaðinu og ekki staðið á viðbrögðum. Kristín Marja Gunnarsdóttir skammaði þá sem vildu vanda um við þjóðina og fékk mikinn viðbragðsstorm í fangið. Nú síðast sneri Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir vindinum og leyfði sér að gagnrýna nornabrennustemmningu þjóðarinnar í veftímaritinu Nei! og aftur logar allt. Aðrir höfundar í deiglunni eru Andri Snær Magnason sem hefur haldið áfram ótrauður baráttu sinni fyrir fjölbreyttara atvinnulífi og náttúrugæðum og var síðast í Silfri Egils í fínum gír. Hannes Hólmsteinn Gissurarson gekk í nýlegi grein í VB langa leið til að geta ekki aðeins upphafið DO, heldur einnig sparkað í Hallgrím Helgason og Einar Kárason sem handbendi auðmannavaldsins, hina miklu leigupenna þess. Maður bíður svara úr þeim ranni.
En nú spyr maður eðlilega. Hvar eru raddir þeirra sem næst standa hörmungunum: ungu spræku Nýhilingarnir? Er það bara retórískt uppeldi Einar Más í Fylkingarbrjósti mótmæla áttunda áratugarins sem getur fleytt honum að orðagarðanum? Maður vill nú fá fleiri raddir og meiri þátttöku því aldrei hefur verið auðveldara að fá þjóðina til að hlusta en einmitt nú.
Bækur | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2008 | 23:53
Myntkörfukynslóðin
Ísland er eins og land sem háir stríð á fjarlægri grundu. Á yfirborðinu virðist allt með felldu, og raunar virðist höfuðverkefni allra frá leikskólakennurum til forsætisráðherra að láta sem allt sé með felldu, en allir vita að ósigurinn er algjör. Þetta sést vel úr fjarlægð. Þjóðargjaldþrotið sem vart er nefnt á nafn hér mitt í hringiðunni er beinhörð staðreynd þegar horft er á málið með augum erlendra fjölmiðla. Smám saman er þó eins og endalaus niðurlægingin á vígstöðvunum í austri og vestri síist inn. Okkar hersveitir fara ekki bara halloka. Stórkostlegt stórtap þeirra er staðreynd, þrátt fyrir fréttir um skipulagt undanhald. Þótt hugmyndafræði, þrjóska og vani haldi þjóðfélaginu enn á réttum kili gefa stoðirnar sig.
Í síðasta mánuði voru 4000 manns hið minnsta reknir úr störfum sínum. Ég hef hitt nokkra úr þeirra röðum. Þeim líður eins og ókunnir kraftar hafi kippt sundur sporbaug lífs þeirra og þeir þjóti nú út í tómið. Ég veit ekki hvort starfandi er ráðgjafahópur um almenna jákvæðniuppbyggingu í samfélaginu, en ef marka má fréttir af því að aðstoðarmenn þriggja ráðherra hafi boðað ritstjóra og yfirmenn fjölmiðla á sinn fund til að fara yfir málin, virðist svo vera. Ekkert almenningstengslastarf heldur hins vegar aftur af manninum á götunni sem upplifir á svolítið ruglingslegan hátt reiði, vanmátt, skilningsleysi og sjálfsásökun í bland við vonleysi þess sem sér enga möguleika á eðlilegu lífi í náinni framtíð.
Ef stjórnvöld eru ofan í afneitunarkaupið að reyna að koma böndum á uppgjafartal" með fjölmiðlaleiðbeiningum, þá er sá starfi ærinn. Hvorki þau né aðrir fá að fullu hamið þá vaxandi ólgu, óánægju og reiði sem hver einasta bensínskvetta frá burreknum bankamönnum magnar. Fyrst les maður fréttirnar" á bloggsíðum. Síðan eru þessar sömu bloggsíður sendar í tölvupóstum. Síðan eru tölvupóstarnir afritaðir og endursendir uns að endingu fréttin" kemst upp úr sínu stafræna kafi, upp á yfirborðið. Inni á vefnum sást fyrst sagt frá skuldþvegnum Kaupþingsmönnum. Inni á vefnum rís nú alda alvarlegrar gagnrýni á hvernig nýi aðallinn í bönkunum virðist svo samofinn fyrra þrotakerfi að ómögulegt er að koma auga á umskiptin. Sagt er að bankastjórar gömlu bankanna stjórni nýju bönkunum á laun. Krafan um alger umskipti verður háværari. Að gefið verði upp á nýtt.
Um tíma hélt maður nefnilega að hið mikla Hrun þýddi í raun byltingu. Að Ísland væri að upplifa atburð á borð við siðbreytinguna þegar heilli valdastétt og nánast öllu efnahags- og félagskerfi hennar var sópað út af borðinu og stærsta eignatilfærsla íslenskrar sögu fór fram. Svo er þó ekki. Sama fólkið og setti Ísland á hausinn stjórnar enn fjármálum þjóðarinnar. Hið mikla Hrun var þrátt fyrir allt ekki hrun fjármálastéttarinnar. Það var fyrst og síðast hrun allra þeirra sem fóru í lautarferð í góðærinu með myntkörfuna fulla af gulleggjum. En eins og í vondu Grimmsævintýri breyttust eggin í myllusteina sem hanga þeim um háls. Í Hruninu missti þetta fólk tök á hinni efnislegu tilveru, en það missti líka tök á trúnni á framtíðina.
Drifkraftur íslenska samfélags á undanförnum árum byggðist á trúnni á að við öll, þjóðin, værum gædd sérstökum eiginleikum sem tryggðu stöðugt áframhaldandi velsæld. Þessi hugmynd dó á einni nóttu. Nú berjast menn við að byggja upp traust á komandi tímum, snúa kreppunni í jákvæðan byr og von um að hægur vöxtur, útsjónarsemi og aðrar góðar dyggðir komi okkur til bjargar. Það er þörf á því að hlusta á allt það góða fólk sem sér möguleikana í ástandinu, en vandamálið er að það eru jarðsprengjur í rústunum. Ef þær verða ekki aftengdar allar strax er öll jákvæðni og framtíðartrú til einskins. Hin reiða myntkörfukynslóð verður að fá uppgjör við valdamenn gömlu bankanna og allt þeirra mikla umbununarsýstem. Annars verður komandi tíð ein skelfingargryfja reiði, tortryggni og óréttlætis.
(Lesbók Morgunblaðsins 8.11.2008)
Bækur | Breytt 9.11.2008 kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2008 | 14:44
Langt í burtu frá kreppunni
Jólabækurnar, allar nýju skáldsögurnar, eru komnar heim í stofu. Á hæglætiskvöldum þegar norðurljósin dansa úti á Faxaflóanum og lýsa Skerjafjörðinn leggur maður í þær fyrstu. Mér finnst ég ekki hafa mikið orðið var við bækur eins og Dimmar rósir eftir Ólaf Gunnarsson, sem virðist af fyrsta fletti vera tíðarandasaga frá þarsíðustu kreppu, árunum kringum 1970. Ég bara vona að þetta verði ekki of mikil hippaupphafning, en miðað við hvað Ólafur hefur verið gagnrýninn á hippa í gegnum tíðina þarf maður kannski ekki að óttast það.
Eftir að hafa hnusað af Ólafi og einsett sér að lesa mestlofuðu bók vertíðarinnar það sem af er, Ofsa eftir Einar Kárason, ákvað ég engu að síður að byrja á mínum gamla samstarfsmanni og félaga Guðmundi Andra Thorssyni, Segðu mömmu að mér líði vel. Í staðinn fyrir að demba manni beint út í djöfulsfenið sem manni finnst stundum að sé númer eitt tvö og þrjú í íslenskum prósa er maður kominn inn í bók sem sveiflast á öðrum og lengri bylgjum. Maður hefur til að mynda sterklega á tilfinningunni að höfundur hafi áhuga á fólki. Hafi auga fyrir öllum litlu hlutunum sem gefa lífinu gildi.
Svona bækur hafa ekki verið áberandi í íslensku bókmenntalífi, svona borgarastéttarbækur um fólk sem vinnur bara sína vinnu og á sitt líf og þar sem stóru harmrænu efnin eru á sviði siðferðis og lífsgilda en ekki að menn tapi rosalegum peningum. Bókin er líka mjög langt í burtu frá kreppunni. Í henni er einhvers konar sáttmáli um að góð gildi séu ráðandi í samskiptum fólks og að samfélagið sé afrakstur þeirra. Í Íslenska draumnum skrifaði Andri um andstæðu þessa sáttmála, sáttmálann um að halda aldrei loforð, svíkja allt fyrir peninga og gefa skít í gott líf í von um að fá eitthvað meira. Hann var einn af þeim rithöfundum sem vildu að íslenska miðstéttin fengi einfaldlega að vera í friði með lífið, óáreitt frá athafnabrjáluðum stjórnmálamönnum og manískum athafnamönnum sem litu á samfélagið sem blóðugt tilraunaeldhús í framsæknu markaðskokki eða ríkiseinokuðu kúgunarbrasi. Á sinn lágmælta og yfirvegaða hátt er Segðu mömmu að mér líði vel ákall um að svoleiðis samfélag væri gott samfélag. Að við þurfum frí frá stórum hugmyndum. Það sem við þurfum er að sem flestir taki þátt í því verkefni að samfélagið sé eðlilegt og miði að því að fólk lifi þar góðu og stöðugu lífi. Þá hafi það meiri tíma til að taka eftir því smáa og magnaða í kringum okkur. Þetta hljómar mjög blátt áfram. Reynslan sýnir hins vegar að hugmyndafræði íslensks samfélags er algerlega á skjön við svona hugsanir og að þær eru því mjög framandi.
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)