Ef það væri ekki fyrir Breta, Dani, Svía, Hollendinga, ESB, bandaríska seðlabankann og alla hina helvítis útlendingana ... væri hér allt í blóma

Þjóðernisrembingsrennan sem reynt er að láta reiði og hatur íslensku þjóðarinnar flæða eftir svo hún berji ekki fyrrverandi eigendur bankanna til óbóta og steypi ríkisstjórninni með valdi er svo niðurlægjandi heimskuleg að hún ein nægir sem ástæða til að sækja um vinnu sem trésmiður í Sogni og Mæri.

Hámarki dellunnar náði í dag furðufrétt Morgunblaðsins af einhverju greyi sem Danir voru vondir við af því að hann stímdi upp á sandrif. Blaðamenn Bild og Sun hefðu verið fullsæmdir af þessari undarlegu frásögn af manni sem virtist hafa dottið einsamall ofan úr skýjunum úti í Danaveldi en ekki betur tekist til með lendingu en svo að hann þurfti að skrifa upp á kúgunarbréf frá Baunum til að komast burt. Frásögnin var eins og skopstæling á skopstælingu af Íslandsklukkunni og náði að krækja aftur í stækt Danahatur góðærisáranna þegar greiningarmenn Danske bank voru helstu óvinir "okkar", nema hvað þessir "okkar" voru Jón Ásgeir, Sigurður Einarsson og Nordic Partners, ekki "við". En við erum raunar fyrst núna að fatta þennan aðskilnað.

Allt vonda fólkið í Hollandi sem heimtar aftur peningana sína og miskunnarlausu Bretarnir sem og vondu Danirnir sem klippa íslensk krítarkort eða þá hræðilegi geðlæknirinn sem leyfði sér að hlæja að íslensku hjúkkunum á Ítalíu: Hryllingssögurnar af skipbroti sjálfsmyndar þjóðarinnar eru með slíkum ógnarblæ að manni verður ómótt. Kostuleg lýsing af uppákomu Magnúsar þyrlukóngs úr Eyjum á morgunfundi SA sem vildi ekkert rugl og bara vera harður Íslendingur og láta ekki þessa útlendinga rugla í sér var mjög athyglisverð. Þar átti sveitungi hans Þór Sigfússon meiriháttar innkomu sem ein af örfáum skynsemisröddum landsins í þessum hysteríska brjálæðiskór. Eða vill eigandi Toyota umboðsins að við skilum öllum óþjóðlegu Land Cruiserunum sem óþjóðlega ríka fólkið keypti af honum fyrr á árinu og sendum druslunar aftur með þjósti aftur heim til föðurhúsanna?

Verkefni dagsins er það sama og verkefni Sjálfstæðisflokksins: Að hamra á að við erum einstaklingar og frjáls sem slík. Við erum ekki fangar þjóðernisins. Þótt við tölum íslensku og eigum íslenskt vegabréf eru það hæfileikar okkar, menntun, gildi og mennska sem gerir okkur að því sem við erum. Ég þekki enga bókaútgáfu, þýðanda eða fræðimann í veröldinni sem snýr baki við íslenskri menningu vegna þess að Icesave reikningarnir fást ekki greiddir til baka. Við þurfum ekki á þessari frumstæðu dellu að halda. Ég var á Bókamessunni í Frankfurt í upphafi kreppunnar og taldist til að ég hefði rætt þessa blessuðu kreppu á léttu nótunum við fólk frá Argentínu, Taívan, Suður-Kóreu, Danmörku, Frakklandi .... listinn er ógnarlangur. Allir vissu um hana, við gátum slegið á létta strengi. Svo sneri maður sér að bókmenntum, bókum, hugmyndum ... heimurinn stoppar ekki við Atlantshafið. Við erum óþægilega minnt á það þessa dagana. En við þurfum ekki að skilgreina okkur stöðugt sem eitthvert lið sem líður sálarkvalir fyrir vandræði fjármagnseigenda og ríkisstjórnar. Við erum meira en það. "Við" berum ekki ábyrgð á dellunni. "Við" eigum að hlæja með útlendingunum. Já, við erum á hausnum. Svo miðlum við því sem við kunnum, vitum og getum.

Þessi útlendingafæð gerir endanlega úr okkur aumingja. Það er eins og við höfum ekki aðra sjálfsmynd en þá að vera klinkið í bankahólfum Landsbanka og Kaupþings. Við erum hvert og eitt okkar meira en það. Hættum þessari píslargöngu. Hættum að húðstrýkja okkur sjálf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband