Færsluflokkur: Bækur
8.7.2008 | 22:45
Þriðji hvítabjörninn - samsæriskenning
Norður í Skagafirði logar allt í umræðum um hvítabirni. Fólk telur ómaklega að sér vegið, það vill drepa hvítabirni og skilur ekki allt havaríið í vitleysingunum í 101 sem eru orðnir svo vankaðir í heilanum af mjólkurskúmsþambi með kaffinu sínu að þeir sjá ekki rautt, heldur hvítt. Fólkið er hrætt við þessar skepnur því þær virðast berast á land með dularfullum hætti og birtast skyndilega í þokunni. Börn sjá þeim bregða fyrir og er ekki trúað en svo skíta þeir á þjóðvegina.
Spár um að svona líti komandi ár út, full af flakkandi hvítabjörnum, leggjast ekki vel í menn. Þeir sjá fyrir sér að fólk verði almennt vopnað, ég heyrði talað um námskeið fyrir íbúa Skagafjarðar og Húnaþings um varnir gegn hvítabjörnum. En fyrst og fremst er táknfræði hvítabjarna öfug við táknfræðina í fjölmiðlum heimsins. Hér á að drepa hvítabirnina eins og skot, á forsíðum blaða hins vestræna heims á að vernda þá. Báðir aðilar eru að sjálfsögu ekki að tala um hvítabirni, heldur eigin sál.
En athyglisverðust er kenningin um þriðja björninn. Því er haldið fram að þriðji björninn sem Sævar á Hamri dreymdi fyrir hafi í raun gengið á land, hann hafi sést þegar málsmetandi borgarar Skagafjarðar gengu fram á hann á Skaga og tóku af honum mynd (sem búið er að reikna út með vísindalegum hætti að geti ekki verið af hrút) en síðan verið drepinn í kyrrþey af sérstakri dauðasveit ríkislögreglustjóra undir forystu Stefáns "lík"Vagns Stefánssonar lögreglustjóra og grafinn í skjóli þokunnar. Hvítabirnir eru nú orðnir eins og geimverur. X-skýrslur um hvítabirni og leynilegar dauðasveitir sem skjóta þá með hljóðdeyfum munu vera geymdar í öryggishvelfingum dómsmálaráðuneytisins.
Þórunni var ekki sagt neitt frá þessu. Raunar mun hún ekki einu sinni hafa gefið út dauðaskipunina á hvítabjörn númer tvö. Stórskyttan frá Nautabúi felldi hann víst með meistaraskoti þegar hann var á ferð í 300 metra fjarlægð. Það þurfti bara eitt skot til að fella dýrið og ekki meir, beint í hausinn, en Þórunn var víst ekki búinn að segja gó, hún minntist bara á að kannski væri rétt að fara að huga að því að kannski væri rétt að fella dýrið. Skyttan þurfti ekki meira. Samfylkingin og tvíl hennar kristallast í þessari sögu. Ráðvilltur ráðherra andspænis eindreginni kröfu landsbyggðarinnar um fórnarblóð og Töfraskyttan með putta á gikk en umhverfisvinirnir á hina hönd með óljósar kröfur um flutning í búri sem minnti á spýtnabrak (var búrið inni í kassanum eða var kassinn búrið?). Eftirá var víst látið líta svo út að þetta hefði verið skipulagt, en var víst ekki skipulagðara en þetta. Þessi leyniskýrsla er bæði í dómsmálaráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu.
Bækur | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2008 | 00:39
Ríki Satans
Þeim sló saman á undarlegan hátt fréttunum af Ríki Satans, sem Íransforseti talaði um í Róm og því Ríki Satans sem Vestfirðingar vinna nú að því að stofna. Nafnlaus fulltrúi nafnlauss fyrirtækis sem ekki má nefna vegna viðskiptahagsmuna kom í vetur hingað til lands og ákvað að einn fallegasti staður landsins væri einmitt staðurinn fyrir olíuhreinsunarstöð. Hann fékk í lið með sér svartklæddan mann sem sagður var ráða sveitarfélaginu Vesturbyggð og sagði glaðhlakkalegur, klæddur svörtu bndi og svörtum jakka og svartri skyrtu, að 99,9% öruggt væri að þessi perla náttúrunnar yrði eyðilögð. Það þarf einhverja stórkostlega tilfinningalega fötlun til að telja að Hvesta sé hinn fullkomni staður fyrir olíuhreinsunarstöð, maðurinn hlýtur því að vera ekki með sjálfum sér. Ég geri ráð fyrir að hann sé andsetinn og muni koma til sjálfs sín einn daginn og uppgötva að hann er á valdi óhreinna rússneskra anda.
Ég hélt raunar að búið væri að festa Hvestu á kort með fallegustu stöðum landsins fyrir löngu, vísa til að mynda til ljósmynda Sigurgeirs Sigurjónssonar og Páls Stefánssonar af þessum magnaða stað, meiriháttar myndir til að mynda í bókunum Landið okkar og Land, en heimamenn eru greinilega líkir mörgum öðrum sveitastjórnarmönnum, til að mynda þeim sem ráða sveitarfélaginu Ölfusi, að hata náttúruna svo mikið að þeir virðast ekki unna sér hvíldar fyrr en fegurð hennar hefur verið útmáð.
Oft les maður um heimamenn sem berjast vonlausri baráttu við að vernda umhverfi sitt fyrir valdboðum að ofan. Á Íslandi er þessu öfugt farið. Þar berjast þeir "fyrir ofan" vonlausri baráttu við heimamenn sem líta á það sem mannréttindi að tortíma sameiginlegum arfi þjóðarinnar, náttúrufegurðinni, sem ásamt menningu okkar, tungumáli og bókmenntum, eina ástæðan fyrir því að við eigum einhvern snefil af sjálfsmynd. En þegar hinir nafnlausu fulltrúar nafnlausra fyrirtækja sem almenningur má ekki fá að vita neitt um eru þegar búnir að tryggja sér fullan stuðning náttúruhataranna fyrir vestan er víst ekki von á góðu. Eins og maðurinn sagði, hann ræður þessu, og enginn getur sagt neitt.
Í svona stöðu er líklegast best að hætta að reyna að berjast fyrir því að náttúran verði vernduð á Íslandi. Látum hana fara til andskotans. Það er einmitt það sem "heimamenn" alls staðar vilja. Leyfum Ríki Satans að blómstra með öllum sínum nafnlausu fyrirtækjum og förum svo héðan burt til Ascension eða Madeira og látum þessa eyju verða drullunni og Rússunum að bráð. Það rann endanlega upp fyrir mér að háværum og ráðandi minnihluta þjóðarinnar er skítsama um lífið, menningu sína og náttúru. Þessir menn vilja fyrst og fremst grundvalla Ríki Satans því hverjum öðrum en djöflinum myndi detta í huga að byggja iðnaðarver einmitt á fegurstu stöðum landsins?
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2008 | 23:40
Dyr að nýjum heimi
Ég var að snattast í bílnum seinnipart mánudags þegar þýð rödd Eiríks Guðmundssonar steig upp úr hátölurunum: Hann var að tala um auglýsingu Félags íslenskra bókaútgefenda í tilefni af Viku bókarinnar. "Jæja, hugsaði ég. Fer þetta eitthvað í taugarnar oddaflugsfólkinu ?" En það var ekki. Þvert á móti var auglýsingin í Fréttablaðinu honum innblástur, þessi dularfulla mynd sem sýnir konu í vorverkunum staldra við þegar ljós berst út um dyr þar sem bókarspjald er hurðin. Mitt í áköllum fyrirtækjanna um meiriháttar niðurfellingu og ofsaafslátt virkaði þessi ljóðræna skilaboðahvíld eins og hún átti að gera: Bækur eru magnaður miðill sem býr yfir dularfullu seiðmagni - dyr að nýjum heimi.
Nú er Vika bókarinnar skollin á af fullum þunga. Á miðvikudaginn er dagskráin þéttskipuð viðburðum: Afhendingu þýðingarverðlauna á Gljúfrasteini, afhendingu barnabókaverðlauna menntaráðs Reykjavíkurborgar, Steins Steinarskvöld í Iðnó og svo allt hitt sem maður veit ekki um.
Og mér hefur verið bent á að Vika bókarinnar er alls ekki séríslenskt fyrirbæri heldur sett upp að hollenskri fyrirmynd. Þar skrifa höfundar sérstaka bók sem síðan fylgir með í innkaupum ef keypt er fyrir ákveðna upphæð og raunar var sá háttur hafður á hér í nokkur ár. Mér var líka bent á að Dagur bókarinnar er blóma og bókadagur í Finnlandi og að Helsinki er undirlögð af upplestrum, þar á meðal miklu upplestrartjaldi í miðborginni. Góð hugmynd: Ef hægt væri að endurlífa hugmyndir Vilhjálms Egilssonar um rökvæðingu íslenskra frídaga væri hægt að færa sumardaginn fyrsta yfir á Dag bókarinnar og þá værum við með bókskrúðgöngur skáta! En ef tjaldað væri yfir Lækjartorg og sett upp heilsdagsbókmenntadagskrá? Nú eða ef skrúfað væri niður í músakkinu í Smáralindinni eða jafnvel tjaldað yfir efsta dekkið á bílastæðinu við Kringluna.
Miklir möguleikar bíða ...
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2008 | 22:45
Dagar bókanna
Vika bókarinnar hefst nú á mánudaginn. Hún er séríslensk uppfinning, hnituð í kringum alþjóðlegan dag bókarinnar og höfundarréttar sem UNESCO kom á fót og setti niður 23. apríl, á messu heilags Georgs, sem alveg óvart er afmælisdagur Halldórs Laxness. Í ár er Vika bókarinnar raunar haldin í tíundasta skiptið.
Draumur bókaútgefenda, bóksala og höfunda hefur frá upphafi verið að þessi tími væri einhvers konar allsherjar hátíð bókanna, þá myndi samfélagið ekki snúast um annað en bækur í nokkra daga. Það markmið á enn eftir að uppfyllast en það má hugga sig við að skrefin í áttina þangað eru jafn mikilvæg og leiðarlokin.
Ástæðan fyrir því að UNESCO valdi þennan dag er að á messu heilags Georgs er haldið upp á sérstakan dag bóka og rósa á Spáni. En hæst rís þó hátíðin í Katalóníu. Heilagur Georg er verndardýrlingur Katalóna og þar varð til sú hefð að gefa á þessum degi sérhverjum bókakaupanda rós í kaupbæti. Úr varð svo gífurleg kaupmennskuhátíð að myndarlegur partur heildarársveltu bóksölunnar í Katalóniu grundvallast á þessum eina degi. Þar sem bóksöluhefðir okkar hafa frá seinna stríði verið í beinu sambandi við jólaverslunina og miðast við smekk annarra en kaupenda bókanna (við keyptum bækur fyrir aðra en okkur sjálf) höfum við, eins og raunar margir aðrir, séð þessa katalónsku hefð í mildu draumljósi.
Enn og aftur þurfum við meiri og betri rannsóknir á bókamarkaðinum til að geta fullyrt nokkuð um breytingar á honum en það var athyglisvert að sjá niðurstöður úr árlegri Capacent-könnun Félags íslenskra bókaútgefenda þar sem spurt var um "einkaneyslu" bókakaupenda. Þar kom fram að nálega 70% aðspurðra höfðu keypt bækur handa sjálfum sér á árinu 2007. Fólk var ekki beðið um að sundurliða það frekar þannig að hér eru áreiðanlega að hluta skyldukaup, svo sem skólabækur, en miðað við það sem bóksalar og bókaútgefendur segja er straumurinn í þessa átt augljós: Bókamarkaðurinn á Íslandi er að breytast úr gjafamarkaði í neyslumarkað.
Vika bókarinnar átti frá upphafi að vera ein af leiðunum til að gera heilsársmarkað fyrir bækur mögulegan. Það sem hefur þó breytt mestu í þá veru er ekki endilega þessi sérstaka bókavika, heldur sú staðreynd að framboð á ódýrum bókum á fyrrihluta ársins hefur tekið algjörum stakkskiptum. Nú eru komnar út um 50 kiljur það sem af er ári og það telst vera met. Kiljuútgáfa án stuðnings bókaklúbba var mjög erfið fyrir aldamótin síðustu. En síðustu árin hefur mikið breyst og nú er svo komið að kiljur eru auglýstar jafn stíft og innbundnar bækur á jólamarkaði. Vika bókarinnar er staðsett á hárréttum tíma í þessu útgáfuferli, mitt á milli vetrarmánuða og páska og síðan vorsins og sumarupphafs þegar sumarleyfismarkaðurinn tekur við. Hún er því hin fullkomni tími til að markaðssetja bækur sumarsins og minna á það sem gert hefur verið mánuðina á undan. Forsenda þess að hún sé eitthvað er líka að til séu bækur.
Fyrir tveimur árum settu Félag íslenskra bókaútgefenda og bóksalar í gang átakið Þjóðarargjöf til bókakaupa. Með því er fólk hvatt til kaupakaupa með beinum fjárstuðningi. Í raun skuldbindur félagið sig til að borga út mörg hundruð milljónir, sem er í raun ákaflega brattaralegt svo ekki sé meira sagt. Glitnir studdi átakið árið 2006 og 2007 en nú er þröngt í búi þar eins og á fleiri bankabæjum og því veður Félag íslenskra bókaútgefenda nú í verkefnið eitt og óstutt. Næsta þriðjudag hefst dreifing ávísana en jafnframt geta allir beðið um ávísanir í bókabúðum og prentað meiri peninga á bokautgafa.is. Verkefnið hefur vakið mikla athygli já systurfélögum okkar á Norðurlöndum og þykir djörf leið til að auka bóksölu á afmörkuðum tímum ársins.
Um leið þenur Félag íslenskra bókaútgfenda út starfsemi sína og hefur birtingar á auglýsingaröð sem ætlað er að sjáist næstu árin til áminningar bókinni. Fyrsta afraksturinn má sjá í opnuauglýsingu í Mogganum í dag og næstu mánuði og misseri fylgja svo fleiri slíkar auglýsingar.
Þær eru birtar vegna þess að við sem komum nálægt bókaútgáfu og miðlun ritaðs orðs erum þess fullviss að ef hér á að vera líf verður að vera til öflug menning, útbreiðsla þekkingar og samfélag sem elur á samræðu, umburðarlyndi og menntun. Við trúm því að rituð orð - prentuð orð og stafræn - séu langmikilvægustu leiðirnar til þess að skapa gott samfélag og andlega uppljómað fólk.
Bækur | Breytt 20.4.2008 kl. 07:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2008 | 00:37
Tjáningarfrelsi og höfundarréttur
Undanfarna mánuði hef ég fylgst með úr návígi nokkrum uppákomum sem hafa sannfært mig um að almennt eru Íslendingar þeirrar skoðunar að tjáningarfrelsi sé ekki mjög merkilegur hlutur. Ef hægt sé að banna tjáningu óvinsælla skoðana eigi skilyrðislaust að gera það. Furðulega oft eru þeir sem vinna við miðlun upplýsinga og hafa jafnvel ritstörf að lifibrauði þeirrar skoðunar að dómsvaldið eigi að koma til skjalanna þegar það sem útlendingar kalla "hatursorðræða" er á ferð. Jafnvel þótt annað slagið megi heyra áhyggjur, til að mynda frá Blaðamannafélaginu, um stöðu meiðyrðalöggjafarinnar virðast flestir á því að lögin og dómstólarnir eigi fremur að vernda tilfinningar móðgunargjarns fólks en frjálsa tjáningu.
Í Morgunblaðinu 4. apríl er frábært viðtal Karls Blöndal við Alan Dershowitz, sem hefur raunar gert ótrúlega marga vitlausa í gegnum árin og ég minnist þess að honum var lýst sem syni andskotans af mörgum í O.J. Simpson málinu. Ég gerði mér hins vegar enga grein fyrir hvaða sýn hann hefði á þessi mál, af hverju hann stæði í því að verja svona menn, fyrr en ég las þetta viðtal, sem er í raun ein allsherjar vörn fyrir tjáningarfrelsinu. Sú grundvallarsýn að það sé ekki hlutverk dómstóla og laga að ákvarða hvaða skoðanir megi heyrast og að einmitt "hatursorðræðu" eigi ekki að banna, er hins vegar mun erfiðari í framkvæmd en menn gætu haldið. Hann tekur dæmi af því að málflutningur Hamas eigi að heyrast í ísraelskum fjölmiðlum. Róttækt dæmi því Hamas viðurkennir ekki tilverurétt Ísraelsríkis og á sér málefnaskrá (sem lesa má hér) sem er lítið annað en samansúrraður þvættingur, uppfull af samsæriskenningum um "eðli gyðingdómsins" sem til að mynda eru teknar upp úr lygariti leynilögreglu Rússakeisara um Bræðralag Síons. En eins og hann segir: Allt á að vera uppi á borðinu. Þegar maður byrjar að banna er erfitt að hætta.
Þessi eðlilega en um leið erfiða krafa um tjáningarfrelsi er gerð flóknari vegna þess að henni er sífellt ruglað saman við eignarréttarhugsunina að baki höfundarrétti. Ég sé til dæmis að bloggvinkona mín Salvör Gissurardóttir heldur enn uppi skeleggum vörnum fyrir því að skapandi kraftar þekkingarsamfélagsins verði leystir úr læðingi með nýrri höfundarréttarhugsun sem dragi dám af nýjum miðlunarleiðum sem opnast hafa með tilkomu Netsins. Salvör er ein af þeim sem telja að leggja beri eignarrétt niður á hugverkum því hann sé ekki samrýmanlegur veruleika nútímamiðlunar og standi í vegi fyrir lýðræðisvæðingu tjáningarinnar. Hún hefur tekið einarða afstöðu með sjóræningjamiðlurum gegn höfundarréttarsamtökum og í nýrri færslu, ritaðri í tilefni af umræðunni vegna dóms Hæstaréttar í máli Laxness-fjölskyldunnar gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, stillir hún upp með mögnuðum hætti aðstæðum sem skoðanasystkini hennar um allan heim hamra sífellt á í ræðu og riti: Að höfundarréttarákvæði og skilningur laga á eignarréttarákvæðum í honum sé hindrun fyrir frjálsa tjáningu (zombí-kaflinn er kómísk perla).
Um leið gerir hún því skóna að þetta sé afstaða hinna uppreisnargjörnu, þeirra sem vilji leysa tjáninguna úr læðingi. Ég held hins vegar, og held að allir góðir menn og konur þessa lands og víðar geti tekið undir með mér í því, að skilgreining eignarréttar sé grundvöllur skynsamlegrar nýtingar og þess að menn fari vel með verðmætin. Verðmætasköpun í menningariðnaði er bundin skilgreiningu á eignarrétti, verndun höfundar- og útgáfuréttar. Við vitum að ný tækni ögrar þessum skilgreiningum og við vitum að upp að vissu marki eru þekkingardreifingu nú sett mörk sem ríma ekki við veruleika miðlunarleiða samtímans. En þeir sem berjast hvað mest þessi misserin fyrir róttækri breytingu á þessu eru í raun ekki torrentsíðumenn, heldur stjórnvöld, til að mynda búrókratarnir í Brussel. Hinir sem eru mjög hrifnir af afnámi eignaréttar á hugverkum eru fyrirtæki á borð við Google sem vilja búa til stóra gagnagrunna til að selja auglýsingar. Hafi verðmætasköpun slíkra fyrirtækja verið settar skorður vegna höfundarréttarávæða hingað til segja menn nú að verðmætasköpun þeirra sé á einhvern hátt "sérstök", í raun mikilvægari en hefðbundin verðmætasköpun gegnum bækur, diska og kvikmyndahús.
Með öðrum orðum: Litli Jón sem gaf út bók fyrir tveimur áratugum sem nú er uppseld á ekki rétt á greiðslu fyrir afnot af henni þegar hún er komin inn á rafrænt form, vegna þess að ekkert eintak hefur selst í 18 ár og bókin ófánanleg. Hann bjó ekki til netið, hann skapaði ekki gagnagrunninn sem bókin hans er komin í og hann hefur ekkert að segja um það hvernig frelsishetjur netsins hakka niður textann hans og nota í sín rit sem þeir gefa út og þyggja höfndarlaun fyrir í gamla góða efnislega höfundarréttarkerfinu. Hann á fyrst og fremst að vera þakklátur fyrir að hafa lagt sitt af mörkum til eflingar tjáningarfrelsinu og mögnunar á skapandi kröftum nútímans. Með öðrum orðum: Eignarrétturinn er lagður til hliðar svo skapa megi afurðir sem aðrir hagnast á. Þetta er í raun þjóðnýting á hugverkum, eða kannski alþjóðanýting á hugverkum.
Þessi mál eru til stöðugrar umræðu á alþjóðlegum vettvangi bókaútgefenda og höfunda. Ég hef ekki tölu á þeim málstofum og ráðstefnum sem mér hefur verið boðið á undanfarin ár þar sem þetta er til umræðu. "Digital rights" er skylduumfjöllun dagsins og málefni höfundarréttar eru svo sannarlega í deiglunni þessi misserin. Í þarnæstu viku er þing sambands bókaútgefenda í Evrópu sem haldið er á bókamessunni í London. Aðalumræðuefnin þar snúast um hin mörgu dírektíf sem Evrópusambandið gefur út um höfundarréttarmál. Þann 28. apríl næstkomandi verður stór ráðstefna hér í Reykjavík á vegum Fjölís um höfundarréttarmálefni, ekki síst um notkun höfundarréttarvarins efnis. Í viku bókarinnar mun verðandi heimshöfuðborg bókarinnar, Amsterdam, hýsa tveggja daga risaráðstefnu um allar hliðar höfundarréttarmála og núverandi heimshöfuðborg bókarinnar, Bogota, mun hýsa slíka ráðstefnu líka. Ég minni á að Dagur bókarinnar, 23. apríl, er í senn tileinkaður bókinni og höfundarrétti og að UNESCO helgar höfundarrétti þennan dag til að minna á að höfundarréttur og virðing fyrir honum er nauðsynleg forsenda öflugrar bókaútgáfu.
Í dag var borinn til grafar einn mikilhæfasti bókaútgefandi sem Ísland hefur átt, Ólafur Ragnarsson. Eitt af afrekum hans var að byggja upp öflugt útgáfufyrirtæki sem tókst nánast hið ómögulega, að gera verk Halldórs Laxness að meiriháttar söluvöru eftir stöðnunarskeið. Hann gerði útgáfusamning við Halldór og seinna erfingja hans sem tryggðu honum einum réttinn til að gefa bækurnar út. Aðeins af þeim sökum gat hann lagt í þær miklu fjárfestingar sem prentun fjölmargra titla sem seljast sumir hægt og hljótt fela í sér. Í umhverfinu sem Salvör mærir hefði hann ekki getað þetta því þá hefði "spennitreyja höfundarréttarins" verið afnumin og því hefðu allir getað hakkað verk HKL í spað og gefið þau út eins og þeim sýndist. Það gæti verið áhugavert að sjá útkomuna úr því "rímixi" en það hefði ekki byggt upp fyrirtæki á borð við Vöku-Helgafell. Enn og aftur: Skilgreining eignaréttar býr til verðmæti og tryggir skynsamlega umgengni við auðlindir. Hver er það aftur sem hefur varið þessa skoðun með kjafti og klóm nú hátt á fjórða áratug?
Bækur | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2008 | 00:18
Hugleiðingar um kreppuna
Fyrir aðeins ári síðan náði hugmyndafræðileg hugarfarsinnræting kapítalískra kauphátta hér á landi táknrænu hámarki þegar gamla Olíufélagið Esso breyttist í fjölþætta þjónustufyrirtækið N1. Til þess að syngja innsiglissálm fyrir sambræðing sundurleitrar hjarðar smurstaða, bensínsölustaða og varahlutaverslana voru félagarnir í hljómsveitinni Queen kvaddir til og stafnbúi þeirrar sveitar, Freddie Mercury, tónaði yfir þeim örfáu Íslendingum sem enn voru ekki á þeim tímapunkti" sannfærðir um að Ísland væri heimaland hinna ríku, djörfu og mögnuðu: Don't stop me now! I'm having such a good time." Allur sá heillandi barnaskapur og bjartsýnisandi sem einkenndi íslenska efnahagsundundrið skrapp saman í einni línu - anda tímans.
Um þetta leyti, fyrir aðeins einu ári, hafði skapast nokkurskonar hefð fyrir því að framfaramenn samfélagsins gæfu tímamótum í lífi sínu inntak með því að kveða til helstu stærðir vestrænnar dægurtónlistarsögu. Með því að stilla þessari hefð upp með myndbrotum sem sýndu heilt samfélag á fullri ferð áfram, sama hvað leið veðri, vindum, fjöllum, firnindum og öðrum náttúrulegum farartálmum, öðluðust hin séríslensku góðærisgildi - The Icelandic way of doing things - sína efnislegu mynd. Hérlendir listamenn höfðu annað hvort ekki enn vaknað upp til veruleika tímans eða höfðu ekki nógu skýra sýn á veruleikann. Þess vegna öðlaðist góðærið ekki varanlega táknmynd í listaverkum og þess vegna varð það hlutverk auglýsingaleikstjóra að orða inntak tímanna til fullnustu: Don't stop me now! I'am having such a good time."
Miðvikudaginn fyrir páska heyrði ég þetta stef í útvarpinu, rétt ofan í fréttir af lægðagangi efnahagslífsins. Það var í senn þrungið eftirsjá og nöprum beyg. Þessi sjálfumglaði fjörkálfasöngur myndi aldrei aftur hljóma á saklausum forsendum ensku hljómsveitarinnar Queen og hins burtsofnaða forsöngvara hennar heldur aðeins minna mann á það tímabil nýliðinnar sögu að framboð lánsfjár var umfram eftirspurn. Sú staðreynd að söngurinn skyldi enn vera sunginn bar merki einhvers konar hetjulegrar þrákelkni. Stefið í útvarpinu var heldur ekki hinn hraði hluti lagsins þar sem Queen-sveitin tónar öll í öflugum rokksamkór með hetjuróm: Don't stop me now!", heldur hægi hlutinn, diminuendo-parturinn, þar sem Queen lætur atkvæðin fleyta kerlingar á sléttum sjó svo þau skoppa hnitmiðað út í tómið. Hægagangurinn í söngnum, það hve andstuttur kórinn er, dregur fram að aflið sem meinar fjörinu að halda áfram er of sterkt. Einhver eða eitthvað er grátbeðið um að stöðva ekki ferðina áfram, vitandi að það er ómögulegt. Í ljósi þess að refsisverð Sögunnar hafði höggvið að rótum efnahagslegs sjálfstrausts þjóðarinnar rétt áður varð hljómurinn í laginu svo sorglegur. Það tjáði ekki lengur bjartsýnina og uppganginn. Það tjáði söknuðinn eftir bjartsýninni.
Eins og sakir standa geta fjölmiðlar á Íslandi ekki með góðri samvisku selt bjartsýni og uppgang. Það er kreppan sem selur. Grein í 24 stundum um gamalgróið vandamál, veggjakrot á Laugavegi, fær fyrirsögnina Kreppa á Laugavegi". Sjónvarpsfréttir RÚV og útvarpsfréttir Rásar 1 rekja samviskusamlega teikn og ummerki hrapsins. En á engan er hallað þegar sagt er að Morgunblaðið hafi haslað sér völl sem helsti söluaðili kreppunnar hérlendis. Þar blasti fyrst við sú fullkomnma eymdarsamfella sem aðrir fjölmiðlar streða við að búa til. Hvern dag greiða árvakrir áskrifendur fyrir breiðsíðu áminninga um tyftun og straff fyrir freklegan hofmóð fjármagnseigenda og almennings. Og þótt skilaboðunum hafi verið komið á framfæri og besta leiðin til að fá ráðvilltan múginn til að hlusta sé að nefna nafn kreppunnar, er enn mikið að starfa. Enn dansa bjánarnir þótt búið sé að skjóta hljómsveitina. Forherðing þeirra sem keyptu Range Rover eða pöntuðu sér utanlandsferð þegar búið var að blása til samdráttar hlýtur að vera steini lík. Því má nú sjá farandpredikara úr leikmannareglum stjórnmálaflokkanna á stjákli í bloggþorpinu með iðrunarólar á lofti í von um að hitta fleiri krossburðarmenn, hrópandi hátt um að menn geri nú yfirbót strax svo afstýra megi enn stærra straffi. Hættið að kaupa!
Er nema von að venjulegt fólk sem búið hefur við uppgíraða bjartsýnisinnrætingu í góðan áratug hiki aðeins. Það þætti ekki góð lexía í tamningu á hrossi að rugla skepnuna svona. Hætt við að hún glutraði niður ganginum eða yrði vitlaus í taumum. Hvað svo þegar næsta uppsveifla kemur? Þá verður aftur að kveikja á hreyflunum og opna fyrir áveitukerfið og aftur að telja sem flestum trú um að það séu mannréttindi að deila lífsstíl sínum með efri millistéttum þróaðra iðnríkja sem eiga sér alvöru gjaldmiðil en ekki skopparaboltakrónu: Don't stop me now!"
Það er ekki nema ár síðan menningarbylting bjartsýninnar reis hæst með takmarkalausri trú á að engar hindranir væru í vegi Íslendinga, allra Íslendinga. Hugmyndafræði efna- og valdastéttanna varð að sameiginlegum viðmiðum samfélagsins. Árangur þeirra var ausinn lofi af sömu fjölmiðlum og nú stíga varfærin og hikandi skref inn í nýja kreppuorðræðu sem á köflum minnir á talsmáta valdastétta 16. og 17. aldar þar sem áföll samfélagsins og hræringar náttúrunnar voru talin bein afleiðing yfirskilvitlegrar ákvarðanatöku. Sú samlíking er langt frá því út í hött. Enn og aftur er allur almenningur ávarpaður í nafni hagsmuna sem að síðustu eru honum huldir. Einhverjir hafa af því hag að kreppan magnist, annars væri hún ekki boðuð af jafn miklu offorsi. Um leið er talað um kreppuna sem rökrétta afleiðingu þess að grundvallarlögmálum hafi verið storkað. Don't stop me now!" er ekki lengur kokhraust hróp, heldur klökk bæn: Don't stop me now ..." í veikri von um að einhver ókunnug öfl heyri og rjóði dyrastaf okkar með blóði svo refsiengill kreppunnar gangi framhjá en rispi ekki kaupleigujeppana. Næstu vikur og mánuðir leiða í ljós hvort einhver sé að hlusta ...
(Birt í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 29. mars)
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2008 | 00:00
Froststrókur
Það var stefnt á hópferð á Skírdag upp á fjöll en svo heltust allir úr lestinni nema við Hulda sem minnkuðum aðeins umfangið og fórum bara á Vífilsfell. Í staðinn fyrir að vera komin upp á náð og miskunn torfæruböðlanna í Jósefsdal og þeirra einkavegar fórum við upp Bláfjallaafleggjarann og úr gömlu aflögðu malargrúsinni ofan við Sandskeið, síðan upp á fellin og þaðan til norðurs og upp á sjálft Vífilsfellið.
Þetta var á engan hátt stórsöguleg ferð, enda hef ég ekki tölu á hve oft ég hef komið þarna upp, en Hulda var að fara þetta í fyrsta skiptið, og það er alltaf gaman af því að sýna fólki svæðið, sem er jú eitt besta útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Það er jú tiltölulega gott að komast þarna að, miðað við að það eru í raun aðeins þrjár fjallgönguleiðir á öllu höfuðborgarsvæðinu þar sem gert er ráð fyrir að fólk komi akandi í því skyni að ganga á fjöll, við Mógilsá, Helgafell og Hengilsveginn.
Fáránleiki sveitafélagasundurbútunar Reykjanessskagans er hvað sýnilegastur á Vífilsfelli sem tilheyrir þremur ef ekki fjórum sveitarfélögum: Ölfusi, Kópavogi, Reykjavík og Seltjarnarnesi, en mér skilst að Nesið sé með malarnámunar fyrir norðan Vífilsfell á sínum snærum, hvað sem því veldur. Fyrir vikið virðist öll vitræn uppbygging sem miðaði að því að gera þennan stað að alvöru útivistarsvæði vera vonlaus. Umhverfið ber líka vott rányrkjunni og skeytingarleysinu um náttúruna sem hvarvetna blasir við í nágrenni borgarinnar. Opnar og ófrágengnar malarnámur, drasl, sundurgrafnar hlíðar eftir torfæruhjól og tómlæti anspænis þörfum þeirra sem einfaldlega vilja ganga um þetta svæði en ekki moka því í burtu eða spæna það í sundur. Yfir öllu hangir svo Demóklesarsverð hins framkvæmdaglaða Kópavogsbæjar. Alltaf heyrir maður reglulega ávæning af því að þeir ætli að byggja niðri á Sandskeiði, fyrst hesthús, svo háhýsi, hlýtur að vera.
En við vorum nú ekkert að þusa um þetta uppi á fjallinu. Vorum bara minnt á þetta þegar við sáum gestabókarkassann sem merktur er UMSK og vantar nú lokið svo gestabókin var öll vatnssósa og stokkfreðin, minnti helst á ýsuflak. Á leiðinni niður skoðuðum við svo skemmtilegt náttúrufyrirbæri. Vegna þíðunnar á miðvikudag og þriðjudag var enn leysingarvatn að seitla úr skálinni sunnan og vestan við sjálfan Vífilsfellshrygginn og þetta leysingarvatn var ófreðið í lækjum og tjörnum niðri á Sandskeiði og úti á heiðinni. Hins vegar hafði frostið á Skírdag og nóttina á undan þegar skellt þykkri ískápu yfir allt uppi og við þurftum sannarlega á góðum broddum að halda. Vatnið sem kom undan ísnum var því orðið fremur lítið, eiginlega vart nema smá seitla, en nú var svo hvasst af norðvestan að lækurinn feykist beina leið í loft upp og stóð upp af brúninni eins og gosbrunnur. Vatnið féll svo til jarðar í stórum radíus svo grjótið allt og snjórinn umhverfis voru sýluð. Um leið og við komum þarna að féll smá vindregn á okkur sem fraus á jökkunum okkar þegar í stað, líkt og smáar perlur. Þetta var ótrúlega fallegt og um leið dularfullt, þótt við skildum ástæðurnar fyrir því að vatninu ringdi yfir okkur. Móbergsklettarnir voru svo hreinlega hjúpaðir og ísinn svo tær að hver smáarða sást í gegnum hann og samt var ísinn orðinn ótrúlega þykkur. Ég man ekki eftir að hafa séð þetta áður. En alltaf uppgötvar maður eitthvað og undrast yfir einhverju, jafnvel þótt það sé að koma kreppa.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2008 | 11:27
Námsefnisútgáfa á Íslandi
Á hlaupaársdag, 29. febrúar, stóð Félag íslenskra bókaútgefenda fyrir morgunverðarfundi um námsefnisútgáfu fyrir nemendur á skólaskyldualdri. Staðan í þeim málum er eins og sakir standa nokkuð skrítin. Vorið 2007 voru lög samþykkt á alþingi um námsgagnasjóð, Námsgagnastofnun og þróunarsjóð námsgagna. Aðdragandi þessarar lagasetningar var langur og mér eldri menn höfðu oft og mörgum sinnum komið á fund ýmissa nefnda og starfshópa sem menntamálaráðuneyti hafði skipað til að ræða hugsanlegar breytingar á tilhögun innkaupa námsgagna fyrir grunnskóla og námsgagnagerð í skyldunámi. Úrskurðir Samkeppniseftirlits í fyrra í kærum Æskunnar og Árna Árnasonar á hendur Námsgagnastofnunar um mismunun á námsefnismarkaði urðu hins vegar til þess að nauðsynlegt þótti að breyta lögum um Námsgagnastofnun og um leið koma til móts við sjónarmið þeirra sem hafa talað fyrir minni miðstýringu á innkaupum námsefnis í grunnskólum.
Fyrirhugað var að formaður stjórnar námsgagnasjóðs, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, tæki til máls, en því miður átti hún ekki heimangengt sökum anna, og aðrir stjórnarmenn voru erlendis. Því varð kannski minni umræða en ella um lögin og vonir og væntinar námsgagnasjóðs. Námsgagnasjóður úthlutaði 100 milljónum á síðasta ári til grunnskóla á Íslandi (frekar lág upphæð í raun og veru, 2.300 kr. á nemanda) og mun aftur úthluta 100 milljónum nú í vor. Við bókaútgefendur höfum orðið áþreifanlega varir við að tilgangur og eðli þessa sjóðs er lítt þekktur meðal kennara, og oft einnig meðal skólastjórnenda. Mjög margir vita t.d. ekki að það er yfirleitt hægt að kaupa beint námsefni af útgefanda eða höfundi.
Þorsteinn Helgason, dósent við KHÍ og Ásdís Olsen, aðjúnkt við KHÍ ræddu námsefnisgerðina á faglegum nótum og voru í raun á öndverðum meiði. Þorsteinn er talsmaður varfærni í námsefnisgerð, þ.e. hann hugar að gæðum og gæðahugtakið er í hans augum óhjákvæmileg afleiðing faglegs ferlis í framleiðslu og umfjöllun. Hann benti á þá einföldu staðreynd að í ómiðstýrðu innkaupakerfi námsgagna yrði líka að vera til gagnrýnisapparat, þriðji aðili, sem gæti lagt mat á námsefnið þannig að kennarar og foreldrar gætu haft stuðning af slíku til að velja námsefnið fyrir nemendur. Þannig væri einhvers konar fagmiðill eða hreinlega bara venjulegir fjölmiðlar sem dæmdu námsefni mjög mikilvægur þáttur í að styðja við gæði námsefnis. Án slíks yrði öll umræða um gæði út og suður. Ég held að þetta sé hárrétt hjá honum.
Ásdís er á ómiðstýrðu línunni og raunar á þeirri línu að námsefnið sem slíkt sé ekki mikilvægt, heldur hvernig nemendum er hjálpað til að afla sér upplýsinga sjálfir. Þetta ferli sé undir kennurum komið og miðstýring upplýsingadreifingar inni í grunnskólum sé úr takti við þá skapandi krafta sem nútímasamfélagið hafi leyst úr læðingi með sinni miklu þekkingardreifingu. Framsaga hennar var fyndin, ögrandi og meðvitað mótsagnakennd - óreiðukennd, og miðaði þannig að því að brjóta niður væntingar okkar um línulega, miðstýrða þekkingarmiðlun. Vandamálið er eins og við allar slíkar kenningar að í samfélaginu eru sífelld átök sjálfsstýringar og skapandi óreiðu sem tímaskortur foreldra og kennara hneigist til að beina í sjálfsstýringarátt. Þorsteinn benti á þetta og sagði að í núverandi kerfi væri óðs manns æði að ætla að kennarar hefðu yfirleitt tíma til að taka grundvallarákvarðanir um hvernig námsefni væri miðlað til nemenda. Þeir væru að drukkna í vinnu. Undir þetta tók í umræðum Tryggvi Jakobsson, útgáfustjóri Námsgagnastofnunar. Veruleikinn þurrkar þó hins vegar ekki í burtu draumsýnina. Hún er takmark sem vonandi sem flestir vinna að. Eitt hamlar þó alltof mikið. Of lítið af þeirri þekkingu sem til er á íslensku er á rafrænu formi.
Nú er það svo að margar mismunandi skoðanir eru uppi um þessa meintu miðstýringu. Illugi Gunnarsson, nú þingmaður, stakk til að mynda niður penna um þessi mál áður en hann fór á þing og var þar að mæla með aukinni samkeppni, það væri ólíðandi að menn væru skikkaðir til að kaupa öll námsgögn frá sama útgefanda og að hann væri auk þess eini drefingaraðili námsgagna til grunnskóla. Þetta yrði líka til þess að "dugmiklir kennarar" (trúin á "dugnað" birtist í mörgum myndum) gætu aukið tekjur sínar með námsgagnaframleiðslu. Skilja mátti á honum að nú væri komið að Sjálfstæðisflokknum að brjóta niður gamla múra, hleypa frelsinu inn. Þessi sjónarmið eiga miklu fylgi að fagna meðal stærstu einkarekinna bókaforlaga landsins, en samt er eitt og annað í þessum málflutningi sem þarf að skoða nánar, eins og kom raunar fram á morgunverðarfundinum.
Kennarar halda því nefnilega margir fram að miðstýringin hafi fyrst hafist fyrir alvöru þegar sjálfstæðismaðurinn Björn Bjarnason setti nýja námsskrá árið 1999. Þar séu hendur kennara bundnar. En enn er unnið að breytingum á námsskrá og raunar skipulagi bæði, leik-, grunn- og framhaldsskóla, greinilega með þau sjónarmið að leiðarljósi að stytta námstíma og skófla krökkunum hraðar í gegnum kerfið svo hægt sé að nýta þau betur á vinnumarkaðnum og þar með stuðla að samkeppnshæfni íslenska atvinnulífsins. Þessi riðlun á kerfinu sýnist manni vera þeim nemendum mjög í hag sem búa við hvatningu að heiman og hafa skýr markmið en kannski síður hinum. Þessi breytingartími er hins vegar námsefnisútgefendum erfiður og gæti orðið til þess að t.d. námsefnismarkaður f. framhaldsskóla yrði vart svipur hjá sjón eftir nokkur ár.
Hin undarlega mótsögn er þessi: Yfirvöld menntamála treysta einkareknum bókaútgáfum alfarið til þess að sjá framhaldsskólanemendum fyrir námsefni en stíga varfærin skref í að leyfa þeim að gefa út efni fyrir grunnskóla. Í framhaldsskólageiranum ríkir samkeppni sem drifin er áfram af þörf útgefenda til að mæta óskum kennara og námsskrár annars vegar og hins vegar að vinna gegn tekjutapi af skiptibókamarkaði og ólöglegri fjölföldun hins vegar. Því er "vöruþróun" þarna mikil. Um leið verða þær raddir innan Samfylkingar háværari sem vilja að ríkið greiði námsefni framhaldsskólanemenda. Hvernig nákvæmlega á að standa að því hef ég hins vegar hvergi séð útfært, og held að núverandi kerfi sé gott því það tryggir einmitt fjölbreytni og sveigjanleika og vinnur gegn miðstýringu. Um leið er þetta mikilvægt f. bókasala. Ef einhverskonar heildarinnkaup ríkisins á námsefni fyrir framhaldsskóla væru tekin upp væri það stórkostlegt afturfaraskref. Miklu betra væri að kostnaður við námsefni fyrir framhaldsskóla væri tæklaður með einhverskonar kúponum beint til nemenda eða stærri framlögum úr þróunarsjóði námsgagna. En þar stendur hnífurinn í kúnni.
Bjarni Þorsteinsson, útgáfustjóri námsbóka og almenns efnis hjá Bjarti-Veröld, flutti hugvekju um undarlegt samband ríkisvalds og einkafyrirtækja í námsgagnageiranum. Hann benti á hvernig yfirburðastaða ríkis í útgáfu og dreifingu námsbóka fyrir grunnskóla allar götur frá árinu 1936 hefði á engan hátt leitt af sér samskonar þróun í málefnum framhaldsskóla. Fyrir vikið væru fámennir kúrsar á framhaldsskólastigi í raun námsgagnalausir. Erling Erlingsson framkvæmdastjóri IÐNÚ, sem einkum gefur út námsbækur fyrir iðnbrautir var ómyrkur í máli í umræðum og sagði að menntamálayfirvöld hefðu í raun hætt að nenna að hafa áhyggjur af iðnnámi. Til að mynda væru greinar á borð við húsasmíði án boðlegs námsefnis og í raun væri öllum sama. Á sama tíma væri sífellt verið að hamra á því opinberlega að starfsnám væri svo mikilvægt. Bjarni og Erling voru sammála um að skref hefði verið stigið afturábak með nýju lögunum í því tilliti að þróunarsjóður námsgagna væri nú alltof vítt skilgreindur og að það væri fáránlegt að hann væri sniðinn að þörfum höfunda, þegar ljóst væri að höfundar gæfu sjaldnast út námsefni að endingu. Í stað þess að stuðla að faglegri þróunarvinnu innan bókaforlaganna væri þróunarvinna námsgagna miðuð við að vera einskonar launauppbót kennara. Sjóðurinn hefði áður einungis styrkt námsefni fyrir framhaldsskóla, en styrkti nú öll skólastigin þrjú, leik-, grunn-, og framhaldsskóla. Fjárveitingar væru algerlega úr takti við þann raunveruleika.
Niðurstaða morgunverðarfundarins var að mínu viti ekki nógu skýr eða uppörvandi. Tækifærin sem margir bundu vonir við með lagasetningunni eru enn utan seilingar vegna óvissu um framtíðarskipan skólakerfisins og raunar fáfræði um hvernig nýta megi fjármuni námsgagnasjóðs. Margskonar hugmyndir og kenningar eru uppi um hvernig beri að standa að námsefnisgerð og innkaupum þess án þess að vera nógu skýrt útfærðar. Hvernig hugsa t.d. ungir jafnaðarmenn skyldukaup menntamálayfirvalda á námsefni fyrir framhaldsskóla? Um leið eru uppi augljósir hagsmunaárekstrar milli Námsgagnastofnunar og einkarekinna bókaforlaga, t.d. þegar kemur að þróun námsgagna og kynningu þeirra sem lög um Námsgagnastofnun "skikka" stofnunina til að sinna en brjóta um leið jafnræðisstöðu einkarekinna forlaga og hins ríkisrekna útgáfurisa. Nýjar kærur til Samkeppnisefirlits eru beinlíns letraðar í lagabókstafinn. Mér fannst gott að heyra hve Tryggvi Jakobsson, útgáfustjóri Námsgagnastofnunar, var jákvæður í garð breytinganna og hugsanlegrar samkeppni og fannst það benda til þess að vonandi muni eitthvað gott koma út úr þessu öllu.
Enn er hins vegar mikið verk að vinna ef þessi þróun á að skila því að verða til eflingar almennri bókaútgáfu á Íslandi og íslenskum nemendum til framdráttar.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2008 | 23:45
AND-íslensk orðabók í samkeppni við Íslenska orðabók!
Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um hvernig draga megi úr samkeppnishamlandi áhrifum samruna JPV útgáfu og Vegamóta hefur verið miklu meira rædd en búast mátti við. Svo mikið rædd raunar að forstjóri Samkeppniseftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson, ritar grein sem birtist í Fréttablaðinu á sunnudaginn þar sem hann reifar málin frá sjónarhóli Samkeppniseftirlitsins. Þar kemur skýrt fram leiðrétting á ákveðnum misskilningi sem mér hefur sýnst gæta varðandi þetta mál - en hefði mátt eyða mjög auðveldlega með því að lesa ákvörðunina, sem birt er í fullri lengd á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins - að Samkeppniseftirlitið hafi upp á sitt eindæmi úrskurðað á ákveðin verk og útgáfuréttur þeirra skuli vera seldur. Það var ekki svo, heldur undirstrikar Páll Gunnar það sem lesa má út úr ákvörðuninni, að sátt hafi náðst um ákveðnar aðgerðir til að hindra að samruninn verði skaðlegur bókamarkaðnum. Samkeppniseftirlitið hafi ekki getað samþykkt samrunann og því hafi stjórnendur Forlagsins stungið upp á að ákv. verk og útgáfuréttindi verði seld til að gera hann mögulegan. Þetta kallar Páll Gunnar ábyrga afstöðu og engin styggðaryrði hafa hrotið af vörum forsvarsmanna Forlagsins um þettta mál. Þeir hafa einfaldlega sagt að eitthvað hafi orðið að gera í stöðunni og hér hafi ákveðnum verðmætum verið fórnað til að vernda það sem mikilvægara væri. Þannig má segja að ákveðin sátt sé í málinu og í raun þess vegna vitleysa að agnúast út í ákvörðunina. En þar með er ekki öll sagan sögð.
Guðmundur Andri Thorsson ritaði í Fréttablaðið á mánudegi pistil sem vakinn var af skrifum Páls Gunnars, og allt sunnan frá Maputo skrifar gamall bóksali, Kjartan Valgarðsson innblásna hugvekju um vitleysu Samkeppniseftirlitsins og margur leggur þar orð í belg. Niðurstaðan er alls staðar sú sama: Markaðsráðandi staða Forlagsins er dregin í efa. Þegar nóvember og desember sleppir er í raun aðeins einn smásali sem yfirleitt hefur eitthvað að segja á bókamarkaðnum, héreftir mun hann sjá um að verðleggja vöruna 10 mánuði ársins í samkeppni við ... engan. Samkeppniseftirlitið getur ekki og mun áreiðanlega aldrei fara út í samanburð á aðstæðum við samruna JPV og Vegamóta árið 2007 og Máls og menningar og Vöku-Helgafells árið 2000, miklu stærri samruni sem hafði áhrif á alla þætti bókaútgáfu, bóksölu og dreifingar en sem látinn var óátalinn af samkeppnisyfirvöldum nema hvað ýmis málamyndaákvæði voru látin fylgja með. Með öðrum orðum: Þeir sem stinga niður penna eru almënnt á því sáttin sé þrátt fyrir allt ósanngjörn og úr takti við veruleikann. En af hverju að agnúast út í sátt sem báðir aðilar una?
Ég held að þar sé því um að kenna að Samkeppniseftirlitið "hlutgerir" menningarstarfsemi, ritun og útgáfu bóka, með hætti sem mjög margir sem hafa kosið ritstörf og bókaútgáfu að starfsvettvangi geta illa sætt sig við. Dellan í menningarmálum okkar verður svo átaknleg og sorleg þegar markaðsmálin koma upp á borð og verða að bitbeini. Menn eru á því að "neytendur" séu hér eitthvert skálkaskjól fyrir búrókrata og reglustrikubaróna sem skilji ekkert hvað þeir eru að gera. Hvort sem það er nú rétt eða ekki. Meginlínan í skrifum Páls Gunnars er enda þessi: Bækur eru ekkert merkilegra en hvað annað. Lesendur, fyrirgefið þið, neytendur, eru bara neytendur og bækur eru Ora-baunir, það stendur eitthvað utan á hvoru tveggja. Solu á báðum vörutegundum verður að regúlera svo einokun og fákeppni ráði ekki á smásölumarkaði.
En þetta segir ekki nema hálfa söguna. Gaman væri að fá skýringar frá Samkeppniseftirliti á því af hverju Íslendingar segjast í viðhorfskönnun hafa keypt fleiri bækur árið 2007 en nokkru sinni áður og af hverju 75% Íslendinga eru ánægð með bókaverð. Einnig væri gaman að sjá skýringar þeirra á "markaðsráðandi stöðu" Forlagsins á grunnskólamarkaði sem nú var að opnast þar sem Námsgagnastofnun er með 98% markaðshlutdeild, en það er markaður sem meta má á um 500 milljónir. Einnig væri fróðlegt að vita af hverju um 80 útgefendur gefa út eina til þrjár bækur árlega, eiga þeir ekki að verða undir í samkeppni? Hverfa? Bóksölum ber saman um að smáútgáfum fjölgi ef eitthvað er, svo mikið raunar að þeir telja vonlaust að hafa það allt á boðstólum, enda ber þeim engin skylda til þess. Og svo væri líka gaman að fá svör Samkeppniseftirlits við því af hverju t.d. hagsmunasamtök rithöfunda telja þetta kerfi óásættanlegt fyrir sig og telja frjálst bókaverð sem ákvarðað er í verslunum aðför að tekjugrunni sínum. Einnig væri gaman að huga að af hverju Samkeppniseftirlit hefur ekki eftirlit með að neytendur annarrar menningarvöru beri ekki skarðan hlut frá borði. Af hverju er miðaverð í leikhús t.d. svona hátt og raunar alls staðar það sama, starfsemi sem er styrkt af hinu opinbera, á meðan bókaútgáfan fær rétt um 50 milljónir á ári til að standa straum að því að gefa út stuðningsrit sem gagnast öllu málsamfélaginu og menningu þess, að vísu ef frátalin er útgáfa námsbóka fyrir grunnskóla, en þar hefur Ríkið verið með einkaleyfi á útgáfu frá 1938 og fram á þennan dag, sem sjálfsagt er mjög gott fyrir samkeppnina og neytendur. Með öðrum orðum: Allt þetta vörutal um bækur opinberar tvöfalda stöðu bókaútgáfunnar á Íslandi. Hún er annars vegar átónóm grein sem í sjálfu sér hefur engar skyldur við samfélagið og skattgreiðendur, heldur er sjálfstæð og frjáls. Það kemur engum við hvað gefið er út og barátta bókaútgáfunnar sem menningariðnaðar snýst um nettóverð, afslætti, samninga og Samkeppniseftirlit. Hins vegar er bókaútgáfan bensínstöð málsamfélagsins. Íslensk menning og málsamfélag er einfaldlega óhugsandi fyrirbæri án bókaútgáfu. Þannig opinberast hræsnin sem býr að baki öllu talinu um íslenska menningu, stuðning við málsamfélagið og allt það mjálm. Í stað þess að styrkja bókaútgáfu til að takast á hendur menningarlegar skyldur er henni hent fyrir ljón Samkeppniseftirlitsins. Íslensk orðabók og Halldór Laxness eru afsláttarbeljur íslenskrar menningar sem nú er troðið í ginið á Mólok samkeppninnar svo okkur sé öllum óhætt þegar refsiguð neytendanna ætlar að ibba sig. Hvað stendur í þessu drasli er aukaatriði. Aðalmálið er að neytendur séu glaðir með sitt. Má þá búast við alternatívri orðabók, And-íslenskri orðabók sem fer í samkeppni við hina? Það sjá allir að þetta er absúrd mál. Þótt grunnprinsíppin séu göfug er niðurstaðan eins og kafkaísk smásaga.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2008 | 23:51
Skemmtilegt viðtal
Sigurður Pálsson, verðlaunahafi, fór á kostum í síðustu Kilju Egils Helgasonar. Ég skoðaði þáttinn aftur á netinu og fannst hálf fúlt að Siggi skuldi ekki hafa fengið enn meiri tíma. Hann var alveg eins skemmtilegur og Zizek vikuna áður. Mikið Zizek æði hefur raunar gripið um sig meðan hinna skapandi og greinandi stétta. Nú talar fólk mikið um "óra". Mér heyrist á þeim hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi að Óraplágan hafi rokið út.
En frammistaða Sigurðar rifjaði upp mörg partíin á meðan ég var í bókmenntafræði í Háskólanum þegar Magnús Guðmundsson, auglýsingamógúll, Eiríkur Guðmundsson rithöfundur og jafnvel Jón Kaldal ritstjóri Fréttablaðsins tóku sig til og hermdu eftir Sigurði sem fór mikinn í leiklistarfræðitímum. Á þessum árum um 1990 kenndu bæði Sigurður og Guðbergur Bergsson bókmenntafræði en tilviljunin hagaði því þannig til að ég sat í hvorugum kúrsinum. Ég sá því ekki meistarana að störfum, en það var víst mjög innblásið og tendraði í nemendunum. Sigurður er gríðarlegur samræðumeistari og viðtal Egils við hann sýndi að það má gera svo miklu meira úr honum, hann er var í fantaformi og náði að hita mann allan af andlegum krafti.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)