Guðbergur í mynd

Guðbergur Bergsson er líklegast eini íslenski rithöfundurinn sem ég lagt mig í líma við að lesa hvert einasta snitti eftir, jafnvel gamlar greinar á blaðavélunum á Þjóðarbókhlöðunni. En ef ég er beðinn um að segja eitthvað um Guðberg vefst mér alltaf tunga um tönn. Það er ákaflega erfitt að nálgast höfundarverk hans, ekki af því að hann sé "erfiður" höfundur, raunar er hann þvert á móti, mjög aðgengilegur höfundur að öllu leyti, heldur finnst manni maður komast alltaf alltof skammt. Á bak við verk hans er flókinn vefnaður sem er ekki heiglum hent að rekja upp og þegar maður fer að fimbulfamba um tengsl og vensl er maður fljótur að reka sig á múra auk þess sem þekkingarleysi mitt á spænskum bókmenntum hamlar för.

Svo má ekki gleyma því að Guðbergur býr sjálfur til ritskýringar við eigin verk. Heimildarmyndin Rithöfundur með myndavél sem var sýnd á RÚV núna á sunnudagskvöldið er gott dæmi um það. Það var mjög skemmtilegt að sjá myndir Guðbergs sjálfs og heyra hann ræða um tilurð þeirra, ekki síst myndirnar frá Portúgal, magnað að sjá Lissabon á áttunda áratugnum og raunar einnig í dag, þá fallegu og raunalegu borg. Hin fagurfræðilega og pólitíska hlið Guðbergs á gríðarlegt erindi til samtímans og þótt mér þættu myndirnir af Guðbergi í eldhúsinu í Barcelona og í Grindavík orðnar nokkuð margar, hýrnaði yfir manni þegar Guðbergur tengdi saman sýn sína á mótstöðu íslensks almennings nú á tímum, byltinguna í Lissabon og viðhorf almennings í Suður-Evrópu til valdhafa. Senan þegar hann tók við heiðursborgaraviðurkenningunni í Grindavík var síðan stórbrotin. Þeir bræður Guðbergur og Hinrik léttir og kátir og í miklum sving en sveitastjórnin sliguð af þunga, konan í upphlutinum var svo alvarleg að það virtist sem ætti að kveða upp dauðadóm yfir skáldinu.

Það er kunnara en frá þurfti að segja að um þessar mundir mæla fæstir því bót sem Guðbergur hefur að segja. "Er hann ekki orðinn elliær, karlinn," sagði maður við mig um daginn. Mér fannst þessi fína heimildamynd einmitt sýna okkur að svo er ekki. En það verður að setja hugsun hans í samhengi og kannski ósanngjarnt að ætlast til þess að hann geri það sjálfur, maður sem hefur þýtt um hundrað bækur, skrifað þúsundir greina og frumsamið marga tugi bóka. Hann hefur ekki setið auðum höndum. Nú er í raun komið að okkur hinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband