Að farga bókum

Á mánudaginn höfðu samband við mig tveir blaðamenn. Annar vildi spjalla um Björgólf svona almennt en hinn vildi fá mig til að viðurkenna að Björgólfur væri óvinur tjáningarfrelsisins. Báðir voru þeir að reyna að átta sig á því hvernig þeir ættu að skilja litla klausu í annars athyglisverðu viðtali The Observer við Björgólf þar sem reifað er að téður Björgólfur hafi ekki aðeins þrýst á um að fyrstu prentun bókarinnar Thorsararnir eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing yrði fargað, heldur beinlínis látið gera það. Um leið var tæpt á því að hann hafi viljað kaupa DV til að bregðast við umfjöllun blaðsins um það sem varð þess valdandi að fyrsta upplag bókarinnar var gert upptækt.

Það er þetta með tjáningarfrelsið. Þegar bókin Thorsararnir kom út var ég svokallaður þróunarstjóri hjá Eddu útgáfu, sem fólst aðallega í því yfir jólavertíðina að ég reyndi að upphugsa einhverjar nógu klikkaðar leiðir til að koma höfundum og bókum á framfæri. Ef mig minnir rétt, því sjálfur sá ég aldrei þessa forboðnu fyrstu prentun nema rétt í svip, var það aðallega illa röstuð og fremur óskýr mynd af George Lincoln Rockwell í "fullum skrúða" sem vakti athygli manns, en mestan áhuga hafði ég sjálfur á sögu þeirra Thorsbræðra, sem er ævintýraleg og mögnuð og gerð frábær skil í bókinni. Ef ég man rétt fannst höfundi lítið mál að hnika til frásögninni og sleppa því að birta þessa vondu mynd, en ég man líka að mér fannst furðulegt að standa í því að eyðileggja upplagið, það var eitthvað svo drastíst að það hlaut að hafa afleiðingar. Sem það og hafði fyrst enn er verið að ræða um það.

En sum sé. Ég var síður en svo innsti koppur í þessu búri en ég minnist þess ekki að menn, höfundur og forleggjarar, hafi verið mjög uppteknir af því að verið væri að skerða tjáningarfrelsið. Hvers konar breytingar á handritum og bókum eru alvanalegur hluti af útgáfuferli bóka. Fólk á öðrum fjölmiðlum (en bók er jú fjölmiðill líka) er oft mjög heilagt í framan þegar kemur að þessum smáklípingum, telur það vera stórkostlega undanlátssemi og aðför að sannleikanum. Hins vegar er sá munur á bókum og t.d. sjónvarpi að líftími bóka er mjög langur, jafnvel margar aldir, og fólk er merkilega og raunar gríðarlega viðkvæmt fyrir því sem stendur á prenti. Oft stendur maður frammi fyrir ákvörðunum eins og hvort lítil orðalagsbreyting sé réttlætanleg til að vernda tilfinningar fólks, eða hvort harðneskjan eigi að standa sannleikanum til staðfestingar. Þetta eru samviskuspurningar sem ekkert endanlegt svar er til við. Bækur koma út í mismunandi tilgangi, framsetningin byggir á mismunandi viðhorfum og það er sjaldnast klippt og skorið hvort særandi ummæli séu kjarni máls sem varði almenning eða einfaldlega slúðurnudd.

Ég man alltaf eftir því að fræka mín, nú löngu látin, var eyðilögð yfir því að sagður var sannleikurinn um langafa hennar í ættfræðiritinu Svarfdælingar. Þar var réttilega sagt frá því að hann hefði verið dæmdur fyrir sauðaþjófnað. Ég man eftir að hafa setið sem barn og hlustað á gamla fólkið ráðslaga um hvað þessum mönnum gengi til sem gæfu þetta út og skrifuðu þetta og ekki síst af hverju Kristján Eldjárn hefði ritað formála að þessari bók og virðulegt forlag (Iðunn) annars Svarfdælings, Valdimars Jóhannssonar, gefið hana út. Þessu gamla fólki var hulin ráðgáta að þessir ráðvöndu menn skyldu hafa lagt nafn sitt við svona voðalega bók. Samt var þetta bara sannleikurinn og snerti mig og foreldra mína minna en ekkert og okkur fannst þetta allt með miklum ólíkindum og raunar bráðfyndið. Þetta var jú 18. aldar mál. Þessi söngur hélt áfram í mörg ár og guð má vita hvort hann barst nokkrum málsaðila nokkurn tíma til eyrna, alveg áreiðanlega ekki. En hefði frænka mín átt meirihluta í Iðunni, hefði hún þá fargað upplaginu? Alveg áreiðanlega.

Það þarf ekki að leggja mikið á sig til að frétta nánar um hinar umskrifuðu síður í bókinni Thorsarar. Það er nóg að slá inn nafni George Lincolns Rockwell á netinu og ótal færslur koma upp, meðal annars sjálfsævisaga hans öll innskönnuð. Ítarleg Wikipediafærsla og ótal smærri færslur um líf og störf þessa manns sem tókst á furðulegan hátt að vera í senn aðdáandi Malcoms X og Hitlers. Hann er einn af afurðum hugsjónastorma 20. aldarinnar og ótta hennar við múginn og sambræðslusamfélög iðnvæðingarinnar. Það voru ótal þannig sálir uppi og þær vekja oft með okkur undrun og furðu. En hinir miklu baráttumenn tjáningarfrelsisins. Mér finnst aðeins undarlegt að nærvera heimildanna snertir þá ekki nema sem viðbrögð við því sem Björgólfur segir og gerir. Það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að í raun stýri Björgólfur íslenskum og já raunar líka þeim erlendu blaðamönnum sem nálgast hann og hans fólk. Meinið er aðeins að báðir virðast engu að síður óhressir með það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband