Íslenska bókamessan

Í Lesbók nú á laugardegi er grein eftir Svein Ólafsson um þörfina á íslenskri bókamessu. Sveinn færir mörg rök fyrir því að íslensk bókamessa sé gott markaðstækifæri fyrir útgefendur því þar gefist þeim færi á að kynna vörur sínar "lykilfólki". Almenningur kynnist nú bókum aðallega fyrir tilstilli auglýsinga eða með einhvers konar "þröngri" kynningu. Aðrir vegir séu þar lítt færir. Bókamessan myndi bæta úr þessum upplýsingaskorti og verða til þess að almenningur, en ekki síst "lykilfólk" vissi meira um útgáfuna.

Nú er það svo að þessi hugmynd hefur nokkrum sinnum verið rædd í alvöru á undanförnum árum þótt aldrei hafi það gengið svo langt að menn hafi reynt að reikna út kostnað og sjá fyrir sér hvernig hægt sé að standa að þessu. Sveinn bendir á bókamessurnar í Frankfurt og Gautaborg sem dæmi um vel heppnaða atburði af þessum toga. Sá samanburður er nokkuð brattaralegur, svo ekki sé meira sagt. Nær væri að bera hina íslensku messu saman við þær fjöldamörgu smámessur sem finna má út um allan heim, allt frá bókamessunni í Jerúsalem til bókamessunnar í Þessalóníku. Bókamessan í Kaupmannahöfn væri því án efa betri til samanburðar en Gautaborgarmessan, sem er risaviðburður, einkum vegna þess að þar er blandað saman fjórum módelum: vörusýningu fyrir almenning, fagsýningu yfir "lykilfólk", réttindamarkaði og svo bómennta- og menningarhátíð. Fyrir vikið getur maður keypt bók sjálfum sér til lestrar niðri á gólfi fyrir hádegi, brugðið sér á upplestur heimsþekkts höfundar í hádeginu, selt rétt á íslenskri bók í réttindamiðstöðinni eftir mat en heyrt svo semínar um möguleika kynjapólitískrar útgáfstefnu hjá litlum forlögum á Norðurlöndum undir kvöldmat. Til að við hefðum eitthvað slíkt yrðum við að blanda saman Bókmenntahátíð í Reykjavík, Viku bókarinnar, Bókamarkaðinum, útgáfuteitum forlaganna, tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og árshátíð Borgarbókasafnsins. 

Margt í ábendingum Sveins er rétt. Það fer ekki mikil markaðssetning fram á megninu af þeim 1500 titlum sem koma út á Íslandi árlega. Þar með er síður en svo öll sagan sögð. Mér er til efs að nokkurn tíma í sögu íslenskrar útgáfu hafi öðrum eins fjármunum verið varið til markaðssetningar og á síðustu árum. Auk þess segir þetta heildarmagn í íslenskri útgáfuskrá ekki alla söguna. Á sama tíma og titlum í raun fækkar skv. útgáfuskrá það sem af er 21. öld aukast skráningar í Bókatíðindi á hverju ári. Það segir okkur einfaldlega það að fleiri útgefendur - og flestir útgefendur á Íslandi eru mjög smáir og gefa út eina til 10 bækur á ári - vilja að vörur þeirra fari inn á samkeppnismarkað. Nú síðast voru um 700 titlar skráðir í Bókatíðindi. Árið 1996 voru þeir 400. Þar er í það minnsta grundvöllur kynningar. Smá texti um bókina og hægt er að fletta í vöruskrá sem einnig er alltaf aðgengileg á netinu. En ... auðvitað þyrfti að vera hægt að fletta upp öllum þessum titlum á netinu og panta þá, líka því sem ekki er í Bókatíðindum og einhver vegur er í, því í raun veit enginn hvaða 800 bækur þetta eru sem ekki eru í Bókatíðindum, það hefur einfaldlega ekki verið kannað. Skortur á netaðgangi að upplýsingum um bakklistatitla á Íslandi er eitt helsta vanþroskamerki íslensks bókamarkaðar nú um stundir. Áætlað er að um 8.000 - 10.000 titlar séu í boði á íslenskum bókamarkaði, þ.e. eru til "in print". Það virðist vera mjög erfitt að afla sér upplýsinga um megnið af þessum titlum. Nákvæm skráning sem biði upp á aukaupplýsingar, möguleika á að panta þessa titla ef út í það færi, s.s. alvöru "long tail"-viðskiptamódel, er eitthvað sem enginn þorir að setja á stofn af ótta við kostnaðinn. Ef þetta væri til myndi verða komið mjög til móts við sjónarmiðin um íslenska bókmamessu, því að mínu viti eru vandræðin ekki fólgin í að kynna nýja titla fyrir lykilfólki, heldur að búa til verðmæti úr því sem í raun og veru er á markaðnum. Bóksala nútímans felst í stuttum líftíma titla inni í búðum. Eini möguleikinn til að hafa yfirsýn yfir raunverulegt vöruúrval sem kemur til móts við fjölbreyttar óskir neytenda er að fara með bakklistana inn á vefinn.

En talandi um lykilfólk. Frá því að ég byrjaði að vinna í bókaútgáfu hérlendis fyrir 10 árum síðan hafa öll þau forlög sem ég hef haft pata af og hafa viljað láta taka mark á sér verið dugleg að kynna lykilfólki vöru sína. Það er gert bæði að hausti og vori og þótt vissulega mætti bæta upplýsingaflæði til starfsmanna bókasafna, er samt unnið í því. Áhugi annarra utan þessa geira, almennings og fjölmiðlafólks, hefur hins vegar ekki reynst nógu mikill til að slíkar kynningar gengju upp. Það hefur aldrei gengið upp að blása til slíkra atburða. Til að bókamessa sé möguleg þarf hún að fela í sér miklu fleiri þætti en bara það að sýna bækur sem eru að koma út. Þar þurfa að vera element bókmenntahátíðar og vörusýninga fyrir almenning. Þar verður að eiga sér stað verslun um leið og þar verður að vera faglegt element fyrir bransann sem slíkan.

Það vill svo til að slíkur atburður er til, það þarf bara aðeins að hugsa hann í víðara samhengi. Þetta er árlegur bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda sem um langt skeið hefur verið haldinn í Perlunni um mánaðarmótin febrúar-mars. Þangað koma tugþúsundir gesta, bæði fagfólk og almenningur, og möguleikarnir við að nýta þann atburð fyrir bókaútgáfuna og faglegu hliðina hafa verið gersamlega vannýttir þótt þeir séu augljóslega til staðar. Við þurfum ekki bókamessu fyrir jólin þegar kynningar bóka eru hvor eð eru keyrðar á fullt í öllum miðlum. Við þurfum bókamessu þegar menn hafa tíma til að sinna titlum sínum, huga að vorútgáfunni, öðrum áherslum, geta kynnt útgáfu sína sem fer fram utan jólanna og almennar áherslur sínar á öðrum sviðum en skáldskaparsviðinu. Það er aldrei betra en á einmitt á útmánuðum.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband