Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
31.10.2007 | 02:08
Tíu litlir negrastrákar
Í síðustu viku boðaði Alþjóðahúsið til fundar til að ræða hugtakanotkun í samtímaumræðu um fólk af erlendum uppruna vegna endurútgáfu bókarinnar Tíu litlir negrastrákar eftir Gunnar Egilsson með myndum Guðmundar Thorsteinssonar, Muggs. Mér var boðið að koma þarna að ræða á fremur óformlegan hátt sýn bókaútgefenda á málið. Mörður Árnason og Hallfríður Þórarinsdóttir voru einnig í pontu og var ætlað að ná utan um kynþáttahyggju í hugtakanotkun hvort á sinn hátt. Ég bjóst við að fáeinar hræður myndu láta sjá sig og hnykkti því aðeins við þegar ég kom. Bæði var setið í hverju sæti og svo var þarna fullt af fjölmiðlafólki sem ég hafði ekki búist við, meira að segja sjónvarpsmyndavélar. Einhver hafði greinilega verið að vinna plöggvinnuna sína.
Skemmst er frá að segja að fjallað var um þennan litla atburð í nærri öllum fjölmiðlum. Ég hélt að síðan myndi málið lognast út af en misreiknaði það algerlega. Þeir fjölmörgu sem eiga börn af erlendum uppruna, eiga "blönduð" börn eða einfaldlega nána vini eða þá ættingja sem eru sökum hörundslitar síns á einhvern hátt skotspónn meira og minna meðvitaðrar kynþáttahyggju virðast einfaldlega hafa fengið nóg. Þeir nenna ekki lengur að burðast með óuppgerða arfleið íslenskrar kynþáttahyggju. Þeir nenna ekki að heyra fólk segja að "negri" sé alls ekkert rasískt orð, fremur en nokkur önnur orð í íslensku og að fólk hafi nú sungið Tíu litla negrastráka í æsku og ekki orðið meint af. Og það nennir heldur ekki að vera skilningsríkt andspænis viðhorfi sem bloggsíðurnar virðast nokkuð seigar að viðhalda: Hvað banna þeir nú næst? Á bara ekki að fara fram bókabrenna! Hvað sjá menn eiginlega athugavert við myndir af blökkubörnum sem eru limlest, smáð og drepin á hugvitssamlegan hátt uns frábær fjölgunarhvöt þeirra margfaldar töluna að nýju?
Ég hef fengið nokkra tölvupósta frá fólki sem hefur innt mig frekar eftir skoðun minni á málinu. Í áhrifaríkri bloggfærslu Gauta Eggertssonar - bróður borgarstjóra og undramanns að sögn allra sem til hans þekkja - sem farið hefur eins og eldur í sinu um bloggheima í gær og dag er míns óverðugs getið í sambandi við undarlega stuðningsmenn þessarar útgáfu og fólk hefur hringt í mig til að ræða málin. Í stuttu máli sagt er ekkert lát á umræðunni um Tíu litla negrastráka, hún bara magnast. Það er ekki aðeins að hvatt hafi verið til þess að bókasöfn og leikskólar kaupi ekki inn bókina. Fólk segist líka ekki ætla að koma inn í þær bókabúðir sem hafi bókina til sölu. Þeir sem tjá sig um bókina og fordæma útgáfu hennar ekki fortakslaust eru þrátt fyrir hefðbundna varnagla um að auðvitað ætli enginn að fara að kasta bókum á bál og auðvitað verði að virða prent- og tjáningarfrelsi, í fremur þröngri stöðu, nema náttúrlega að þeir kannist ekki við kynþáttahyggju og láti eins og hugmyndafræði sé ekki til.
Ég veit að þessi viðbrögð koma nokkuð flatt upp á útgefendur bókarinnar, Skruddu. Það sést líka vel á umbúnaði hennar. Hvorki útgerð hennar, formáli né annað vísar á að ef til vill sé þarna á ferð hugmyndafræði sem neytendur geti hugsanlega litið svo á að sé beinlínis teflt gegn sér og sínum nánustu og ali á andúð, ranghugmyndum og fyrirlitningu í garð litaðs fólks. Svona eftir á að hyggja er það nokkuð bratt að gefa út ómengaða kynþáttahyggju frá fyrri hluta 20. aldar árið 2007 nánast eins og ekkert sé sjálfsagðara, en hér er svo sem heldur ekki alfarið við útgáfuna að sakast. Það sem gerist hér er að samfélagið er skyndilega sett í þá stöðu að þurfa að horfast í augu við að menningararfleið Íslandinga sé að einhverju leiti byggð á kynþáttahyggju. Að barnabækur æskunnar séu hugmyndafræðilegur áróður. Að ástsæll listamaður getur verið í senn húmanisti og rasisti, líkt og svo margir samtímamenn hans. Að við þurfum að skoða samhengi arfleiðarinnar sem hugmyndafræðilega. Við höfum farið í gegnum þetta ferli að einhverju leyti með hliðsjón af kvenréttindabaráttunni og femínismanum, þótt einmitt bloggsíðurnar séu nú ekki helsti akur skilnings á sjónarmiðum femínisma, sem er svo sem annað mál. Stéttaspurningin var enn annar fasi hins sögulega uppgjörs, marxískir íslenskri fræðimenn fundu í senn frelsisstrengi fortíðar og kúgunarmekkanisma íslenskrar sögu og skrifuðu um hvort tveggja áhrifarík rit um miðbik 20. aldar. Við höfum ekki tekið útlendingaumræðuna í botn. Þeir Snorri Bergs og Einar Heimisson eru og voru álitnir hálfgerð furðumenni vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af örlögum Gyðinga á Íslandi.
En fyrst að við erum vanbúin og höfum í raun mjög litlar rannsóknir í höndunum um sögulegar víddir kynþáttahyggju á Íslandi og lifandi umræðuhefð um málið verða menn svolítið æstir og sækja því um leið nánast beint í umræðuhefðina eins og hún hefur t.d. þróast í Bandaríkjunum, þar sem hún er eðlilega hluti af réttindabaráttu svartra, sbr. hina áðurnefndu bloggfærslu Gauta Eggertssonar. Það gengur hins vegar ekki nema upp að vissu marki. Saga íslenskrar kynþáttahyggju er örugglega ekkert í grundvallaratriðum öðru vísi en saga annarrar kynþáttahyggju en hún byggir ekki á skipulögðu þrælahaldi og kerfisbundinni kúgun annars kynþáttar. Við erum einfaldlega að taka fyrstu skrefin núna þessi misserin í veröld sem sprengir þá gagnhvítu veröld sem flestir Íslendingar eldri en þrítugir ólust upp í. Ég veit að málið snýst um tilfinningar aðstandenda og ótta foreldra og ættingja við viðtökur samfélagsins við börnum sínum og sínum nánustu en séð úr kaldrananum verða viðbrögðin oft glannalega vanstillt og munu ekki leiða til neins skilnings á hlutverki kynþáttahyggju í íslensku samfélagi.
Þá grípa menn líka til styttinga til að hjálpa sér með röksemdafærsluna. Tíu litlir negrastrákar eru hvort sem fylgismönnum bókarinnar líkar betur eða verr þrungin kynþáttahyggju. Ég íhugaði málið stutta stund og gerði það strax upp við mig að ég myndi ekki lesa þessa bók fyrir hann Skírni minn því hann er ekki nógu gamall til að átta sig á hugmyndafræði. En ég held að menn þurfi að hafa meira til síns máls en bandarískt umræðusamhengi til að negla niður rasismann. Hvað gekk Muggi t.d. til? Ten Little Niggers virðist t.d. eftir því sem ég kemst næst hafa verið breskt kvæði en ekki bandarískt, en byggt á bandarísku kvæði sem hét Ten Little Indians. Bæði kvæðin eru samin á hátindi hugmyndafræðilegrar kynþáttahyggju á Vesturlöndum, rétt um 1870. Seinna var kvæðið svo myndskreytt víða um lönd og ég hef haft upp á versjónum á öllum Norðurlandamálum, hollensku, þýsku og frönsku. Leikrit byggt á kvæðinu virðist vera sett upp reglulega í mörgum leikskólum hérlendis og kvæðið er inni á heimasíðum leikskóla sem hluti af efnisskránni og ég veit að það er víða sungið, t.d. á jólaskemmtunum. Hins vegar virðist það ekki hafa haft eins sterk samfélagsleg áhrif og útkoma bókarinnar. Það er því fráleitt að láta nú eins og útkoma bókarinnar sé einhver sérstök blind framsókn þröngsýninnar. Hvaða þjóðfélagshópar á Íslandi hafa haft beinan hag af kúgun kynþátta í eigin landi?
Á áðurnefndum fundi í Alþjóðahúsinu sagðist ég vera í þeirri óvinsælu stöðu að verja frelsið til að gefa út úrelta hugmyndafræði. Ef taka á tjáningarfrelsið alvarlega verður að taka þann pól í hæðina. Sá sem vill gefa út bókina, hvort sem það er með athugasemdum eða ekki, er í fullum rétti til þess. Ef við verjum ekki þennan rétt núna, eigum við þá að verja hann þegar bók kemur út sem vekur reiði Valdsins? En ef við fengjum sögulega úttekt á stöðu útlendinga í íslensku samfélagi og hugmyndafræði kynþáttahyggju í orðræðu menntamanna á Íslandi á 19. og 20. öld yrði loksins hægt að segja eitthvað af viti um jarðveg hinna íslensku Tíu litlu negrastráka. En ekki heldur fyrr en þá. Við eigum ekki enn deild kynþáttahyggju á Þjóðminjasafninu. Og fyrst svo er verður vart hægt að álasa þeim fjölda fólks sem finnst það sjálfsagt að gefa út Tíu litla negrastráka athugasemdalaust. Ég veit að mjög margir eru að heyra það í fyrsta sinn núna að uppáhalds barnabókin sín særir annað fólk.
Bækur | Breytt s.d. kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2007 | 04:51
Saga steyptra vega
Færsla sem ég skrifaði um daginn um einnar bókar útgáfur hefur kallað á nokkur viðbrögð. Fólk finnur sig knúið til að segja mér frá bókum sem eru úr alfaraleið, oftast bókum sem það hefur fengið upp í hendurnar fyrir tilviljun eða vegna atvinnu sinnar.
Þannig hef ég verið minntur á bók um sögu svínaræktar á Íslandi sem kom út árið 2005 og er eftir Friðrik G. Olgeirsson, sem er einn af afkastamönnum einnar bókar útgáfunnar. Raunar er hann nú að færast meira í fang í markaðslegu tilltii í ár en oft áður með bók sem samkvæmt Bókatíðindum virðist vera hvorki meira né minna en ævisaga Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi og gefin er út af JPV. Enn hefur lítið verið fjallað um hana í fjölmiðlum en sjálfsagt mun koma að því. En saga svínaræktarinnar er raunar heildstætt yfirlitsrit sem fjallar um svínarækt á Íslandi frá landnámi til vorra daga. Kunningi minn, eðalblaðamaður hér í borg, benti á að það sem hann hefði lært af þessari bók væri að alisvín væru feitari um lærin en villisvín holdmeiri um bógana. Þótt ekki væri nema fyrir þetta eitt hefði lesturinn borgað sig.
Annar minnti mig á útgáfuverk bókaútgáfunnar á höfuðbólinu Hofi í Vatnsdal þar sem Gísli bóndi Pálsson ræður ríkjum. Gísli heldur uppi merkjum húnvetnskra útgefenda en þar er annars fátt orðið um fína drætti þótt annað slagið sjái maður reyndar rit úr Vestursýslunni, til dæmis frá Guðrúnu M. Kloes. Gísli hefur verið ótrúlega ötull við að gefa út grundvallarverk um íslensk húsdýr, til að mynda bók um íslenska fjárhundinn, sem er mikið gersemi og er á þremur tungumálum. Hann gaf lengi út safnritið Hestar í norðri sem er ótrúlega viðamikið safn og kom einnig að hluta til út á þýsku og ensku. Bók Jóns Torfasonar, eðalhúnvetnings, um íslensku sauðkindina var líka gefin út á Hofi, frábærlega vel skrifuð bók sem er unun að lesa bara fyrir orðfærið.
En það sem kætti mig þó mest var melding frá gömlum samstarfsfélaga á Eddu sem fræddi mig á því að það væri langt í frá langsótt að kalla eftir sögu bundins slitlags. Nú þegar hefði verið rituð saga steyptra vega á Íslandi, gagnmerkt og myndskreytt rit eftir sérfræðing. Þetta er bókin Steyptar götur og vegir, þróunarsaga 1938-1998 eftir Njörð Tryggvason verkfræðing sem vann lengi hjá Sementsverksmiðju ríkisins á Akranesi. Niðurstaða höfundar mun vera að miklu endingarbetra sé að nota steinsteypu til vegagerðar en malbik. Útgefendur voru Sementsverksmiðan og Vegagerðin. Bókin kom út árið 1999.
Í samantekt sem við hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda gerðum fyrir opinberan aðila kemur í ljós að af þeim útgefendum sem skrá bækur sínar í Bókatíðindi gefa um 25 útgefendur ár hvert út 4 bækur eða fleiri. Hins vegar gefa um 70-80 útgefendur út færri en 3 bækur. Árið 2005 gáfu því 75 útgefendur sem allir gáfu út 1-3 bækur það ár út 101 titil. Alls gáfu 103 útgefendur út 620 titla. Þetta sýnir vel að stóru og meðalstóru bókaútgáfurnar bera uppi magnið á samkeppnismarkaði. En sýnir líka hve fjöldi smáútgefenda er mikill því leiða má að því líkur að tugir einnar til þriggja bóka útgáfna skrái ekki bækur sínar í Bókatíðindi. Það eru því á bilinu 100-110 útgefendur sem hvert ár gefa út um 150-160 titla.
Bækur | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2007 | 14:24
Stærsta bókavertíð allra tíma!
Þá er það staðfest. Bókavertíðin 2007 verður stærsta bókavertíð í sögu íslenskrar bókaútgáfu. Aldrei hafa jafn margar bækur verið skráðar til leiks í Bókatíðindum, einir 800 titlar. Þetta er gríðarleg fjölgun frá því í fyrra þegar 677 titlar voru alls í Tíðindunum. Fyrir vikið verða Bókatíðindi nú einum 40 blaðsíðum stærri en í fyrra. Við eigum enn eftir að skoða þetta í smáatriðum og fara yfir flokkana og skoða hvar fjölgunin hefur verið mest. En fljótt á litið eru meðalstóru útgáfurnar mjög að fjölga sínum útgáfutitlum. Fleiri einnar og tveggja bóka útgefendur eru með en áður og svo er það risinn, Forlagið, rúmur fjórðungur bókanna í Bókatíðindum koma út á vegum þess. Það eru allar útgáfubækur Eddu útgáfu og JPV samanlagt. Það er í raun ekki fyrr en maður skoðar listann sem maður áttar sig á því hverskonar risaútgáfa þetta er.
Bókatíðindum verður dreift í öll hús upp úr mánaðarmótum og nú er betra en nokkru sinni að halda fast í þau og skoða vel því þau gefa nú æ betri mynd af bókamarkaðinum í heild sinni. Ef miðað er við að um 1500 bækur komi út á Íslandi árlega er þetta ansi stór hluti af markaðnum. Síðan má reikna með um 100 titlum sem bókaútgáfurnar setja ekki inn í Bókatíðindi, s.s. kennslubækur og ýmislegt smáefni annað. Í raun eru það mest útgáfur stofnana og fyrirtækja auk sjálfsútgáfuverka sem verða eftir. Bókatíðindi gefa því æ betri mynd af markaðnum í heild.
Árið 1994 voru 332 titlar í Bókatíðindum. Árið 1997 voru 392 titlar í Bókatíðindum. Nú eru helmingi fleiri titlar en þá en heildarfjöldi útgáfutitla það ár hefur án efa verið nálægt 1500 bóka markinu, skv. tölum frá 1999 voru jafnvel ívið meira en 1500 bækur gefnar út það ár. Fjölgunin á skráðum titlum í Bókatíðindum er gríðarleg á einum áratug.
En þeir sem vilja skoða Bókatíðindi á netinu geta nú þegar hafist handa. Allar bækur sem skráðar eru í gagnagrunninn sjást á vefsíðu Félags íslenskra bókatíðinda. Þar má fletta fram og aftur og lesa innihaldslýsingar á þessum 800 titlum.
Já, og svo er að kaupa bækurnar þegar þær koma út. Raunar er vertíðin nú hafin því slagurinn er byrjaður. Biblían leiðir í bili en strax í næstu viku kemur út næsti stórseller, ný bók Arnaldar Indriðasonar sem heitir því tungubrjótandi nafni Harðskafi. Svo er það Harry Potter og síðan allt hitt.
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2007 | 23:30
Einnar bókar útgáfur
Eitt af því sem er svolítið sérstakt við íslenskan bókamarkað er sá mikli fjöldi útgefenda sem gefa út eina til þrjár bækur á ári og koma þeim að í bókabúðum. Ef marka má Bókatíðindi sem og skráningar inn í kerfi Eymundssonar eru þetta um 70-80 aðilar sem munu nú um jólin tefla bókum sínum inn á samkeppnismarkaðinn. Allir þessir aðilar dreifa sjálfir bókunum sínum, sjá sjálfir um að selja þær, fjármagna sjálfir prentun þeirra og eru oftar en ekki sjálfir annað hvort höfundar, kápuhöfundar, umbrotsmenn eða jafnvel allt þetta og meira til. Það gefur auga leið að í þessum hópi er fæstir eiginlegir "fagmenn" í bókaútgáfu og auðvitað er tilgangurinn með þessum útgáfum misjafn. Hins vegar eru allir á því að bækur þeirra eigi erindi við almenning og menn láta á það reyna. Sumt af þessu er ákaflega metnaðarfull verkefni sem oft ættu meiri athygli skilið.
Ef sölulistar eru skoðaðir frá undanförum árum sést að aðeins í algerum undantekningartilvikum ná þessar smáútgáfur mælanlegum árangri á metsölulistum. Undantekningarnar eru til að mynda bækur Þorgríms Þráinssonar, sem hann hefur gefið út sjálfur á undanförnum árum, og svo stórvirki á við Kjarvalsbók Nesútgáfunnar, en eðli málsins samkvæmt gaf hún ekki út fleiri bækur það árið.
Það væri forvitnilegt að skoða stöðu þessarar útgáfu fyrir heildarsamhengið, því þetta fyrirbæri hefur verið ótrúlega lítið rannsakað. Þau fyrirtæki sem stunda bókaútgáfu af þrótti og hafa fjölda starfsfólks láta fyrirferð litlu útgáfunnar oft fara í pirrurnar á sér, vegna þess að stærstu bókabúðirnar virðast taka öll verk þeirra inn og "trufla" stóru útgáfurnar og borðpláss þeirra. Fyrir neytendur er þetta án efa mjög gott því fyrir vikið eykst vöruúrvalið, en þá segja prófessjónal útgefendur að fæstar þessara bóka séu stílaðar upp á neytendur. Leiðarmerki smáútgáfunnar sé fyrst og fremst hugarfarið að "koma þessu út".
Hvað sem því líður verður að segja að eitt er stórkostlegur galli á þessu kerfi. Það er nánast enginn infrastrúktúr til í dreifingu og sölu á þessum verkum. Hver einasti smáútgefandi er sjálfur að dreifa bókunum í sínum skutbíl og sjálfur að geyma þetta í bílskúrnum sínum. Fyrir vikið verður merkilega stór hluti bókamarkaðarins í raun að neðanjarðarfyrirbæri þótt hann eigi það í raun ekki skilið. Hvernig haldið þið að það sé fyrir smásala að panta inn bækur frá tugum birgja sem fæstir eru eiginleg fyrirtæki, heldur fólk úti í bæ? Væri ekki þægilegra ef til væri einn staður sem sæi um þetta allt? Skorturinn á eiginlegu dreifingarsentrali er mikið vanþroskamerki íslensks bókamarkaðar.
Í vikulegum pistli sínum greinir innkaupastjóri íslenskra bóka hjá Eymundsson, Bryndís Loftsdóttir, eilítið frá þessu fyrirbæri og bendir réttilega að eitt af gróskueinkennum íslensks bókamarkaðar er þessí útgáfa. Við hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda höfum reynt að benda fólki á að fyrir þessa aðila er nánast enginn vettvangur til kynningar betri en Bókatíðindi. Þar eru þeir á jafnréttisgrundvelli með sín verk og þar geta þeir komið t.d. verði á framfæri svo kúnnar geti haft bein samskipti við þessar litlu útgáfur. Við höfum haldið því fram að helsta réttlæting birtingar leiðbeinandi útsöluverðs í Bókatíðindum, nokkuð sem er annars ekki hlutverk heildsölustigsins, sé sé fjöldi þessara minni útgáfna. Þær séu í raun að birta verð sín þarna á smásölustigi því kannski tvær til þrjár bókaverslanir eru með allt þetta úrval til sölu. Megnið af kúnnum leiti á endanum beint til útgáfunnar, enda miðast útgáfan oft við að selja til ákveðins hóps.
Fyrir nokkrum dögum fór ég í Bókabúð MM við Laugaveg og gerði mér sérstakt far um að skoða þessar bækur. Það verður að segjast að margt af þessu er að sönnu mjög þröngt og höfðar til fárra en er oft um leið svo dásamlega sniðugt í eðli sínu að maður getur ekki annað en dáðst að framtakinu. Ein þeirra bóka sem ég rakst á er til dæmis heildaryfirlit um brúargerð á Íslandi sem Verkfræðingafélagið hefur gefið út. Stór hnulli allur í lit sem rekur sögu brúarsmíði á Íslandi frá upphafi með uppdráttum, ljósmyndum og nákvæmum frásögnum. Þetta hef ég hvergi séð auglýst né nokkurn mann ræða um, en þetta er til! Örugglega á einhver eftir að skrifa sögu bundins slitlags á Íslandi og gefa út litprentaða bók um málið. Ég bíð spenntur.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2007 | 11:51
Vertíðin hafin
Í gær lokaði Félag íslenskra bókaútgefenda á skráningar í Bókatíðindi ársins 2007. Endanleg tala titla liggur ekki alveg nákvæmlega fyrir en ljóst er að enn eitt árið hefur orðið aukning í skráðum titlum og að þeir eru nú komnir yfir 700. Um leið hafa aldrei jafn margar heilsíðuauglýsingar um bækur verið pantaðar og nú. Þetta rímar við það sem maður heyrir frá flestum meðalstórum bókaútgáfum. Þær auka við sig í ár í von um að auka hlutdeild sína á markaði og auka tekjur. Um leið skrá sífellt fleiri smærri aðilar bækur sínar og raunar gefa sífellt fleiri út bækur. Það er orðið hálfgert sport. En samkvæmt þessu hefur aldrei fyrr í sögunni verið teflt jafn mörgum titlum með skipulögðum hætti inn á jólamarkaðinn og nú þótt verið geti að heildarfjöldi útgefinna bóka sé ekki endilega sá mesti fyrr og síðar.
Og raunar er vertíðin formlega hafin með útgáfu á fyrstu eiginlegu samkeppnisbókunum í jólavertíðinni. Ég spáði því í sumar að Leyndarmálið hennar Rhondu yrði toppbók fram að fyrstu jólabókum og það stóðst því Mæling heimsins eftir Daniel Kehlmann tók framúr henni og á mikla möguleika á að halda sölustími sínu fram að jólum ef útgáfan gefst ekki upp á limminu og hættir að auglýsa hana í byrjun nóvember. Nú eru komnar út bækur eins og Dauði trúðsins eftir Árna Þórarinsson og framundan eru síðan stóru slemmurnar, ný bók eftir Arnald og svo ævisaga Guðna Ágústssonar, sem á nú sviðið ein því embættissögu Ólafs Ragnars hefur verið slegið á frest. Ég veit að von er á nýjum sögum frá Einari Má og Kristínu Marju Baldursdóttur, sem bæði eiga mikla möguleika og ég er líka viss um að Jón Kalman Stefánsson muni nú uppskera eftir að hafa byggt upp sinn rithöfundaferil markvisst og örugglega. Hann er handhafi Íslensku bómenntaverðlaunanna og er nú á ferð með sögulega skáldsögu. Ef hann leyfir markaðsvélinni aðeins að blása gæti hann slegið í gegn. En það sem kannski er forvitnilegast við bókavertíðina eru minningabækur tveggja stórskálda, Ingibjargar Haraldsdóttur og Sigurðar Pálssonar, sem ég hef heyrt að séu væntanlegar. Og manni heyrist líka að loksins komi bók Péturs Gunnarssonar um Þórberg Þórðarson sem ég hef þegar pantað mér í jólagjöf ef satt reynist. Skáldakynslóðin sem fæddist á fimmta áratugnum er nú ballest íslensks bókmenntalífs, þaðan er á næstu árum án efa að vænta í senn þroskaðra og flippaðra verka þar sem reynsla, þekking, yfirsýn og hæfileikar mynda magnað blöndu með sköpunarkraftinn að vopni.
Bækur | Breytt 24.10.2007 kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2007 | 10:28
Bókamessan í Frankfurt
Á meðan allir bókaútgefendur Íslands voru á bókamessunni í Frankfurt fór fram ljóðahátíð Nýhils og því verður örugglega hægt að skamma þá fyrir að hafa ekki mætt og sýnt framtakinu fullkomið tómlæti. Mér fannst fúlt að missa af henni en messan er mikilvægasti viðburður ársins fyrir alþjóðlega bókaútgáfu og þar má enginn sem vill taka þátt í þeim dansi láta sig vanta. Á bókamessunni heyrði ég nú ekki í mörgum höfundum þótt raunar sé vel hægt að taka þann rúnt á messunni ef maður vill, einkum þó utan messunnar því það er fullt af upplestrum á kvöldin úti í Frankfurtarbæ, en aðallega hittir maður aðra útgefendur, ýmist á fundum, á börum eða í kvöldverðarboðum.
Íslenska útgefendur hitti maður þó fyrst og fremst á sameiginlegum standi íslensku bókaútgáfunnar sem var sérstaklega glæsilegur og reisulegur í ár enda hannaður af súperhönnuðunum Guðrúnu Lilju Gunnlaugsdóttur og Jóni Ásgeiri. Nokkur tími fór stundum í það á fundum með norrænum kollegum að skýra nákvæmlega hvernig Forlagið nýja varð til, þá hjálpaði að teikna upp skýringarmyndir sem sýndu betur en ómarksvissar útskýringar á skandinavísku hvernig Jóhann Páll sem eitt sinn var með útgáfu sem hét Forlagið en var líka Mál og menning en stofnaði svo nýtt fyrirtæki sem nú rennur saman við "útgáfuhluta" Eddu útgáfu sem er eiginlega líka Mál og menning og svo á Mál og menning helming í Forlaginu sem er þó ekki gamla forlagið, heldur nýtt fyrirtæki þar sem Jóhann Páll er forstjóri, og já standurinn þeirra er hérna neðar í gangi A.
Önnur samrunafyrirtæki á Norðurlöndum, Cappelen Damm í Noregi og Lindhof og Ringhardt í Danmörku, voru mjög á tánum og lögðu mikla vinnu í að sýna að þau kæmu sameinuð og sterk til leiks. Mikil boð voru á stöndunum og sameinaður vinnuafli settur í frontinn til að tjúna upp stemmninguna. En þessi fyrirtæki þurfa bæði að taka á því eftir sameiningu og berjast bæði við að sannfæra samkeppnisyfirvöld um að hún geti gengið í gegn. Forstjóri L&R, Anette Wad, var ekki með neina sykurhúðaða versjón af framtíðinni á sínum vörum, enda hafði hún meiri áhuga á því að ræða um hestamennsku og tamningar.
Bókamessan í Frankfurt er staður þar sem ég held að rithöfundum hljóti að líða frekar undarlega. Enginn hefur áhuga beinlínis á þeim eða þeirra verkum eða hvernig þeir ætla að gera hlutina. Allir eru að tala um réttindi, sölu, hvernig megi setja þetta og hitt á markað, hvernig þessi eða hinn markaðurinn er. Bækur eru vörur og á bókamessunni er það nánast óskiljanlegt að höfundar vilji ekki skrifa bækur sem fitta inn í þetta umhverfi en haldi áfram að ströggla við að búa eitthvað til utan ramma markaðarins. Þetta verður hvergi augljósara en á tveimur stöðum. Annars vegar í svokölluðu Agents Centre, þar sem hinir raunverulegu sölumenn réttinda í þessum heimi, umboðsmennirnir, höndla með sína vöru. Hins vegar á því sem kalla mætti forleik messunnar, réttindasölufundunum á Hotel Frankfurter Hof deginum áður en messan opnar þegar samanlagður sölufloti vestræns bókabransa situr í leðursófunum á helsta lúxushóteli Frankfurt am Main og þylur söguþræði og útlitseinkenni allra höfunda Evrópu og enska málsvæðisins yfir öðrum útgefendum frá sömu slóðum og svo einum og einum utanaðkomandi. Söguþræðirnir eru grunsamlega líkir og sá sem er við hliðina heyrir þá líka. Menn eru með gríðarlegt magn höfunda á sínum snærum og blaða í gegnum þykkar möppur með dummy kápum af heilu krimmaseríunum, heilu chick-lit seríunum, heilu upmarket main stream fiction seríunum og svo framvegis. Andspænis þessu finnst manni það alltaf stappa nærri sturlun að tekist hafi að selja rétt á íslenskum höfundum yfirleitt. Það er einfaldlega svo ofboðslegt framboð af textum í heiminum.
Helsta tragedían í loftinu á messunni er hvernig ein af stoltum súlum þessa bransa hrundi nú fyrir skemmstu, PFD agentúran í Bretlandi þar sem legenderir agentar á borð við Pat Kavanagh, eiginkonu Julian Barnes, voru á mála. Fyrir skemmstu yfirgáfu allir starfsmenn hennar bátinn, um 80 að tölu, og eftir sitja bakklistaréttindi höfundanna í höndum agentúrunnar sem er í eigu einhvers íþróttaréttindasölubatterís sem höndlar með sjónvarpsréttndi á amerísku NFL deildinni í Evrópu og formúlusýningarréttinn í Dubai og þar fram eftir götunum. Höfundar á borð við Ruth Rendell sitja nú og vita ekki sitt rjúkandi ráð því agentar ráða öllu í bransanum. Það er næstum því grátlegt að sjá höfunda mæta á messuna í eigin persónu til að setja verk sín. "Who's your agent?" er fyrsta spurningin sem allir fá. Val á agent er grundvöllur þess að einhver taki mark á manni. Agentar sigta inn allar bækur sem koma út á enska málsvæðinu og vald þeirra bara eykst. Útgáfustjóri Faber & Faber sagði mér að forlagið sé löngu hætt að taka við innsendum handritum. Flest forlög í USA og UK gera það ekki, það er of mikil vinna. Sama þróun er að hefjast í Þýskalandi og á Norðurlöndum. Agentar velja inn höfunda til að selja á forlögin og eru búnir að snikka þá til fyrir sölumaskínuna áður. Nútímaforlög eru ekki bókaútgáfur í gömlu skilningi, heldur fyrst og fremst markaðs- og sölubatterí og editorar eru þeir sem geta tengt saman "creative content" og markaðstækifæri. Þau hafa aðgang að markaðnum og það verður þeirra hlutverk. Vinnan með höfundunum fer fram hjá agentunum.
En þetta er bara heimur skáldskaparins. Utan hans eru heimar kennslubókaútgáfu, handbókaútgáfu, ljósmyndaútgáfu osfrv. Ég hafði þau forréttindi á þessari messu að dvelja eingöngu í þeim paralell úníversum en horfa á litteratúrinn úr fjarlægð. Það gerði það að verkum að manni fannst vænna um bækur og það sem í þeim stendur en löngum fyrr.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2007 | 14:35
Íslenska bókamessan
Í Lesbók nú á laugardegi er grein eftir Svein Ólafsson um þörfina á íslenskri bókamessu. Sveinn færir mörg rök fyrir því að íslensk bókamessa sé gott markaðstækifæri fyrir útgefendur því þar gefist þeim færi á að kynna vörur sínar "lykilfólki". Almenningur kynnist nú bókum aðallega fyrir tilstilli auglýsinga eða með einhvers konar "þröngri" kynningu. Aðrir vegir séu þar lítt færir. Bókamessan myndi bæta úr þessum upplýsingaskorti og verða til þess að almenningur, en ekki síst "lykilfólk" vissi meira um útgáfuna.
Nú er það svo að þessi hugmynd hefur nokkrum sinnum verið rædd í alvöru á undanförnum árum þótt aldrei hafi það gengið svo langt að menn hafi reynt að reikna út kostnað og sjá fyrir sér hvernig hægt sé að standa að þessu. Sveinn bendir á bókamessurnar í Frankfurt og Gautaborg sem dæmi um vel heppnaða atburði af þessum toga. Sá samanburður er nokkuð brattaralegur, svo ekki sé meira sagt. Nær væri að bera hina íslensku messu saman við þær fjöldamörgu smámessur sem finna má út um allan heim, allt frá bókamessunni í Jerúsalem til bókamessunnar í Þessalóníku. Bókamessan í Kaupmannahöfn væri því án efa betri til samanburðar en Gautaborgarmessan, sem er risaviðburður, einkum vegna þess að þar er blandað saman fjórum módelum: vörusýningu fyrir almenning, fagsýningu yfir "lykilfólk", réttindamarkaði og svo bómennta- og menningarhátíð. Fyrir vikið getur maður keypt bók sjálfum sér til lestrar niðri á gólfi fyrir hádegi, brugðið sér á upplestur heimsþekkts höfundar í hádeginu, selt rétt á íslenskri bók í réttindamiðstöðinni eftir mat en heyrt svo semínar um möguleika kynjapólitískrar útgáfstefnu hjá litlum forlögum á Norðurlöndum undir kvöldmat. Til að við hefðum eitthvað slíkt yrðum við að blanda saman Bókmenntahátíð í Reykjavík, Viku bókarinnar, Bókamarkaðinum, útgáfuteitum forlaganna, tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og árshátíð Borgarbókasafnsins.
Margt í ábendingum Sveins er rétt. Það fer ekki mikil markaðssetning fram á megninu af þeim 1500 titlum sem koma út á Íslandi árlega. Þar með er síður en svo öll sagan sögð. Mér er til efs að nokkurn tíma í sögu íslenskrar útgáfu hafi öðrum eins fjármunum verið varið til markaðssetningar og á síðustu árum. Auk þess segir þetta heildarmagn í íslenskri útgáfuskrá ekki alla söguna. Á sama tíma og titlum í raun fækkar skv. útgáfuskrá það sem af er 21. öld aukast skráningar í Bókatíðindi á hverju ári. Það segir okkur einfaldlega það að fleiri útgefendur - og flestir útgefendur á Íslandi eru mjög smáir og gefa út eina til 10 bækur á ári - vilja að vörur þeirra fari inn á samkeppnismarkað. Nú síðast voru um 700 titlar skráðir í Bókatíðindi. Árið 1996 voru þeir 400. Þar er í það minnsta grundvöllur kynningar. Smá texti um bókina og hægt er að fletta í vöruskrá sem einnig er alltaf aðgengileg á netinu. En ... auðvitað þyrfti að vera hægt að fletta upp öllum þessum titlum á netinu og panta þá, líka því sem ekki er í Bókatíðindum og einhver vegur er í, því í raun veit enginn hvaða 800 bækur þetta eru sem ekki eru í Bókatíðindum, það hefur einfaldlega ekki verið kannað. Skortur á netaðgangi að upplýsingum um bakklistatitla á Íslandi er eitt helsta vanþroskamerki íslensks bókamarkaðar nú um stundir. Áætlað er að um 8.000 - 10.000 titlar séu í boði á íslenskum bókamarkaði, þ.e. eru til "in print". Það virðist vera mjög erfitt að afla sér upplýsinga um megnið af þessum titlum. Nákvæm skráning sem biði upp á aukaupplýsingar, möguleika á að panta þessa titla ef út í það færi, s.s. alvöru "long tail"-viðskiptamódel, er eitthvað sem enginn þorir að setja á stofn af ótta við kostnaðinn. Ef þetta væri til myndi verða komið mjög til móts við sjónarmiðin um íslenska bókmamessu, því að mínu viti eru vandræðin ekki fólgin í að kynna nýja titla fyrir lykilfólki, heldur að búa til verðmæti úr því sem í raun og veru er á markaðnum. Bóksala nútímans felst í stuttum líftíma titla inni í búðum. Eini möguleikinn til að hafa yfirsýn yfir raunverulegt vöruúrval sem kemur til móts við fjölbreyttar óskir neytenda er að fara með bakklistana inn á vefinn.
En talandi um lykilfólk. Frá því að ég byrjaði að vinna í bókaútgáfu hérlendis fyrir 10 árum síðan hafa öll þau forlög sem ég hef haft pata af og hafa viljað láta taka mark á sér verið dugleg að kynna lykilfólki vöru sína. Það er gert bæði að hausti og vori og þótt vissulega mætti bæta upplýsingaflæði til starfsmanna bókasafna, er samt unnið í því. Áhugi annarra utan þessa geira, almennings og fjölmiðlafólks, hefur hins vegar ekki reynst nógu mikill til að slíkar kynningar gengju upp. Það hefur aldrei gengið upp að blása til slíkra atburða. Til að bókamessa sé möguleg þarf hún að fela í sér miklu fleiri þætti en bara það að sýna bækur sem eru að koma út. Þar þurfa að vera element bókmenntahátíðar og vörusýninga fyrir almenning. Þar verður að eiga sér stað verslun um leið og þar verður að vera faglegt element fyrir bransann sem slíkan.
Það vill svo til að slíkur atburður er til, það þarf bara aðeins að hugsa hann í víðara samhengi. Þetta er árlegur bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda sem um langt skeið hefur verið haldinn í Perlunni um mánaðarmótin febrúar-mars. Þangað koma tugþúsundir gesta, bæði fagfólk og almenningur, og möguleikarnir við að nýta þann atburð fyrir bókaútgáfuna og faglegu hliðina hafa verið gersamlega vannýttir þótt þeir séu augljóslega til staðar. Við þurfum ekki bókamessu fyrir jólin þegar kynningar bóka eru hvor eð eru keyrðar á fullt í öllum miðlum. Við þurfum bókamessu þegar menn hafa tíma til að sinna titlum sínum, huga að vorútgáfunni, öðrum áherslum, geta kynnt útgáfu sína sem fer fram utan jólanna og almennar áherslur sínar á öðrum sviðum en skáldskaparsviðinu. Það er aldrei betra en á einmitt á útmánuðum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2007 | 22:48
Bókmenntir á fjárlögum
Í fjárlagafrumvarpinu nýja eru nokkur athyglisverð nýmæli sem lúta að bókmenntum og bókabransanum. Í fyrsta lagi fær hinn nýi Bókmenntasjóður nokkuð aukinn stuðning og mun ef allt gengur eftir hafa 50 milljónir til umráða. Það er breyting frá rétt tæpum 37 milljónum og er mjög í áttina, eins og sagt er.
Á fjárlögum eru svo nokkur sérstök pródjekt. Til dæmis fær Hið íslenska bókmenntafélag 19,3 milljónir á fjárlögum, eitt íslenskra útgáfufyrirtækja, en mig minnir að grundvöllur þess hafi verið að þeir gefi út Skírni, sem sé elsta tímarit á Norðurlöndum. Útgáfa fornritafélgasins á Biskupasögum fær einnig sérframlag frá forsætisráðuneyti.
Hjá menntamálaráðuneyti er líka mjög dularfullur liður sem ekki er alveg ljóst hvaða hlutverki gegnir og kallað er "styrkir til útgáfumála", um 34 milljónir. Ekki er ljóst hver á að fá þessa peninga og hvernig staðið er að útdeilingu þeirra, en ekki ber að forsmá það.
Sjálfsagt eru þarna fleiri matarholur fyrir bókaútgáfuna og bókmenntirnar. Það sem skiptir þó mestu máli er að gæfuleg útgáfupródjekt, rannsóknarverkefni og grundallarrit séu að hluta til fjármögnuð af opinberu fé. Og að við séum öll sammála um að það sé gott mál.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)