Gastland Island

Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja fram umsókn um að Ísland verði heiðursland á bókamessunni í Frankfurt árið 2011 er tímamótagjörningur. Gangi áformin eftir þannig að samningar náist við stjórn Frankfurter Buchmesse um framkvæmdina er íslenskum bókmenntum og íslenskri menningu tryggð gríðarleg fjölmiðlaumfjöllun á langstærsta útflutningsmarkaði sínum. Um leið yrði þýðing íslenskra bókmennta yfir á þýsku flutt yfir á nýtt plan. Svo gæti farið að þýskumælandi og þýskuskiljandi lesendur gætu haft fullkomna yfirsýn yfir allan íslenska bókmenntaarfinn ef þýðingaráfrom tengd þessum atburði ganga eftir.

Öfugt við tónlist, dans og myndlist eru bókmenntir algerlega háðar þýðendum sínum. En ekki aðeins það. Bókmenntir koma ekki út nema útgáfufyrirtæki taki bækurnar til útgáfu og það er nær undantekningalaust í markaðslegum tilgangi. Jafnvel þótt okkur þyki stundum nánast sjálfsagt að íslensk menning breiðist út um heiminn þá er staðreyndin sú að við erum fá og það er meira en að segja það að hafa nægilegan innri styrk til að standa fastur á því að sköpunarhefð þeirra sem talað hafa íslensku sé svo sterk og merkileg að hún eigi erindi við heiminn.

Bókamessan í Frankfurt er langstærsti viðburður veraldarinnar á sviði bóka. Messan er risavaxin kaupstefna um leið og öll útgáfa Þýskalands, annars stærsta fjölmiðla- og bókamarkaðs heims, notar hana sem sýningarglugga. Hátt í 400.000 gestir koma á messuna og því landi sem er "fókusland" hverju sinni eru tryggðar forsíður allra blaða, umfjöllun í öllum sjónvarpsmiðlum og framstillingar í öllum bókabúðum, auk ótal viðburða um allt Þýskaland. Þessi athygli bergmálar svo áfram.

Það vefst stundum fyrir mönnum hvernig eigi að standa að útbreiðslu íslenskra bókmennta. En staðreyndin er sú að ef menn vilja vekja athygli þá gerist það því aðeins að menn mæti þar sem kastljósin eru. Það var fagnaðarstund þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tilkynni þetta við setningu Bókmenntahátíðar á sunnudaginn. Nú er bara að vona að þetta gangi eftir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband