Dyr að nýjum heimi

Ég var að snattast í bílnum seinnipart mánudags þegar þýð rödd Eiríks Guðmundssonar steig upp úr hátölurunum: Hann var að tala um auglýsingu Félags íslenskra bókaútgefenda í tilefni af Viku bókarinnar. "Jæja, hugsaði ég. Fer þetta eitthvað í taugarnar oddaflugsfólkinu ?" En það var ekki. Þvert á móti var auglýsingin í Fréttablaðinu honum innblástur, þessi dularfulla mynd sem sýnir konu í vorverkunum staldra við þegar ljós berst út um dyr þar sem bókarspjald er hurðin. Mitt í áköllum fyrirtækjanna um meiriháttar niðurfellingu og ofsaafslátt virkaði þessi ljóðræna skilaboðahvíld eins og hún átti að gera: Bækur eru magnaður miðill sem býr yfir dularfullu seiðmagni - dyr að nýjum heimi.

Nú er Vika bókarinnar skollin á af fullum þunga. Á miðvikudaginn er dagskráin þéttskipuð viðburðum: Afhendingu þýðingarverðlauna á Gljúfrasteini, afhendingu barnabókaverðlauna menntaráðs Reykjavíkurborgar, Steins Steinarskvöld í Iðnó og svo allt hitt sem maður veit ekki um.

Og mér hefur verið bent á að Vika bókarinnar er alls ekki séríslenskt fyrirbæri heldur sett upp að hollenskri fyrirmynd. Þar skrifa höfundar sérstaka bók sem síðan fylgir með í innkaupum ef keypt er fyrir ákveðna upphæð og raunar var sá háttur hafður á hér í nokkur ár. Mér var líka bent á að Dagur bókarinnar er blóma og bókadagur í Finnlandi og að Helsinki er undirlögð af upplestrum, þar á meðal miklu upplestrartjaldi í miðborginni. Góð hugmynd: Ef hægt væri að endurlífa hugmyndir Vilhjálms Egilssonar um rökvæðingu íslenskra frídaga væri hægt að færa sumardaginn fyrsta yfir á Dag bókarinnar og þá værum við með bókskrúðgöngur skáta! En ef tjaldað væri yfir Lækjartorg og sett upp heilsdagsbókmenntadagskrá? Nú eða ef skrúfað væri niður í músakkinu í Smáralindinni eða jafnvel tjaldað yfir efsta dekkið á bílastæðinu við Kringluna.

Miklir möguleikar bíða ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband