Fyrsti þýðandi Nýja testamentisins

Í allri Biblíuþýðingaumræðunni er eins og menn staldri við þýðinguna frá 1981 og svo 1912 sem hinar einu og réttu versjónir af orði Guðs. En er ekki réttara að nota fyrstu þýðinguna, Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar? Ef maður ætlar að vera alveg viss um að vitna í almennilegan orginal. Oddur þýddi Nýja testamentið eins og kunnugt er í fjósinu í Skálholti á árinum 1535-1537 og kom bókinni í prent 1539. Lokið var við verkið 12. apríl 1540 í Hróarskeldu og svo stímdi Oddur heim með upplagið í gámi með alla pappíra í lagi frá Kristjáni III. Að öllum líkindum fékk hann blýsmiði í Danmörku til að búa til stafinn þ til að samrýmast sérkröfum Íslendinga.

Nú eru til fjögur heil eintök af þessari bók sem er fyrsta bókin sem prentuð var á íslensku með fullri vissu. Það furðulega er að útgefandinn var Oddur sjálfur, ekki kirkjan eða krúnan, þótt Oddur hafi að sönnu fengið Skálholtsbiskupsdæmi og Krúnuna sem styrktaraðila fyrir verkefnið. Oddur átti eftir að gefa út bækur fyrir eigin reikning eftir þetta og þýða fjölmargar sem gefnar voru út eftir hans dag og prentaðar hér heima og erlendis.

Það er því fyllilega ástæða til að minnast þessa fyrsta íslenska bókaútgefanda nú þegar við gleðjumst yfir nýjustu Biblíuþýðingunni, sem eins og kunnugt er, er reist á meiri þekkingu á menningu, tungumáli og siðum þeirra sem rituðu bækur Biblíunnar en þýðendur hennar hafa nokkru sinni fyrr tjaldað til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband