Slavo Zizek

Í síðustu viku kom hingað til lands einn af helstu hugsuðum samtímans, Slavo Zizek. Hann hélt tvo fyrirlestra, einn fyrir Borgfirðinga á Bifröst og annan í raunvísindahúsinu Öskju. Ég fór og hlustaði á hann í Öskju í yfirfullum sal. Hefði sprengju verið varpað á hann hefði góður hluti menningarelítu þessa lands og bróðurpartur hinnar skapandi krúttkynslóðar verið þurrkaður út á einu bretti. Þetta var fínn fyrirlestur, raunar alveg stórmagnaður, því eins og við mátti búast var hann mátulega kaótískur til að vera skemmtilegur og svo svaraði Zizek náttúrlega í raun ekki fremur leiðinlegri spurningu sem lögð var fram sem umræðuefni: Can art still be subversive?

Ein áhrifamesta bók sem ég hef lesið um mína ævidaga er kynning Zizeks á Jaques Lacan með hjálp bókmennta og Hollywood í bókinni Looking Awry, sem var með fyrstu públíkasjónum hans á ensku. Síðan þá er hann búinn að dæla út bókum og greinum og er orðinn algerlega óumflýjanleg stærð ef maður vill átta sig á samtímanum og rifja upp að heimurinn og orðin sem notuð eru um hann eru pólitísk og að okkur leyfist í raun ekki að spyrja spurninga um ákveðin svið hans.

Ótti okkar við grundvallarbreytingar, við að sjá fyrir okkur heiminn í grundvallaratriðum öðru vísi en sem markaðsdrifið sósíaljafnaðarbatterí með mismiklum sköttum og leikskólagjöldum og mismikilli kostnaðarþáttöku í heilbrigðis- og menntamálum er svo agalegur að við komumst ekkert áfram. Zizek er einn örfárra raunverulegra byltingarmanna í nútímanum sem hlustandi er á þótt hann sé í raun gamaldags ídealisti sem byggir á traustum grunni marxisma (hegelísku) og sálgreiningar. Útleggingar hans á hugmyndafræði Hollywood og túlkanir á Titanic eða myndum Spielbergs voru skemmtilegur útúrdúr í fyrirlestrinum og voru kennslustund í þeirri stöðugu glímu sem við erum alltaf í við hugmyndfræðina, við staðalmyndir hins rétta og góða.

Hann spjallaði um Lenín í lokin og um möguleika vinstri manna við að kljást við eigin kreppu. Auðvitað má hann ekki fjalla um Lenín, hann sagðist hafa komið sér út úr húsi í Þýskalandi þar sem hann áður naut hylli eftir að hann skrifaði bók um Lenín. Hann sagði vinstri mönnum að feta í fótspor Leníns sem árið 1915 hvarf af vettvangi heimsstríðsins og fór til Sviss til að lesa Hegel. Now we need theory, more theory. Ég sá engan frá Samfylkingunni þarna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband