AND-íslensk orðabók í samkeppni við Íslenska orðabók!

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um hvernig draga megi úr samkeppnishamlandi áhrifum samruna JPV útgáfu og Vegamóta hefur verið miklu meira rædd en búast mátti við. Svo mikið rædd raunar að forstjóri Samkeppniseftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson, ritar grein sem birtist í Fréttablaðinu á sunnudaginn þar sem hann reifar málin frá sjónarhóli Samkeppniseftirlitsins. Þar kemur skýrt fram leiðrétting á ákveðnum misskilningi sem mér hefur sýnst gæta varðandi þetta mál - en hefði mátt eyða mjög auðveldlega með því að lesa ákvörðunina, sem birt er í fullri lengd á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins - að Samkeppniseftirlitið hafi upp á sitt eindæmi úrskurðað á ákveðin verk og útgáfuréttur þeirra skuli vera seldur. Það var ekki svo, heldur undirstrikar Páll Gunnar það sem lesa má út úr ákvörðuninni, að sátt hafi náðst um ákveðnar aðgerðir til að hindra að samruninn verði skaðlegur bókamarkaðnum. Samkeppniseftirlitið hafi ekki getað samþykkt samrunann og því hafi stjórnendur Forlagsins stungið upp á að ákv. verk og útgáfuréttindi verði seld til að gera hann mögulegan. Þetta kallar Páll Gunnar ábyrga afstöðu og engin styggðaryrði hafa hrotið af vörum forsvarsmanna Forlagsins um þettta mál. Þeir hafa einfaldlega sagt að eitthvað hafi orðið að gera í stöðunni og hér hafi ákveðnum verðmætum verið fórnað til að vernda það sem mikilvægara væri. Þannig má segja að ákveðin sátt sé í málinu og í raun þess vegna vitleysa að agnúast út í ákvörðunina. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Guðmundur Andri Thorsson ritaði í Fréttablaðið á mánudegi pistil sem vakinn var af skrifum Páls Gunnars, og allt sunnan frá Maputo skrifar gamall bóksali, Kjartan Valgarðsson innblásna hugvekju um vitleysu Samkeppniseftirlitsins og margur leggur þar orð í belg. Niðurstaðan er alls staðar sú sama: Markaðsráðandi staða Forlagsins er dregin í efa. Þegar nóvember og desember sleppir er í raun aðeins einn smásali sem yfirleitt hefur eitthvað að segja á bókamarkaðnum, héreftir mun hann sjá um að verðleggja vöruna 10 mánuði ársins í samkeppni við ... engan. Samkeppniseftirlitið getur ekki og mun áreiðanlega aldrei fara út í samanburð á aðstæðum við samruna JPV og Vegamóta árið 2007 og Máls og menningar og Vöku-Helgafells árið 2000, miklu stærri samruni sem hafði áhrif á alla þætti bókaútgáfu, bóksölu og dreifingar en sem látinn var óátalinn af samkeppnisyfirvöldum nema hvað ýmis málamyndaákvæði voru látin fylgja með. Með öðrum orðum: Þeir sem stinga niður penna eru almënnt á því sáttin sé þrátt fyrir allt ósanngjörn og úr takti við veruleikann. En af hverju að agnúast út í sátt sem báðir aðilar una?

Ég held að þar sé því um að kenna að Samkeppniseftirlitið "hlutgerir" menningarstarfsemi, ritun og útgáfu bóka, með hætti sem mjög margir sem hafa kosið ritstörf og bókaútgáfu að starfsvettvangi geta illa sætt sig við. Dellan í menningarmálum okkar verður svo átaknleg og sorleg þegar markaðsmálin koma upp á borð og verða að bitbeini. Menn eru á því að "neytendur" séu hér eitthvert skálkaskjól fyrir búrókrata og reglustrikubaróna sem skilji ekkert hvað þeir eru að gera. Hvort sem það er nú rétt eða ekki. Meginlínan í skrifum Páls Gunnars er enda þessi: Bækur eru ekkert merkilegra en hvað annað. Lesendur, fyrirgefið þið, neytendur, eru bara neytendur og bækur eru Ora-baunir, það stendur eitthvað utan á hvoru tveggja. Solu á báðum vörutegundum verður að regúlera svo einokun og fákeppni ráði ekki á smásölumarkaði.  

En þetta segir ekki nema hálfa söguna. Gaman væri að fá skýringar frá Samkeppniseftirliti á því af hverju Íslendingar segjast í viðhorfskönnun hafa keypt fleiri bækur árið 2007 en nokkru sinni áður og af hverju 75% Íslendinga eru ánægð með bókaverð. Einnig væri gaman að sjá skýringar þeirra á "markaðsráðandi stöðu" Forlagsins á grunnskólamarkaði sem nú var að opnast þar sem Námsgagnastofnun er með 98% markaðshlutdeild, en það er markaður sem meta má á um 500 milljónir. Einnig væri fróðlegt að vita af hverju um 80 útgefendur gefa út eina til þrjár bækur árlega, eiga þeir ekki að verða undir í samkeppni? Hverfa? Bóksölum ber saman um að smáútgáfum fjölgi ef eitthvað er, svo mikið raunar að þeir telja vonlaust að hafa það allt á boðstólum, enda ber þeim engin skylda til þess. Og svo væri líka gaman að fá svör Samkeppniseftirlits við því af hverju t.d. hagsmunasamtök rithöfunda telja þetta kerfi óásættanlegt fyrir sig og telja frjálst bókaverð sem ákvarðað er í verslunum aðför að tekjugrunni sínum. Einnig væri gaman að huga að af hverju Samkeppniseftirlit hefur ekki eftirlit með að neytendur annarrar menningarvöru beri ekki skarðan hlut frá borði. Af hverju er miðaverð í leikhús t.d. svona hátt og raunar alls staðar það sama, starfsemi sem er styrkt af hinu opinbera, á meðan bókaútgáfan fær rétt um 50 milljónir á ári til að standa straum að því að gefa út stuðningsrit sem gagnast öllu málsamfélaginu og menningu þess, að vísu ef frátalin er útgáfa námsbóka fyrir grunnskóla, en þar hefur Ríkið verið með einkaleyfi á útgáfu frá 1938 og fram á þennan dag, sem sjálfsagt er mjög gott fyrir samkeppnina og neytendur. Með öðrum orðum: Allt þetta vörutal um bækur opinberar tvöfalda stöðu bókaútgáfunnar á Íslandi. Hún er annars vegar átónóm grein sem í sjálfu sér hefur engar skyldur við samfélagið og skattgreiðendur, heldur er sjálfstæð og frjáls. Það kemur engum við hvað gefið er út og barátta bókaútgáfunnar sem menningariðnaðar snýst um nettóverð, afslætti, samninga og Samkeppniseftirlit. Hins vegar er bókaútgáfan bensínstöð málsamfélagsins. Íslensk menning og málsamfélag er einfaldlega óhugsandi fyrirbæri án bókaútgáfu. Þannig opinberast hræsnin sem býr að baki öllu talinu um íslenska menningu, stuðning við málsamfélagið og allt það mjálm. Í stað þess að styrkja bókaútgáfu til að takast á hendur menningarlegar skyldur er henni hent fyrir ljón Samkeppniseftirlitsins. Íslensk orðabók og Halldór Laxness eru afsláttarbeljur íslenskrar menningar sem nú er troðið í ginið á Mólok samkeppninnar svo okkur sé öllum óhætt þegar refsiguð neytendanna ætlar að ibba sig. Hvað stendur í þessu drasli er aukaatriði. Aðalmálið er að neytendur séu glaðir með sitt. Má þá búast við alternatívri orðabók, And-íslenskri orðabók sem fer í samkeppni við hina? Það sjá allir að þetta er absúrd mál.  Þótt grunnprinsíppin séu göfug er niðurstaðan eins og kafkaísk smásaga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband