Langt í burtu frá kreppunni

Jólabækurnar, allar nýju skáldsögurnar, eru komnar heim í stofu. Á hæglætiskvöldum þegar norðurljósin dansa úti á Faxaflóanum og lýsa Skerjafjörðinn leggur maður í þær fyrstu. Mér finnst ég ekki hafa mikið orðið var við bækur eins og Dimmar rósir eftir Ólaf Gunnarsson, sem virðist af fyrsta fletti vera tíðarandasaga frá þarsíðustu kreppu, árunum kringum 1970. Ég bara vona að þetta verði ekki of mikil hippaupphafning, en miðað við hvað Ólafur hefur verið gagnrýninn á hippa í gegnum tíðina þarf maður kannski ekki að óttast það.

Eftir að hafa hnusað af Ólafi og einsett sér að lesa mestlofuðu bók vertíðarinnar það sem af er, Ofsa eftir Einar Kárason, ákvað ég engu að síður að byrja á mínum gamla samstarfsmanni og félaga Guðmundi Andra Thorssyni, Segðu mömmu að mér líði vel. Í staðinn fyrir að demba manni beint út í djöfulsfenið sem manni finnst stundum að sé númer eitt tvö og þrjú í íslenskum prósa er maður kominn inn í bók sem sveiflast á öðrum og lengri bylgjum. Maður hefur til að mynda sterklega á tilfinningunni að höfundur hafi áhuga á fólki. Hafi auga fyrir öllum litlu hlutunum sem gefa lífinu gildi.

Svona bækur hafa ekki verið áberandi í íslensku bókmenntalífi, svona borgarastéttarbækur um fólk sem vinnur bara sína vinnu og á sitt líf og þar sem stóru harmrænu efnin eru á sviði siðferðis og lífsgilda en ekki að menn tapi rosalegum peningum. Bókin er líka mjög langt í burtu frá kreppunni. Í henni er einhvers konar sáttmáli um að góð gildi séu ráðandi í samskiptum fólks og að samfélagið sé afrakstur þeirra. Í Íslenska draumnum skrifaði Andri um andstæðu þessa sáttmála, sáttmálann um að halda aldrei loforð, svíkja allt fyrir peninga og gefa skít í gott líf í von um að fá eitthvað meira. Hann var einn af þeim rithöfundum sem vildu að íslenska miðstéttin fengi einfaldlega að vera í friði með lífið, óáreitt frá athafnabrjáluðum stjórnmálamönnum og manískum athafnamönnum sem litu á samfélagið sem blóðugt tilraunaeldhús í framsæknu markaðskokki eða ríkiseinokuðu kúgunarbrasi. Á sinn lágmælta og yfirvegaða hátt er Segðu mömmu að mér líði vel ákall um að svoleiðis samfélag væri gott samfélag. Að við þurfum frí frá stórum hugmyndum. Það sem við þurfum er að sem flestir taki þátt í því verkefni að samfélagið sé eðlilegt og miði að því að fólk lifi þar góðu og stöðugu lífi. Þá hafi það meiri tíma til að taka eftir því smáa og magnaða í kringum okkur. Þetta hljómar mjög blátt áfram. Reynslan sýnir hins vegar að hugmyndafræði íslensks samfélags er algerlega á skjön við svona hugsanir og að þær eru því mjög framandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband