Bókin um Jón Ásgeir

Undanfarið hafa verið birtar litlar smáfréttir hér og þar í fjölmiðlum um bókina um Jón Ásgeir sem aldrei kom út. The Iceman Cometh hét hún undir það síðasta en vinnutitillinn í upphafi var Sex, Lies and Supermarkets. Bókin er margboðað verk sem átti í upphafi að koma út árið 2006 en hefur nú verið slegið á frest af útgáfunni.

Útgáfan, John Blake Publishing, er ekkert venjulegt útgáfufyrirtæki. Þetta er lítið forlag sem sérhæfir sig í að gefa út sögu fræga fólksins og semifræga fólksins og hefur fitnað mikið á þeirri verðbólgu stjörnukerfanna sem einkennt hefur Bretland á undanförnum árum. Það virðist stundum sem nærri hver einasti þátttakandi í Big Brother hafi gefið út ævisögu, og þótt aðeins hafi dregið úr þessu gríðarlega flóði, er enn mikið gefið út af óskiljanlegum gerviævisögum sem himinháar réttindagreiðslur er lagðar út fyrir. Síðustu tvö árin hefur magnið verið yfirgengilegt og mörg forlög hafa tapað miklu á þessu.

Ég heyrði fyrst af þessari bók árið 2005. Það ár átti John Blake eina söluhæstu bók á breskum bókamarkaði fyrr og síðar, bók sem margir segja að hafi einmitt verið aflmótor celebrity ævisögumarkaðarins, fyrra bindi af sögu Jordan, Being Jordan. Mér fannst þetta athyglisvert og setti mig í samband við fólkið hjá John Blake og heyri í þeim alltaf annað slagið, síðast nú síðla sumars.

Samkvæmt þeim er það lögfræðingahjörð Jóns Ásgeirs sem stoppar bókina og þau segjast ekki nenna að fara með hana lengra, það sé einfaldlega allt stopp. En þau segja jafnframt að þetta sé í eina skiptið sem þau hafi lent í vandræðum með útgáfubækur sínar, og kalla þau ekki allt ömmu sína í því sambandi. Eitt sinn komu upp vandræði þegar maður var rifinn út úr skápnum í óopinberri ævisögu, og þau voru knúin til að lýsa því yfir að hann væri "ekki hommi" sem náttúrlega var fyrst og fremst kómískt. En þau segjast aldrei hafa kynnst annarri eins hörku og pressu og frá lögmönnum Jóns Ásgeirs. Þau segja að lætin geri það að verkum að ekki sé hægt að draga aðra ályktun en þá að maðurinn sé annað hvort meiriháttar viðkvæmur eða hafi eitthvað stórkostlegt að fela. "Þetta fólk virðist ekki skilja leikreglur frjálsrar miðlunar," sagði einn starfsmannanna við mig á bókamessunni í London síðastliðið vor.

Ég sagði á móti að ég skildi ekki áhuga þeirra á Jóni Ásgeiri. Af hverju að gefa út bók um hann í Bretlandi? Því svaraði síðan blaðamaður The Times sem kom hingað til lands um svipað leyti: "Við viljum vita þegar Jón Ásgeir, gengur yfir götu í Reykjavík. Almenningur hefur náin tengsl við fyrirtækin sem hann á og hann á rétt á að vita allt um eigandann."

En hvað þá með okkur Íslendinga?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband