Drulla og eldur

Höfuðskepnurnar æða alla daga en þær hrista okkur ekki upp af blundinum nema þegar þær bylta húsum. Í aldarfjórðung bjuggu foreldrar mínir að Lindargötu 15 á Sauðárkróki sem var eitt þeirra húsa sem skemmdist í drulluflóðinu um daginn. Raunar skemmdist ekki efri hæðin þar sem við bjuggum en neðri hæðin fór á flot og þar bjargaði aðeins tilviljunin barni sem svaf úti í vagni. Gljávíðirinn við stéttina okkar sópaðist burtu og niður alla brekkuna og ofan á götu með stéttinni sjálfri og einhverjum bút úr brekkunni ofan við húsið. Þetta var náttúrlega lítilræði borið saman við drullumallið sem skvettist niður með stokkunum út við Stöðina og eyðilagði Lindargötu 17 og var víst aðeins hársbreidd frá því að eyðileggja líka Villa Nova sem stendur þarna á gamla sjávarkambinum fyrir neðan. Þannig háttar nefnilega til að rúðurnar í kjallaranum á þessu langfallegasta húsi Sauðárkróks eru af upprunalegri gerð, hnausþykkar smárúður í blýrömmum, og hefðu menn ekki ráðist í að mölva gluggana til að drullan gæti runnið í gegnum húsið hefði aurinn lyft timburgólfinu í sölum Samfylkingarinnar sem er þar með sínar flokksstöðvar og þáði í arf eftir Allaballana.

Lungann úr minni bernsku bjó á hinni skemmdu neðri hæð að Lindargötu 15 tónskáldið Jón Björnsson frá Hafsteinsstöðum, ein af lykilfígúrum íslenska sönglagsins, sérstakur ástvinur ljóða Davíðs Stefánssonar. Hann var enginn barnakall, við systkinin vorum skíthrædd við hann og þorðum ekki fyrir okkar litla líf að leika okkur fyrir utan gluggana, en hann sat sparibúinn fyrir innan og föndraði við nótur eða las. Hann hafði háa og hvella rödd sem sumir gátu hermt skemmtilega eftir, reykti sígarettur í munnstykki og ræskti sig með taktvissum bilum, spilaði reglulega á píanóið og þegar Hallarfrúin með Skagfirsku söngsveitinni var síðasta lag fyrir fréttir sagði pabbi alltaf að nú yrði Jón kátur. Endalok hans voru sorgleg. Við lát Önnu sambýliskonu hans var honum öllum lokið. Honum var búinn staður á ellideildinni á Spítalanum og reyndi þangað kominn árangurslaust endurtekið að fyrirfara sér. Að lokum steypti hann sér í höfnina eina kalda vetrarnótt og króknaði.

Lindargata 13, næsta hús fyrir utan, fór ákaflega illa í drulluflóðinu, en það telst elsta hús Sauðárkróks. Þar bjó um 1980 þægindamaður að nafni Eyjólfur og við kölluðum húsið hans alltaf Eyjólfshús þótt það heiti nú víst eitthvað annað. Hann hafði verið rennismiður eða járnsmiður og hafði aðstöðu fyrir iðn sína í kjallaranum sem hafði vörudyr miklar að framanverðu götumegin, sem voru í raun miklu voldugri en sjálfar útidyrnar og raunar húsið sjálft, sem var eins og oft er með slík hús, ákaflega smátt og raunar svo lágt til lofts þar inni að það yrði ekki þrautalaust fyrir hávaxið nútíðarfólk að búa þar til langframa. Erfingjar hans hafa haldið húsinu vel við og nokkrum árum eftir að Eyjólfur dó var óbreytt um að litast í kjallaranum þar sem hverjum hlut hafði verið fundinn sinn eini rétti staður og allt var með þeirri reglu og skikkan sem manni finnst stundum að hafi eitt sitt verið einkennandi fyrir iðnaðarmenn á Íslandi. Kjallarinn fylltist af drullu og sjálft söguhúsið er nú illa laskað.

Drullan sótti líka heim Lindargötu 11 þar sem gamla Lindin mun víst hafa verið í brekkunni og lengi var og er kannski enn mikil vatnsþró steypt inn í brekkuna þar sem sitja mátti og hlusta á dullarfull hljóð úr dimmu vatninu sem virtist streyma úr pípu ofan úr brekkunni, en þar uppi voru skrítnir kassar með rauðmáluðum blikklokum sem vísast stóðu í sambandi við þennan vatnsbúskap sem ég man ekki til þess að nokkur hafi skipt sér af eða ég eiginlega fengið nokkurn botn í. Þarna bjó eldri herra sem átti svartan Skoda uns bernskukunningi minn hann Lúlli eignaðist húsið og þurfti nú að berjast við drulluna en hefur svo sem lent í mörgu og ekki kallað þetta ömmu sína.

Extraspýja kom svo ofan af Móunum og féll á Lindargötu 9, gamla læknishúsið, sem bekkjarfélagi minn hann Halli Nikk hefur átt nú um langt skeið. Hann varð fyrir miklum búsifjum en mér hefur verið sagt að hann hafi umsvifalaust rokið í að bjarga hundum sínum, en hann mun rækta eitt fremsta leitarhundakyn hérlendis og verið óþreytandi í ræktun og þjálfun á þeim kostagripum. Þetta hús er án efa ein af perlum staðarins væri farið í að gera það upp eftir öllum kúnstarinnar reglum og það láið skína í sínum upprunalega ljóma. Í þessu húsi mun víst ein fyrsta skurðaðgerð með svæfingu hafa verið framkvæmd hérlendis, þótt ég hafi ekki rannskað sögu þess út í hörgul, en það stendur að sönnu á fallegum stað og er reisulegur minnisvarði um gamla tíð á Sauðárkrók, raunar einn af fáum því Króksarar hafa með nánast skipulögðum hætti útrýmt mestu sem minnir á fyrri tíð í bænum.

En ekkert hús við Lindargötuna hafði annað eins útsýni og okkar hús. Þaðan sást um allan Fjörð, öll austurfjöllin blöstu við, ekki síst dalirnir og þeir smáu hvilftarjöklar sem eru innaf Hjaltadal og Kolbeinsdal og svo eyjarnar, Drangey og Málmey og Þórðarhöfði útfrá. Það reddaði miklu nú að húsið stendur svona hátt í brekkunni og líka að það er byggt eins og virki, útveggirnir nærri armlengd að olnboga að þykkt. En við bjuggumst alltaf við einhverju úr þessum stokkum við rafstöðina. Þeir láku alla mína bernskutíð, raunar svo mikið að brekkan ofan við húsið var eitt mýrarfen og þurfti miklar tilfæringar til að stemma við því stigu. Í einhverjum dómsdagsvisjónum sá ég fyrir mér vatnið spýtast niður brekkurnar, en samt kom drulluflóðið á óvart. Þegar það loksins gerist er það alltaf óvænt.

Rétt eftir drulluna kom svo eldur. Ég var staddur á horni Lækjargötu og Austurstrætis akkúrat á meðan eldurinn var að blossa upp inni á Fröken Reykjavík, gekk svo upp Laugaveginn og heyrði þá að allt stæði í ljósum logum. Undarleg tilfinning að hafa staðið úti á götu og eldurinn brunnið fyrir innan, það er næstum því eins og maður hafi haft eitthvað um þennan eld að segja. Ekki það að Prestaskólinn og Eymundssonarhús mættu hýsa einhverja virðulegri starfsemi en kebabbúllu og diskótek. Kannski verða höfuðskepnurnar til að breyta eihverju í bæjarmynd bæði Sauðárkróks og Reykjavíkur. Í það minnsta mættu Króksarar fara að hrista af sér molbúaháttinn og reyna að gera upp þau örfáu gömlu hús sem eftir standa í bænum. Dröslaraskapur, hirðuleysi og almenn sinnudeyfð um það gamla virðist seint ætla að rjátlast af bæjarbúum. Viðkvæðið er alltaf: Best að byggja upp í Hverfi og setja ýtuna á gamla dótið. Hofsós er fyrir löngu orðinn miklu fallegri staður en Krókurinn og hefði þótt saga til næsta bæjar í mínu ungdæmi. Hvað þá ef plássið er borið saman við Akureyri eða Sigló þar sem menn hafa mannað sig í að gera almennilega við sín hús og búa til skikkanlega bæjarmynd. Svo er að bíða og sjá hvert drullan og eldurinn leiða okkur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband