Færsluflokkur: Bækur
9.8.2007 | 23:24
Breytist Edda í AB?
Um fátt hefur verið meira rætt í dag á meðal þeirra sem eru í bóka- og menningarbransanum en kaup Máls og menningar á útgáfuhluta Eddu og sundurhlutun fyrirtækisins. Sitt sýnist hverjum eins og gengur. Hins vegar má segja að fyrstu fréttirnar af sölunni og það sem heyrðist handan yfir fortjaldið hafi ekki gefið alveg rétta mynd af stöðunni eins og hún er kynnt nú.
Þannig blasir það nú við að í raun hættir Edda útgáfa starfsemi frá og með 1. október næstkomandi. Jólabækur fyrirtækisins koma ekki út hjá Eddu útgáfu, heldur hjá ónefndu fyrirtæki sem mjög miklar líkur eru á að muni heita Mál og menning. Mál og menning kaupir bækurnar á lagernum og þá útgáfusamninga sem liggja þeim að baki, annað ekki. Ekki fyrirtækið sem slíkt eða heiti þess. Þetta þýðir að Edda útgáfa verður í raun lögð niður sem bókaútgáfa frá og með 1. október og er úr sögunni. Útgáfubækur Eddu útgáfu, þe. undir þeim merkjum, má telja á fingrum annarrar handar: Fyrst Íslensk orðabók í ritstjórn Marðar Árnasonar, síðan hinn mikli Íslandsatlas. Það mun líklegast fljótt fenna yfir Eddunafnið í íslenskri útgáfusögu.
En bíðum við. Almenna bókafélagið var skilið eftir. Þessi smáklausa í sölusamningnum þótti of smá til að menn væru að gaspra henni sérstaklega á torgum þangað til blaðamaður á Fréttablaðinu rak í þetta augun og sló því upp sem fyrirsögn. Þar sem Eddu útgáfu nafnið verður eftir hjá Ólafsfelli ehf., þ.e. í ranni Björgólfs Guðmundssonar, má í raun segja að frá og með 1. október n.k. verði Edda útgáfa að Almenna bókafélaginu, svona tæknilega séð. Hvað Ólafsfell ætlar að gera við AB/Eddu útgáfu er hins vegar ekki vitað. Almenna bókafélagið fór sem slíkt á hvínandi kúpuna um miðjan tíunda áratuginn, svanasögngurinn var um jólin 1993 þegar -- kaldhæðnislegt en satt -- aðalhöfundar forlagsins höfðu þá árin áður verið hinir feykilega hægri sinnuðu eða hitt þó heldur Einar Már Guðmundsson, Tolli og Megas. Þessa menn töldu forvígismenn hins "borgaralega" forlags mikið kappsmál að gefa út.
Þessi gjörningur sýnir hve grunnt er á pólitíkinni í þessu öllu. Að þarna er einhvers staðar enn verið að hugsa á pólitískum línum sjötta og sjöunda áratugarins. Jafn framsækið og það nú er. Hins vegar verður þessi aðskilnaður svolítið skrítinn í raun. Vaka-Helgafell eignaðist Almenna bókafélagið eftir gjaldþrot þess um miðjan tíunda áratuginn. Í nokkur ár komu engar bækur út undir merkjum þess. Árið 1999 var svo stofnuð einskonar deild í Vöku-Helgafelli undir nafni AB og Bjarni Þorsteinsson varð útgáfustjóri þess. Fyrst kom út ein bók, Þjóðsögur við þjóðveginn, eftir Jón R. Hjálmarsson. Á næstu árum sá Bjarni, sá mikli sómamaður, um AB. Hann bjó til flotta ferðabókalínu, fyrst með vegabókum Jóns R. Hjálmarssonar og seinna bækur á borð við Gengið í óbyggðum og Ekið í óbyggðum. Hann átti hitt á borð við sögu KK sem Einar Kárason skráði, en samstarf þeirra ber enn ber frjóan ávöxt í ágætum útvarpsþáttum og á sviði eins og kunnugt er.
En stóri átakapunktur í seinni og skemmri sögu þessa forlags var án efa fyrsta bindi ævisögu Halldórs Laxness eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, Halldór, sem kom út árið 2003. Atburðarásin sem leiddi af þeirri útgáfu varð svo margslungin og undarleg að einhvers staðar á leiðinni tapaði maður þræðinum. Eitt er víst að hann fór úr höndum Eddu og svo að í byrjun árs 2005 urðu einar skipulagsbreytingarnar af mörgum hjá fyrirtækinu og þar með var AB lagt niður. Árin 2005 og 2006 og fram til 1. október á þessu ári starfar og starfaði AB sem eitt af nokkrum "óvirkum" imprintum Eddu á borð við Iðunni, Forlagið og Þjóðsögu. Það er því tilfinningagildi hinnar borgaralegu útgáfu sem eitt situr eftir. En kannski átti undanskotið að koma í veg fyrir einhvers konar vúdú-hefndar athöfn fulltrúaráðs Máls menningar á síðustu eintökum "Halldórs" sem hefndarráðstöfun fyrir svívirðingu hægri klíku Hannesar á heilögum véum Laugavegs 18 þar sem hann hélt sigurreift útgáfupartí fyrir jólin 2003. Enn heyrir maður sósíalíska intellektúela frýsa af pirringi yfir þeim gjörningi.
Já, og Björgólfur fékk víst heldur ekki Rúbluna upp í andvirði útgáfunnar, að minnsta kosti ekki ennþá. Laugavegur 18 er nú til sölu. Heimskringla er í fjáröflunarherferð til geta nú sinnt sínu eina skilgreinda hlutverki samkvæmt samþykktum sínum sem er bókaútgáfa. Annan tilgang hafði það félag aldrei. Það verður fróðlegt að sjá hvernig gengur að safna peningum í baukinn. Því félagið þarf fé til að byggja upp alvöru útgáfu. Svo lokar sjoppan og Edda er úr sögunni. Nú klórar bransinn, þar á meðal flestir helstu rithöfundar þjóðarinnar, sér í kollinum og hugsar með sér hver skollinn taki við.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2007 | 00:01
Eddan seld og klofin
Það hefur legið í loftinu um margra mánaða skeið að Ólafsfell ehf., menningareignafélag Björgólfs Guðmundssonar, vildi selja meirihlutaeign sína í Eddu útgáfu. Nú er það gengið í gegn en um leið hefur félaginu verið skipt upp. Annars vegar í útgáfuhlutann sem Mál og menning eða Heimskringla ætlar sér nú að kaupa (ef hin dularfulla kaupfélagsstjórn sem ber nafnið "fulltrúaráð" samþykkir það - fé Máls og menningar er "án hirðis" eins og Pétur Blöndal myndi segja). Hins vegar í bókaklúbba Eddu sem Ólafsfell á áfram en hljóta að vera líka til sölu og berast þá böndin að öðrum rekstraraðilum sem notað geta áskriftar- og dreifingarkerfi þeirra, t.d. Árvakur eða 365. Dekkun Edduklúbba í ákveðnum aldurshópum er nánast skuggaleg. Eddu klúbbarnir eru eitt best geymda leyndarmál íslenskrar útgáfu.
Það eru meiriháttar tíðindi að langstærsta bókaútgáfa Íslendinga hefur ekki aðeins verið seld heldur líka klofin í tvennt í leiðinni. Nú eru sjö ár liðin nánast upp á dag frá því að Edda miðlun og útgáfa var sett á fót með sameiningu Máls og menningar og Vöku-Helgafells. Á þeim tíma var nýbúið að veita miklu fjármagni inn í íslenska bókaútgáfu með stofnun fyrirtækisins Genealogia Islandorum sem átti nokkra útskanka á borð við ættfræðiútgáfu og það sem þá hét JPV Forlag og var stýrt af Jóhanni Páli Valdimarssyni. Stutt var þá síðan Fróði hafði keypt Iðunni fyrir metfé og því virtist um mitt sumar 2000 sem íslensk bókaútgáfa stæði á þröskuldi mikillar umbyltingar. Nú, sjö árum síðar, blasir það dagljóst við að þessar ferðir voru ekki til mikils frama. Fróði fór á hausinn með brauki og bramli og milljónir á milljónir ofan töpuðust. Tug ef ekki hundruð milljóna gjaldþrot Geneologia Islandorum var gerð upp fyrir löngu en Jóhann Páll hirti JPV nafnið og breytti Forlag í Útgáfa og kom niður standandi, eftir sat kolkrabbinn gamli með sárt ennið. "Útrás" Máls og menningar inn á lendur fjármagnsins beið skipbrot, draumurinn um allsherjar útgáfurisa reyndist hálfgerð martröð, en MM náði því þó sem "fólksmunnurinn" sagði stundum að hefði verið hin raunverulega ástæða stofnunar Eddu miðlunar og útgáfu, Halldóri Laxness. Í Eddu er hvernig sem á það er litið samankomin nánast öll útgáfusaga Íslendinga á 20. öld, allt frá Helgafelli og Heimskringlu til Ísafoldar, Forlagsins, AB, Iceland Review, Iðunnar og Þjóðsögu auk margra fleiri útgáfumerkja. Nú hefur þessum menningarfjársjóðum verið kippt inn úr kulda fjármagnseigenda og aftur settir inn í sjálfseignarstofnunina MM. Stjórn MM er enn skipuð þeim sömu og fóru af stað fyrir sjö árum síðan og fyrirtækinu er stjórnað af gömlum MM mönnum svo búast má við að fæstir taki mikið eftir breytingunum. En um leið er eðlilegt að maður spyrji: Til hvers var þá þetta allt?
Ég vann hjá Eddu í rúm sex ár og hugsa hlýtt til þessa furðulega tíma. Hvað sem öllu fjármálavafstri leið var fyrirtækið stútfullt af hæfileikafólki sem var hvert öðru klárara, skemmtilegra og sniðugra. Hvort sem Edda heldur áfram að heita Edda eður ei er ljóst að með sölunni til MM er settur punktur, þótt ekki væri fyrir annað en að fyrirtækinu hefur verið skipt upp.
En íslensk bókaútgáfa virðist ekki eiga gott með að laða að sér alvöru fjárfesta, þeir geta greinilega ekki fundið fé sínu ábatasaman farveg á þessu sviði. En það er svo sem heldur ekkert séríslenskt fyrirbæri. Megnið af stórum útgáfufyrirtækjum heimsins hafa þröngt eignarhald, oft fjölskyldu eða fámennan einbeittan fjárfestahóp, sem kippir sér ekki upp við lítinn vöxt, en horfir til lengri bylgjulengda. Það er hins vegar spurning hvað skuldsett og eignalaus Heimskringla verður burðug til að byggja upp framtíðar útgáfufyriræki. Það fylgdi nefnilega með í kaupunum að Björgólfur fengi Rúbluna við Laugaveg 18 upp í söluverðið (en fyrst að Alþýðuhúsið við Hverfisgötu varð að snobbbælinu 101 hótel þá er það líklegast ekkert svo voðalegt). Hvað íslenska bókaútgáfu og íslenskt höfundarsamfélag varðar yrði það hins vegar áfall ef það mistækist. Það tekur óralangan tíma að púsla svona félagi saman aftur.
Bækur | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2007 | 23:10
Bláu varðliðarnir
Í síðustu Lesbók Mbl. skrifaði ég pistil um Bláu varðliðana:
Á Íslandi eru um þessar mundir starfandi tvær sveitir byltingarmanna. Annars vegar starfar hópur stjórnleysingja og andstæðinga alþjóðafyrirtækja að því að knésetja stjóriðju á Íslandi. Hins vegar starfar Samband ungra sjálfstæðismanna að því að við fáum enn meira af því sama: enn meiri launaleynd, enn meiri lækkun skattprósentu og enn minni upplýsingar úr álagningarskrám skattstjóra.
Báðir hóparnir nýta sér fjölmiðla markvisst í baráttunni. Uppákomur á borð við Kringlumessuna" og skattklukkuna" hafa mikið áróðursgildi en leiða líka óhjákvæmilega til ágengra skoðanaskipta við þá sem eru ósammála byltingarmönnum. Eins og jafnan með framvarðarsveitir málstaðsins er að baki þeim fylking samúðarfólks sem þó hrýs hugur við öfgum aðgerðarsinna. Það kann að virðast mótsagnakennt, en er þó röklegt, að málflutningur byltingarhópanna miðast alla jafna við þetta samúðarfólk fremur en óvinina: Barátta ykkar skilaði okkur umbótum, hún skilaði okkur mikilvægum vegvísum á leiðinni til sigurs, en hún var ekki sigurinn sjálfur ... osfrv." Framvarðasveitin ætlar sér að starfa í fremsta vegavinnuflokkinum á hraðbraut sögunnar. Hún hefði hins vegar ekki fengið verkið hefði brautin ekki þegar verið lögð af fyrirennurum. Því þarf hún nú að sýna fram á að enn séu lönd að vinna. Báðar fyrrgreindar byltingarsveitir hafa þannig að markmiði að auka frelsi öllum til handa, en telja um leið að almenningur hafi ekki enn skilið inntak frelsisins. Fámennur hópur verður því að leggja allt í sölurnar fyrir málstaðinn.
Stjórnleysingjarnir töluðu raunar lengi vel ekki sannfærandi íslenskri röddu. Forvígismaður þeirra kom fram í fréttum og í Kastljósi þar sem hann hikstaði á frösunum, sletti ótæpilega og minnti á mann sem festist í unglingastælum og komst ekki þaðan út, eitthvað sem hendir oft gamla töffara. En nú bregður svo við að fleiri hafa fengið málið í þessum hópi og þeir eru einbeittari í sinni tjáningu. Nú hljóma í fjölmiðlum ógnvænlegir og um leið alþjóðlega viðurkenndir frasar með tilgerðarlausum íslenskum framburði. Maður þenur hljóðhimnur þegar rætt er um pólitískar handtökur" sem beinast jafnt gegn þeim sem taka þátt í aðgerðunum" og þeim sem styðja þær á vettvangi þrátt fyrir að vera ekki beinir gerendur sjálfur". Og svo stóra bomban: Til að stöðva stóriðjustefnuna verður að beita jafnt löglegum sem ólöglegum aðgerðum." Hér talar stefnufestan sjálf. Grónir náttúruverndarsinnar og þeir sem óttast að við lendum öll á launaskrá Rio Tinto áður en við getum talið upp að tveimur standa hjá og drepa tittlinga. Þetta fólk getur ekki hugsað sér að klifra upp í krana eða hlaupa öskrandi um götur Reykjavíkur til að bjarga Þjórsárverum en er fyrir vikið orðið að endurskoðunarsinnum" eins og það hét hjá kommunum. Í augum byltingarmannsins eru málamiðlanir dauðinn.
Á hinum vængnum heldur byltingarsambandið Samband ungra sjálfstæðismanna áfram ódeigri baráttu sinni fyrir framgangi borgaralegra stefnumiða. Stundum hvarflar að manni að sambandið þjáist af ímyndunarveiki eða kunni ekki á klukku því málflutningurinn tekur jafnan mið af þjóðfélagsástandinu árið 1979. Tryllt ríkisafskiptafólk virðist vaða uppi, algerlega blindað í villu sinni. En eftir því sem hin breiða samúðarfylking miðstéttarinnar umfaðmar fleiri markmið aðgerðahópsins og eftir því sem þeirra menn" eru lengur við völd digna baráttumálin, orðið fáfengilegur kemur æ oftar upp í hugann þegar aðgerðir SUS ber á góma. Hinir bláu varðliðar fá að vísu hvert ár nýtt tækifæri til að sýna í verki andstöðu sína við birtingu álagningarskráa hjá skattstjóranum í Reykjavík; stundum með líkamlegri (og þá ólöglegri) andspyrnu, stundum með gagnskráningu" eins og þeir beita í ár. Ódýr minnisbók hefur verið lögð fram á skattstofunni og á henni stendur Gestabók fyrir snuðrara" um leið og byltingarverðirnir voma á göngum eins og soltnir úlfar og mæna djöfullegu augnaráði á hverja aðvífandi hræðu. Ætlar þessi virkilega að láta undir höfuð leggjast að skrá sig í snuðrarabókina?
Mótsögnin er hins vegar að sjálfsagt hafa engir jafn mikinn áhuga á birtingu þessara upplýsinga og einmitt samflokksmenn SUS-ara af eldri kynslóð sem stytta sér stundirnar með því að rannsaka skrána og líta á það sem sjálfsagða afþreyingu. Sú hugsun að ég rjúki nú af stað, skoði álagningu nágranna minna í Skerjafirðinum og klagi svo í Hr. Skatt er mér og öllum þeim sem ég hef haft kynni af um dagana svo undurfurðuleg að hún stappar nærri sturlun. Þess vegna hefur bakland SUS þrátt fyrir valdasetu á annan áratug líka ekki haft minnsta áhuga á að koma til móts við þetta mikla baráttumál frelsisliðanna. Það myndi nú aldeilis heyrast kurr í félagskaffinu í Valhöll. Slagur Mannlífs og Frjálsrar verslunar á tekjublaðamarkaðinum sýnir líka að þessar upplýsingar eru verðmæt vara. Vilja bláu varðliðarnir skerða frelsi útgáfufyrirtækjanna Heims og Birtíngs til að auka tekjur sínar?
Og þannig heldur baráttan áfram. Varðliðar stjórnleysisins berjast áfram vonlítilli baráttu við Vélina miklu. Bláu varðliðarnir halda áfram að færa okkur frjálsar útvarpsstöðvar, sölu fleiri ríkisfyrirtækja og lægri skatta. Fylgist ekki lögreglan áreiðanlega með þessu fólki?
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2007 | 11:52
Í Draugadölum
Hver einasti blettur á Snæfellsnesi virðist hafa orðið fyrir barðinu á yfirskilvitlegum öflum. Svo yfirskilvitleg eru þau að á þessu þurrasta sumri allra sumra sáldruðu þau yfir okkur Magnús Viðar slíkum endemis feiknum af regni og stormi að við hröktumst neðan úr fjallgarðinum og enduðum í borgara á Vegamótum, ekki þurr þráður á okkur. Hugsunin var að ganga endilangt nesið, frá Oddastaðavatni í Hnappadal að Beruvík undir Jökli, en eftir tvo óveðursdaga ákváðum við að láta nótt sem nemur.
Kominn heim í hlýjuna fór ég að fletta upp í bókasafninu og lesa mér til, opnaði meira að segja Eyrbyggju. Um leið gengur að manni samfelld draugahjörð þar sem nykrar, skrímsli og ókunn öfl raða sér í fylkinguna svona til bragðbætis. Fúsi sem tók sér far með bílum um Kerlingaskarð var án efa ekki fjarri okkur þegar við skröngluðumst niður á gamla veginn ofan úr lágskýjunum. En því miður virðast skrímslin á Vatnaheiði hafa nú breyst í stíflugerðarmenn eða þá að þeir í Miklaholtshreppi vilja í eitt skipti fyrir öll girða fyrir nykra og skrímsli með nógu háum stíflugarði.
En sá sem hefur heyrt vindinn hvína í fjöllunum á Snæfellsnesi veit að það er ekki einleikið hvað býr í þeim. Þungar drunur sem bylja hátt upp í skýjunum þar sem dularfullar klettamyndir brjótast annað slagið gegnum þykknið. Við sváfum fyrstu nóttina í Draugadölum upp af Álftafirði. Það fór vel um okkur en ég hef draugana grunaða um að hafa fengið lánaðan vasahnífinn minn. Um nóttina skullu byljir á tjaldinu svo það lagðist nánast saman og ofan í andlitið á manni en réttist aftur um leið og kyrrði. Lognið virtist hættulegt, grunsamlegt og gott ef eitthvað bærðist ekki úti í þokunni.
Svo risum við úr rekkju og héldum af stað. Enn slotaði ekki regninu og nú bættist við þokan. Skyggni um 30 metrar. Það er hægt að ganga eftir gps tæki en það er ekki beinlínis skemmtilegt og þegar maður gengur þannig tímunum saman er líkt og maður sé staddur utan þessa heims og viti í raun ekkert um það lengur hvort raunveruleikinn sé til. Allt er grátt, vindurinn hvín og regnið bylur og dularfullir sandar sem við vissum ekki að væru í vesturhlíðum Ljósufjalla virtust óendanlegir en um leið nánast eilífir, einskonar frumspekilegur staður þar sem enginn gróður eða kennileiti eru. Bara svört jörð, grár himinn, vindur og regn. Frumheimur.
Þórður á Dagverðará segist í Jöklarabókum sínum hafa skotið brimil sem vóg hálft tonn. Fullorðinn maður gat ekki tyllt niður tám ef hann sat á honum. Ég trúi þessu alveg eftir villudaga á Snæfellsnesi.
Bækur | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2007 | 08:53
Inngrip við Gambíufljót
Til að komast á milli suður- og norðurhluta Senegal þarf að fara yfir Gambíufljót sem er óbrúað og hið undarlega land Gambíu sem er mjó ræma meðfram Gambíufljóti. Það hefur verið reynt að brúa fljótið en flóð hrifu mannvirkin með sér og menn hafa ákveðið að notast við ferjur. Ferjurnar voru gefnar Gambíumönnum af Japönum. Maður sér japanska fánann víða í Senegal og Gambíu og mér skilst að honum sé jafnvel flaggað í öðrum löndum Vestur-Afríku fyrir framan skóla og stofnanir. Hins vegar er vegurinn sem liggur í gegnum Gambíu nær ómalbíkaður. Hann var einu sinni með biki en með tímanum hefur það spænst upp og Senegal og Gambía geta ekki komið sér saman um hver á að greiða fyrir vegaframkvæmdirnar. Þetta er eins og þegar ríki og borg rífast um Sundabraut. Eini munurinn er sá að það er enginn annar vegur milli landshlutanna á þessum slóðum. Beggja vegna eru langar biðraðir af vörubílum. Þeir bíða í allt að því viku eftir því að komast yfir, venjuleg bið eru þrír dagar.
Vegna þess að nú er regntími er allt á kafi í drullu við ferjustaðina. Einhvers konar framkvæmdir eiga sér stað við suðurbakkann en þær eru ekki mjög markvissar. Vörubíll, valtari og nokkrir kallar hræra í drullunni og bera ofan í hana meiri drullu. Einmitt þegar við erum við það að fara um borð í ferjuna bilar stór trukkur beint framan við rampann með 40 tonn af mangó um borð og sekkur smám saman í eðjuna. Það tekur senegalíska og gambíska jeppakalla rúmar tvær klukkustundir að koma ferlíkinu upp. Manni finnst eins og maður sé uppi á hálendi eða í sveitinni í gamla daga þegar vél fór niður í pytt. Allir hafa skoðanir á því hvað sé best að gera og hvernig sé best að standa að þessu, mikið er um pat og öskur, dísilvélar drynja og mikið spáð og spegúlerað. Málið fer loks að ganga þegar vírtrossa kemur með hinni ferjunni af hinum fljótsbakkanum og eina raunverulega öfluga trukknum er beitt í átökunum.
Kannski væri það áhrifamikið inngrip í íslenskri utanríkisstefnu að kanna hvort hægt væri að breyta þessu smáræði sem virðist þarfnast málamiðlunar annars ríkis. Fátt myndi sannarlega bæta lífskjör fólks í öðrum löndum jafn áþreifanlega og að leiða Senegal og Gambíu að samningaborðinu og fá þá til að malbika þennan 35 kílómetra spotta sem liggur yfir Gambíu sem og að rýmka opnunartíma ferjunnar yfir Gambíufljót. Þetta hljómar smátt og lítið en einmitt við með okkar samgöngukerfi myndum skilja að þetta er vandamál sem þarfnast lausnar. Svona eins og Sundabrautin.
Bækur | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2007 | 00:00
Það er lína sem sker sundur landið
Fyrir austan hana er Ísland en fyrir vestan hana Reykjavík. Reykjavík teygir sig frá Akureyri vestur um landið og til Víkur í Mýrdal. Um leið og maður kemur austur fyrir þessa útpósta höfuðborgarsvæðisins snarlækkar tala Porche Cayenne jeppa, hjólhýsa, tjaldvagna og golfvalla. Í staðinn sér maður fyrst og fremst bílaleigubíla, stóra vöruflutningabíla og svo erlent fólk á sínum eigin farartækjum sem oftast líta út eins og bedúínalestir: fjórir til fimm saman í hnapp með vafninga bundna á topp, skut og hliðar. Þó er magnað að sjá Benz með belgísku númeri á hraðferð um Mýrar í Hornafirði og ekki örlar á hjóli, flísfötum eða vafningum. Snyrtilega klædd eldri hjón í framsæti. Þau virðast vera á heimleið úr bústaðnum, hafa ætlað að drífa sig snemma af stað því það er von á krökkunum í sunnudagsgrillið um kvöldið.
Skaftafellssýslur eru annar heimur. Reyndar er eitthvað enn höfuðborgarlegt við vestursýsluna. Hér og þar sjást bústaðir, fólk á leið í golf. En austursýslan er fjarlæg þessum höfuðborgarheimi. Þar eiga heimamenn og útlendingarnir sviðið. Í aðeins einum bíl af tíu er Íslendingur undir stýri. Bæirnir eru fáir, en oftast saman í hnapp. Þeir kúra sig undir grænum fjöllum andspænis óaðgengilegri, óárennilegri og óendanlegri strönd. Að baki er stærsti jökull Evrópu (raunar aðeins að rúmtaki, ekki flatarmáli ef menn eiga að vera mjög nákvæmir). Skriðjökulstungur sleikja björgin og spýta kolmóruðu. Tindarnir skaga til himins upp úr jökulbákninu í furðulega margbreytilegum litum. Sandarnir verða sviplitlir í sólskini, þá logar jökullinn og bláar sprungurnar, en í súldinni eru þeir eins og steppa.
Allt er stórt á þessum slóðum. Þegar maður les héraðssöguna er ekki einblínt á skopsögur eða skringilegt fólk, það er ekki hugað að lausaleiksmálum eða sauðaþjófnaði. Sögurnar eru um landkönnuði sem leggja á jöklblámann og sigrast á hrikalegum sprungum á sauðskinnsskóm, leiðsögumenn sem höggva spor í skriðjökla til að koma hrossum yfir þá, vatnamenn og vatnaklára sem leggja í jökulhröngl og hafa það af, jökulvötn sem sveipa burtu bæ þar sem vanfær kona er að eignast barn og hleypur undan flóðinu bak við stein þar sem hún verður léttari. Hross falla ofan í sprungur og hverfa. Menn hverfa í sprungur. Það þarf að fara allt upp í sex sinnum í göngur til að ná fénu neðan úr hæstu tindum landsins. Hver smá útrétting í kaupstað er heill leiðangur. Það tekur viku að reka féð yfir vötnin á sláturhús. Það er jafn löng vegalengd frá Höfn að Vík og er frá Vík til Stykkishólms. Það er golfvöllur á Höfn en það var enginn á honum og í bænum sést enginn Porche Cayenne.
Bækur | Breytt s.d. kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2007 | 22:57
Það er GSM samband í Surtsey
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2007 | 22:49
Þorskar
Ég skrifaði pistil í Lesbók Morgunblaðsins í dag um þorskkvótann og úthlutun hans þar sem ég reyni að skilja af hverju þorskurinn hverfur í hvert skipti sem kratar komast í ríkisstjórn. Hér má lesa pistilinn í sinni rafrænu mynd:
Þorskurinn hefur greinilega ofnæmi fyrir samsteypustjórnum krata og sjalla. Vart var Viðeyjarstjórnin sest í sína stóla 1991 en þorskurinn flúði undan rannsóknarskipum Hafrannsóknarstofnunar, faldi sig í gjótum og álum og beið á meðan óvinurinn slæddi djúpin svo enn ein svört skýrslan leit dagsins ljós með tillögum um stórfellda skerðingu aflaheimilda. Á þeim tíma átti að skrúfa þorskkvótann niður í 190.000 tonn fyrir árið 92/93 og svo enn neðar árið eftir, alveg niður í 175.000 tonn, erlendir sérfræðingar vildu sjá 150.000 tonn. Þessar tillögur voru uppistaðan í pólitískum gúrkuslag sumarsins 1992. Núverandi ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson, barðist eins og ljón við að fá því framgengt að allir hagsmunaaðilar fiskveiðiflotans yrðu hunsaðir og loksins látið á það reyna að hlusta á Hafró og ekkert múður. Davíð Oddsson, nú seðlabankastjóri, Friðrik Sophusson, nú forstjóri Landsvirkjunar, og Jón Baldin Hannibalsson, nú fríþenkjari, voru hins vegar á andstæðri skoðun og rifust við Þorstein bæði opinberlega og innan stjórnar. Davíð og Friðrik sögðu að það yrðu engar sértækar aðgerðir til að hjálpa þeim sem ættu um sárt að binda vegna kvótaskerðingar, ríkissjóður ætti ekki borð fyrir báru, Jón Baldvin sagði, líkt og talsmenn Fjálslynda flokksins nú, að engin vísindaleg rök styddu að vöxtur í framtíðinni yrði vegna skerðingar í nútíðinni, sambandið þarna á milli væri ósannað.
Hinn fælni þorskur hafði um þessar mundir ýmis ráð við að hræða útvegsbændur við Norður-Atlantshaf. Hann gufaði til dæmis algerlega upp á Miklabanka svo Kanadamenn lokuðu sjoppunni og hafa ekki opnað hana síðan nema rétt á stórhátíðum. Því var haldið fram um þetta leyti að þorskveiðistofn Færeyinga væri hruninn, meira að segja skitin 100.000 tonn þóttu of mikið þar. Hvergi var þorsk að sjá nema náttúrlega í hinni merkilegu Smugu. Guðbergur Bergsson ritaði á þessum tíma að þar ætti sér stað útrás (og hann notaði þetta hugtak í fullnægingarlegum skilningi en ekki efnahags-hernaðarlegum) íslenska sjómannsins. Ráðagóðir skipverjar skiptu á viskíflöskum og sjókortum við rússneska sjómenn sem um þetta leyti fjölmenntu hér á hafnir á ryðkláfum sínum og keyptu gamlar Lödur í gríð og erg. Síðan héldu menn af stað norður í myrkvað Ballarhaf kvótalausir með öllu og lágu úti eins og víkingar mánuðum saman í djögulganginum og ránortu sem mest þeir máttu í fullkomnu ósætti við alþjóðasamfélagið. Íslendingar fóru í alvöru samkeppni um yfirráðin yfir Norður-Íshafi við Norðmenn og Rússa, samkeppni sem þeir standa í enn í dag og virðist opinber utanríkisstefna okkar ef marka má yfirlýsingar ISG í kjölfar Noregsheimsóknar nýverið. Við þurftum hráefni fyrir sjávarútveginn og tókum þann kostinn líkt og aðrar þjóðir sem þarfnast auðlinda að taka slaginn við aðrar auðlindaþjóðir.
Á meðan þorskurinn faldi sig á Miklabanka og duldist Færeyingum náði Hafró því í gegn að minnka þorskveiðikvótann enn fiskveiðiárið 93/94. Í skjálftanum nú yfir lækkun kvótans niður í 130.000 tonn gleymist að í þrjú ár samfleytt um miðjan tíunda áratuginn voru aflaheimildir þorsks ekki nema 155.000 tonn. Þetta var jafnframt erfiður tími. Lausafé var mjög af skornum skammti í samfélaginu sem leiddi til þess að margur athafnasamur maðurinn missti allt sitt og atvinnuskorturinn var tilfinnanlegur, ég man eftir að hafa í ársbyrjun 1993 sótt um eitt aumt lagerstarf hjá ávaxtaheildsölu ásamt 400 öðrum. Í fjölmiðlum var atvinnuleysið framreiknað: Ef 4000 manns fóru árlega út á vinnumarkaðinn og ef 4000 manns til viðbótar vantaði starf, þá vantaði 24.000 störf eftir þrjú ár og engin ný störf voru í augnsýn. Þetta leit ekki vel út.
Vestfirðingar heimtuðu að sleppa við kvótaskerðingu því þeir væru sérstakir um leið og þeir kröfðust þess á fá frjálsar hendur við fjöldaslátrun á hvölum, þeim ógurlegu ófreskjum sem sífellt sitja á því lúabragði að borða lífverur hafsins. Þeir mótmæltu því líka að það vantaði fisk á miðin, það væri allt vaðandi í þorski maður skilur bara ekki hvað þessir háu herrar suður í henni Reykjavík eru að hugsa. Helst ætti að veiða 280.000 tonn, ef ekki 300.000. Svo var talað um sértækar aðgerðir. Hrun blasir við á Vestfjörðum hljóðar ein fyrirsögn þessa tíma. Stóráfall fyrir byggðarlögin við sjávarsíðuna hljóðar önnur. Það mætti birta allar fréttir sumarsins 1992 óbreyttar nú nema hvað skipta þyrfti út nöfnum ritstjóra Fréttablaðsins, seðlabankastjóra, forstjóra Landsvirkjunar og fríþenkjarans fyrir nýtt og ferskt fólk.
En lærðum við eitthvað á þessu? Jú, við lærðum að sjávarútvegurinn er ótraustur, óáreiðanlegur og hverfull atvinnuvegur. Verið getur að hann gufi upp einn daginn og beri aldrei aftur sitt barr. Það varð viðhorfsbreyting í íslensku þjóðfélagi. Við áttuðum okkur á að ef þetta samfélag á að verða eitthvað á næstum öldum verðum við að kveðja sjávarútveginn og horfa annað.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2007 | 13:31
Keppt í hugleiðslu á landsmóti UMFÍ
Renndi við á landsmóti UMFÍ í morgun, rétt til að sjá hvernig þetta liti út, en það var dauft yfir mannskapnum og hrollur í fólki. Enginn vissi heldur klukkan hvað atriðin byrjuðu eða yfirleitt hvað væri næst á dagskrá. Í fréttaskeyti á forsíðu landsmótshluta heimasíðu UMFÍ er sagt að glíman hafi verið flutt upp í Lindarskóla en síðan verður maður að spóla fram og aftur í dagskránni til að finna klukkan hvað glíman byrjar og endar. Ég er ekki alveg viss um að þetta mót sé fyrir almenning.
Raunar skemmti ég mér ágætlega á síðasta landsmóti á Króknum. Til dæmis fór ég á skotfimikeppni í reiðhöllinni Svaðastöðum. Það var eins og að fara á myndlistarsýningu. Mér fannst ég vera á Documenta í Kassel. Risastór höllin var galtóm utan hvað tveir einbeittir eldri menn og þrjár feitlagnar unglingsstúlkur stóðu með heyrnarskjól og litlar byssur og skutu ótrúlega vegalengd á litla og ómerkilega hringi dregna á þunn pappírsblöð sem maður rétt grillti í. Ein stúlka sat svo með fartölvu á borði og starði á hana með svipuðu augnaráði og múmía af 18 konungsættinni. Steinhljóð var í salnum nema litlir smellir heyrðust í sífellu og svo einhverskonar suð þegar blöðin sem skotið var á gengu fram og aftur á þráðum sem strengdir voru milli veggja. Ég settist niður og reyndi að skilja það sem fram fór. Það var ómögulegt. Enginn sagði mér hvað gekk á og engar upplýsingar var að hafa auk þess sem ég var eini áhorfandinn. Þetta var í raun alls ekki íþróttakeppni fyrir almenning heldur verkefni til að túlka, aðstæður sem maður gekk inn í og lét orka á sig.
Eftir því sem maður sat lengur urðu smellirnir þekkilegri og fjarlæg einbeiting skotmannanna færði yfir mig höfgi, þeir létu líka eins og ekkert skipti máli nema þeir einir. Ég fann að hugurinn róaðist, mér gekk betur að einbeita honum að því að vera bara til en hugsa ekki um það sem á eftir kom eða allt það ókláraða sem alla jafna bíður manns. Það var fagmennska í uppsetningu skotpallana sem ég hafði ekki tekið eftir strax. Fallegt til dæmis hvernig ómeðhöndlaður krossviður var notaður og svo var yfirborð malarinnar á hallarbotninum með sterka efnislega tilvísun auk þess sem sagi hafði verið stráð hér og þar til að undirstrka hana. Ég sá að þetta fólk var greinilega að vinna með tilvísun til hugleiðsluhefðar zen-búddismans, með áherslu á abstrakt form sem endurgerðu ímyndað landslag í mölinni. Einbeiting skotmannanna minnti á hefðir japanskra bogmanna sem einnig spretta úr zenhefðinni. Marksæknin, ein helsta þráhyggja samtímans, og inntak móts á borð við landsmóts UMFÍ, var því endurgerð sem gjörningur fimm einstaklinga, tveggja karla og þriggja stúlkna og varð um leið hlaðin innri spennu. Segja mátti að hér væri hin óþekkta miðja sjálfs landsmótsins sem þó stóð á jaðri þess. Hér var sjálf orkumiðstöð íþróttanna, en þó handan keppninnar, þar sem íþróttamaðurinn og hugur hans stendur einn andspænis efninu sem hann verður að sigrast á til að hljóta verðlaun. Þetta hafði djúp áhrif á mig. Skotkeppnin sagði mér að það væri jákvætt ef hópur listamanna myndi vinna með UMFÍ á næsta móti við að rannsaka andlega innviði íþróttanna. Það myndi vera jafnmikið ef ekki meira við alþýðuskap og aðrar keppnisgreinar á þessum landsmótum sem maður verður hvort eð er að giska á í hverju felast, hvar þær fara fram og klukkan hvað.
Bækur | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2007 | 10:23
Skotinn fyrir að skrifa
Í Fréttablaðinu í dag er stutt grein um örlög Önnu Polítkovskaju, rússnesku blaðakonunnar sem var myrt 7. október í fyrra. Tilefnið er að blaðamaður hefur verið að glugga í enska þýðingu á safni eftirlátinna greina, A Russian Diary, sem Random House gaf út í Bandaríkjunum en Harvill Secker í Bretlandi fyrir rétt rúmlega mánuði síðan.
Þetta er ágætis grein og þörf áminning um að frelsi til að tjá sig og koma upplýsingum á framfæri er langt í frá sjálfsagt í löndum sem eru í næsta nágrenni við okkur. Þá er ég ekki að tala um frelsi til að bulla og rugla og ryðja dónaskap yfir náungann eins og margir bloggmenn virðast álíta að sé kjölfesta tjáningarfrelsisins, heldur einfaldlega frelsið til að segja satt og rétt frá því sem gerist og tjá skoðanir sínar á þvi. Eins og Jón Ólafsson heimspekingur segir í greininni er ofbeldiskúltúr viðloðandi Rússland og leigumorðingjar og störf þeirra nánast hluti af daglegu lífi. Það er einmitt talið að Anna Polítkovskaja hafi verið myrt af leigumorðingja, en hún var skotin frammi á gangi í blokkinni sinni þegar hún var að koma heim.
Viðbrögð Pútíns forseta yfir morðinu voru vægast sagt ótrúleg. Í þrjá daga eftir morðið heyrðist ekki múkk frá embættinun þangað til hann sagði í sjónvarpsávarpi að þetta væri smáatburður sem engu skipti, gildi Polítkovskaju í pólitísku lífi Rússlands hefði verið gróflega ofmetið.
Um þetta leyti var Polítkovskaja orðið þekkt nafn. Ég man eftir að hafa séð bók hennar um Tjetjeníu á dagskrá umræðna um stríð og vandamál víða um lönd. Bókin er til á ensku og heitir A Small Corner of Hell: Dispatches from Chechnya og var gefin út af háskólaútgáfu Chicago háskóla í USA árið 2003. Anna vann sem blaðamaður fyrir dagblaðið Novaja Gazeta og sagði frá hrikalegum stríðsglæpum rússneska hersins og stjórnvalda í Tjetjeníu: pyntingum, fjöldaaftökum og þeirri staðreynd að rússneskir hermenn halda alla jafna líkum fallinna Tjetjena "í gíslingu" og selja þau síðan á svimandi háu verði til ættingjanna. Þetta stríð er enn í gangi þrátt fyrir að átökin séu ekki jafn mikil og áður. Rétt fyrir dauða sinn birti Polítkovskaja grein um Tjetjeníu þar sem hún segir frá pyntingum og gervifréttum sem héraðsstjórnvöld búa til og eiga að draga upp jákvæða mynd af ástandinu. Hún hafði m.a. undir höndum myndbandsupptökur af pyntingum á meintum hryðjuverkamönnum.
Alþjóðasamtök útgefenda, IPA, heiðruðu minningu Polítkovskaju við athöfn á bókamessunni í Höfðaborg nú um miðjan júní. Tilefnið var að veitt voru svokölluð Frelsisverðlaun útgefenda, en þau voru fyrst veitt í fyrra á bókamessunni í Gautaborg. Einn af þeim sem sátu í undirbúningsnefnd þessara verðlauna var Sigurður Svavarsson hjá Eddu sem veitti Félagi íslenskra bókaútgefenda forstöðu árum saman. Í ár hlaut verðlaunin Trevor Ncube, útgefandi frá Zimbabve. Hann er einn þeirra sjálfstæðu afrísku útgefenda sem hafa haldið uppi stöðugri baráttu fyrir útgáfu- og prentfrelsi og eru óþreytandi að benda á að framfarirnar sem afrískir leiðtogar syngja fagra söngva koma ekki nema með því að fólk fái að tjá hugmyndir sínar og skoðanir í friði fyrir ritskoðun, kúgun og öðrum hremmingum.
Um leið var minningu þeirra Hrant Dinks (en um ástandi í Tyrklandi bloggaði ég í vetur ) og Önnu Polítkovskaju sýndur heiður. Þau voru bæði myrt fyrir að skrifa og gefa út það sem þau trúðu að skipti máli til að gera samfélög sín betri, lýðræðislegri og umburðarlyndari.
Bækur | Breytt s.d. kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)