Færsluflokkur: Bækur

Kiljan

Jæja, loksins fór íslenskur bókmenntaþáttur í loftið. Mikið sem maður hefur nú beðið eftir því og fullkomlega óskiljanlegt hverskonar þæfingur það hefur verið hjá RÚV að vilja ekki halda úti svona prógrammi. Að vísu er þetta góður tími, það er jú bókmenntahátíð í Reykjavík og fyrir vikið sægur af frambærilegu fólki á ferð. Egill sýndi það í Silfrinu að hann er eiginlega bestur þegar hann tekur viðtöl á ensku og það kom fram í kvöld. Fínt spjall við Ayaan Hirsi Ali og svo við þær stöllur Tracy Chevalier, Yasmine Crowther og Marina Lewycka.

Hirsi Ali og J.M. Coetzee koma reyndar með miklu trukki inn í bókmenntahátíðina með erindum sínum og spjalli um pólitík og stefnumið vestrænna samfélaga. Erindi Coetzees í hátíðarsal Háskólans var til að mynda að mínu viti hápunktur hátíðarinnar fram að þessu. Magnað erindi sem setti hugleiðingar hans sjálfs sem rithöfundar í stórt samhengi sem við erum öll hluti af. Hann nánast sannaði grundvöll þess að bókmenntir eigi að þrífast sem sérstakt áhrifasvæði heildrænnar hugsunar um mann og samfélag utan stofnana ríkis og sterkra fyrirtækja.

Ég vona hins vegar að hlutur álitsgjafanna í Kiljunni eigi eftir að slípast. Páll Baldvin var skarpur og beittur sem gagnrýnandi í sjónvarpi, en ég held að ég sé ekki að bulla þegar ég segi að hann hafi nú ekki verið leiftrandi af fjöri. Kolbrún Bergþórsdóttir er hins vegar fjörug og hrifnæm en verður óörugg um leið og umráðasvæði hennar sleppir. Fyrir vikið varð umræðan svolítið skrítin. Allir voru með einræður og enginn talaði saman eða spann áfram þráð hins. Páll Baldvin setti á mjög skrítna ræðu um einhvers konar svik útgefenda við málstað bókmenntanna vegna þess að þeir hefðu gefið út þýðingar á verkum höfundanna sem komu á bókmenntahátíð. Það var að skilja á honum að þetta væru upp til hópa svo slöpp verk að þau ættu það ekki skilið að vera þýdd á íslensku og að bókmenntahátíðin væri einhvers konar "set up" til að redda réttindakaupum forleggjara. Þetta er diskússjón sem ég held að aðeins örfáir innvígðir hafi skilið eða þá yfirleitt haft áhuga á. Um þetta mál höfðu Kolbrún eða stjórnandinn heldur ekkert að segja.

Hér hefði þó mátt benda á tvo meginpunkta sem skipta máli í þessari þó svo fremur tæknilegu umræðu: Annars vegar að nú stendur fyrir dyrum ný skipan mála í útdeilingu þýðingarstyrkja með stofnum bókmenntasjóðs skv. lögum sem afgreidd voru frá Alþingi síðasta vor. Þýðingarsjóður hefur verið lagður niður. Hins vegar að útgáfa þýðinga í harðspjöldum til gjafa um jólin er eftir sem áður erfið og það hefur ekkert breyst. Hins vegar er greinilega að myndast áhugaverður markaður fyrir þýðingar í kiljum. Menn eru að þreifa á formatinu þessa dagana. Bjartur/Veröld gefa t.d. út þýðingar bæði í kilju og innbundnar. Eddan eða Forlagið bara þýðingar í kilju á meðan smærri forlög eins og Jentas halda sig við innbundna formið. Bók Hirsi Ali, Frjáls, er svo innbundin og er greinilega teflt inn á jólamarkaðinn. Mynd Páls Baldvins er því sem er að gerast er því einfaldlega ónákvæm og ástæða til að reka það ofan í hann.

Svo fóru menn í að ræða hið nýstofnaða Forlag, sameiningu JPV útgáfu og Máls og menningar. Sú umræða snerist eingöngu um persónu Jóhanns Páls Valdimarssonar og svo "Schadenfreude" yfir hvernig komið væri fyrir Máli og menningu að geta ekki einu sinni druslast til að reka eigið forlag sjálft. Raunar hefur verið kostulegt að fylgjast með því hvernig allir eru nú farnir að líta Jóhann Pál skyndilega allt öðrum augum en áður undanfarna daga. Nýi sterki maðurinn horfir öðru vísi við flestum nú þegar hann ber ábyrgð á svo miklum hluta einkarekinnar bókaútgáfu á Íslandi. Menn skildu því sáttir með það að nú væri JPV "kóngurinn".

En eftir þennan þátt er ég á því að Egill hafi verið rétti maðurinn. Ef honum lukkast að hafa útlendinga í að minnsta kosti helmingi þáttarins hverju sinni verður þetta án efa gott prógramm.


Gastland Island

Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja fram umsókn um að Ísland verði heiðursland á bókamessunni í Frankfurt árið 2011 er tímamótagjörningur. Gangi áformin eftir þannig að samningar náist við stjórn Frankfurter Buchmesse um framkvæmdina er íslenskum bókmenntum og íslenskri menningu tryggð gríðarleg fjölmiðlaumfjöllun á langstærsta útflutningsmarkaði sínum. Um leið yrði þýðing íslenskra bókmennta yfir á þýsku flutt yfir á nýtt plan. Svo gæti farið að þýskumælandi og þýskuskiljandi lesendur gætu haft fullkomna yfirsýn yfir allan íslenska bókmenntaarfinn ef þýðingaráfrom tengd þessum atburði ganga eftir.

Öfugt við tónlist, dans og myndlist eru bókmenntir algerlega háðar þýðendum sínum. En ekki aðeins það. Bókmenntir koma ekki út nema útgáfufyrirtæki taki bækurnar til útgáfu og það er nær undantekningalaust í markaðslegum tilgangi. Jafnvel þótt okkur þyki stundum nánast sjálfsagt að íslensk menning breiðist út um heiminn þá er staðreyndin sú að við erum fá og það er meira en að segja það að hafa nægilegan innri styrk til að standa fastur á því að sköpunarhefð þeirra sem talað hafa íslensku sé svo sterk og merkileg að hún eigi erindi við heiminn.

Bókamessan í Frankfurt er langstærsti viðburður veraldarinnar á sviði bóka. Messan er risavaxin kaupstefna um leið og öll útgáfa Þýskalands, annars stærsta fjölmiðla- og bókamarkaðs heims, notar hana sem sýningarglugga. Hátt í 400.000 gestir koma á messuna og því landi sem er "fókusland" hverju sinni eru tryggðar forsíður allra blaða, umfjöllun í öllum sjónvarpsmiðlum og framstillingar í öllum bókabúðum, auk ótal viðburða um allt Þýskaland. Þessi athygli bergmálar svo áfram.

Það vefst stundum fyrir mönnum hvernig eigi að standa að útbreiðslu íslenskra bókmennta. En staðreyndin er sú að ef menn vilja vekja athygli þá gerist það því aðeins að menn mæti þar sem kastljósin eru. Það var fagnaðarstund þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tilkynni þetta við setningu Bókmenntahátíðar á sunnudaginn. Nú er bara að vona að þetta gangi eftir.


Að farga bókum

Á mánudaginn höfðu samband við mig tveir blaðamenn. Annar vildi spjalla um Björgólf svona almennt en hinn vildi fá mig til að viðurkenna að Björgólfur væri óvinur tjáningarfrelsisins. Báðir voru þeir að reyna að átta sig á því hvernig þeir ættu að skilja litla klausu í annars athyglisverðu viðtali The Observer við Björgólf þar sem reifað er að téður Björgólfur hafi ekki aðeins þrýst á um að fyrstu prentun bókarinnar Thorsararnir eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing yrði fargað, heldur beinlínis látið gera það. Um leið var tæpt á því að hann hafi viljað kaupa DV til að bregðast við umfjöllun blaðsins um það sem varð þess valdandi að fyrsta upplag bókarinnar var gert upptækt.

Það er þetta með tjáningarfrelsið. Þegar bókin Thorsararnir kom út var ég svokallaður þróunarstjóri hjá Eddu útgáfu, sem fólst aðallega í því yfir jólavertíðina að ég reyndi að upphugsa einhverjar nógu klikkaðar leiðir til að koma höfundum og bókum á framfæri. Ef mig minnir rétt, því sjálfur sá ég aldrei þessa forboðnu fyrstu prentun nema rétt í svip, var það aðallega illa röstuð og fremur óskýr mynd af George Lincoln Rockwell í "fullum skrúða" sem vakti athygli manns, en mestan áhuga hafði ég sjálfur á sögu þeirra Thorsbræðra, sem er ævintýraleg og mögnuð og gerð frábær skil í bókinni. Ef ég man rétt fannst höfundi lítið mál að hnika til frásögninni og sleppa því að birta þessa vondu mynd, en ég man líka að mér fannst furðulegt að standa í því að eyðileggja upplagið, það var eitthvað svo drastíst að það hlaut að hafa afleiðingar. Sem það og hafði fyrst enn er verið að ræða um það.

En sum sé. Ég var síður en svo innsti koppur í þessu búri en ég minnist þess ekki að menn, höfundur og forleggjarar, hafi verið mjög uppteknir af því að verið væri að skerða tjáningarfrelsið. Hvers konar breytingar á handritum og bókum eru alvanalegur hluti af útgáfuferli bóka. Fólk á öðrum fjölmiðlum (en bók er jú fjölmiðill líka) er oft mjög heilagt í framan þegar kemur að þessum smáklípingum, telur það vera stórkostlega undanlátssemi og aðför að sannleikanum. Hins vegar er sá munur á bókum og t.d. sjónvarpi að líftími bóka er mjög langur, jafnvel margar aldir, og fólk er merkilega og raunar gríðarlega viðkvæmt fyrir því sem stendur á prenti. Oft stendur maður frammi fyrir ákvörðunum eins og hvort lítil orðalagsbreyting sé réttlætanleg til að vernda tilfinningar fólks, eða hvort harðneskjan eigi að standa sannleikanum til staðfestingar. Þetta eru samviskuspurningar sem ekkert endanlegt svar er til við. Bækur koma út í mismunandi tilgangi, framsetningin byggir á mismunandi viðhorfum og það er sjaldnast klippt og skorið hvort særandi ummæli séu kjarni máls sem varði almenning eða einfaldlega slúðurnudd.

Ég man alltaf eftir því að fræka mín, nú löngu látin, var eyðilögð yfir því að sagður var sannleikurinn um langafa hennar í ættfræðiritinu Svarfdælingar. Þar var réttilega sagt frá því að hann hefði verið dæmdur fyrir sauðaþjófnað. Ég man eftir að hafa setið sem barn og hlustað á gamla fólkið ráðslaga um hvað þessum mönnum gengi til sem gæfu þetta út og skrifuðu þetta og ekki síst af hverju Kristján Eldjárn hefði ritað formála að þessari bók og virðulegt forlag (Iðunn) annars Svarfdælings, Valdimars Jóhannssonar, gefið hana út. Þessu gamla fólki var hulin ráðgáta að þessir ráðvöndu menn skyldu hafa lagt nafn sitt við svona voðalega bók. Samt var þetta bara sannleikurinn og snerti mig og foreldra mína minna en ekkert og okkur fannst þetta allt með miklum ólíkindum og raunar bráðfyndið. Þetta var jú 18. aldar mál. Þessi söngur hélt áfram í mörg ár og guð má vita hvort hann barst nokkrum málsaðila nokkurn tíma til eyrna, alveg áreiðanlega ekki. En hefði frænka mín átt meirihluta í Iðunni, hefði hún þá fargað upplaginu? Alveg áreiðanlega.

Það þarf ekki að leggja mikið á sig til að frétta nánar um hinar umskrifuðu síður í bókinni Thorsarar. Það er nóg að slá inn nafni George Lincolns Rockwell á netinu og ótal færslur koma upp, meðal annars sjálfsævisaga hans öll innskönnuð. Ítarleg Wikipediafærsla og ótal smærri færslur um líf og störf þessa manns sem tókst á furðulegan hátt að vera í senn aðdáandi Malcoms X og Hitlers. Hann er einn af afurðum hugsjónastorma 20. aldarinnar og ótta hennar við múginn og sambræðslusamfélög iðnvæðingarinnar. Það voru ótal þannig sálir uppi og þær vekja oft með okkur undrun og furðu. En hinir miklu baráttumenn tjáningarfrelsisins. Mér finnst aðeins undarlegt að nærvera heimildanna snertir þá ekki nema sem viðbrögð við því sem Björgólfur segir og gerir. Það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að í raun stýri Björgólfur íslenskum og já raunar líka þeim erlendu blaðamönnum sem nálgast hann og hans fólk. Meinið er aðeins að báðir virðast engu að síður óhressir með það.


Forlagið

Bókabransinn var í einni svipan umpólaður á lokadegi ágústmánaðar. Eftir að hirðmenn og hirðmeyjar Eddu og JPV höfðu svitnað árum saman við að níða skóinn hver af öðrum og tínt til kostina við karismatísku útgefendapersónuna annars vegar en hins vegar við ópersónlegu mulningsvélina Eddu blasti allt í einu við afbyggingin: Mótsagnirnar reyndust engar mótsagnir. Allir vilja ná árangri, auka tekjur og völd. Af hverju ekki að gera það saman en ekki sitt í hvoru lagi? Samruni Máls og menningar eða öllu heldur útgáfuhluta Eddu útgáfu hf. og JPV útgáfu var áfall fyrir sjálfsmynd margra menningarfrömuða. Á milli þess sem ég smalaði sauðfé alla helgina ýmist fótgangandi eða á hestbaki, hleraði ég viðbrögð útgáfubransans. Fyndnast var þegar ónefndur aðili hringdi í mig þar sem ég stóð uppi á Svaðastaðafjalli og hafði eygt skjátu enn lengra upp í grjótinu fyrir ofan Sigin, í 800 metra hæð yfir sjávarmáli hvíslaði rödd: "Hvernig er eiginlega hann Jóhann Páll?"

Almennt hafa menn á orði að JPV útgáfa hafi hirt Mál og menningu. Ég býst við að forsvarsmenn bókmenntafélagsins sjái málið öðru vísi, enda verður að lokum einhver að ávaxta það fé sem nú er sett í bókaútgáfuna. Greinilegt er að stjórn Máls og menningar telur engan betri til þess en þá Corleone-feðga, eins og DV og Fréttablaðið kölluðu jafnan þá Jóhann Pál og Egil Jóhannsson. Ef horft er yfir feril JPV útgáfu frá vorinu 2001 sést að vöxtur fyrirtækisins hefur verið jafn og öruggur og afkoman nægilega góð til að leyfa þetta stóra stökk, því í nýja félaginu, Forlaginu, eiga JPV og MM jafnstóran hlut. Það er ansi vel af sér vikið ef eingöngu er horft á veltutölur. Velta JPV á síðata ári er skv. mínum heimildum einhvers staðar í kringum 400 milljónir. Edda útgáfa segist hafa fengið 950 milljónir í tekjur af almennri útgáfu á rekstrarárinu 2006-07. Þar með hefur JPV útgáfa í raun afsannað allar hrakspár um vonleysi íslenskrar bókaútgáfu. Með skýr markmið að leiðarljósi, skýran fókus og úthald er hægt að byggja upp gott meðalstórt fyrirtæki í bókaútgáfu á Íslandi. Ferill Eddu útgáfu hf. sýnir kannski það gagnstæða. Að stórt útgáfufyrirtæki sem ætlar sér að þenja sig út til allra átta rekst á takmarkanir lítils markaðar og takmarkaðs vaxtar. Nú er það í raun hlutverk Corleone-feðga að afsanna þá kenningu. Það er áskorunin sem þeir standa frammi fyrir.

En þetta er mikil hringferð. Það er eins og Vico eða Spengler hafi skrifað handritið en ekki Hegel. Þegar ég fór að vinna hjá Máli og menningu árið 1998 var Jóhann Páll með Forlagið sem hverja aðra undirdeild í fyrirtækinu en gengdi um leið hlutverki markaðs- og sölustjórnanda. Ég hef oft gert mér mat úr sérkennilegum orðatiltækjum hans, tilþrifum og afvopnandi tilsvörum. Það líður mér seint úr minni að sjá hann sitja í leðurbuxum, nýstiginn af Harleyinum sínum við skrifborðið á Laugavegi 18 og tala um að nú yrðum við að láta smella í sokkaböndunum. Hann hafði súverenítet sem mér fannst jaðra við hreina vitleysu en virkaði, einsog þegar þá ungur höfundur, Mikael Torfason, reiddist við hann og sagði honum "að hoppa upp í rassgatið á sér". Jóhann svaraði rólegur: "Það má bara vel vera að ég geri það." Það er erfitt að vera reiður höfundur í návist slíkrar búddískrar yfirvegunar.

Á meðan Jóhann sá um að tjúna upp stemmninguna var útgáfustjórinn Halldór Guðmundsson sendiherra Andans á Íslandi. Samband þeirra tvímenninga var flókið en um leið gott fyrir fyrirtækið. Stjórnunarfræðingar hefðu haft mikið upp úr því að stúdera það. En Jóhanni fannst, og hafði æ oftar á því orð, að hann væri sem í spennitreyju, hann vildi sprikla. Og þegar hann fór út gerði hann það með brauki og bramli. Áramótin 2000 varð hann framkvæmdastjóri hins furðulega fyrirtækis Genealogia Islandorum sem hafði bissnessplan sem hljómaði líkt og geimferðaáætlun Búrkína Fasó en líka undirdeild sem hét þá JPV Forlag og svínvirkaði í krafti nær ótakmarkaðs markaðsbudgets. Þegar þessi spilaborg hrundi, vart ársgömul, komst Jóhann aftur á fætur á undraskömmum tíma. Nú starfa þeir aftur saman Halldór og Jóhann og geyma vonandi visku í hjarta eftir mörg stormasöm ár. Visku sem nýtist Forlaginu til framdráttar.

Já Forlagið. Ég var útgáfustjóri Forlagsins á árunum 2000 til 2004. Það er mjög ánægjulegt að sjá það nú verða að yfirheiti á nýja útgáfurisanum. Þótt eiginlegum frontlista Forlagsins hafi verið lokað í upphafi árs 2004 hefur einn höfundur gefið út allar sínar bækur undir merkjum þess allt fram á þennan dag: Metsöluhöfundurinn Sigurgeir Sigurjónsson. Forlagið var stofnað af Jóhanni Páli og Þorvaldi Kristinssyni árið 1984 og hefur gefið út bækur óslitið síðan. Bækur þess seljast í tugþúsundum eintaka á ári hverju, ekki síst vegna þess hve titlar á borð við Lost in Iceland, Amazing Iceland, Iceland - the Warm Country of the North, Íslendingar, Made in Iceland og Found in Iceland hafa gengið vel. Ég óska mínu kæra Forlagi velfarnaðar og vona innilega að með því rætist draumar íslenskrar bókaútgáfu um sterkt og stórt útgáfufyrirtæki sem standi á traustum fjárhagsfótum.


Skiptir eignarhald lesendur máli?

Áfram heldur söluferli og sundurbútun Eddu útgáfu hf. og nýjustu vendingar eru að félagsráð Máls og menningar hefur nú samþykkt að hjóla í kaupin á útgáfuhluta Eddunnar. Heimildir greina að stemmningin hafi verið létt á fundinum og góður rómur gerður að þessari tillögu, enda nokkrir þar á bekk sem töldu krullið við stórkapítalistann Björgólf Guðmundsson hreina ósvinnu, í skásta falli illan biðleik. Þar með hefur stjórn Máls og menningar heimild til að ganga í málin. Náist ásættanlegt verð fyrir einu eign Máls og menningar, um 1000 fermetra að Laugavegi 18, er ljóst að ekkert er í veginum fyrir að þetta gangi eftir og að í jólaslagnum í ár verði það Mál og menning sem tefli fram sinni breiðsíðu, frjáls og frí undan kapítalinu. Mál og menning verður þá langstærsta útgáfufyrirtæki landsins, með næstum milljarð í veltu, rétt helmingi stærri en næst stærsta útgáfufyrirtæki landsins, Námsgagnastofnun, og ríflega helmingi stærri en næst stærsta útgáfufyriræki á neyslumarkaði, JPV.

Margir, ólíklegasta fólk raunar, hefur spurt mig að undanförnu hver eigi eiginlega Mál og menningu. Annars vegar finnst fólki það einfaldlega óþægilega óljóst hver ráði nú stærstu bókaútgáfu landsins og raunar megninu af útgáfusögu síðustu 70 ára, en hins vegar hafa einkavæðingar og athafnamannahoss orðið til þess að fólk er orðið samdauna eignarréttarsífrinu. Það verður alltaf einhver að eiga allt. En einmitt vegna þess að samfélagið hefur tekið stórstígum framförum í kapítalískum hugsunarhætti er þessi spurning fullkomlega lögmæt. Ég get ekki svarað þessari spurningu til fulls, til þess brestur mig einfaldlega þekkingu. En eftir því sem mér skilst er þetta einhvern veginn svona:

Mál og menning-Heimskringla ehf. er félag sem stofnað var eftir sameiningu Máls og menningar og Vöku-Helgafells árið 2000 og fer með eignarhluta Máls og menningar í félaginu. Þetta félag kaupir nú útgáfuhluta Eddu útgáfu hf. og endurvekur þar með í raun gömlu Mál og menningu. Eini tilgangur þessa félags er rekstur eignarhaldsfélaga, s.s. utanumhald um eignarhlutinn í Eddu og húseignina að Laugavegi 18. Utan um rekstur húseignarinnar Laugavegur 18 er síðan annað félag, gamalt og gróið,  sem er Vegamót ehf. sem væntanlega hefur þjónað sínu hlutverki eftir sölu húseignarinnar. Síðan er gamla félagið, Bókmenntafélagið Mál og menning, sem er hið gamla bjarg. Þar er æðsta stofnunin einskonar kaupfélagsstjórn, félagsráð, sem félagar í félagsráði kjósa sjálfir í eftir að mælt hefur verið með einhverjum góðum í stað hinna. Þessi stofnun hafði í upphafi það hlutverk að halda utan um pólitísku línuna í hinu sósíalíska útgáfufélagi og auðvitað eymir enn eftir af því. Það er ástæða fyrir að Björgólfur hikar við að selja AB í hendurnar á kommunum, þótt sósíalistarnir í MM hafi orðið að kyngja því að HHG notaði Laugaveg 18 sem gólfteppi þegar hann smurði þar ganga með rjóma Sjálfstæðisflokksins hér um árið. Félagsráð hefur svo skipað stjórn og það er raunar þessi stjórn sem öllu ræður, þar var stjórnarformaður Þröstur Ólafsson en er nú frá með gærdeginum forstjóri Eddu útgáfu hf., Árni Einarsson, sem kemur raunar einnig eins og stormsveipur inn í umræðuna um miðborgina í Fréttablaðinu í dag og er eini maðurinn með konkret tillögur um lausn á þeim mikla fyllerísvanda sem að henni steðjar.

Ég hef stundum spurt mig að því sem gamall "félagsmaður" Máls og menningar, en félagsmenn voru þeir sem áskrifendur voru að Tímariti Máls og menningar, hver hafi eiginlega ákveðið þetta eignarhald og stefnu fyrirtækisins. Líkt og í Sparisjóðunum eða Kaupfélögunum er þetta "fé án hirðis" sameignarfélagið er í raun í höndunum á þeim sem eru þegar fyrir á sessi sínum og höfundar, starfsmenn, lesendur, bókmenntaáhugafólk, þeir hópar sem Mál og menning taldis sig þó þjóna fyrst og fremst í menningarbaráttu sinni, höfðu náttúrlega ekkert inngrip í tannhjólin, nema þá takmarkað, því nokkrir rithöfundar eru svo sem í félagsráði. Sem neytandi gat maður náttúrlega bara gefið frat í þetta og gert eins og hörðustu Sjallarnir, sleppt því að kaupa bækur frá MM, en það var náttúrlega bara bjánaskapur. Mótsögnin er hins vegar að félagið er í grunninn pólitískt félag, kannski menningarpólitískt, með strúktúr frá tímum fjöldahreyfinganna þegar hugsjónamenn litu réttilega svo á menntun þjóðarinnar og framför hennar í andlegum efnum byggði á öflugri bókaútgáfu, einhvers staðar varð alþýðan að komast í lesefni á vægu verði sem var ekki bara eitthvert bjánasull. En hvernig lítur þetta út núna á öld eignarréttarins, stafrænnar miðlunar og fjölmenningar? Og hverjir eru núna félagsmennirnir sem á að skipa í "félagsráð", eru einhverjir félagsmenn? Á kannski að fara að afla þeirra núna?

Hér er á ferð stærsta bókaútgáfa landsins með langöflugusta útgáfulistann, flesta stóru höfunda þessa lands innanborðs, gríðarlegan "bakklista" eldri verka og hefur nánast allan okkar menningaraf á sínum snærum. Er það heillaspor fyrir svo mikilvægt fyrirtæki að það hafi sama eignar- og stjórnunarstrúktúr og var hugsaður sem pólitískt mótunartæki árið 1960 nú eða þá bara 1976?

En þegar allt kemur til alls er aðalmálið náttúrlega bara þetta: Lesendur skiptir eignarhald á útgáfufyrirækjum aldrei neinu máli. Ef fyrirtækið ber gæfu til að þjónusta íslenskan bókamarkað þannig að hann haldi áfram að vera öflugur og bækur haldi áfram að vera mikilvægur miðill, já ef fólk langar í bækurnar frá þessu fyrirtæki, þá er þetta í raun smámál.


Leyndarmálið orðið að átakamáli?

Leyndarmál Rhondu Byrne er svo eftirsótt að nú er bitist um hver hafi réttinn á því að gefa það út á DVD með íslenskum texta. Í gær trommaði upp í fjölmiðlum hinn glaðbeitti erfðaprins íslensku plöggkrúnunnar, Ísleifur Þórhallsson eða Ísi eins og hann er þekktur "á götunni" og sagðist vera með réttinn á íslensku útgáfunni á DVD. Hann lét líka fylgja að myndin væri að fara á nærri 5000 kall "á svörtu".

En málið mun vera flóknara. Umboðsskrifstofa Rhondu Byrne kannast víst ekkert við að Ísi sé með réttinn á íslenskri útgáfu DVD gerðar Leyndarmálsins, þ.e. myndarinnar, og þessi 5000 kall er alls ekki á svörtu því myndin fæst í Pennanum og fleiri búðum og náttúrlega hjá útgefanda Leyndarmálsins á Íslandi, Sölku. Penninn mun ekki vera neitt sérlega hress yfir því að fullkomlega löglegur innflutningur þeirra á Leyndarmálinu frá enskum ströndum skuli vera kallaður "svartamarkaður" og rétthafi Leyndarmálsins mun hafa talið sig með öll réttindi til hérlendrar útgáfu á jafnt prent- sem myndefni og nýtur þar stuðnings Rhondu sjálfrar.

Hvernig allt er svo í pottinn búið í raun og veru mun skýrast. En þetta er náttúrlega ekki annað en vísbending um að allir vilja komast að leyndarmálinu.


Hver er leyndardómurinn á bak við Leyndarmálið?

Mest selda bókin á Íslandi undanfarnar vikur er Leyndarmálið eftir Ástralann Rhondu Byrne. Hún verður mest selda bókin á Íslandi næstu vikur í viðbót, raunar eru yfirgnæfandi líkur á að hún verði í kringum topp sölulista Eymundssonar fram að fyrstu viku nóvember eða svo þegar jólaskriðann veltur inn úr prentsmiðjunum. Ástæðan er einföld: Það kemst enginn hænufet án þess að minnst sé á Leyndarmálið. Síðast í dag sagði umboðsmaður Íslands nr. 2, hann Ísi, að rétturinn á mynd Rhondu lægi hjá sér og hann byggist við metsölu, DVD diskurinn gengi hér á hátt í fimmþúsundkallinn á svörtum. Þá eru ekki þeir meðtaldir sem horfa á þetta á netinu. Það er einhver svartigaldur í þessu sem tryllir. Sjálfsagt ástæðan fyrir því að Time valdi hana Byrne sem eina af 100 áhrifamestu einstaklingum heims.

Bókin hefur verið í kringum topp þýska "Sachbuch" listans nú undanfarnar vikur og á toppi "Advice"-lista New York Times. Enn á eftir að gefa hana út í nokkrum menningarlöndum og því mun lögmál aðdráttaraflsins enn eiga eftir að veiða fleiri sálir í net sín. Þetta er allt hið magnaðasta mál og raunar verður maður stundum smá smeykur þegar maður heyrir fólk tala um þetta. Þetta hljómar eins og ný trú, leyndarmálskirkjan, og fólk vitnar, líf þess hefur breyst, það sá nýja merkingu, það varð heilt og sama sér maður ef skoðaðar eru erlendar bloggsíður og ýmsar spjallrásir. Leyndarmálið hrifsar til sín sálirnar. Larry King fjallaði endalaust um Leyndarmálið, Ellen DeGeneres fjallaði endalaust um Leyndarmálið og síðan Ophra, sem hefur séð ljósið í Leyndarmálinu. Rhonda Byrne er í augum milljóna nánast heilög manneskja. Hvað er þetta eiginlega?

Skemmtilegust er þó umræðan sem sumir brydda uppá þar sem borin eru saman lögmál adráttaraflsins hjá Rhondu og önnur lögmál sjálfshjálpargúrúa. Er nóg að trúa eða verður maður líka að gera? Er nóg að hugsa um það sem maður vill, eða verður maður að trúa á það sem maður vill? Það sem slær mig mest í þessu er að skv. frásögn ástralskra vefmiðla fékk Byrne hugmyndina úr eldgamalli sjálfshjálparbók þar sem vísindahugsun, nútímatrú og kalvinískri dugnaðarhyggju var blandað saman til að búa til nýjar sálir fyrir sölu- og iðnaðarsamfélag Ameríku. Þetta var bókin The Science of Getting Rich eftir Wallace Wattles sem kom út árið 1910. Þar er á ferð myndhverfing. Aðdráttaraflið, það sem stjórnar hreyfingum agna í kringum segul t.d., virkar líka í mannheimum. Það sem fer út, fer aftur inn. Betra að þetta sem fer út og inn sé gott. Byrne kynntist um leið því nú er kallað NLP - taugaforritun - og hvers konar hugarþjálfun sem skiptir orðið mjög miklu til að mynda við þjálfun íþróttamanna. Allt kom þetta saman í myndinni Leyndarmálið. Síðan kom bókin. Nú er Rhonda orðin ein af stóru nöfnunum.

Það sem við köllum nú sjálfshjálp var frá því í fornöld ein af uppistöðum siðfræði og klassískrar heimspeki: Hvernig rækta ég sjálfan mig? Sjálfshjálp, "Erbauung" var ein af grundvallarstoðum mótmælendaboðunar. Sjálfshjálparbækur voru þýddar á íslensku strax á 16. öld og prentaðar á Hólum og seinna í Skálholti, Hrappsey, Leirárgörðum og Viðey. Prentmenningin og ráðgjöf við að lifa lífinu og takast á við erfiðleika þess eru samferðarmenn. Mér finnst magnað að sjá þetta virkar enn í dag. Að orðin skuli hafa þennan mátt að þúsundir sjá líf sitt umhverfast.


Minningargrein um Bol Bolsson

Í Lesbók Mbl. um síðustu helgi skrifaði ég smá pistil um opna samfélagið og gervisjálfsmyndir bloggara og viðbrögð "alvöru" fjölmiðla við trúðum og búktölurum. Hún fer hér á eftir:

Ýmis teikn eru um að „hið svonefnda blogg“ sem Morgunblaðið rekur og blandar við fréttaveitu sína á Netinu sé í nokkru afhaldi hjá forvígismönnum blaðsins. Þannig hefur mbl.is verið mikið í mun að halda sæti sínu sem vinsælasti fréttavefur landsins í mælingum og nú hafa með stuttu millibili birst tveir leiðarar í Morgunblaðinu sem draga fram kosti netvæðingar fyrir samfélagið allt, hins „opna samfélags“. Það má lengi rekja sundur hvað býr í orðinu „opið“ og þeim draumalandstón sem það inniber, sú var tíðin að „opin verk“ (í merkingunni listaverk) áttu að hrista heiminn til nýs skilnings á sjálfum sér; meira að segja Umberto Eco komst fyrst til frægðar fyrir bók sína um „opna verkið“. En nú um stundir er „opnunin“ stafræn. Hún er í fyrsta lagi pólitísk draumsýn um óheftan aðgang að upplýsingum sem hvort eð er má finna á stafrænu sniði, en aðeins á lokuðum kerfum. Eins og leiðarahöfundur Morgunblaðisins reifar í erindi sínu þann 13. ágúst síðastliðinn, er kominn tími til að íslenskar sveitastjórnir nýti sér netið í meira mæli. Tæknin er til staðar. Nú er að hleypa almenningi í bókhaldið. Í öðru lagi þýðir „opnunin“ að hverskonar stífni við að miðla höfundarréttarvörðu efni með stafrænum leiðum verði afnumin, gáttirnar verði „opnaðar“. Sterk undiralda er meðal netverja í þessa átt og jafnvel innan Evrópusambandsins eru að verki kraftar sem virðast ætla að knýja fram að öll hugverk sem sambandið styrkir verði „opin“, æði oft í fullkomnu trássi við höfunda og útgefendur. Við sem erum sannfærð um að framtíð frjálsrar tjáningar í markaðssamfélagi felist í því að áfram verði eignarréttur á hugverkum erum skeptísk á þessa þróun, en það breytir því ekki að þarna er þrýstingurinn. Þeir sem nú fást við fjölmiðlun og útgáfu verða að lesa í þessi kort. Morgunblaðið eyddi gríðarlegum fjármunum, kröftum og tíma í að netvæðast. Nú telja margir að verið sé að uppskera. Þarna sé starfandi sterk fréttaveita með víðlendu umræðukerfi sem jafnframt er mikilvægur auglýsingamiðill.

Og nú er verið að taka frekari skref í átt að því að tengja þá sem fréttirnar skrifa á mbl.is (og mættu hugsa oftar: „hvernig segir maður þetta á íslensku?“) við notendur og bloggara. Nú getur maður prjónað við fréttir og sent inn eigin myndir af atburðum. Svo sía þeir á ritstjórninni úr það sem vert er að birtast. Á þetta er ekki komin mikil reynsla en Morgunblaðið kynnti hugmyndafræðina í leiðara þann 9. ágúst og þar var tæpt á því að góð reynsla hefði hlotist af „hinu svonefnda bloggi“ á blog.is. Einn traustasti bloggari þessa lands, Salvör Gissurardóttir, hristi hausinn á bloggi sínu yfir þessu hátimbraða orðalagi og benti á hið augljósa. Þrátt fyrir að mbl.is hafi veðjað á stafræna framtíð miðlunar virðist sjálfsmyndin enn prentsvört. Þetta sést raunar ekki aðeins á orðalagi eins og þessu, heldur líka á því hvernig Morgunblaðið tekur á sjálfsmyndarspursmálinu mikla. Þar er alls ekki átt við sjálfsmynd blaðsins. Þar er átt við hinar margbreytilegu sjálfsmyndir bloggaranna, ekki síst þær sem eru „ekki raunverulegar“, hvað sem orðið „raunverulegur“ þýðir nú í hinum stafræna heimi.

Nú er nýafstaðinn mikill stormur á blog.is sem þegar þetta er ritað hefur verið þagað um í prentheimum. Bolur nokkur Bolsson, sem var augljóslega flippbloggari, stormaði inn á Moggabloggið, teikaði hverja einustu frétt á mbl.is (algerlega kerfisbundið, hann sagði skoðun sína á ÖLLUM fréttum) þusaði þar einhverja innantóma vitleysu og tókst á viku að verða að vinsælasta bloggara þessa „umræðuvettvangs þjóðarinnar“, eins og Morgunblaðið kýs sjálft að kalla blog.is. Þá afhjúpaði dengsi sig, í ljós kom að kjötveran átti sér annað greni í stafræna skóginum, bloggaði líka hjá samkeppnisaðilanum visir.is, var auk þess blaðamaður á Fréttablaðinu og raunar tilnefndur til Blaðamannaverðlauna Íslands nú í vetur fyrir skrif sín um mismunun í fjárframlagi til kvenna- og karladeilda í fótbolta. Afleiðingin var að ójöfnuðurinn var leiðréttur. Maðurinn heitir Henry Birgir Gunnarsson og hann settist óðar upp í stríðsvagn sinn, ók með herfangið um aðalgötur netsins og undir sigurboga Baugsmiðlanna, hæðandi Moggabloggið og fréttakommentin. Hann hafði eins og hann segir sjálfur (http://blogg.visir.is/henry - sótt 14.08.2007)  gert tilraun og hún heppnast betur en hann hafði nokkurn tíma þorað að vona: „Ég hef sýnt vel fram á fáranleika Moggabloggsins. Fréttatengdu bloggin eru óþolandi, of áberandi í fréttunum en virka og skila heimsóknum. Einhverra hluta vegna sækir Bolurinn í þessi blogg og það er ljóst að engu breytir hversu ómerkilegt bloggið er. Fólk vill augljóslega alltaf lesa þó svo viðkomandi fari í taugarnar á þeim [sic].

Hvernig bregst mbl.is eða blog.is við þessu? Eins og Henry rekur sjálfur voru viðbrögðin taugaveiklunarleg og fálmkennd. Athugasemdir teknar út af síðunni og henni lokað, að minnsta kosti tímabundið. Álíka atburðir urðu reyndar í vor þegar Hrólfur nokkur Guðmundsson, sem lengi hafði rifið kjaft á blogginu, reyndist vera „and-sjálf“ kjötveru sem hafði annað sjálf heimavið. Utan á hann hengdist undarleg rödd Emils nokkurs sem blog.is lokaði á og varð tilefni mikilla skrifa meðal bloggara um hvort slíkt mætti eða ei: Það varð smá lokun í „opna samfélaginu.“ Raunar má Bolur eiga það að skoðanir hans voru á engan hátt særandi eða dónalegar, raunar öfugt við það sem margt fólk lætur sér um munn fara þegar það bregst við fréttum á mbl.is. Þar er stundum svo mikill kjaftháttur að mann rekur í rogastans. En við erum jú í „opnu“ umhverfi.

Þegar Morgunblaðið rekur þessa þróun í sínum flaggdálkum er ætíð gert ráð fyrir samfellu sjálfsverunnar. Að fólk hafi ekki áhuga á að skipta sér upp í deildir og vera með búktal. Fyrirfram er gert ráð fyrir því að þeir sem ræða saman séu upplýstar skynsemisverur sem vilja taka þátt í málefnalegri samræðu um hag þjóðfélagsins. En eins og dæmin sanna þá er þetta ekki svona. Takmarkanir „opna“ samfélagsins virðast mestar þegar því lýstur saman við trúðana, bullarana, klikkhausana, öfgafólkið og brjálæðingana. Hvar eiga vondir að vera í „opna samfélaginu“?

 


Skáldsaga um Halldór Laxness

Sat úti á svölum í Atlantshafsblámanum í dag og las ævisögu Halldórs Laxness eftir Halldór Guðmundsson, skautaði eiginlega yfir hana með hraðlestrarprógrammi þegar hún kom út. Miklu skemmtilegra að lesa hana núna. Á milli þess sem ég horfði suður á Keili og Hálsana tvo, sólina "gylla voga" og þökin á Bessastöðum og svaraði ágengum spurningum sonarins um hvað þetta og hitt héti, eða hvað það væri eða þá (eitthvað sem byrjaði fyrir nokkrum dögum) hver ætti það, þutu þriðji og fjórði áratugurinn framhjá.

Eitt stakk mig nú sem ég hafði ekki mikið höggvið eftir fyrr. Einn vetur, frá hausti 1931 til vors 1932, er Halldór í launaðri vinnu í eina skiptið á sínum fullorðinsárum. Hann var "móttökustjóri", eins og það heitir nú, hjá Ríkisútvarpinu. Mér fannst skyndilega þarna komin frábær hugmynd að stuttri skáldsögu. HKL er dyravörður og eins og nafni hans Guðmundsson lýsir er hann alltaf frábærlega kurteis og stímamjúkur en er þess á milli kjaftfor í blöðum. Meira að segja Guðmundur frá Sandi þakkar honum fyrir að vera sér svo vænn í útvarpinu þrátt fyrir að þeir væru einsog hundur og köttur á prenti. Sagan gæti heitið upp á kafkaísku "Frammi fyrir útvarpinu" eða "Dyravörðurinn". Þetta gæti verið "pastiche"-saga. Samin með sömu aðferð og HKL ritaði Gerplu. Að sagan hefði hugsanlega getað verið skrifuð af manni sem hefði verið uppi á fjórða áratugnum. En hver skrifar þessa bók?


Man Booker langi listi

Bretar eru ekki á einu máli um hvort hinn 12 bóka langi listi helstu bókmenntaverðlauna þeirra, kenndra fyrst við Booker en nú við Man Booker, sé tilefni hneykslunar eða fögnuðar. The Telegraph vitnaði í bókmenntaagent sem játaði að hafa aldrei heyrt fjóra höfundana einu sinni nefnda á nafn. Aldrei hafa verið jafn margar fyrstu skáldsögur höfunda á listanum og nú og hann er vægast sagt alþjóðlegur. Um leið fékk útgáfufyrirtækið Myrmidon Books tilnefningu en það félag hefur aðeins gefið út þrjár bækur! Það var Tan Twan Eng frá Suður-Afríku sem fékk hana. Veðbankar veðja á að eini þekkti höfundurin í hópnum, Ian McEwan fái verðlaunin.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband