Skorinn niður

Ég fékk póst frá HÍ áðan. Námskeiðið sem ég átti að kenna á vorönn 2009 hefur verið skorið niður. Það fengust ekki nógu margir nemendur. Þeim leist greinilega ekkert á námskeiðslýsinguna: Hold, heimur, djöfull og fagnaðarerindi: Íslenskar bókmenntir 1540-1799. Ógnvekjandi!

Þetta einfaldar lífið aðeins. Það er bévítans púsl að koma kennslu og rannsóknum inn í hagsmunagæslu, skrifstofustörf og útgáfu og hina mörgu og margvíslegu fundi sem maður situr alla daga vikunnar.

En fróðleiksfúsir nemendur í HÍ! 16. og 17. öldin, árnýöldin, early modern age, er eitt merkilegasta tímabil íslenskrar og evrópskrar sögu. Þá fæðist nútíminn og allt sem við höfum í of stórum skömmtum nú var þá í smærra og hrárra formi. Bókmenntirnar eru kostulegar. Líkt og nú voru allir rithöfundar á 17. öld starfsmenn ríkisstofnunar, kirkjunnar, nú fá þeir bara starfslaun og þurfa ekki að predika nema það sé mótmælafundur á Austurvelli eða viðtal í sjónvarpinu. Þeir þurfa heldur ekki lengur að halda uppi opinberri hugmyndafræði, blaðamenn á Markaðnum og viðskiptakálfunum hafa séð um það.

Æi, líklegast verður maður að leggjast í kynningar- og áróðursherferð fyrir töfrum skáldskapar þessa tíma. Kynning á góðum skáldum svo sem Guðmundi Erlendssyni á Felli í Sléttuhlíð eða Bjarna Gissurarsyni á Þingmúla í Skriðdal verður að bíða betri tíma.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband