Síðustu ár íslenskunnar

Það hlaut að koma að því að eitthvert stórfyrirtækið legði til að íslenska yrði lögð niður sem vinnumál, það var í raun aðeins tímaspursmál. Þessi fremur smálega frétt í Mbl. um að Sigurjón bankastjóri Landsbankans sæi aðeins vandræði við íslenskuna þegar kæmi að eðlilegum vexti bankans í framtíðinni hefur vakið gríðarleg viðbrögð, miklu meiri viðbrögð manna á meðal en endurspeglast í fjölmiðlum. Fjölmiðlaviðbrögðin komu líklegast hörðust úr átt Morgunblaðsins, sem hitti raunar naglann á höfuðið í leiðara: Banki eins og Landsbankinn sem skreytir sig með táknmyndum þjóðernisins ætti að sjá sóma sinn í að styðja við bakið á móðurmálinu og menningunni sem er bundin því í staðinn að horfa reglustrikaður á heiminn. Ef menn eru að monta sig af því að vera íslenskir eiga þeir að horfast í augu við að gildi þessarar menningar detta ekki ofan af himnum. Kunningi minn hefur reiknað það út að það kosti 300 milljónir að þýða og gefa út nánast allan heimslitteratúrinn þannig að hann yrði til á íslensku. Hugsið ykkur það? Sá sem gerði þetta yrði kunnur um aldur og ævi sem einn helsti velgjörðamaður landsins og menningar þess, einskonar blanda af Guðbrandi Þorlákssyni, Árna Magnússyni, Konráð Gíslasyni, Rasmusi Rask og Ragnari í Smára. Hann yrði mærður í sögubókum og af skáldum um aldur og ævi. En í staðinn vilja menn láta minnast sín sem eiganda Newcastle og svarts Range Rover. Í staðinn fyrir að vera Jón Vídalín eða Árni Magnússon vilja menn vera Oddur lögmaður - og hver man eftir honum?

Menn vakna hins vegar nokkuð seint til veruleikans. Staðreyndin er sú að íslenska er ekki lengur nema aukamál á gríðarlega mörgum vinnustöðum hérlendis. Það er raunar algerlega fráleitt að þurfa að panta kaffi á ensku og biðja um brauð á ensku og bensín á ensku. Hverskonar vitleysa er að láta þjónustustéttir ekki tala tungumál kúnnanna? Sjálfur bjó ég í ein fimm ár í Þýskalandi þar sem útlendingar eru gríðarmargir og fjölmennir í þjónustustéttum. En þrátt fyrir fjölmenningarsamfélag og íslamíseringu dettur þar engum heilvita manni í hug að bjóða almenningi upp á að kaupa vörur á öðru tungumáli en þýsku. Þetta snýst ekki um fólkið sjálft "einstaklingana sjálfa" eins og Kastljós myndi segja heldur einfalt prinsípp. Á Íslandi talar maður íslensku. Það er fáránlegt að við skulum á nokkrum misserum hafa ákveðið að það sé sjálfsagt að þurfa að nota ensku í búðum, á kaffihúsum, veitingastöðum, bensínstöðum osfrv. Sigurjón í Bankanum var ekki að bergmála annað en þann veruleika sem þegar er við lýði.

Á meðan stöndum við sem ætlum þessu tungumáli að halda margbreytileika sínum, tjáningarhæfni, breidd, stílfegurð, hljómfegurð og þýðu í stappi við að koma út einföldustu hjálpartækjum til að fást við þennan nýja veruleika. Á meðan kannanir í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi sýna sífellt meiri lestur allra, ekki síst ungmenna, sjáum við hið gagnstæða. Sífellt færri lesa bækur, sífellt færri lesa blöð og efni á rafrænu formi er vanburða og fálmkennt og engin stefna til á því sviði. Við þurfum orðabækur fyrir nýju málin sem töluð eru hér heima, við þurfum aðlögun að fjölþjóðaveruleikanum og við þurfum þennan Rask Magnússon sem einn daginn er leiður á að liggja á sinni Gnitaheiði með gullið undir halanum, hættir við að kaupa Formúluna og NLF deildina og ákveður í staðinn að bjarga móðurmáli sínu frá því að deyja út á 21. öldinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband