Gagnsiðbótin

Gagnsiðbótin er hafin. Páfabulla hefur verið send út að undirlagi róttækra ungkardínála frjálshyggnu kirkjunnar sem una lausunginni ekki lengur. Ef allt á ekki í barbarísku að detta verður að koma til öflugt kirkjuþing í HR sem ályktar þegar í stað um takmarkanir á tjáningarfrelsi, eindregna hefðartúlkun á hugtökum í stjórnmálum og stjórnskipan og útilokun og þöggun siðbótarhópa á borð við femínista, krútt og öryrkja. Trúvillingum sem tekist hefur með djöfullegri slægð að villa á sér heimildir og komast inn í Collegium Libertinum með andborgaralegt ráðabrugg í huga beri að vísa umsvifalaust á dyr og excomúníkera láti þeir ekki segjast.

Á Snjáldurskjóðunni sjást þeir koma þeysandi úr öllum fjórðungum hins mikla andlega veldis, reiðubúnir að sverja páfa sínum trúnaðareiða um að fyrr skuli þeir farast en sjá veldi kirkjunnar steypast í gerningarveðri lausungarinnar. 

Á meðan þegir rektor kollegísins þunnu hljóði. Sjálfsagt upptekinn við að skrifa nýja bullu: Contra hostes imagorum islandorum.

Kannski hið nýja kirkjuþing ungfrjálshygginga gangi nú sjálfviljugt til liðs við sérsveitir lögreglunnar? Munum '49! Munum Varið land!

Þegar ég taldi síðast voru meðlimir "Áskorunar gegn Áskorun á Háskólann í Reykjavík" tvöfalt fleiri en meðlimir "Áskorunar á Háskólann í Reykjavík."

Contra-Contra Reformation skæruliðarnir voru fleiri en Contrarnir og er þó líklegast búið að opna leynireikning til að styðja hina síðarnefndu, fjármagnaður með sölu á gömlum byggingarkrönum og búkollum til Írans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband