Bókamessan í Frankfurt

Á meðan allir bókaútgefendur Íslands voru á bókamessunni í Frankfurt fór fram ljóðahátíð Nýhils og því verður örugglega hægt að skamma þá fyrir að hafa ekki mætt og sýnt framtakinu fullkomið tómlæti. Mér fannst fúlt að missa af henni en messan er mikilvægasti viðburður ársins fyrir alþjóðlega bókaútgáfu og þar má enginn sem vill taka þátt í þeim dansi láta sig vanta. Á bókamessunni heyrði ég nú ekki í mörgum höfundum þótt raunar sé vel hægt að taka þann rúnt á messunni ef maður vill, einkum þó utan messunnar því það er fullt af upplestrum á kvöldin úti í Frankfurtarbæ, en aðallega hittir maður aðra útgefendur, ýmist á fundum, á börum eða í kvöldverðarboðum.

Íslenska útgefendur hitti maður þó fyrst og fremst á sameiginlegum standi íslensku bókaútgáfunnar sem var sérstaklega glæsilegur og reisulegur í ár enda hannaður af súperhönnuðunum Guðrúnu Lilju Gunnlaugsdóttur og Jóni Ásgeiri. Nokkur tími fór stundum í það á fundum með norrænum kollegum að skýra nákvæmlega hvernig Forlagið nýja varð til, þá hjálpaði að teikna upp skýringarmyndir sem sýndu betur en ómarksvissar útskýringar á skandinavísku hvernig Jóhann Páll sem eitt sinn var með útgáfu sem hét Forlagið en var líka Mál og menning en stofnaði svo nýtt fyrirtæki sem nú rennur saman við "útgáfuhluta" Eddu útgáfu sem er eiginlega líka Mál og menning og svo á Mál og menning helming í Forlaginu sem er þó ekki gamla forlagið, heldur nýtt fyrirtæki þar sem Jóhann Páll er forstjóri, og já standurinn þeirra er hérna neðar í gangi A.

Önnur samrunafyrirtæki á Norðurlöndum, Cappelen Damm í Noregi og Lindhof og Ringhardt í Danmörku, voru mjög á tánum og lögðu mikla vinnu í að sýna að þau kæmu sameinuð og sterk til leiks. Mikil boð voru á stöndunum og sameinaður vinnuafli settur í frontinn til að tjúna upp stemmninguna. En þessi fyrirtæki þurfa bæði að taka á því eftir sameiningu og berjast bæði við að sannfæra samkeppnisyfirvöld um að hún geti gengið í gegn. Forstjóri L&R, Anette Wad, var ekki með neina sykurhúðaða versjón af framtíðinni á sínum vörum, enda hafði hún meiri áhuga á því að ræða um hestamennsku og tamningar.

Bókamessan í Frankfurt er staður þar sem ég held að rithöfundum hljóti að líða frekar undarlega. Enginn hefur áhuga beinlínis á þeim eða þeirra verkum eða hvernig þeir ætla að gera hlutina. Allir eru að tala um réttindi, sölu, hvernig megi setja þetta og hitt á markað, hvernig þessi eða hinn markaðurinn er. Bækur eru vörur og á bókamessunni er það nánast óskiljanlegt að höfundar vilji ekki skrifa bækur sem fitta inn í þetta umhverfi en haldi áfram að ströggla við að búa eitthvað til utan ramma markaðarins. Þetta verður hvergi augljósara en á tveimur stöðum. Annars vegar í svokölluðu Agents Centre, þar sem hinir raunverulegu sölumenn réttinda í þessum heimi, umboðsmennirnir, höndla með sína vöru. Hins vegar á því sem kalla mætti forleik messunnar, réttindasölufundunum á Hotel Frankfurter Hof deginum áður en messan opnar þegar samanlagður sölufloti vestræns bókabransa situr í leðursófunum á helsta lúxushóteli Frankfurt am Main og þylur söguþræði og útlitseinkenni allra höfunda Evrópu og enska málsvæðisins yfir öðrum útgefendum frá sömu slóðum og svo einum og einum utanaðkomandi. Söguþræðirnir eru grunsamlega líkir og sá sem er við hliðina heyrir þá líka. Menn eru með gríðarlegt magn höfunda á sínum snærum og blaða í gegnum þykkar möppur með dummy kápum af heilu krimmaseríunum, heilu chick-lit seríunum, heilu upmarket main stream fiction seríunum og svo framvegis. Andspænis þessu finnst manni það alltaf stappa nærri sturlun að tekist hafi að selja rétt á íslenskum höfundum yfirleitt. Það er einfaldlega svo ofboðslegt framboð af textum í heiminum.

Helsta tragedían í loftinu á messunni er hvernig ein af stoltum súlum þessa bransa hrundi nú fyrir skemmstu, PFD agentúran í Bretlandi þar sem legenderir agentar á borð við Pat Kavanagh, eiginkonu Julian Barnes, voru á mála. Fyrir skemmstu yfirgáfu allir starfsmenn hennar bátinn, um 80 að tölu, og eftir sitja bakklistaréttindi höfundanna í höndum agentúrunnar sem er í eigu einhvers íþróttaréttindasölubatterís sem höndlar með sjónvarpsréttndi á amerísku NFL deildinni í Evrópu og formúlusýningarréttinn í Dubai og þar fram eftir götunum. Höfundar á borð við Ruth Rendell sitja nú og vita ekki sitt rjúkandi ráð því agentar ráða öllu í bransanum. Það er næstum því grátlegt að sjá höfunda mæta á messuna í eigin persónu til að setja verk sín. "Who's your agent?" er fyrsta spurningin sem allir fá. Val á agent er grundvöllur þess að einhver taki mark á manni. Agentar sigta inn allar bækur sem koma út á enska málsvæðinu og vald þeirra bara eykst. Útgáfustjóri Faber & Faber sagði mér að forlagið sé löngu hætt að taka við innsendum handritum. Flest forlög í USA og UK gera það ekki, það er of mikil vinna. Sama þróun er að hefjast í Þýskalandi og á Norðurlöndum. Agentar velja inn höfunda til að selja á forlögin og eru búnir að snikka þá til fyrir sölumaskínuna áður. Nútímaforlög eru ekki bókaútgáfur í gömlu skilningi, heldur fyrst og fremst markaðs- og sölubatterí og editorar eru þeir sem geta tengt saman "creative content" og markaðstækifæri. Þau hafa aðgang að markaðnum og það verður þeirra hlutverk. Vinnan með höfundunum fer fram hjá agentunum.

En þetta er bara heimur skáldskaparins. Utan hans eru heimar kennslubókaútgáfu, handbókaútgáfu, ljósmyndaútgáfu osfrv. Ég hafði þau forréttindi á þessari messu að dvelja eingöngu í þeim paralell úníversum en horfa á litteratúrinn úr fjarlægð. Það gerði það að verkum að manni fannst vænna um bækur og það sem í þeim stendur en löngum fyrr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband