Forlagið

Bókabransinn var í einni svipan umpólaður á lokadegi ágústmánaðar. Eftir að hirðmenn og hirðmeyjar Eddu og JPV höfðu svitnað árum saman við að níða skóinn hver af öðrum og tínt til kostina við karismatísku útgefendapersónuna annars vegar en hins vegar við ópersónlegu mulningsvélina Eddu blasti allt í einu við afbyggingin: Mótsagnirnar reyndust engar mótsagnir. Allir vilja ná árangri, auka tekjur og völd. Af hverju ekki að gera það saman en ekki sitt í hvoru lagi? Samruni Máls og menningar eða öllu heldur útgáfuhluta Eddu útgáfu hf. og JPV útgáfu var áfall fyrir sjálfsmynd margra menningarfrömuða. Á milli þess sem ég smalaði sauðfé alla helgina ýmist fótgangandi eða á hestbaki, hleraði ég viðbrögð útgáfubransans. Fyndnast var þegar ónefndur aðili hringdi í mig þar sem ég stóð uppi á Svaðastaðafjalli og hafði eygt skjátu enn lengra upp í grjótinu fyrir ofan Sigin, í 800 metra hæð yfir sjávarmáli hvíslaði rödd: "Hvernig er eiginlega hann Jóhann Páll?"

Almennt hafa menn á orði að JPV útgáfa hafi hirt Mál og menningu. Ég býst við að forsvarsmenn bókmenntafélagsins sjái málið öðru vísi, enda verður að lokum einhver að ávaxta það fé sem nú er sett í bókaútgáfuna. Greinilegt er að stjórn Máls og menningar telur engan betri til þess en þá Corleone-feðga, eins og DV og Fréttablaðið kölluðu jafnan þá Jóhann Pál og Egil Jóhannsson. Ef horft er yfir feril JPV útgáfu frá vorinu 2001 sést að vöxtur fyrirtækisins hefur verið jafn og öruggur og afkoman nægilega góð til að leyfa þetta stóra stökk, því í nýja félaginu, Forlaginu, eiga JPV og MM jafnstóran hlut. Það er ansi vel af sér vikið ef eingöngu er horft á veltutölur. Velta JPV á síðata ári er skv. mínum heimildum einhvers staðar í kringum 400 milljónir. Edda útgáfa segist hafa fengið 950 milljónir í tekjur af almennri útgáfu á rekstrarárinu 2006-07. Þar með hefur JPV útgáfa í raun afsannað allar hrakspár um vonleysi íslenskrar bókaútgáfu. Með skýr markmið að leiðarljósi, skýran fókus og úthald er hægt að byggja upp gott meðalstórt fyrirtæki í bókaútgáfu á Íslandi. Ferill Eddu útgáfu hf. sýnir kannski það gagnstæða. Að stórt útgáfufyrirtæki sem ætlar sér að þenja sig út til allra átta rekst á takmarkanir lítils markaðar og takmarkaðs vaxtar. Nú er það í raun hlutverk Corleone-feðga að afsanna þá kenningu. Það er áskorunin sem þeir standa frammi fyrir.

En þetta er mikil hringferð. Það er eins og Vico eða Spengler hafi skrifað handritið en ekki Hegel. Þegar ég fór að vinna hjá Máli og menningu árið 1998 var Jóhann Páll með Forlagið sem hverja aðra undirdeild í fyrirtækinu en gengdi um leið hlutverki markaðs- og sölustjórnanda. Ég hef oft gert mér mat úr sérkennilegum orðatiltækjum hans, tilþrifum og afvopnandi tilsvörum. Það líður mér seint úr minni að sjá hann sitja í leðurbuxum, nýstiginn af Harleyinum sínum við skrifborðið á Laugavegi 18 og tala um að nú yrðum við að láta smella í sokkaböndunum. Hann hafði súverenítet sem mér fannst jaðra við hreina vitleysu en virkaði, einsog þegar þá ungur höfundur, Mikael Torfason, reiddist við hann og sagði honum "að hoppa upp í rassgatið á sér". Jóhann svaraði rólegur: "Það má bara vel vera að ég geri það." Það er erfitt að vera reiður höfundur í návist slíkrar búddískrar yfirvegunar.

Á meðan Jóhann sá um að tjúna upp stemmninguna var útgáfustjórinn Halldór Guðmundsson sendiherra Andans á Íslandi. Samband þeirra tvímenninga var flókið en um leið gott fyrir fyrirtækið. Stjórnunarfræðingar hefðu haft mikið upp úr því að stúdera það. En Jóhanni fannst, og hafði æ oftar á því orð, að hann væri sem í spennitreyju, hann vildi sprikla. Og þegar hann fór út gerði hann það með brauki og bramli. Áramótin 2000 varð hann framkvæmdastjóri hins furðulega fyrirtækis Genealogia Islandorum sem hafði bissnessplan sem hljómaði líkt og geimferðaáætlun Búrkína Fasó en líka undirdeild sem hét þá JPV Forlag og svínvirkaði í krafti nær ótakmarkaðs markaðsbudgets. Þegar þessi spilaborg hrundi, vart ársgömul, komst Jóhann aftur á fætur á undraskömmum tíma. Nú starfa þeir aftur saman Halldór og Jóhann og geyma vonandi visku í hjarta eftir mörg stormasöm ár. Visku sem nýtist Forlaginu til framdráttar.

Já Forlagið. Ég var útgáfustjóri Forlagsins á árunum 2000 til 2004. Það er mjög ánægjulegt að sjá það nú verða að yfirheiti á nýja útgáfurisanum. Þótt eiginlegum frontlista Forlagsins hafi verið lokað í upphafi árs 2004 hefur einn höfundur gefið út allar sínar bækur undir merkjum þess allt fram á þennan dag: Metsöluhöfundurinn Sigurgeir Sigurjónsson. Forlagið var stofnað af Jóhanni Páli og Þorvaldi Kristinssyni árið 1984 og hefur gefið út bækur óslitið síðan. Bækur þess seljast í tugþúsundum eintaka á ári hverju, ekki síst vegna þess hve titlar á borð við Lost in Iceland, Amazing Iceland, Iceland - the Warm Country of the North, Íslendingar, Made in Iceland og Found in Iceland hafa gengið vel. Ég óska mínu kæra Forlagi velfarnaðar og vona innilega að með því rætist draumar íslenskrar bókaútgáfu um sterkt og stórt útgáfufyrirtæki sem standi á traustum fjárhagsfótum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband