Færsluflokkur: Bækur
9.12.2008 | 22:47
Að redda öxi fyrir aftöku
Við Sölvi Sveinsson stóðum fyrir kynningu á bókinni Einbúinn á amtmannssetrinu eftir Kristmund Bjarnason á Sjávarborg í Þjóðmenningarhúsi í dag. Við skiptum með okkur verkum, Sölvi sagði frá Kristmundi en ég frá bókinni, sem er ævisaga Gríms Jónssonar amtmanns. Síðan lásum við hvor sinn bútinn.
Þarna var sæmileg mæting og góð stemmning. Sölvi gerði grein fyrir ferli Kristmundar sem er nú níræður og ætti ásamt Villa á Brekku að vera seníór þessa jólabókaflóðs. Hann gerði grein fyrir stíl Kristmundar, starfsævi og sagði jafnframt sögur af honum sem fengu marga til að brosa í kampinn, ekki síst sögunni um að Kristmundur hafi gert út Björn á Sveinsstöðum til að afla skjala fyrir Héraðsskjalasafn Skagafjarðar, en því veitti Kristmundur lengi forstöðu. Björn settist þá nánast upp á bændur, át og spjallaði og tafði menn frá verkum þangað til þeir gátu ekki meir og afhentu honum gögnin sem hann var á höttunum eftir. Með þessu móti varð Héraðsskjalasafn Skagafjarðar að stærsta skjalasafni utan Reykjavíkur.
Bókin um einbúann á amtmannssetrinu hefur ekki verið ein þeirra sem mest hefur verið látið með þetta árið. Raunar sýnist mér ekki létt að komast að í fjölmiðlum með kynningar á bókum þessa dagana sökum plássleysis og bækur á borð við þessa líða fyrir það. Hún hefur hins vegar fengið ágætis dóma hér og þar og "ratað til sinna" eins og sagt er.
Allir sem hafa gaman af því að lesa kjarnyrt og safaríkt íslenskt mál ættu að hafa nokkra ánægju af því að lesa þessa bók, auk þess sem hún er mikil heimild um sögu 19. aldarinnar, þótt hún sé kannski ekki endilega stórnýstárleg í framsetningu. Hins vegar er höfundur á engan hátt ógagnrýninn á heimildir sínar. Þvert á móti. Hann er í líflegri samræðu við 19. aldarmenn um hvernig skilja beri þennan konungholla og vandvirka embættismann sem sagt var að Skagfirðingar hefðu drepið með Norðurreiðinni vorið 1848. Grímur verður í frásögn Kristmundar að næstum tragískri fígúru. Örlög hans eru okkur nú á dögum skiljanlegri en þau voru Norðlendingum á fyrstu áratugum 19. aldar. "Fjölmenningarfjölskylda" hans verður honum erfið í skauti uns hann að endingu verður að halda heimili í tveimur löndum. Hann deilir því með nútímafólki að vera í senn staurblankur og geta ekki slegið af kröfum um lúxus og gott líf og deyr skuldugur þrátt fyrir að vera einn hæstlaunaðasti maður landsins.
En það sem er svo magnað við þessa bók og sker hana frá flestu því sem maður les þessa dagana er að Kristmundur skrifar eins og hinn innbyggði lesandi bókarinnar sé algerlega verseraður í 19. öldinni og skilji illrekjanlegar tilvitnanir, vísanir til smáatvika, manna og jafnvel slúðurs á fyrri hluta aldarinnar. Það er þessi sterki 19. aldar andi í bókinni, þessi fullkomni skilningur á samfélaginu sem skapaði heimildirnar sem hrífur mann mest. Fyrir vikið verður bókin krefjandi, hún krefst innsæis, nánast algerrar einbeitingar svo maður nái utan um þráhyggjur fólksins, skapferli einstakra manna, lausavísur, orðaskak, hneykslismál og vandkvæði jafnt embættismanna sem smábænda. Að maður komi sér í algjöran 19. aldar gír.
Ég las í dag upp smá bút sem mér fannst birta þetta ljóslega. Þar er fjallað um aftöku Friðriks og Agnesar og um þau fjallað þannig að allir viti hvað átt er við, en sjónarhornið dvelur við praktísk úrlausnarefni amtmannsins. Til að mynda verður hann að útvega öxi og höggstokk. Kristmundur rekur í smáatriðum hvað varð svo um öxina, vandkvæði við að flytja vopnið frá aftökustað í Vatnsdalshólum norður að Möðruvöllum og vitnar í bréf amtmanns þar sem hann lýsir aðstæðum á aftökustað 12. janúar 1830. Ég helda að yngri sagnfræðingur hefði horft á annað, reynt að draga okkur inn í dramatík aftökunnar eða stefnt að því að setja refsinguna í samhengi við valdaformgerðir samfélagsins. Hjá Kristmundi er ekkert slíkt. Fyrir vikið verður frásögnin sjálf sérkennilega nakin og hrífandi.
Bækur | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2008 | 10:30
Dýrasta bók jólabókaflóðsins
Flora Islandica, heildarsafn teikninga Eggerts Péturssonar af íslenskri flóru, er nú til sýnis í Iðu í Lækjargötu og hefur vakið gríðarleg viðbrögð ef marka má fyrirspurnir og pantanir sem borist hafa um helgina. Bókina má panta á netfanginu crymogea@crymogea.is
Stöð 2 fjallaði um bókina í kvöldfréttum sunnudaginn 7. desember undir fyrirsögninni "Dýrasta jólabókin í ár kostar 75.000 krónur". Fréttakonan, Guðný Helga, flettir bókinni og fjallar um hana. Hún er hrifin af orðinu "háplöntur". Hér er fréttin eins og hún birtist á visir.is
Dýrasta jólabókin í ár kostar 75.000 krónur
Dýrasta jólabókin í ár kostar 75.000 krónur. Hún fæst ekki í bókabúðum en verður til sýnis í nokkra daga nú fyrir jól.
Bókin Flora Islandica verður til sýnis í nokkra daga í bókaversluninni Iðu í Lækjargötu. Um er að ræða heildarútgáfu á teikningum Eggerts Péturssonar myndlistarmanns af íslenskum háplöntum sem hann vann í upphafi ferils síns fyrir bókina Íslensk Flóra.
Teikningunum er raðað í grasafræðilegri röð og hverri teikningu fylgir texti Ágústs H. Bjarnasonar um viðkomandi háplöntu. Myndirnar hafa aldrei fyrr verið sýndar í sinni réttu stærð en teikningarnar sýna 271 háplöntu íslensku flórunnar í raunstærð.
Bókin kostar 75.000 krónur og fæst ekki í bókabúðum. Aðeins er hægt að nálgast hana hjá útgefanda og verður hún afhent kaupendum 17. desember næstkomandi.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2008 | 09:47
Lesarinn
Því miður er stundum eins og allt sem gerist, gerist í sápukúlu og að sápukúlurnar snertist aldrei. Frétt um átök Kate Winslet, þeirrar góðu leikkonu, við hlutverk Hönnu í Lesaranum, er slík mónadafrétt. "The Reader" er nefnilega kvikmyndaaðlögun skáldsögunnar Lesarinn eftir Bernhard Schlink, einhverrar vinsælustu skáldsögu síuðust ára. Bókin var margföld metsölubók í Þýskalandi en öðlaðist heimsfrægð þegar hún varð fyrsta sagan sem Ophru Winfrey bókaklúbburinn sendi upp á himinhvolfið.
Lesarinn kom upphaflega út í íslenskri snilldarþýðingu Artúrs Björgvins Bollasonar árið 1998 og var seinna endurútgefinn í kilju. Bernhard Schlink, lögfræðingur sem ritar bækur í hjáverkum, hefur haldað áfram á þessari braut og er enn feykivinsæll höfundur á þýska málsvæðinu.
Og nú er loksins komin kvikmynd. Ég vona að hún fái að heita Lesarinn á íslensku en ekki The Reader.
Winslet í hlutverki fangavarðar nasista | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2008 | 00:05
Bókmenntaverðlaunin og listin að elska þau
Man einhver til þess að tilnefningar til Edduverðlauna veki blaðadeilur? Ráðast leiklistargagnrýendur að Grímuverðlaununum og heimta að þau verði ýmist lögð niður, að þau verði algerlega stokkuð upp eða kalli þau "samkvæmisleik"? Ekki minnist ég þess, en þetta eru hins vegar standardviðbrögð við tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Það er ekki langt síðan hreyfing var í mótun sem vildi stofna "and"-bókmenntaverðlaun. Búnir voru á sínum tíma til "and"-tilnefningamiðar og hvað eftir annað heyrast raddir um róttæka uppstokkun verðlaunanna. Í dag reið þessi ritúalíska mótbárualda yfir, þó með þeim varnagla að fólk var þrátt fyrir allt nokkuð sátt við tilnefningar í flokki skáldverka. Úlfhildur Dagsdóttir sagði álit sitt í hádegisfréttum RÚV og síðan Kolbrún Berþórsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson í Kiljunni í kvöld.
Enn og aftur sést hve furðulegt þetta er í samanburði við aðrar listgreinar. Sæi maður fyrir sér að nokkrir myndlistargagnrýnendur sætu saman í sjónvarpssal eftir Sjónlistarverðlaunin og ræddu hversu fánýt þessi verðlaun væru almennt, að þau væru ekki rétt sett upp og að þeir sem þau hefðu fengið væru að fá þau á hæpnum forsendum. Þetta er einfaldlega óhugsandi. Hvað þá hin gleðiríku Edduverðlaun. Ég hef engan séð gagnrýna þau nema eilífðargagnrýnandann Maríu Kristjánsdóttur, sem aldrei gefur tommu eftir í nokkru máli. Ekki einu sinni þegar hún heldur uppi merki Hugo Chavezar.
Listin að elska bókmenntaverðlaunin flest hins vegar i eftirfarandi: Við höfum mjög fáar hefðir til að styðja okkur við í menningarlífi okkar. Verðlaun og viðurkenningar eiga sér flest mjög skamma sögu. Bókmenntaverðlaunin hafa skrimt í 20 ár. Það er einstakt í okkar samhengi. Oft hefur verið rætt um bað breyta þeim, í góðærinu kom jafnvel til greina að fá "styrktaraðila" og hækka verðlaunaféð. Það þótti hins vegar ekki alfarið góð hugmynd vegna þess að menn sögu: En, hvað ef þeir bregðast? Nú sér held ég enginn eftir því að hafa ekki fengið "styrktaraðila". Félag íslenkra bókaútgefenda stendur eitt og óstutt að verðlaununum. Það fær tilnefninganefndir til að sinna dómnefndarstörfum en skiptir sér annars ekkert af þeirra vinnu. Oddamaður lokadómnefndar er skipaður af forsetaembættinu. Viss festa er á gangvirkinu sem á ekki að hnika mikið til ef menn vilja að verðlaunin lifi í önnur 10 ár, önnur 20. Það held ég að sé gáfulegt og gæfulegt og því eigi þau að vera á vissan hátt íhaldssöm í formi. Ég bendi á Brageprisen í Noregi og Augustprisen í Svíðþjóð, helstu bókmenntaverðlaun þessara tveggja landa, eru líkt upp byggð og þar eru aðeins þrír verðlaunaflokkar, menn hafa bætt við barnabókum, sem ég tel raunar æskilegt að gera hér einnig í fyllingu tímans. En festa er lykilorðið og sannast sagna hefur tryggð við fastan grunn tryggt að verðlaunin lifa af jafnt góðæri sem kreppu, og það er ekki sjálfgefið.
Bækur | Breytt s.d. kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2008 | 11:25
Flora Islandica
Crymogea, bókaútgáfan okkar Snæbjörns Arngrímssonar, gefur út nú í desember risabók sem er vart sambærileg við aðrar bækur á markaði. Maður reynir að stilla sig um að brúka of stór lýsingarorð, en þetta er einfaldlega ofurgripur. Flora Islandica er safn flóruteikninga Eggerts Péturssonar sem hann vann fyrir bókina Íslensk flóra með litmyndum sem kom út árið 1983. Eðlilega voru þær teikningar hafðar smáar enda handbók fyrir grasaáhugamenn eftir Ágúst H. Bjarnason. Alls teiknaði Eggert 271 mynd fyrir bókina, allar í A3 stærð, en svo furðulegt sem það nú er hafa þessar myndir vart sést í sinni upprunalegu dýrð, þangað til núna.
Hugmyndin varð til á yfirlitssýningu Eggerts á Kjarvalsstöðu í fyrra. Þar var bókin sýnd í glerkassa en það vakti athygli okkar að engin frummyndanna var sjáanleg, samt hlaut þessi bók og sú mikla vinna sem Eggert lagði í hana að hafa verið gríðarlega mikilvæg fyrir feril hans sem málara. Síðan kom í ljós að allar myndirnar voru til, ofan í geymslu hjá Eggerti.
Það hefur tekið tímann sinn að útbúa þessa bók, velja pappír og ganga frá öllum smáatriðum, en nú í vikunni eru fyrstu eintökin væntanleg. Aðeins eru gefin út 500 eintök, tölusett og árituð af Eggerti.
Bókin liggur í öskju sem er handsmíðuð úr krossviði og klædd með svörtu efni og titillinn þrykktur í silfri framan á. Allt vegur þetta um 10 kíló.
Bókina má panta á crymogea@crymogea.is
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2008 | 10:01
Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna
Það verður tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna næstkomandi þriðjudag, 2. desember. Spennan er einkum í flokki fagurbókmennta þar sem mjög margir af okkar fremstu höfundum senda frá sér skáldverk í ár.
Tilnefningaathöfnin fer fram á Háskólatorgi sem er nýjung þar sem tilnefningaathöfnin hefur verið bundin við sjónvarpssal um langt árabil. Nú breytir Félag íslenskra bókaútgefenda hins vegar til og verður spennandi að sjá hvernig það virkar.
Hvet alla áhugamenn um bækur og bókmenntir til að fylgjast með.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2008 | 22:52
Gagnsiðbótin
Gagnsiðbótin er hafin. Páfabulla hefur verið send út að undirlagi róttækra ungkardínála frjálshyggnu kirkjunnar sem una lausunginni ekki lengur. Ef allt á ekki í barbarísku að detta verður að koma til öflugt kirkjuþing í HR sem ályktar þegar í stað um takmarkanir á tjáningarfrelsi, eindregna hefðartúlkun á hugtökum í stjórnmálum og stjórnskipan og útilokun og þöggun siðbótarhópa á borð við femínista, krútt og öryrkja. Trúvillingum sem tekist hefur með djöfullegri slægð að villa á sér heimildir og komast inn í Collegium Libertinum með andborgaralegt ráðabrugg í huga beri að vísa umsvifalaust á dyr og excomúníkera láti þeir ekki segjast.
Á Snjáldurskjóðunni sjást þeir koma þeysandi úr öllum fjórðungum hins mikla andlega veldis, reiðubúnir að sverja páfa sínum trúnaðareiða um að fyrr skuli þeir farast en sjá veldi kirkjunnar steypast í gerningarveðri lausungarinnar.
Á meðan þegir rektor kollegísins þunnu hljóði. Sjálfsagt upptekinn við að skrifa nýja bullu: Contra hostes imagorum islandorum.
Kannski hið nýja kirkjuþing ungfrjálshygginga gangi nú sjálfviljugt til liðs við sérsveitir lögreglunnar? Munum '49! Munum Varið land!
Þegar ég taldi síðast voru meðlimir "Áskorunar gegn Áskorun á Háskólann í Reykjavík" tvöfalt fleiri en meðlimir "Áskorunar á Háskólann í Reykjavík."
Contra-Contra Reformation skæruliðarnir voru fleiri en Contrarnir og er þó líklegast búið að opna leynireikning til að styðja hina síðarnefndu, fjármagnaður með sölu á gömlum byggingarkrönum og búkollum til Írans.
Bækur | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2008 | 16:07
Meiri bóksala en í fyrra?
Það er víst ekki hægt að bera saman epli og appelsínur og bókamarkaðurinn er aldrei eins ár frá ári, en sé miðað við orð útgefenda virðist bóksala vera ívið meiri en í fyrra á sama tíma. Við fáum hvarvetna meldingar um að fólki finnist verð á bókum vera ótrúlega lágt. Það liggi beint við að gefa bækur í jólagjöf.
En þetta er merkilegt, mitt í kreppunni, að fá svona fréttir. Ég hafði vonað að bókin myndi ekki missa mikla markaðshlutdeild, en að bóksala myndi aukast, það datt manni eiginlega ekki í hug.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2008 | 18:15
Ofmælt um Jón Ásgeir
Mér var bent á í dag að Eyjan hefði vitnað í litla sögu sem ég sagði hér á blogginu um bók sem John Blake hefur haft í bígerð um árabil um Jón Ásgeir Jóhannesson. Þegar ég skoðaði fréttina sá ég að Eyjan hafði nokkuð hert á áherslum og fullyrðir að málaferli eða hótanir um málaferli komi í veg fyrir útgáfu bókarinnar.
Þetta er ekki rétt, þótt ég viti jafnframt að það hljómi betur.
Samkvæmt því sem mér var tjáð af þeim djörfu ævisagnaframleiðndum hjá John Blake sjá þau ekki ástæðu til að gefa bókina út á meðan lögfræðingar Jóns Ásgeirs hafa ekki lýst sig ánægða með það sem þar stendur. Þeim þótti það einfaldlega ekki taka því að gefa bókina út og hætta svo á eitthvert vesen fyrir kannski nokkur þúsund eintök. Tekjur af sölu hefðu einfaldlega ekki réttlætt slíkt havarí.
Ég get í það minnsta ekki fullyrt að nokkur hafi hótað málsókn vegna útgáfu bókarinnar. Einfaldast er náttúrlega bara að hringja í John Blake sjálfan á mánudaginn og spyrja.
Maður verður að gæta sín í návist viðkvæmninnar og hinna sköruglegu riddara sem vilja gjarnan veifa lensunni að stórhertogum útrásarinnar.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2008 | 00:03
Árásin á Bastilluna við Hverfisgötu
Ég hafði ekki ætlað mér að fara niður í bæ í dag, heldur baka laufabrauð, en það varð úr á endanum að við pápi lögðum frá okkur skurðarjárnin og brugðum okkur á Austurvöll að skoða mótmælin.
Ég var þarna líka um síðustu helgi og þá fannst mér vera létt stemmning í loftinu. Bjartsýn og umbótaglöð. Maður hitti ótrúlegasta fólk og leið eins og á Þorláksmessukvöldi. Eins og aðfangadagur væri að renna upp. Viðar Þorsteinsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Andri Snær Magnason voru öll með mjög fínar ræður, eða það sem maður heyrði af þeim, því hátalarakerfin voru ekki gerð fyrir mannfjöldann. Mest heyrði ég til Viðars sem kom mér á óvart, þeas það kom mér ekki á óvart að hann væri rökfastur og andkapítalískur, heldur að hann flutti mál sitt mjög sköruglega og með nokkrum tilþrifum. "Nú er pólískt lofttæmi að myndast, kannski er lag fyrir menn eins og hann?" hugsaði ég með mér. Maður vissi svo sem að auðvitað myndi ekkert breytast næstu vikuna , en manni fannst fólk upplifa sig sem gerendur, að það væri í það minnsta að koma einhverju verk, fremur en bara harma sinn hlut.
Í dag var búið að bæta hljóðkerfismálin en stemmningin var niðurdrepandi og þunglyndisleg. Það ýrði úr lofti og svörðurinn á Austurvelli spændist upp og varð að svaði. Ræðurnar voru ýmist örvæntingarfulllar eða hreinlega deprímerandi misheppnaðar. Enginn sem tók til máls hitti á rétta tóninn þrátt fyrir að peppkórinn reyndi hvað hann gat. Við fórum að skoða tómatagengið við Alþingishúsið. Þar voru einhver grey að spandera rándýru grænmeti, vonandi þó ekki innfluttu, á blágrýtið undir vökulu fjölmiðlaauga. Þetta var ekki alvöru. Þetta var bara sviðsetning fyrir myndavélar. Fólk kastaði eins og aular, með hálfum huga og næstum eins og til að prófa, þunglyndislega.
Getur þetta gengið svona áfram? Laugardag eftir laugardag? Er endurtekningin og hið einarða neitunarvald á hinum endanum ekki að hafa það af að kæfa þessa mótmælaglóð? Samfylkingarfólk hefur uppnefnt þá Geir, Davíð og Árna "hið þrískipta neitunarvald" en svo virðist sem ISG hafi bæst í þann hóp og sé nú orðin "fjórða neitunarvaldið". Ekkert á að gera. En auðvitað að að hlusta á almenning. Það á að taka Groundhoug Day á málið.
Jón Kaldal lýsti því vel um daginn í Fréttalbaðsleiðara að við værum föst í Groundhoug Day. Alltaf sami dagurinn og engin útleið úr svífandi ástandi aðgerðarleysisins. Í myndinni fer Phil Connor (Bill Murray) í gegnum mörg stig þunglyndis uns hann nær að sætta sig við endurtekninguna. Eftir upphaflega undrun og gleði yfir að lifa alltaf sama daginn aftur og aftur kemur tímabil geðdeyfðar, loks sjálfsmorðshneigðar sem ekkert leiðir því endurtekningin þýðir að hann er ódauðlegur. Að lokum brotna hlekkir endurtekningarinnar fyrir tilstilli ástarinnar. Veturinn getur loks haldið áfram. Þau Bill og Andie McDowell kyssast og allt er gott.
Það varð eitthvað að gerast. Þegar Hörður Torfa hrópaði að það yrði að mótmæla á Hverfisgötu skildi ég hann ekki. Af hverju Hverfisgötu? En svo sá maður það í kvöldfréttunum. Liðð marseraði upp brekkuna úr Kvosinni og að Rauðará til að frelsa bandingjann úr "klóm fastistanna". Árásin á Bastilluna líkist hins vegar meira hinum dæmigerðu árásum sem ég man eftir úr æsku minni þegar fullir unglingar og æsingamenn af eldri kynslóð gerðu aðsúg að löggustöðinni á Króknum á gamlárskvöld. Slíkar árasir voru áratugum saman standardar á efnisskrá áramóta og þrettánda víða um land, þar á meðal í Reykjavík. Halldór Laxness taldi þessar óspektir skýrt dæmi um ömurlega firringu unglinga af nýríkri borgarastétt eftirstríðsáranna. Um 1980 kom til gríðarlegra óspekta á Selfossi og Ölfusárbrúnni var lokað klukkustundum saman af unglingum. Hvað eftir annað voru gerðar árásir á lögreglumenn og lögrelgustöðvar í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, Sauðárkróki og Selfossi um áramót og þrettánda. Síðan hurfu þessar óspektir bara einn daginn. Enginn veit af hverju þær komu og af hverju þær hættu.
Þetta voru þunglyndisleg mótmæli vegna þess að þau eru föst í endurtekningunni. Groundhoug Day. Ekkert virðist geta greitt úr stöðunni. Áhrifaleysi mótmælendanna er algert, en um leið er mikill ótti við að mótmælin fari úr böndunum, að eitthvað gerist. Því varð eitthvað að gerast. Það er erfitt að segja hvert leiðin liggur nú. En ef jafn ömurleg stemmning verður á Austurvelli næsta laugardag og ef kröfurnar og hrópin hafa jafn lítið að segja og nú verður þörfin fyrir að drepa óánægjuna úr dróma enn ríkari.
En vonandi sjá menn hversu atburðir dagsins voru fáránlegir. Stendur löggan fyrir efnahagshruninu? Kommon. Stefán Eiríksson og Geir Jón stunduðu ekki flókin afleiðuviðskipti eða nýttu sér rúmar heimildir löggjafar Evrópska efnahagssvæðisins til að stofna til innlánsviðskipta í Evrópulöndum. Mótmælendur eru að komast hægt og rólega á sjálfsmorðsskeiðið. Bráðum finnst þeim þeir hafa engu að tapa.
Bækur | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)