Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Bréf til Maríu - lesið hana!

Ég varð fyrst var við bókina Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson þegar ég sá henni bregða fyrir á metsölulista Eymundssonar um daginn. Svo keypti ég hana og hef vart getað lagt hana frá mér síðan. Þrátt fyrir miklar annir, flutninga og hrakhólavist, hef ég legið í henni hvenær sem stund gefst og ég er sannfærður um að þessi bók eru stóru tíðindin á hérlendum bókamarkaði þetta vorið. Hún hefur ekki verið markaðssett með miklum látum, ég held t.d. að ekki neitt einasta viðtal hafi birst við höfundinn. Það er hins vegar bara skandall að lunginn úr Kastljósþætti skuli ekki hafa verið helgaður Einari Má eða þá gott, stórt viðtal í helgarblaði. Bókin er það sem frasaorðabókin kallar "tour de force" - og þar sem allir eru svo pólitískir þessa dagana hlýtur þessi bók að vera sannkölluð himnasending fyrir alla þjóðfélagsrýnana.

Það sem er ekki hvað síst svo gleðilegt við þessa bók er hve glúrinn stílisti höfundur er, hve hugsunin er lipur og létt og að textinn er þrátt fyrir deiluritseðli sitt miklu nær skáldskap en þurrleginum sem íslenskir fræðiritahöfundar virðast oft vanda sig við að brugga fyrir lesendur sína. Að ekki sé talað um alla þá "talsmenn" fyrirtækja og rannsóknastofnana sem eru eins og bilaðir ipodar sem hökta á milli stafrænna búta á minniskubbunum sínum. Hér eru andlegar hræringar síðustu 50 - 60 ára eða svo skilgreindar og ofnar saman við sjálfsævisögulega frásögn sem er í grunneðli sínu harmræn. Hinn einlægi réttlætissinni leitar þjóðfélagsgerðar þar sem menning, menntun, velsæld og jöfnuður fara saman og telur sig hafa eygt hana í velferðarþjóðfélaginu en spyr um leið hvað veldur því að þróunin er í öfuga átt, burt frá þessum gildum til meiri ójöfnuðar, óánægju, baráttu, kúgunar og misréttis í öllum vestrænum þjóðfélagögum. Og af hverju ráðandi stétt og ráðandi fjölmiðlar telja þessa þróun þá einu réttu og veg til betra lífs. Hér er á ferð sagnfræðileg greining á "frjálshyggju", "alþjóðavæðingu" og "markaðsvæðingu" síðustu áratuga.


Spámannlegt ljóð á Degi bókarinnar

Eftir miðborgarbrunann minnti mig að Gunnar Harðarson, heimspekingur og skáld, hefði einhvern tíma ort um Prestaskólahúsið og afdrif þess í nútímanum. Þar sem ég er að flytja er mikið verið að róta í gömlu dóti heima hjá mér þessa dagana og þar fann ég þetta ljóð í Skýi, því merka ljóðatímariti og er í 3. hefti frá 1991, bls. 33. Þegar ég spurði höfund hvort ég mætti birta ljóðið hér á síðunni minntist hann á að öll hús sem hann orti um yrðu fyrir skakkaföllum. Þetta ætti við Prestaskóla/Landshöfðingjahúsið sem og við hús Benedikts Gröndal við Vesturgötu. Næst ætlaði hann því að yrkja um eitthvað vel valið skotmark þar sem mikilmennskubrjálæði og nútímagirnd í 20. aldar stíl hefðu farið saman við að búa til ljóta áminningu um hörmulegan smekk genginna kynslóða. Ljóðið er ort á þeim tíma sem Karnabær var enn í húsinu.

Gleðilegan Dag bókarinnar!

Staðgenglar e. Gunnar Harðarson

Í Austurstræti 22

las Hannes Árnason fyrir um Schelling

gekk um gólfin flibbaklæddur og utanviðsig

á árunum 1857-58.

Þar var einnig skrifstofa biskups

og önnur kennsla við Prestaskólann.

Nú er þar tískuverslun

ljósaskilti yfir dyrunum

og velklæddir afgreiðslumenn ganga um gólfin

leggja eyrun við rokktónlist

hálfvegis utanviðsig.

 


Drulla og eldur

Höfuðskepnurnar æða alla daga en þær hrista okkur ekki upp af blundinum nema þegar þær bylta húsum. Í aldarfjórðung bjuggu foreldrar mínir að Lindargötu 15 á Sauðárkróki sem var eitt þeirra húsa sem skemmdist í drulluflóðinu um daginn. Raunar skemmdist ekki efri hæðin þar sem við bjuggum en neðri hæðin fór á flot og þar bjargaði aðeins tilviljunin barni sem svaf úti í vagni. Gljávíðirinn við stéttina okkar sópaðist burtu og niður alla brekkuna og ofan á götu með stéttinni sjálfri og einhverjum bút úr brekkunni ofan við húsið. Þetta var náttúrlega lítilræði borið saman við drullumallið sem skvettist niður með stokkunum út við Stöðina og eyðilagði Lindargötu 17 og var víst aðeins hársbreidd frá því að eyðileggja líka Villa Nova sem stendur þarna á gamla sjávarkambinum fyrir neðan. Þannig háttar nefnilega til að rúðurnar í kjallaranum á þessu langfallegasta húsi Sauðárkróks eru af upprunalegri gerð, hnausþykkar smárúður í blýrömmum, og hefðu menn ekki ráðist í að mölva gluggana til að drullan gæti runnið í gegnum húsið hefði aurinn lyft timburgólfinu í sölum Samfylkingarinnar sem er þar með sínar flokksstöðvar og þáði í arf eftir Allaballana.

Lungann úr minni bernsku bjó á hinni skemmdu neðri hæð að Lindargötu 15 tónskáldið Jón Björnsson frá Hafsteinsstöðum, ein af lykilfígúrum íslenska sönglagsins, sérstakur ástvinur ljóða Davíðs Stefánssonar. Hann var enginn barnakall, við systkinin vorum skíthrædd við hann og þorðum ekki fyrir okkar litla líf að leika okkur fyrir utan gluggana, en hann sat sparibúinn fyrir innan og föndraði við nótur eða las. Hann hafði háa og hvella rödd sem sumir gátu hermt skemmtilega eftir, reykti sígarettur í munnstykki og ræskti sig með taktvissum bilum, spilaði reglulega á píanóið og þegar Hallarfrúin með Skagfirsku söngsveitinni var síðasta lag fyrir fréttir sagði pabbi alltaf að nú yrði Jón kátur. Endalok hans voru sorgleg. Við lát Önnu sambýliskonu hans var honum öllum lokið. Honum var búinn staður á ellideildinni á Spítalanum og reyndi þangað kominn árangurslaust endurtekið að fyrirfara sér. Að lokum steypti hann sér í höfnina eina kalda vetrarnótt og króknaði.

Lindargata 13, næsta hús fyrir utan, fór ákaflega illa í drulluflóðinu, en það telst elsta hús Sauðárkróks. Þar bjó um 1980 þægindamaður að nafni Eyjólfur og við kölluðum húsið hans alltaf Eyjólfshús þótt það heiti nú víst eitthvað annað. Hann hafði verið rennismiður eða járnsmiður og hafði aðstöðu fyrir iðn sína í kjallaranum sem hafði vörudyr miklar að framanverðu götumegin, sem voru í raun miklu voldugri en sjálfar útidyrnar og raunar húsið sjálft, sem var eins og oft er með slík hús, ákaflega smátt og raunar svo lágt til lofts þar inni að það yrði ekki þrautalaust fyrir hávaxið nútíðarfólk að búa þar til langframa. Erfingjar hans hafa haldið húsinu vel við og nokkrum árum eftir að Eyjólfur dó var óbreytt um að litast í kjallaranum þar sem hverjum hlut hafði verið fundinn sinn eini rétti staður og allt var með þeirri reglu og skikkan sem manni finnst stundum að hafi eitt sitt verið einkennandi fyrir iðnaðarmenn á Íslandi. Kjallarinn fylltist af drullu og sjálft söguhúsið er nú illa laskað.

Drullan sótti líka heim Lindargötu 11 þar sem gamla Lindin mun víst hafa verið í brekkunni og lengi var og er kannski enn mikil vatnsþró steypt inn í brekkuna þar sem sitja mátti og hlusta á dullarfull hljóð úr dimmu vatninu sem virtist streyma úr pípu ofan úr brekkunni, en þar uppi voru skrítnir kassar með rauðmáluðum blikklokum sem vísast stóðu í sambandi við þennan vatnsbúskap sem ég man ekki til þess að nokkur hafi skipt sér af eða ég eiginlega fengið nokkurn botn í. Þarna bjó eldri herra sem átti svartan Skoda uns bernskukunningi minn hann Lúlli eignaðist húsið og þurfti nú að berjast við drulluna en hefur svo sem lent í mörgu og ekki kallað þetta ömmu sína.

Extraspýja kom svo ofan af Móunum og féll á Lindargötu 9, gamla læknishúsið, sem bekkjarfélagi minn hann Halli Nikk hefur átt nú um langt skeið. Hann varð fyrir miklum búsifjum en mér hefur verið sagt að hann hafi umsvifalaust rokið í að bjarga hundum sínum, en hann mun rækta eitt fremsta leitarhundakyn hérlendis og verið óþreytandi í ræktun og þjálfun á þeim kostagripum. Þetta hús er án efa ein af perlum staðarins væri farið í að gera það upp eftir öllum kúnstarinnar reglum og það láið skína í sínum upprunalega ljóma. Í þessu húsi mun víst ein fyrsta skurðaðgerð með svæfingu hafa verið framkvæmd hérlendis, þótt ég hafi ekki rannskað sögu þess út í hörgul, en það stendur að sönnu á fallegum stað og er reisulegur minnisvarði um gamla tíð á Sauðárkrók, raunar einn af fáum því Króksarar hafa með nánast skipulögðum hætti útrýmt mestu sem minnir á fyrri tíð í bænum.

En ekkert hús við Lindargötuna hafði annað eins útsýni og okkar hús. Þaðan sást um allan Fjörð, öll austurfjöllin blöstu við, ekki síst dalirnir og þeir smáu hvilftarjöklar sem eru innaf Hjaltadal og Kolbeinsdal og svo eyjarnar, Drangey og Málmey og Þórðarhöfði útfrá. Það reddaði miklu nú að húsið stendur svona hátt í brekkunni og líka að það er byggt eins og virki, útveggirnir nærri armlengd að olnboga að þykkt. En við bjuggumst alltaf við einhverju úr þessum stokkum við rafstöðina. Þeir láku alla mína bernskutíð, raunar svo mikið að brekkan ofan við húsið var eitt mýrarfen og þurfti miklar tilfæringar til að stemma við því stigu. Í einhverjum dómsdagsvisjónum sá ég fyrir mér vatnið spýtast niður brekkurnar, en samt kom drulluflóðið á óvart. Þegar það loksins gerist er það alltaf óvænt.

Rétt eftir drulluna kom svo eldur. Ég var staddur á horni Lækjargötu og Austurstrætis akkúrat á meðan eldurinn var að blossa upp inni á Fröken Reykjavík, gekk svo upp Laugaveginn og heyrði þá að allt stæði í ljósum logum. Undarleg tilfinning að hafa staðið úti á götu og eldurinn brunnið fyrir innan, það er næstum því eins og maður hafi haft eitthvað um þennan eld að segja. Ekki það að Prestaskólinn og Eymundssonarhús mættu hýsa einhverja virðulegri starfsemi en kebabbúllu og diskótek. Kannski verða höfuðskepnurnar til að breyta eihverju í bæjarmynd bæði Sauðárkróks og Reykjavíkur. Í það minnsta mættu Króksarar fara að hrista af sér molbúaháttinn og reyna að gera upp þau örfáu gömlu hús sem eftir standa í bænum. Dröslaraskapur, hirðuleysi og almenn sinnudeyfð um það gamla virðist seint ætla að rjátlast af bæjarbúum. Viðkvæðið er alltaf: Best að byggja upp í Hverfi og setja ýtuna á gamla dótið. Hofsós er fyrir löngu orðinn miklu fallegri staður en Krókurinn og hefði þótt saga til næsta bæjar í mínu ungdæmi. Hvað þá ef plássið er borið saman við Akureyri eða Sigló þar sem menn hafa mannað sig í að gera almennilega við sín hús og búa til skikkanlega bæjarmynd. Svo er að bíða og sjá hvert drullan og eldurinn leiða okkur.

 


Sundur og saman

Tilkynnt var nú á miðvikudaginn að bókaútgáfurnar Bjartur og Veröld hefðu sameinast. Þótt veltutölur og stærðartölur í bókaútgáfu séu því miður ekki alltaf á lausu er þó hægt að segja með nokkurri vissu að þriðja stærsta bókaútgáfa landsins á samkeppnismarkaði hafi orðið til við sameiningu Bjarts og Veraldar.

Þessi fyrirtæki eru raunar eðlisólík og fátt með þeim sameinlegt nema það eitt að eigendurnir og útgefendurnir búa báðir erlendis og þurfa því eitthvert hald hérnamegin Atlantshafsins ef reksturinn á að skila þeim björg í bú.

Bjartur er fyrir löngu orðið sterkt vörumerki. Þetta er skapandi, duttlungafullt, útsjónarsamt og stefnufast merki sem hefur sótt styrk sinn í smæðina og sérstöðuna: Alltaf hlakkar fólk jafn mikið yfir því að Potter og Brown skuli koma út hjá Bjarti en ekki Eddu eða JPV (og þaráður MM og Vöku-Helgafelli). Þýðingalisti neon-klúbbs Bjarts er í heimsklassa og á innlenda listanum eru bæði handhafi Ísl. bókmenntaverðlaunanna og handhafi Norrænu bókmenntaverðlaunanna. Hins vegar hefur Bjartur eins og fleiri forlög orðið fyrir barðinu á upplausn vistabands íslenska höfundasamfélagsins því þaðan hafa farið einir tveir nokkuð fyrirferðarmiklir höfundar: Bragi Ólafsson og Guðrún Eva Mínervudóttir. Útgáfa á skáldskap er langhlaup og það þarf mikið úthald, stefnufestu og öruggan smekk í fagurfræðilegum efnum til að gefa sig að slíkri starfsemi. Rekstrarlega eru slík fyrirtæki svo óútreiknanleg að hefðbundnir fjárfestar sjá þar ekki hag sínum borgið á nokkurn hátt, varla ímyndarlega einu sinni, því það er betra að skína skært einu sinni en vera í hálfskímu um langa hríð. Það eina sem réttlætir að fólk sinni skáldverkaútgáfu er óbilandi trú á gildi skáldskaparins.

Veröld er nýtt fyrirtæki sem á tvö starfsár að baki. Þarna voru vanir menn að verki og náðu strax fautaárangri á markaði með tvær metsölubækur á topp tíu jólin 2005. Um leið skaut Veröld Yrsu Sigurðardóttur upp á stjörnuhimininn og Pétur Már Ólafsson hefur haldið áfram að ýta henni að heimsbyggðinni. Óviðráðanlegir atburðir settu strik í reikninginn og starfsemin var ekki mikil árið 2006, mér telst til að þá hafi þrjár bækur komið út auk kiljuútgáfu á téðri Yrsu, en árangurinn svo sem fínn miðað við það. Yrsa var í hópi mest seldu skáldverkahöfunda ársins 2006.

Eigendur hins nýja sameinaða útgáfufélags, Snæbjörn Arngrímsson og Pétur Már Ólafssson, hafa ólíkan stíl sem útgefendur. Snæbjörn er hinn lágmælti en um leið óútreiknanlegi raunsæismaður sem stefnir að hinu ómögulega - svo vitanað sé í Einar Má og anarkistana - en Pétur er frábær markaðsmaður sem hefur sannkallað sölunef og kann að setja hlutina í samhengi. Eitt fyrirtæki, tveir listar eða mun Pétur nota hæfileika sína til að selja Jón Kalman og Snæbjörn og hans fólk varpa nýjum ljóma á viðtalsbækur og krimma? Svarið við þessu fæst ekki fyrr en í haust. 


Höfundar í framboði

Þegar við hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda fórum að skoða hvaða höfundar eru í framboði til alþingiskosninga í ár rak okkur eiginlega í rogastans. Bæði var fjöldinn mikill og svo dúkkuðu upp óvænt nöfn. Ég hafði til dæmis ekki tekið eftir því að Stefán Máni var í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn, né að Einar Már Guðmundsson fylgdi VG að málum, né vissi ég gjörla hvað ýmsir hefðu sent frá sér á bók, til dæmis að Geir Haarde þýddi rit um hagfræði eftir John Kennteh Gailbraith á áttunda áratugnum. Einnig varð ég var við að margir, jafnvel Samfylkingarfólk, vissu ekki að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði verið höfundur viðtalsbókar, Þegar sálin fer á kreik og hvað þá að Ómar Ragnarsson hefði sent frá sér um 10 bækur. 

Fólki til gamans má sjá hér lista yfir þá höfunda sem fundust á framboðslistum. Verið getur að okkur hafi yfirsést einhver. Þetta er forvitnilegur listi:

 

Framsóknarflokkurinn

 

Jón Sigurðsson: Bifrastarævintýrið og Jónasarskólinn: skerfur og saga Samvinnuskólans og Samvinnuháskólans frá upphafi til 1998. Samvinnuháskólinn á Bifröst 1999.

(1. sæti R.n.)

 

Bjarni Harðarson: Landið, fólkið og þjóðtrúin. Sunnlenska bókaútgáfan 2001.

(2. sæti Suður.)

 

Árelía Eydís Guðmundsdóttir: Íslenskur vinnumarkaður á umbrotatímum. Háskóli Íslands, félagsvísindadeild 2001. / Háskólinn í Reykjavík 2002.

- Móti hækkandi sól: lærðu að virkja kraft vonar og heppni í lífi þínu. Salka 2005.

(3. sæti R.s.)

 

Áslaug Brynjólfsdóttir: Foreldrahandbókin. Upplýsingarit fyrir foreldra barna í grunnskólum Reykjavíkur. Fræðslumiðstöð Reykjavíkur 2001.

(20. sæti R.s.)

 

 

Frjálslyndi flokkurinn

 

Jón Magnússon: Lagasafn neytenda. Neytendasamtökin 1997.

(1. sæti R.n.)

 

Íslandshreyfingin

 

Ómar Ragnarsson: Kárahnjúkar - með og á móti. JPV 2004.

- Ljósið yfir landinu. Fróði 1999.

- Ýkt eðlilegt. Fróði 1998.

- Mannlífsstiklur: spámaðurinn, gulldrengirnir og fleira fólk Fróði 1996.

- Fólk og firnindi: Stiklað á Skaftinu. Fróði 1994.

- Manga með svartan vanga. Fróði 1993.

- Flugleiðir í Íslandsflugi. Flugmálastjórn 1991.

- Heiturðu Ómar? Fróði 1991.

- Í einu höggi. Fróði 1990.

- Barnavísur Ómars Ragnarssonar. 1968, 1972.

 (1. sæti R.n.)

 

Samfylkingin

 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Þegar sálin fer á kreik. Minningar Sigurveigar Guðmundsdóttur. Forlagið 1991.

(1. sæti R.s.)

 

Össur Skarphéðinsson: Urriðadans: Ástir og örlög stórurriðans í Þingvallavatni. Mál og menning 1996.

(1. sæti R.n.)

 

Mörður Árnason: Íslensk orðabók. Mál og menning 2002.

- Málkrókar. Mál og menning 1991.

(4. sæti R.s.)

 

Ellert B. Schram: Á undan sinni samtíð. 2006

  • - Fyrsta öldin: Saga KR í 100 ár. Knattspyrnufélag Reykjavíkur 1999.
  • - Eins og fólk er flest. Frjáls fjölmiðlun 1991.

(5. sæti R.n.)

 

Guðmundur Steingrímsson: Áhrif mín á mannkynssöguna. Forlagið 2003.

(5. sæti Suðv.)

 

Halldór Guðmundsson: Skáldalíf. JPV 2006.

- Halldór Laxness, ævisaga. JPV 2004.

- Loksins, loksins. Mál og menning 1987.

(18. sæti R.s.)

 

Auður Styrkársdóttir: From feminism to class politics: the rise and decline of women's politics in Reykjavík, 1980-1922. Umeå University, Department of Political Science, 1998.

- Kvennaframboðin 1908-1926. Háskóli Íslands, félagsvísindadeild 1982.

(19. sæti R.s.)

 

Jón Sigurðsson: Evra. Aðdragandi og afleiðingar. Hið íslenska bókmenntafélag 1998.

(22. sæti Suðv.)

 

Sjálfstæðisflokkurinn

 

Árni Johnsen: (ásamt Þórleifi Óskarssyni) Kristinn á Berg. Athafnamaður við Eyjar blár. Bergur - Huginn 2005.

-    Í lífsins melódí. Vaka-Helgafell 2004.

  • - Enn hlær þingheimur. Hörpuútgáfan 1992.
  • - Þá hló þingheimur. Hörpuútgáfan 1990.
  • - Fleiri kvistir. Örn og Örlygur 1987.
  • - Kvistir í lífstrénu. Örn og Örlygur 1982.
  • - Eldar í Heimaey. Almenna bókafélagið 1973.
  • - Mennirnir í brúnni. Þættir af starfandi skipstjórum. 1. b. (ásamt Guðmundi Jakobssyni og Jóni Kr. Gunnarssyni) Ægisútgáfan 1969.

(2. sæti Suður.)

 

Björn Bjarnason: Í hita kalda stríðsins. Nýja bókafélagið 2001.

(2. sæti R.s.)

 

Dögg Pálsdóttir: Aldraðir á Íslandi. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið 1987.

(6. sæti R.s.)

 

Stefán Máni: Skipið. JPV 2006.

-    Túristi. Mál og menning 2005.

  • - Svartur á leik. Mál og menning 2004.
  • - Ísrael. Saga af manni. Forlagið 2002.
  • - Hótel Kalifornía. Forlagið 2001.
  • - Myrkravélin. Mál og menning 1999.
  • - Dyrnar á Svörtufjöllum. 1996.

(16. sæti R.s.)

 

 

Valgeir Guðjónsson: Tvær grímur. Mál og menning 1993.

(17. sæti Suðv.)

 

VG

 

Steingrímur J. Sigfússon: Við öll. Íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum. Salka 2006.

(1. sæti N.a.)

 

Katrín Jakobsdóttir: Glæpurinn sem ekki fannst. Saga og þróun íslenskra glæpasagna. Háskólaútgáfan 2001.

(1. sæti R.s.)

 

 

Ingibjörg Hjartardóttir: Þriðja bónin. Saga móður hans. Salka 2005.

- Upp til sigurhæða. Mál og menning 2001.

- Spor eftir göngumann. Í slóð Hjartar á Tjörn (ásamt Þórarni Hjartarsyni). Skjaldborg 1997.

(5. sæti N.a.)

 

Birgitta Jónsdóttir: Dagbók kameljónsins. Salka 2005.

  • - Heimurinn. Beyond borders 2005.
  • - Ævintýraljóð. Beyond borders 2005.

- Wake up. Beyond borders 2001.

- Frostdinglar. Almenna bókafélagið 1989.

(14. sæti Suðv.)

 

Þorleifur Friðriksson: Við brún nýs dags. Saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar 1906-1930. Efling, stéttarfélag, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 2007.

  • - Skólasaga Kópavogs (ásamt Sólveigu Unu Pálsdóttur og Haraldi Þór Egilssyni) Kópavogsbær 2003.
  • - Undirheimar íslenskra stjónrmála. Reyfarakenndur sannleikur um pólitísk vígaferli. Örn og Örlygur 1988.
  • - Gullna flugan. Saga átaka í Alþýðuflokknum og erlendrar íhlutunar um íslensk stjórnmál í krafti fjármagns. Örn og Örlygur 1987.

(15. sæti Suðv.)

 

Einar Már Guðmundsson: Ég stytti mér leið framhjá dauðanum. Mál og menning 2006.

  • - Bítlaávarpið. Mál og menning 2004.
  • - Nafnlausir vegir. Mál og menning 2002.
  • - Ljóð 1980-1995. Mál og menning 2002.
  • - Kannski er pósturinn svangur. Mál og menning 2001.
  • - Draumar á jörðu. Mál og menning 2000.
  • - Fótspor á himnum. Mál og menning 1997.
  • - Í auga óreiðunnar. Mál og menning 1995.
  • - Hundakexið. Almenna bókafélagið 1993.
  • - Englar alheimsins. Almenna bókafélagið 1993.
  • - Fólkið í steininum. Almenna bókafélagið 1992.
  • - Klettur í hafi. (með Tolla) Almenna bókafélagið 1991.
  • - Rauðir dagar. Almenna bókafélagið 1990
  • - Leitin að dýragarðinum. Almenna bókafélagið 1988.
  • - Eftirmáli regndropanna. Almenna bókafélagið 1986.
  • - Vængjaslátur í þakrennum. Almenna bókafélagið 1983.
  • - Riddarar hringstigans. Almenna bókafélagið 1982.
  • - Róbínson Krúsó snýr aftur. 1981.
  • - Sendisveinninn er einmana. 1980.
  • - Er einhver í Kórónafötum hérna inni? 1980.

(20. sæti R.s.)

 

Höskuldur Þráinsson: Íslensk tunga 3: handbók um setningafræði. Almenna bókafélagið 2005.

(22. sæti Suðv.)

 

 

Einar Laxness: Saga og minni. Sögufélagið 2001.

  • - Glæpur og refsing úr Íslandssögunni. Vaka-Helgafell 2001.
  • - Íslandssaga a-ö. Vaka-Helgafell 1995.
  • - Jón Sigurðsson forseti 1811-1879. Yfirlit um ævi og starf í máli og myndum. Sögufélagið 1979.
  • - Íslandssaga 2. b.. Menningarsjóður 1974-1977.
  • - Jón Guðmundsson alþingismaður og ritstjóri. Þættir úr ævisögu. Ísafold 1960.

(21. sæti R.n.)

 

Hjörleifur Guttormsson: (ritstj.) Hallormsstaður í Skógum. Náttúra og saga höfuðbóls og þjóðskógar. Mál og menning 2005.

  • - Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Ferðafélag Íslands 2005.
  • - Austfirðir frá Álftafirði til Fáskrúðsfjarðar. Ferðafélag Íslands 2002.
  • - Leyndardómar Vatnajökuls (ásamt Oddi Sigurðssyni). Fjöll og firnindi 1997.
  • - Við rætur Vatnajökuls. Ferðafélag Íslands 1993.
  • - Norð-Austurland. Hálendi og eyðibyggðir. Ferðafélag Íslands 1987.
  • - Vistkreppa eða náttúruvernd. Mál og menning 1974.
  • - Austfjarðafjöll. Ferðafélag Íslands 1974.

(22, sæti R.s.)


Vika bókarinnar

Vika bókarinnar hófst í morgun, þann 17. apríl, og stendur til næsta mánudags, 23. apríl. Um leið hófst átak Félags íslenskra bókaútgefenda, bóksala og Glitnis, Þjóðargjöfin 2007. Öll heimili landsins fá nú senda ávísun upp á 1.000 kr. sem eru raunverulegir peningar sem hægt er að nota sem greiðslumiðil þegar keyptar eru bækur. Þessu átaki var í fyrsta sinn hleypt af stokkunum í fyrra og gekk þá ótrúlega vel, en þá voru um 10 milljónir króna innleystar með ávísununum. Ef fram heldur sem horfir verður til raunverulegur grundvöllur fyrir öfluga vorútgáfu bóka því marktæk aukning varð á bóksölu á þessum árstíma í fyrra. Um leið náum við bókaútgefendur og aðrir sem koma að þessu átaki að koma þeim skilaboðum á framfæri að bóklestur barna og ungmenna er meiriháttar mál: Lestur og lestrarskilningur er undirstaða allrar námsgetu og er lykilatriði við að átta sig á samhengi. Til að bæta árangur sinn í námi er einfalt ráð til: Lesa bók á viku!

Við störtuðum vikunni með mjög skemmtilegri uppákomu í Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg. Við höfðum samband við alla frambjóðendur sem jafnframt eru höfundar bóka og báðum þá að koma og nýta Þjóðargjöfina í búðinni. Þetta er ótrúlegur fjöldi fólks og satt best að segja kennir þar ótrúlega margra grasa. Vonandi kemur þetta fólk til með að vinna ötullega að málefnum bókaútgáfunnar á sínum vettvangi í framtíðinni.

Næstu daga koma síðan enn fleiri bækur út í tilefni af Viku bókarinnar auk þess sem von er á fríðum flokki franskra rithöfunda til landsins.

Glitnir, bakhjarl Þjóðargjafarinnar, mun síðan standa fyrir upplestrum í aðalstöðvum sínum á Kirkjusandi. Bankalestrum. Um að gera að tékka á því.


Bókastefna flokkanna

Það spyr enginn eftir því nú í kosningabaráttunni hvort flokkarnir hafi menningarstefnu, né virðast margir hafa áhyggjur af því. Við sem vinnum í menningargeiranum virðumst annað hvort treysta því að aukin fjármunamyndun í samfélaginu búi til fyrir okkur efnahagslegan grunn eða þá að við erum einfaldlega á því að þetta komi allt út á eitt, skipti kannski engu máli. Félag íslenskra bókaútgefenda efndi til þings fyrir kosningar 2003 og spurði þá fulltrúa flokkana um "bókastefnu" þeirra. Þeir voru einkum spurðir um afstöðu sína til hins hataða virðisaukaskatts á bækur. Þegar svör þeirra eru skoðuð nú sést að sú mynd sem Björn Bjarnason teiknað þá upp: að virðisaukaskattur á bækur yrði lækkaður í tengslum við almenna lækkun virðisaukaskatts, en annars ekki, var sú sem varð ofan á. Kolbrún Halldórsdóttir, VG, sagðist hins vegar vera á móti lækkun virðisaukaskatts á bækur og yfirleitt lækkun skatta. Framsókn og Samfylking vildu hins vegar ólm lækka virðisaukaskatt á bækur við fyrsta tækifæri: Maður batt þá vonirnar við þau.

Nú þarf að spyrja um menningarstefnu og "bókastefnu" að nýju. Það skiptir máli fyrir alla, ekki síst fyrir þetta samfélag sem þessi misserin finnur svo sterklega til sín, til máttar síns og möguleika. Við höfum á undanförnum árum flotið á hugmyndafræðilegum brimskafli sem ber fjármuni okkar, viðhorf, menningu og lifibrauð sífellt lengra yfir þau landamæri sem við héldum áður að væru náttúruleg mörk lífsins á eyjunni. Við stefnum eitthvað mjög hratt, en erum ekki alveg viss um hvert það er. Bensínið á vélinni er ekki aðeins fjármagnið, það er silfurvefurinn sem spunninn er með hugmyndum og orðum og athöfnum, stiklurnar sem við stöndum á þegar við hugsum um sjálf okkur og opnum munninn. Þessar stiklur eru menning okkar og tungumál og það skiptir miklu að fólk, líka stjórnmálafólk, hugsi eilítið um hvernig best er gera menninguna að almenningseign, styrkja hana og fá hana til að blása fólki í brjóst þær geggjuðu hugmyndir sem við teljum vera svo séríslenskar.

Tökum eitt dæmi um hvernig skortur á menningarpólitík leiðir í raun til þess að stjórnmálaflokkar skilja ekki inntak þess sem andstæðingurinn er að segja. Andspænis "Überfremdung" samfélagsins eins og Þjóðverjar kalla óttaviðbragð Fjálslyndra við erlent fólk hljótum við líka að spyrja af hverju þeir berjast ekki fyrir aukinni innlendri dagskrárgerð, ríflegri og réttlátari styrkjum til höfunda og útgáfu, nýjum og hugmyndaríkum lausnum í fjármögnun íslensks skemmtiefnis fyrir alla hugsanlega miðla: Ef við erum óttaslegin við erlend áhrif og viljum vernda íslenska þjóðmenningu, þá verðum við líka að axla þá hugmyndafræðilegu ábyrgð sem því fylgir. Við hljótum að vilja efla það sem við viljum vernda. Hins vegar er Frjálslyndi flokkurinn ekki með slíkt prógramm á sínum snærum, sem segir sjálfsagt eitthvað. Um leið virðast allir aðrir flokkar sammála um að fjölmenningarsamfélagið sé eftirsóknarvert. Hvernig þá? Hvernig á að halda uppi "fjölmenningu"? Hvar er fjölmenningarútgáfan, fjölmenningarleikhúsið, fjölmenningarsjónvarpsþættirnir, ókeypis pólskunámið okkar? Hvernig fjölmenning lítur út er því miður ekki ljóst nema í almennum orðum meginyfirlýsinga flokkanna. 

Hvað varðar bókaútgáfuna sérstaklega hefur amk einn stjórnmálaflokkur uppi tillögur nú í aðdraganda kosniga sem munu hafa mikil áhrif á hana og það er baráttumál Samfylkingar um að námsbækur í framhaldsskólum verði ókeypis. Ég heyrði þessa fyrst getið á síðustu stundum þinghaldsins um daginn og varð nokkuð hugsi, ekki síst vegna þess að framkvæmd þessa máls myndi hafa nokkur áhrif á afkomu nokkurra bókaforlaga, og ég veit ekki til þess að nokkur hafi haft fyrir því að ræða þetta við þá sem raunverulega sjá um námsbókagerð fyrir framhaldsskóla á Íslandi, en auðvitað útiloka ég ekki að ég hafi rangt fyrir mér.

Þessi háttur er hafður á í nágrannalöndum okkar, þ.e. á hinum Norðurlöndunum, en fer þar saman við þá eðilegu skipan mála að ríkið er ekki sjálft að vasast í bókaútgáfu, sem er raunin hér á landi. En það breytist þó aðeins strax næsta haust. Eitt þeirra frumvarpa sem afgreidd voru sem lög frá Alþingi nýverið, og eru til stórlegra bóta fyrir bókaútgáfuna og rós í hnappagat menntamálaráðherra sem mælti fyrir frumvarpinu, eru ný lög um námsgagnagerð sem koma til móts við þá eðlilegu skipan mála annarra Evrópulanda að samkeppni sé í námsbókaútgáfu á skyldunámsstigi. Hingað til hefur Námsgagnastofnun, sem er jú ríkisstofnun, haft nánast einkaleyfi á því að gefa út skólabækur fyrir grunnskólanema (og einn og hálfur áratugur Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneyti hefur engu um það breytt - þangað til núna). Með nýju lögunum fá skólar rýmri heimild en áður til að kaupa inn annað efni en frá Námsgagnastofnun. Það er hins vegar langur vegur frá því að þessi markaður sé galopnaður. Námsgagnastofnun mun áfram sjá um útgáfu megnisins af því efni sem kennt er í grunnskólum á Íslandi. Ef framhaldsskólanemendur myndu fá allt kennsluefni sitt afhent frá ríkinu, þeim að "kostnaðarlausu", hlýtur það jafnframt að kalla á endurmat á skipan þessara mála. Svipað fyrirkomulag og á grunnskólastigi nú er í það minnsta óásættanlegt. Það er ekki hægt að treysta einkafyrirtækjum einn daginn til að sjá um hlutina og banna þeim það síðan daginn eftir.

Ef námsbækur fyrir framhaldsskóla yrðu ókeypis færi það væntanlega fram með sama hætti og í grunnskólum. Framhaldsskólarnir myndu sjá um innkaup skólabóka, þær yrðu afrgreiddar frá útgefenda inn í skólana og kæmu t.d. aldrei við í búðum, en sala skólabóka f. framhaldsskólanema hefur eins og kunnugt er verið ein af "vertíðum" bóksölunnar. Raunverulegt framlag ríkisins til innkaupa yrði að vera minnst 300 milljónir á ári, líklegast þó meira, ef þjónusta á alla valáfanga og sérnámskeið á iðnbrautum. Þetta þýddi að nemendur myndu ekki eiga bækurnar, heldur skólarnir, sem myndi líka þýða að krafa um kostnaðaraðhald myndi sjálfkrafa draga úr nýsköpun og endurnýjun til að nýta fjárfestingar betur. Eftir sem áður yrðu nemendur valáfanga og sérnámskeiða væntanlega sjálfir að kaupa sitt efni að einhverju leyti, líkt og nú tíðkast í tónlistaskólum og öðru sérnámi, en ef ekki, þá myndu skólarnir væntanlega draga úr framboði á þeim til að halda betur utan um efniskostnað. Þessir litlu markaðir hafa svo sem ekki verið nein gullnáma, helst er að Iðnú hafi sinnt þeim, enda er það hlutverk þess fyrirtækis, en einboðin skylda framhaldsskóla til að láta nemendum sínum ókeypis kennslugögn í té myndi þýða ýmis konar nýbreytni í samskiptum skóla og nemenda, því eins og staðan er nú, hafa skólarnir í raun engar áhyggjur af kaupum kennslugagna, þeir einfaldlega ákveða hvað skuli kennt og svo verða nemendur veskú að redda því. Þessi skipan myndi útrýma ákveðnu vandamáli fyrir útgáfuna, sem eru hinir hræðilegu skiptibókamarkaðir, sem brugðist hefur verið við með stöðugri nýþróun kennsluefnis, enda færa skiptibókamarkaðir sjálfa veltuna meir frá útgefendum til bóksölunnar. Það er því alls ekkert kvíðaefni í sjálfu sér fyrir útgefendur að framhaldsskólar láti nemendum sínum kennsluefni í té. Það gæti hins vegar aukið þrýstinginn á að kennarar búi sjálfir til rafrænt efni f. skólana til að lækka kostnað við skólabókakaup og það myndi að sjálfsögðu rústa skólabókamarkaðnum fyrir bóksölum. Það myndi líklegast leiða til aukinnar einsleitni í útgáfunni, þ.e. bækur yrðu notaðar lengur, en það færi náttúrlega eftir því hve miklu skólarnir hefðu úr að spila, hve mikið þeir gætu látið af hendi rakna til skólabókakaupa. En gaman væri að sjá hvað hinum flokkunum finnst um þetta útspil. Ég reiknaði einhvern tíma út að kostnaður fjölskyldu með tvö börn í framhaldsskólanámi af námsbókum gæti numið á bilinu 60-100.000 kr. á ári, jafnvel meira. Fyrir slíka fjölskyldu mun 7% lækkun virðisaukaskatts skipta nokkru, en að sönnu eru þetta nokkrir fjármunir sem munar um í heimilsbókhaldinu. Spurningin er hins vegar: Er þetta betra eða verra? Hvernig verður upplýsingum og þekkingu dreift á sem bestan hátt, ekki bara séð frá sjónarhóli nemenda, heldur líka þeirra sem búa upplýsingunum búning og gera þær tiltækar fyrir skólana, frá sjónarhóli höfunda og útgáfufyrirtækja?


Slavo Zizek

Í síðustu viku kom hingað til lands einn af helstu hugsuðum samtímans, Slavo Zizek. Hann hélt tvo fyrirlestra, einn fyrir Borgfirðinga á Bifröst og annan í raunvísindahúsinu Öskju. Ég fór og hlustaði á hann í Öskju í yfirfullum sal. Hefði sprengju verið varpað á hann hefði góður hluti menningarelítu þessa lands og bróðurpartur hinnar skapandi krúttkynslóðar verið þurrkaður út á einu bretti. Þetta var fínn fyrirlestur, raunar alveg stórmagnaður, því eins og við mátti búast var hann mátulega kaótískur til að vera skemmtilegur og svo svaraði Zizek náttúrlega í raun ekki fremur leiðinlegri spurningu sem lögð var fram sem umræðuefni: Can art still be subversive?

Ein áhrifamesta bók sem ég hef lesið um mína ævidaga er kynning Zizeks á Jaques Lacan með hjálp bókmennta og Hollywood í bókinni Looking Awry, sem var með fyrstu públíkasjónum hans á ensku. Síðan þá er hann búinn að dæla út bókum og greinum og er orðinn algerlega óumflýjanleg stærð ef maður vill átta sig á samtímanum og rifja upp að heimurinn og orðin sem notuð eru um hann eru pólitísk og að okkur leyfist í raun ekki að spyrja spurninga um ákveðin svið hans.

Ótti okkar við grundvallarbreytingar, við að sjá fyrir okkur heiminn í grundvallaratriðum öðru vísi en sem markaðsdrifið sósíaljafnaðarbatterí með mismiklum sköttum og leikskólagjöldum og mismikilli kostnaðarþáttöku í heilbrigðis- og menntamálum er svo agalegur að við komumst ekkert áfram. Zizek er einn örfárra raunverulegra byltingarmanna í nútímanum sem hlustandi er á þótt hann sé í raun gamaldags ídealisti sem byggir á traustum grunni marxisma (hegelísku) og sálgreiningar. Útleggingar hans á hugmyndafræði Hollywood og túlkanir á Titanic eða myndum Spielbergs voru skemmtilegur útúrdúr í fyrirlestrinum og voru kennslustund í þeirri stöðugu glímu sem við erum alltaf í við hugmyndfræðina, við staðalmyndir hins rétta og góða.

Hann spjallaði um Lenín í lokin og um möguleika vinstri manna við að kljást við eigin kreppu. Auðvitað má hann ekki fjalla um Lenín, hann sagðist hafa komið sér út úr húsi í Þýskalandi þar sem hann áður naut hylli eftir að hann skrifaði bók um Lenín. Hann sagði vinstri mönnum að feta í fótspor Leníns sem árið 1915 hvarf af vettvangi heimsstríðsins og fór til Sviss til að lesa Hegel. Now we need theory, more theory. Ég sá engan frá Samfylkingunni þarna.


Dagur barnabókarinnar

Í dag, 2. apríl, er alþjóðlegur dagur barnabókarinnar. Tilefnið er að þetta er fæðingardagur þjóðskálds Dana, hins mikla ævintýrasmiðs Hans Kristjáns Andersen. Nokkrum sinnum hefur verið reynt að hefja þennan dag til vegs og virðingar hérlendis en ekki tekist sem skildi og fáir þekkja hann.

Nú hafa IBBY samtökin haft forgöngu um að koma þessum degi á kortið og vilja stuðla að því að hann verði eftirleiðis einn af hápunktum bókaársins. Af því tilefni er vakin athygli á barnabókum í Borgarbókasafni, sýning tólf barnabókateiknara er í Ásmundarsafni en það sem líklegast ber hæst er verðlaunaafhending þar sem nýjum barnabókaverðlaunum IBBY og Glitnis verður hleypt af stokkunum. IBBY hefur jafnan veitt svokallaða Vorvindaviðurkenningu hvert ár og taka þessi nýju verðlaun, sem eru peningaverðlaun, við henni.

Umræðan um barnabækur og gildi þeirra er merkilega mikil og mjög margir hafa áhuga á að vegur þeirra sé sem mestur en þetta debatt fer að mestu fram á sporbaug sem er utan við daglegt vafstur höfuðfjölmiðla okkar. Útgáfa barnabóka, ekki hvað síst þýddra barnabóka, er vaxandi og nokkrir íslenskir höfundar hafa búið til heilt úníversum af sögum og karakterum sem eru nú byrjaðir að ferjast milli kynslóða þótt sumt af því efni sem gert hefur verið fyrir börn á Íslandi hafi orðið eftir í sínum tíma og eigi erfitt um útgöngu þaðan.

Mér finnst hins vegar að þessi mikli fjársjóður sé stundum frátekinn fyrir þá sem lesa. Eitt af megináhersluatriðum okkar útgefenda og allra sem vinna við bækur og útgáfu er að stuðla að auknum lestri: Við vitum einfaldlega að það er öllum til heilla. En við verðum líka að viðurkenna að til er hópur, sjálfsagt nokkuð stór hópur, kannski upp í 40% landsmanna, sem ekki lesa bækur sér til ánægju. Hins vegar myndi sama fólk vilja sjá ýmsa karaktera úr barnabókaflórunni í öðrum myndum: Sem teiknimyndir, sem fígúrur, sem myndir á ýmsum varningi, sem efni í öðrum miðlum.

Síðasta sumar fórum við fjölskyldan í frábært skemmtihús í miðborg Stokkhólms, Junibacken, sem er einskonar upplifunarsenter þar sem sænskar barnabækur og þeirra kúltúr er hylltur. Þetta var snilldarstaður sem bauð í senn um á möguleika til að leika sér, ferðast í gegnum sagnaheim Astridar Lindgren og djöflast um í Sjónarhóli sem hafði verið reistur þarna inni í mínatúrmynd með öllu tilheyrandi og engum bannað að snerta neitt. Góðir menn á borð við Dr. Gunna, hafa oft bent á sorglegan skort á tækifærum til að "gera eitthvað með krökkunum um helgar" á höfuðborgarsvæðinu. Það væri rakin snilld að eignast svona hús einhvers staðar á fallegum og björtum stað sem gæti verið mótvægi við leiksvæði krakka í verslunarmiðstöðvum og líkamsræktunarstöðvm sem eru alltaf í kjallaranum eða á einhverjum dimmum stað, líkt og börnin séu geymd í bunker á meðan foreldrarnir fegra líkama sinn og sál í birtunni ofanjarðar.  

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband