Rithöfundar og erindi þeirra

Rithöfundar starfa við að segja sögur, beisla tungumálið, hugsa. Á tímum þegar fólk er í sífelldri leit að hugmyndum og samræðu er erindi þeirra mikið. Þeir koma til sögunnar eins og kallaðir, ekki vegna þess að þeir hafi endilega vísindakenningar um framtíðina á takteinum, heldur vegna þess að þeir geta fangað samtíman í orðum, búið til orsakakeðjur og frelsað okkur um stundarsakir frá hinum eilífa Spuna, sem gerir það að verkum að orð allra verða svo varhugaverð. Rithöfundar hafa þann höfuðkost að vera í það minnsta á jaðri spunans, þótt spunamenn reyndi jafnan að vefja þeim upp á sína þráðarspólu.

Á síðustu vikum hafa nokkrir rithöfundar lagt orð í belg og umsvifalaust fundið að á þá er hlustað. Einar Már Guðmundsson hefur fengið heilu síðurnar í Morgunblaðinu og ekki staðið á viðbrögðum. Kristín Marja Gunnarsdóttir skammaði þá sem vildu vanda um við þjóðina og fékk mikinn viðbragðsstorm í fangið. Nú síðast sneri Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir vindinum og leyfði sér að gagnrýna nornabrennustemmningu þjóðarinnar í veftímaritinu Nei! og aftur logar allt. Aðrir höfundar í deiglunni eru Andri Snær Magnason sem hefur haldið áfram ótrauður baráttu sinni fyrir fjölbreyttara atvinnulífi og náttúrugæðum og var síðast í Silfri Egils í fínum gír. Hannes Hólmsteinn Gissurarson gekk í nýlegi grein í VB langa leið til að geta ekki aðeins upphafið DO, heldur einnig sparkað í Hallgrím Helgason og Einar Kárason sem handbendi auðmannavaldsins, hina miklu leigupenna þess. Maður bíður svara úr þeim ranni.

En nú spyr maður eðlilega. Hvar eru raddir þeirra sem næst standa hörmungunum: ungu spræku Nýhilingarnir? Er það bara retórískt uppeldi Einar Más í Fylkingarbrjósti mótmæla áttunda áratugarins sem getur fleytt honum að orðagarðanum? Maður vill nú fá fleiri raddir og meiri þátttöku því aldrei hefur verið auðveldara að fá þjóðina til að hlusta en einmitt nú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband