Bókmenntaverðlaunin og listin að elska þau

Man einhver til þess að tilnefningar til Edduverðlauna veki blaðadeilur? Ráðast leiklistargagnrýendur að Grímuverðlaununum og heimta að þau verði ýmist lögð niður, að þau verði algerlega stokkuð upp eða kalli þau "samkvæmisleik"? Ekki minnist ég þess, en þetta eru hins vegar standardviðbrögð við tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Það er ekki langt síðan hreyfing var í mótun sem vildi stofna "and"-bókmenntaverðlaun. Búnir voru á sínum tíma til "and"-tilnefningamiðar og hvað eftir annað heyrast raddir um róttæka uppstokkun verðlaunanna. Í dag reið þessi ritúalíska mótbárualda yfir, þó með þeim varnagla að fólk var þrátt fyrir allt nokkuð sátt við tilnefningar í flokki skáldverka. Úlfhildur Dagsdóttir sagði álit sitt í hádegisfréttum RÚV og síðan Kolbrún Berþórsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson í Kiljunni í kvöld.

Enn og aftur sést hve furðulegt þetta er í samanburði við aðrar listgreinar. Sæi maður fyrir sér að nokkrir myndlistargagnrýnendur sætu saman í sjónvarpssal eftir Sjónlistarverðlaunin og ræddu hversu fánýt þessi verðlaun væru almennt, að þau væru ekki rétt sett upp og að þeir sem þau hefðu fengið væru að fá þau á hæpnum forsendum. Þetta er einfaldlega óhugsandi. Hvað þá hin gleðiríku Edduverðlaun. Ég hef engan séð gagnrýna þau nema eilífðargagnrýnandann Maríu Kristjánsdóttur, sem aldrei gefur tommu eftir í nokkru máli. Ekki einu sinni þegar hún heldur uppi merki Hugo Chavezar.

Listin að elska bókmenntaverðlaunin flest hins vegar i eftirfarandi: Við höfum mjög fáar hefðir til að styðja okkur við í menningarlífi okkar. Verðlaun og viðurkenningar eiga sér flest mjög skamma sögu. Bókmenntaverðlaunin hafa skrimt í 20 ár. Það er einstakt í okkar samhengi. Oft hefur verið rætt um bað breyta þeim, í góðærinu kom jafnvel til greina að fá "styrktaraðila" og hækka verðlaunaféð. Það þótti hins vegar ekki alfarið góð hugmynd vegna þess að menn sögu: En, hvað ef þeir bregðast? Nú sér held ég enginn eftir því að hafa ekki fengið "styrktaraðila". Félag íslenkra bókaútgefenda stendur eitt og óstutt að verðlaununum. Það fær tilnefninganefndir til að sinna dómnefndarstörfum en skiptir sér annars ekkert af þeirra vinnu. Oddamaður lokadómnefndar er skipaður af forsetaembættinu. Viss festa er á gangvirkinu sem á ekki að hnika mikið til ef menn vilja að verðlaunin lifi í önnur 10 ár, önnur 20. Það held ég að sé gáfulegt og gæfulegt og því eigi þau að vera á vissan hátt íhaldssöm í formi. Ég bendi á Brageprisen í Noregi og Augustprisen í Svíðþjóð, helstu bókmenntaverðlaun þessara tveggja landa, eru líkt upp byggð og þar eru aðeins þrír verðlaunaflokkar, menn hafa bætt við barnabókum, sem ég tel raunar æskilegt að gera hér einnig í fyllingu tímans. En festa er lykilorðið og sannast sagna hefur tryggð við fastan grunn tryggt að verðlaunin lifa af jafnt góðæri sem kreppu, og það er ekki sjálfgefið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband