Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
25.9.2007 | 22:08
Já, fyrirgefið, reaksjóner kaupstefna!
Maður má hafa sig allan við að "hafa rétt eftir" þessa dagana. Baldri Kristjánssyni finnst ég ekki hafa rétt eftir sér og ekki vera nógu málefnalegur, sem er áreiðanlega rétt, ég bara get ómögulega stillt mig um að nota tungumálið og þá umræðuhefð sem það geymir þegar menn byrja að daðra við hugmyndina um að kannski sé það ekkert svo merkilegt eftir allt saman. Við sem höfum lifibrauð okkar af útgáfu og skriftum og eyðum öllum okkar stundum í lestur og umsýslan með þau mál vitum svo sem gjörla að íslenska er fráleitt eina tungumálið í heiminum. En við vitum líka að í áranna rás hefur aukist pot úr ýmsum áttum, pot þeirra sem vill þoka íslenskunni til hliðar, ekki tilviljanakennt og út í bláinn, heldur kerfisbundið og í algerlega ljósum tilgangi, nefnilega til að gera samfélagið hér "alþjóðlegra". Það er hins vegar enginn að fara að kjósa um þessi "alþjóðlegheit" og raunar á enginn einu sinni að velta því fyrir sér með hvaða hætti þau eiga að koma yfir okkur, það er bara talað um þetta eins og náttúrulögmál, eitthvað sem verði að gerast því annars ... förumst við, verðum hungurmorða, eitthvað hræðilegt. Áhugasömum um þessa valdataktík skal bent á tvö nýleg rit sem fjalla um hvernig svona poti er beitt: Draumalandið og Bréf til Maríu. Um leið er fjöldi gáfaðs fólks að rannsaka afstæða stöðu tungumálsins í menningunni. Stéttbindingu þess, hvernig notkun þess útilokar suma en innlimar aðra, hvernig það "einangrar" okkur, hugmyndafræðina, orðræðuna, kynlæga kúgunarstrúktúrana osfrv. Það er einfaldlega hluti af gagnrýnu ferli hugvísinda að fást við slíkar spurningar.
En þegar til kastanna kemur, þegar það verður pólitísk stefna að mjaka tungumálinu burt sem hindrun í samskiptum í viðskiptum og stjórnsýslu, þá veit maður að verið að afturkalla þá grundvallarhugmynd að íslenskan sé lýðræðislegt samskiptamál. Þá fyrst eru búnar til hindranir milli hinna ómenntuðu og hinna menntuðu, milli þeirra sem eiga og þeirra sem ekkert eiga. Og þá er verið að ýta notkun móðurmálsins út úr turnum valdsins. Það myndi á aðeins örfáum áratugum í raun gera íslenskar bókmenntir og fræði á íslensku að furðufyrirbæri áþekku því sem ritað er á bretónsku eða slavónsku eða einhverjum Alpadíalektum í Sviss og Ítalíu, styrktu fyrirbæri sem bara málvísindamenn og gamalt fólk geta notað sem samskiptatæki. Það má vera að ég hafi rangt fyrir mér, en ég trúi því einlæglega að um leið og við sláum af kröfunni um á íslenskan sé notuð alltaf á öllum sviðum samfélagsins séum við að setja þetta hingnunarferli í gang og þar með smám saman tapa tengslum okkar við hina dauðu. Auden sagði einhvern tíma að eina markmið skáldskapar væri að geta rabbað við dáið fólk. Minningar genginna kynslóða sem frásagnir og ljóð hafa bundið í orð, keimur af horfnum heimi sem orðin flytja með sér, þær dularfullu kistur sem töfraorðin uppljúka. Um leið og við sneiðum af þessum stóra líkama annan litla putta verður auðveldara að skera burt stórutá og síðan fylgja aðrir limir með uns fátt er eftir nema visið hjarta.
Já og Viðar Þorsteinsson , heimspekingur, sagði í mikilli grein á Kistunni að ég færi rangt með. Ég hefði sagt að hann hefði sagt reaksjóner bókmenntahátíð í Morgunblaðinu, en hann hefði í raun sagt reaksjóner kaupstefna. Hann er ekki hress með nýafstaðna bókmenntahátíð og finnur henni í raun allt til foráttu. Gagnrýni hans á Ali Hirsi og Jung Chang er ómakleg út frá mörgum hliðum, en makleg ef maður er þeirrar skoðunar að þetta fólk sé þrátt fyrir velmeinandi skoðanir handbendi bandarískrar heimsvaldastefnu og alþjóðlegs áróðurs gegn múslímum til að undirbyggja hugmyndafræðilega stríðsrekstur Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Vestur-Asíu. Nú, eða þá þeirrar hugmyndafræðilegu blindu sem stýrir hugmyndum markaðsfólks um Kína, sem ég tek undir með honum að er óþolandi. Að sjá viðskiptamenn, þjóðhöfðingja og stjórnmálamenn í sífellu mæra það skelfilega þjóðfélag er með ólíkindum. Það er hlutverk gagnrýnna fræða að afhjúpa dulda hugmyndafræðlega strúktúra sem stýra mannfólkinu og Viðar tekur mikla glæsirispu í því í grein sinni á Kistunni.
En ...
Hann gjörsamlega drullar upp á bak (svo ég grípi til handhægs frasa frá Gillzenegger) þegar hann fer að lýsa öllum höfundum á bókmenntahátíð sem miðjumoðsfólki og peðum. Þótt hann deili ekki fagurfræði sinni með t.a.m. Tracy Chevalier, er hún engu að síður gríðarlega áhrifamikill höfundur sem hefur lagt mikið til ákveðinnar bókmenntategundar sem almenningur þekkir betur en margar: upmarket main stream fiction. Fyrir tilstilli fólks eins og hennar fara margir að lesa bækur og sækja í þær hugblæ liðinna tíma. Respect! Roddy Doyle er eins og margir höfundar af hans kalíberi, hann heldur áfram að skrifa, hann á sér traustan aðdáendahóp og hann heldur áfram. Bækur eins og The Woman who Walked into Doors, er til að mynda meistaraleg frásögn um heimilisofbeldi, einstök bók raunar. Til samanburðar má geta manns sem kom hingað árið 2000, Magnus Mills sem þá hafði slegið í gegn af því að hann hafði verið strætóbílstjóri. Hefði hann komið nú, hefði VÞ sjálfsagt púað yfir því að hann væri bara peð. En síðan Mills skrifaði bókina The Restraint of Beasts, sem var hans eina útgefna verk um þetta leyti og hafði þá verið þýdd á allar heimsins tungur, hefur hann skrifað miklu betri bækur, sem raunar hafa ekki selst jafn vel. En hann heldur engu að síður ótrauður áfram með sitt, vilji maður fylgjast með því. Raunar er ein besta skáldsaga sem ég hef lesið á 21. öld saga hans Three To See a King, sem er fantasía með dularfullum og óhugnanlegum hugblæ en jafnframt iðandi af húmor, minnti mig helst á bestu bækur Brautigans.
En Viðar hefur raunar rétt fyrir sér þegar kemur að samanburði Græna-ljóss hátíðarinnar og Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík. Hvílíkur munur á prógrammi og metnaði. Og fyrir vikið: Það er rétt hjá honum að af þessu má bókmenntahátíð í Rvk. læra ef hún á ekki að staðna og tréna.
Bækur | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2007 | 12:29
Menningarblað Fréttablaðsins
Á sunnudaginn hóf Fréttablaðið að senda sérstakt menningarblað með helgarútgáfunni. Sunnudagsblaðið hafði stundum verið fremur þunnur þrettándi svo þetta lyfti blaðinu algerlega upp á nýjan stall. Þetta var skemmtilegt blað, og gaman að sjá til að mynda kafla úr nýrri jólabók þarna, úr Himinn og helvíti eftir Jón Kalmann Stefánsson sem hefur alla burði til að verða ein af stóru bókunum þessi jólin. Ítarlegir dómar og gott yfirlit yfir það sem er að gerast. Ég klóraði mér aðeins í hausnum yfir malbikun blaðamanns Fréttablaðsins á Aldingarði Ólafs Jóhanns Ólafssonar. Þetta er ákveðin aðferð við að meta texta sem þarna kemur fram, en sum dæmin voru einfaldlega ósannfærandi og því varð pistillinn eiginlega bara nöldur. Ég sé svo að Páll Valsson, fyrrum kollega, skýtur föstum skotum í Fréttablaðinu í dag ÓJÓ til varnar.
En raunar er dómur á svipuðum nótum, og þó betur unninn, í nýjasta hefti TMM. Þar fer Sigrún Davíðsdóttir fremur ómjúkum höndum um bókina. Þar finnst manni hins vegar eilítið skrítið að sjá höfund "í samkeppni" við ÓJÓ vera svo harðorðan um bók sem naut velgengni.
Báðar þessar umfjallanir nota sama punktinn til að hamra á: Þetta eru þeir svo að verðlauna! Bókin fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin! Félag íslenskra bókaútgefenda hefur nú í 17 ár staðið fyrir þessum verðlaunum og mun gera það nú í 18. sinn. Þessar greinar segja manni að mark er tekið á verðlaununum og að þeir sem hugsa um bækur og bókmenntir hafa ákveðnar væntingar til þeirra. Það er gott til þess að vita að staða þeirra er svona sterk. Að það sé ekki óumdeilt hverjir eiga að hjóta þau og að menn ætlist til mikils af dómnefndunum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2007 | 22:21
Eitt tungumál fyrir Samfylkinguna, annað fyrir almenning
Fyrir síðustu kosningar kom lítil delegasjón af geðþekkum Samfylkingarmönnum í heimsókn til okkar á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda. Þar á meðal var sá mikli málajöfur Mörður Árnason, einn gagnmenntaðasti íslenskumaður vorra daga. Erindið var að afhenda okkur fjórblöðung þar sem helstu stefnumið flokksins í menningarmálum voru tíunduð. Margt var þar sem hunang í okkar eyrum, svo sem tvöföldun framlaga í nýjan bókmenntasjóð, nokkuð sem er svo sem ekki mikið stórátak. En eitt vakti þar athygli mína: markmið flokksins að binda í stjórnarskrá að íslenska verði gerð að opinberu tungumáli lýðveldisins. Eins og sakir standa kemur það hvergi fram en Mörður var ötull við það á síðasta þingi, já meðan hann sat enn á þingi raunar, að benda á að ósvinna væri að slíkt væri ekki stjórnarskrárbundið.
En nú er öldin önnur. Samfylkingin er komin í stjórn og um leið er sem flokkurinn hafi breyst úr jafnaðarmannaflokki í einskonar víxlræktaðan ójafnaðarflokk sem keppir nú í senn að því að djöfla áfram markaðsvæðingu "með mannlegu andliti" og hins vegar að taka fyrstu skrefin í átt að útrýmingu menningarlegrar sjálfsmyndar Íslendinga. Eða hvernig á að skilja absúrd grein varaformanns flokksins í Morgunblaðinu í gær? Það virðist sem hann hafi komið af fundi fjárfursta og viljað svo óskaplega ganga í augun á þeim og sýna þeim að hann hafi samt áhrif þótt hann fengi ekki að vera ráðherra, að hann dreif sig í að hripa niður grein í Moggann um að við eigum að hverfa aftur til þess háttalags sem var á stjórnsýslunni á 18. öld og framan af þeirri 19. og nota annað tungumál en íslensku til að fjalla um samskipti þegnanna og ríkisins.
En ef skilja má þessa furðugrein rétt vill hann ganga lengra. Með tvíspora stjórnsýslusýstemi væri verið að segja við hvert smásveitafélag landsins að hafa allar upplýsingar um sig sjálft á enskum heimasíðum. Mér væri þá í sjálfsvald sett, vænti ég, hvort ég rek mál fyrir íslenskum rétti á ensku eða íslensku. Og vilji ég leggja fram athugasemdir við enn eitt borgarskipulagsslysið verði ég að gera það jafnt á ensku sem íslensku, eða þá annað hvort, eða hvað? Hvernig á þetta að fúnkera í reynd? Það er líklegast bót í máli að maður hefur ekki sóað tímanum að horfa á Boston Legal og LA Law. Nú getur maður notað alls kyns slangur úr þeim góðu þáttum við að tala við íslensk yfirvöld, og þarf í raun á því að halda.
En kannski vill Samfylgingin bara fá eigið tungumál svo hún þurfi ekki meir að tala við almenning og geti fullendis hreiðrað um sig ofan við þetta jarðbundna líf. Þar getur hún útbúið áhættumat og stundað samræðustjórnmál út í eitt á meðan varaformaðurinn bullar á ensku og íslensku til skiptis um gildi áframhaldandi útrásar og fengið ásamt viðskiptaráðherranum dimmraddaða klapp á bakið frá fjárpennunum á markaðskálfum blaðanna fyrir einstakan skilning á þörfum fjármálaheimsins. En af hverju ensku? Af hverju er varaformaðurinn svona smátækur? Af hverju ekki strax bara mandarín, sem er jú málið sem allir betur megandi menn í New York láta börnin sín læra svo þau geti alist upp við kínverska kúgunarheimsmynd framtíðarinnar? Framtíðin er þar með kyngreindum fóstureyðingum, dauðarefsingum, pyntingum, nauðungarflutningum, barnaþrælkun, mengun, ömurlegum aðbúnaði verkafólks, umhverfsslysum og útlendingahatri. Þetta er einmitt svona land sem varaformenn Samfylkingarinnar eiga að mæra um leið og þeir leggja til að almenningur á Íslandi fái endanlegan útskúfunarpassa úr eigin lífi.
En hvað varð um rauða pésann með menningarloforðum Samfylkingarinnar? Ég fann hann ofan í skúffu um daginn og fannst það góð lesning. Er ekki mál til komið að allir þeir velunnarar íslensku og jöfnuðar sem ég veit að styðja enn þennan flokk minni nú forystu sína á hann?
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2007 | 23:20
Íslenskuumræðan
Íslenskuumræðan sem Sigurjón í Bankanum hleypti af stað um daginn vindur upp á sig. Fyrstu viðbrögð voru skeptísk, til að mynda ummæli í blöðum og bloggsíðum og svo heyrði ég fautafínt viðtal við málfræðinginn Harald Bernharðsson á Rás 2 sem eiginlega rúllaði þessu upp. Það var svo sem líitið hægt að segja meira nema einhverja vanstillta vitleysu eftir þann hófstillta og yfirvegaða málflutning sem hann hafði í frammi. Nú vil ég sjá bók eftir þessan mann, úttekt á móðurmálinu sem ég myndi vilja sjá Einar Bárðarson og Corleone-feðga plögga inn á hvert heimili.
Nokkur atriði hafa vakið furðu mína í þessari umræðu. Í fyrsta lagi hin fullkomna og raunar algera þögn rithöfunda. Þeir virðast ekki telja það ómaksins vert að rísa upp atvinnutæki sínu til bjargar. Eini maðurinn sem heyrst hefur í er Þórarinn Eldjárn sem er raunar í íslenskri málnefnd, er þar varaformaður. Í þeirri miklu og stóru nefnd sitja raunar fleiri rithöfundar, s.s. þær Ingibjörg Haraldsdóttur og Brynhildur Þórarinsdóttur.
Í öðru lagi getur maður endalaust orðið bit á því fólki sem heldur því fram kinnroðalaust að móðurmál sitt sé slíkt kúgunartæki að betra sé að nota annað mál og ruglar þá kunnáttu í öðru tungumáli saman við það að vera tvítyngdur. Þótt maður kunni eitt erlent mál sæmilega vel er maður langt frá því að vera tvítyngdur. Það þekkja allir að maður mætir alltaf sviði í erlendu máli sem maður þó kann vel þar sem mann rekur í strand og er þá oftast kúgaður af eigin vanþroska og þekkingarleysi. Einn af þessum "aðilum" er séra Baldur Kristjánsson sem virðist vera í sömu andlegu bóndabeyju og margir jafnaðarmenn dagsins í dag. Þeir rugla í sífellu saman eigin stöðu sem menntaðir góðborgarar og almennum hagsmunum svo úr verður einhver furðulegur blendingur velmeinandi umburðarlyndis og hefðbundinna borgaralegra gilda, skelfilegur kokteill. Á bloggsíðu sinni setur hann á mikla ræðu um hvað það skipti litlu fyrir hugsunina að taka nú upp nýtt tungumál, það geti verið svo hressandi því tungumálið sé svo voðalegt kúgunartæki. Er það ekki rétt munað hjá mér að hann hefur undanfarin ár predikað á svahílí? Eða leystist fagnaðarerindið endanlega upp í læðing þegar sóknarbörnin ákváðu að nota frekar wolof í staðinn fyrir svahílí vegna þess að þeim fannst þau frekar tengd Vestur-Afríku en Austur? Ég legg það að minnsta kosti til að við tökum upp wolof. Ég kann að segja góðan daginn á því máli, það er nang-a-tang. Þegar maður vill segja, "hvernig hefur þú það?", segir maður nang-a-def. Einfaldara gæti það ekki verið. Mér finnst strax eins og kúgunarhlekkirnir falli af heilanum. En hvers konar hringlandi vitleysu eru almennilegir menn eiginlega að bera á borð fyrir okkur? Vill hann að venjulegt íslenskt fólk drífi sig í að taka upp annað tungumál nú þegar til að geta áreiðanlega skorið á rætur sínar, sögu og minningar? Fer það svona illa með sálina að búa suður með sjó?
En eigum við ekki nú að fá línuna frá Íslenskri málnefnd. Skv. lögum sem samþykkt voru um störf hennar í fyrra er þar skýrt kveðið á um að henni beri að álykta einu sinni á ári um stöðu íslenskunnar. Til að undirstrika þetta má hér sjá lista nefndarmanna ef einhver vill skrifa þeim bréf um málið:
Guðrún Kvaran formaður, skipuð án tilnefningar, varamaður Svanhildur ÓskarsdóttirÞórarinn Eldjárn varaformaður, skipaður án tilnefningar, varamaður Þórunn BlöndalSigríður Sigurjónsdóttir tilnefnd af háskólaráði Háskóla Íslands, varamaður Eiríkur RögnvaldssonBrynhildur Þórarinsdóttir tilnefnd af Háskólanum á Akureyri, varamaður Sigurður KristinssonÞorlákur Karlsson tilnefndur af Háskólanum í Reykjavík, varamaður Anna BragadóttirÚlfhildur Dagsdóttir tilnefnd af Listaháskóla Íslands, varamaður Sigurjón B. SigurðssonSigurður Konráðsson tilnefndur af Kennaraháskóla Íslands, varamaður Anna S. ÞráinsdóttirHaraldur Bernharðsson tilnefndur af hugvísindadeild Háskóla Íslands, varamaður Þóra Björk HjartardóttirGunnar Stefánsson tilnefndur af Ríkisútvarpinu, varamaður Valgerður Anna JóhannsdóttirJóhann G. Jóhannsson tilnefndur af Þjóðleikhúsinu, varamaður Melkorka Tekla ÓlafsdóttirSæmundur Helgason tilnefndur af Samtökum móðurmálskennara, varamaður Svanhildur Kr. SverrisdóttirIngibjörg Haraldsdóttir tilnefnd af Rithöfundasambandi Íslands, varamaður Sigurður PálssonSteinunn Stefánsdóttir tilnefnd af Blaðamannafélagi Íslands, varamaður Sigurður G. TómassonSigrún Helgadóttir tilnefnd af orðanefndum, varamaður Sigurður Jónsson frá ArnarvatniVeturliði Óskarsson tilnefndur af Hagþenki, varamaður Katrín Jakobsdóttir
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2007 | 10:06
Umbrotatímar í bókaútgáfu
Í Kiljunni nú á miðvikudaginn var fróðlegt viðtal við "ofurútgefandann" Jóhann Pál Valdimarsson. Það sem stóð þó upp úr og varð svo sem dagljóst við sameiningu JPV og Máls og menningar, er að það eru tækifæri í íslenskri bókaútgáfu. Það er hægt að byggja upp gott meðalstórt útgáfufyrirtæki á stuttum tíma með réttum samböndum inn í höfundasamfélagið, skýrri sýn á reksturinn og áræðni í markaðssetningu. Jóhann Páll minntist líka á athyglisverða staðreynd. Hann keppti við sér miklu stærra fyrirtæki með miklu sterkari bakhjarla en blómstraði samt. Markaðsfræðin myndu segja að einmitt þess vegna hafi hann blómstrað. Hann var neyddur til hagkvæmni, útsjónarsemi og til að finna sér samkeppnisstrategíu sem skapaði honum forskot á markaðnum.
Margir hugsa á svipuðum nótum þessa dagana. Við sameininguna og umbrotin hjá Eddu útgáfu eru margir sem starfað hafa lengi í útgáfu á lausu og þeir skynja líkt og margir aðrir að ef einhvern tíma var lag til að koma útgáfu á koppinn er það nú. Sigurður Svavarsson, einn reyndasti útgefandi þessa lands, áður framkvæmdastjóri Máls og menningar, útgáfustjóri Iðunnar, einn yfirmanna Eddu útgáfu og umsjónarmaður almennrar útgáfu á þeim bæ, hefur nú látið af störfum. Ljóst er að hann íhugar gaumgæfilega stöðu sína.
Aðrar útgáfur sem fyrir eru á markaðnum skynja sig á svipaðan hátt og Jóhann Páll lýsti í viðtalinu. Ókei, nú er nýr risi á markaðnum, en þessi risi er eins og aðrir risar í sífelldri varnarstöðu, hann vex ekki mikið á þverveginn, markmiðin hljóta að vera fremur þau að fá meiri framlegð út úr rekstrinum og láta innistæður í "bakklistanum" vinna fyrir sig, fá fjárfestingarnar til að skila meiri arði. Forlagið gefur út um 200 höfunda. Það er algerlega ómögulegt að allir muni una sáttir við sinn hlut til lengdar. Því bíða nú aðrir útgefendur þolinmóðir og hugsa sinn gang.
Það er því hugur í minni útgáfufyrirtækjum þessa dagana sem telja sig standa um margt sterkar að vígi en áður. Um leið heyrir maður ótrúlegasta fólk henda á lofti hugmyndum um að fara í útgáfu. Og minna sig á að þótt úrtöluraddir heyrist úr öllum hornum sannaði þó í það minnsta "ofurútgefandinn" að þetta er hægt. Og hann segist jú ekki kunna á excel og taka helst mark á kettinum sínum sem gengt hefur stöðu stjórnarformanns um árabil.
Bækur | Breytt s.d. kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2007 | 22:29
Síðustu ár íslenskunnar
Það hlaut að koma að því að eitthvert stórfyrirtækið legði til að íslenska yrði lögð niður sem vinnumál, það var í raun aðeins tímaspursmál. Þessi fremur smálega frétt í Mbl. um að Sigurjón bankastjóri Landsbankans sæi aðeins vandræði við íslenskuna þegar kæmi að eðlilegum vexti bankans í framtíðinni hefur vakið gríðarleg viðbrögð, miklu meiri viðbrögð manna á meðal en endurspeglast í fjölmiðlum. Fjölmiðlaviðbrögðin komu líklegast hörðust úr átt Morgunblaðsins, sem hitti raunar naglann á höfuðið í leiðara: Banki eins og Landsbankinn sem skreytir sig með táknmyndum þjóðernisins ætti að sjá sóma sinn í að styðja við bakið á móðurmálinu og menningunni sem er bundin því í staðinn að horfa reglustrikaður á heiminn. Ef menn eru að monta sig af því að vera íslenskir eiga þeir að horfast í augu við að gildi þessarar menningar detta ekki ofan af himnum. Kunningi minn hefur reiknað það út að það kosti 300 milljónir að þýða og gefa út nánast allan heimslitteratúrinn þannig að hann yrði til á íslensku. Hugsið ykkur það? Sá sem gerði þetta yrði kunnur um aldur og ævi sem einn helsti velgjörðamaður landsins og menningar þess, einskonar blanda af Guðbrandi Þorlákssyni, Árna Magnússyni, Konráð Gíslasyni, Rasmusi Rask og Ragnari í Smára. Hann yrði mærður í sögubókum og af skáldum um aldur og ævi. En í staðinn vilja menn láta minnast sín sem eiganda Newcastle og svarts Range Rover. Í staðinn fyrir að vera Jón Vídalín eða Árni Magnússon vilja menn vera Oddur lögmaður - og hver man eftir honum?
Menn vakna hins vegar nokkuð seint til veruleikans. Staðreyndin er sú að íslenska er ekki lengur nema aukamál á gríðarlega mörgum vinnustöðum hérlendis. Það er raunar algerlega fráleitt að þurfa að panta kaffi á ensku og biðja um brauð á ensku og bensín á ensku. Hverskonar vitleysa er að láta þjónustustéttir ekki tala tungumál kúnnanna? Sjálfur bjó ég í ein fimm ár í Þýskalandi þar sem útlendingar eru gríðarmargir og fjölmennir í þjónustustéttum. En þrátt fyrir fjölmenningarsamfélag og íslamíseringu dettur þar engum heilvita manni í hug að bjóða almenningi upp á að kaupa vörur á öðru tungumáli en þýsku. Þetta snýst ekki um fólkið sjálft "einstaklingana sjálfa" eins og Kastljós myndi segja heldur einfalt prinsípp. Á Íslandi talar maður íslensku. Það er fáránlegt að við skulum á nokkrum misserum hafa ákveðið að það sé sjálfsagt að þurfa að nota ensku í búðum, á kaffihúsum, veitingastöðum, bensínstöðum osfrv. Sigurjón í Bankanum var ekki að bergmála annað en þann veruleika sem þegar er við lýði.
Á meðan stöndum við sem ætlum þessu tungumáli að halda margbreytileika sínum, tjáningarhæfni, breidd, stílfegurð, hljómfegurð og þýðu í stappi við að koma út einföldustu hjálpartækjum til að fást við þennan nýja veruleika. Á meðan kannanir í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi sýna sífellt meiri lestur allra, ekki síst ungmenna, sjáum við hið gagnstæða. Sífellt færri lesa bækur, sífellt færri lesa blöð og efni á rafrænu formi er vanburða og fálmkennt og engin stefna til á því sviði. Við þurfum orðabækur fyrir nýju málin sem töluð eru hér heima, við þurfum aðlögun að fjölþjóðaveruleikanum og við þurfum þennan Rask Magnússon sem einn daginn er leiður á að liggja á sinni Gnitaheiði með gullið undir halanum, hættir við að kaupa Formúluna og NLF deildina og ákveður í staðinn að bjarga móðurmáli sínu frá því að deyja út á 21. öldinni.
Bækur | Breytt 19.9.2007 kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2007 | 11:31
Reaksjóner iðnaðarhátíð
Bókmenntahátíðinni í Reykjavík lauk nú á laugardagskvöldið með hófstilltu hófi í Iðnó þar sem skálaræður voru fluttar og húrrahróp og arnsúgur dreginn á flugnum. Nóbelsverðlaunahafinn Coetzee var að vísu farinn en nóg af frægðarljósum til að lýsa upp myrkrið. Hátíðin var ekki bara hátíð skálda, heldur einnig þýðenda og þeir voru margir þarna í salnum. Fólkið sem við stöndum í raun og veru í mestri þakkarskuld við því án þeirra hljómaði harpa íslenskra bókmennta okkur einvörðungu og engum öðrum. Þarna voru líka útgefendur, sumir stórir menn í sinni sveit, og þótt ekkert færi fyrir þeim hér í fjölmiðlum höfðu þeir af mörgu að miðla.
Síðasta hátíð árið 2005 var algjört stjörnuregn og að tjaldabaki blönduðust frægð, snilligáfa, ást, vímuefni og hofmóður saman á ótrúlegan hátt. Það var ekki hægt að toppa það í ár. Það sem hins vegar var gaman nú var að sjá hve mikið kom af ungum höfundum og þeim fylgdi skemmtilegur andblær sem gerði braginn á hátíðinni í ár léttan og ljúfan. Ítalinn Lecca, Bosníuþjóðverjinn Stanic voru dæmi um þessi ljúfmenni.
En úti í bæ kraumaði gremjan. "Reaksjóner bókmenntahátíð" sagði Viðar Þorsteinsson, hugmyndafræðingur. "Iðnaðarþýðingar", sagði Páll Baldvin Baldvinsson, "hátíð sem ekki er fyrir almenning". Jæja, í það minnsta tveir stungu niður penna um helgina til að reka ofan í PBB ummæli hans um hvernig staðið er að útgáfu þýðinga á Íslandi (en óvenju margar þýðingar komu út nú í tenglsum við hátíðina) í Kiljunni. Frábært lítið innlegg frá Gauta Kristmanssyni í Morgunblaðinu um raunveruleika þýðinga yfir á íslensku. En þegar kemur að því að allir þurfa að tala ensku sem vinna í bönkunum, allt ofan í gjaldkera sem þá ávarpa mann á ensku og Landsbankinn hefur slóganið "We support football", þá verður þetta hvort eð er líklegast ekkert vesen og reaksjónerar bókmenntir hvort eð er horfnar af jarðarkringlunni.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2007 | 14:54
Bókaforlag Baugs
Um nokkra hríð hafa gengið um það ýmsar sögur í bænum að Baugur Group ætlaði sér að leggja peninga í bókaútgáfu. Ýmislegt hefur verið þar uppi á teningnum og menn hafa að sögn velt fyrir sér ýmsum möguleikum. Vart þarf að útmála hve mikil hrelling þessar fréttir hafa verið bókabransanum sem sér fyrir sér bestu plássin í Bónus og Hagkaupum frátekin fyrir Baugsbækurnar fyrir jólin sem og öll bestu auglýsingaplássin í Fréttablaðinu og á Stöð 2.
En nú er það orðið staðfest. Baugur Group á meirihlutann í ungu sprotafyrirtæki sem heitir Skuggi forlag ehf. og er til húsa í Austurstræti. Framkvæmdastjóri og útgáfustjóri og allt í öllu þar er Illugi Jökulsson fjölfræðingur. Von mun vera á nokkrum titlum fyrir jól úr þessari smiðju.
Nú bíða menn með öndina í hálsinum yfir hvort einu Hagkaupsauglýsingarnar í ár verði frá Skuggaráðuneytinu við Austurstræti og hvort Bónus massi Skuggabókum upp á bretti en aki hinu klabbinu út í snjóinn.
Nú á s.s. Jón Ásgeir bókaútgáfu. Ætli Páll Vilhjálmsson hafi ekki eitthvað að athuga við það?
Bækur | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2007 | 00:07
Kiljan
Jæja, loksins fór íslenskur bókmenntaþáttur í loftið. Mikið sem maður hefur nú beðið eftir því og fullkomlega óskiljanlegt hverskonar þæfingur það hefur verið hjá RÚV að vilja ekki halda úti svona prógrammi. Að vísu er þetta góður tími, það er jú bókmenntahátíð í Reykjavík og fyrir vikið sægur af frambærilegu fólki á ferð. Egill sýndi það í Silfrinu að hann er eiginlega bestur þegar hann tekur viðtöl á ensku og það kom fram í kvöld. Fínt spjall við Ayaan Hirsi Ali og svo við þær stöllur Tracy Chevalier, Yasmine Crowther og Marina Lewycka.
Hirsi Ali og J.M. Coetzee koma reyndar með miklu trukki inn í bókmenntahátíðina með erindum sínum og spjalli um pólitík og stefnumið vestrænna samfélaga. Erindi Coetzees í hátíðarsal Háskólans var til að mynda að mínu viti hápunktur hátíðarinnar fram að þessu. Magnað erindi sem setti hugleiðingar hans sjálfs sem rithöfundar í stórt samhengi sem við erum öll hluti af. Hann nánast sannaði grundvöll þess að bókmenntir eigi að þrífast sem sérstakt áhrifasvæði heildrænnar hugsunar um mann og samfélag utan stofnana ríkis og sterkra fyrirtækja.
Ég vona hins vegar að hlutur álitsgjafanna í Kiljunni eigi eftir að slípast. Páll Baldvin var skarpur og beittur sem gagnrýnandi í sjónvarpi, en ég held að ég sé ekki að bulla þegar ég segi að hann hafi nú ekki verið leiftrandi af fjöri. Kolbrún Bergþórsdóttir er hins vegar fjörug og hrifnæm en verður óörugg um leið og umráðasvæði hennar sleppir. Fyrir vikið varð umræðan svolítið skrítin. Allir voru með einræður og enginn talaði saman eða spann áfram þráð hins. Páll Baldvin setti á mjög skrítna ræðu um einhvers konar svik útgefenda við málstað bókmenntanna vegna þess að þeir hefðu gefið út þýðingar á verkum höfundanna sem komu á bókmenntahátíð. Það var að skilja á honum að þetta væru upp til hópa svo slöpp verk að þau ættu það ekki skilið að vera þýdd á íslensku og að bókmenntahátíðin væri einhvers konar "set up" til að redda réttindakaupum forleggjara. Þetta er diskússjón sem ég held að aðeins örfáir innvígðir hafi skilið eða þá yfirleitt haft áhuga á. Um þetta mál höfðu Kolbrún eða stjórnandinn heldur ekkert að segja.
Hér hefði þó mátt benda á tvo meginpunkta sem skipta máli í þessari þó svo fremur tæknilegu umræðu: Annars vegar að nú stendur fyrir dyrum ný skipan mála í útdeilingu þýðingarstyrkja með stofnum bókmenntasjóðs skv. lögum sem afgreidd voru frá Alþingi síðasta vor. Þýðingarsjóður hefur verið lagður niður. Hins vegar að útgáfa þýðinga í harðspjöldum til gjafa um jólin er eftir sem áður erfið og það hefur ekkert breyst. Hins vegar er greinilega að myndast áhugaverður markaður fyrir þýðingar í kiljum. Menn eru að þreifa á formatinu þessa dagana. Bjartur/Veröld gefa t.d. út þýðingar bæði í kilju og innbundnar. Eddan eða Forlagið bara þýðingar í kilju á meðan smærri forlög eins og Jentas halda sig við innbundna formið. Bók Hirsi Ali, Frjáls, er svo innbundin og er greinilega teflt inn á jólamarkaðinn. Mynd Páls Baldvins er því sem er að gerast er því einfaldlega ónákvæm og ástæða til að reka það ofan í hann.
Svo fóru menn í að ræða hið nýstofnaða Forlag, sameiningu JPV útgáfu og Máls og menningar. Sú umræða snerist eingöngu um persónu Jóhanns Páls Valdimarssonar og svo "Schadenfreude" yfir hvernig komið væri fyrir Máli og menningu að geta ekki einu sinni druslast til að reka eigið forlag sjálft. Raunar hefur verið kostulegt að fylgjast með því hvernig allir eru nú farnir að líta Jóhann Pál skyndilega allt öðrum augum en áður undanfarna daga. Nýi sterki maðurinn horfir öðru vísi við flestum nú þegar hann ber ábyrgð á svo miklum hluta einkarekinnar bókaútgáfu á Íslandi. Menn skildu því sáttir með það að nú væri JPV "kóngurinn".
En eftir þennan þátt er ég á því að Egill hafi verið rétti maðurinn. Ef honum lukkast að hafa útlendinga í að minnsta kosti helmingi þáttarins hverju sinni verður þetta án efa gott prógramm.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2007 | 23:03
Gastland Island
Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja fram umsókn um að Ísland verði heiðursland á bókamessunni í Frankfurt árið 2011 er tímamótagjörningur. Gangi áformin eftir þannig að samningar náist við stjórn Frankfurter Buchmesse um framkvæmdina er íslenskum bókmenntum og íslenskri menningu tryggð gríðarleg fjölmiðlaumfjöllun á langstærsta útflutningsmarkaði sínum. Um leið yrði þýðing íslenskra bókmennta yfir á þýsku flutt yfir á nýtt plan. Svo gæti farið að þýskumælandi og þýskuskiljandi lesendur gætu haft fullkomna yfirsýn yfir allan íslenska bókmenntaarfinn ef þýðingaráfrom tengd þessum atburði ganga eftir.
Öfugt við tónlist, dans og myndlist eru bókmenntir algerlega háðar þýðendum sínum. En ekki aðeins það. Bókmenntir koma ekki út nema útgáfufyrirtæki taki bækurnar til útgáfu og það er nær undantekningalaust í markaðslegum tilgangi. Jafnvel þótt okkur þyki stundum nánast sjálfsagt að íslensk menning breiðist út um heiminn þá er staðreyndin sú að við erum fá og það er meira en að segja það að hafa nægilegan innri styrk til að standa fastur á því að sköpunarhefð þeirra sem talað hafa íslensku sé svo sterk og merkileg að hún eigi erindi við heiminn.
Bókamessan í Frankfurt er langstærsti viðburður veraldarinnar á sviði bóka. Messan er risavaxin kaupstefna um leið og öll útgáfa Þýskalands, annars stærsta fjölmiðla- og bókamarkaðs heims, notar hana sem sýningarglugga. Hátt í 400.000 gestir koma á messuna og því landi sem er "fókusland" hverju sinni eru tryggðar forsíður allra blaða, umfjöllun í öllum sjónvarpsmiðlum og framstillingar í öllum bókabúðum, auk ótal viðburða um allt Þýskaland. Þessi athygli bergmálar svo áfram.
Það vefst stundum fyrir mönnum hvernig eigi að standa að útbreiðslu íslenskra bókmennta. En staðreyndin er sú að ef menn vilja vekja athygli þá gerist það því aðeins að menn mæti þar sem kastljósin eru. Það var fagnaðarstund þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tilkynni þetta við setningu Bókmenntahátíðar á sunnudaginn. Nú er bara að vona að þetta gangi eftir.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)