Hugleiðingar um kreppuna

Fyrir aðeins ári síðan náði hugmyndafræðileg hugarfarsinnræting kapítalískra kauphátta hér á landi táknrænu hámarki þegar gamla Olíufélagið Esso breyttist í fjölþætta þjónustufyrirtækið N1. Til þess að syngja innsiglissálm fyrir sambræðing sundurleitrar hjarðar smurstaða, bensínsölustaða og varahlutaverslana voru félagarnir í hljómsveitinni Queen kvaddir til og stafnbúi þeirrar sveitar, Freddie Mercury, tónaði yfir þeim örfáu Íslendingum sem enn voru ekki „á þeim tímapunkti" sannfærðir um að Ísland væri heimaland hinna ríku, djörfu og mögnuðu: „Don't stop me now! I'm having such a good time." Allur sá heillandi barnaskapur og bjartsýnisandi sem einkenndi íslenska efnahagsundundrið skrapp saman í einni línu - anda tímans.

Um þetta leyti, fyrir aðeins einu ári, hafði skapast nokkurskonar hefð fyrir því að framfaramenn samfélagsins gæfu tímamótum í lífi sínu inntak með því að kveða til helstu stærðir vestrænnar dægurtónlistarsögu. Með því að stilla þessari hefð upp með myndbrotum sem sýndu heilt samfélag á fullri ferð áfram, sama hvað leið veðri, vindum, fjöllum, firnindum og öðrum náttúrulegum farartálmum, öðluðust hin séríslensku góðærisgildi - The Icelandic way of doing things - sína efnislegu mynd. Hérlendir listamenn höfðu annað hvort ekki enn vaknað upp til veruleika tímans eða höfðu ekki nógu skýra sýn á veruleikann. Þess vegna öðlaðist góðærið ekki varanlega táknmynd í listaverkum og þess vegna varð það hlutverk auglýsingaleikstjóra að orða inntak tímanna til fullnustu: „Don't stop me now! I'am having such a good time."

Miðvikudaginn fyrir páska heyrði ég þetta stef í útvarpinu, rétt ofan í fréttir af lægðagangi efnahagslífsins. Það var í senn þrungið eftirsjá og nöprum beyg. Þessi sjálfumglaði fjörkálfasöngur myndi aldrei aftur hljóma á saklausum forsendum ensku hljómsveitarinnar Queen og hins burtsofnaða forsöngvara hennar heldur aðeins minna mann á það tímabil nýliðinnar sögu að framboð lánsfjár var umfram eftirspurn. Sú staðreynd að söngurinn skyldi enn vera sunginn bar merki einhvers konar hetjulegrar þrákelkni. Stefið í útvarpinu var heldur ekki hinn hraði hluti lagsins þar sem Queen-sveitin tónar öll í öflugum rokksamkór með hetjuróm: „Don't stop me now!", heldur hægi hlutinn, diminuendo-parturinn, þar sem Queen lætur atkvæðin fleyta kerlingar á sléttum sjó svo þau skoppa hnitmiðað út í tómið. Hægagangurinn í söngnum, það hve andstuttur kórinn er, dregur fram að aflið sem meinar fjörinu að halda áfram er of sterkt. Einhver eða eitthvað er grátbeðið um að stöðva ekki ferðina áfram, vitandi að það er ómögulegt. Í ljósi þess að refsisverð Sögunnar hafði höggvið að rótum efnahagslegs sjálfstrausts þjóðarinnar rétt áður varð hljómurinn í laginu svo sorglegur. Það tjáði ekki lengur bjartsýnina og uppganginn. Það tjáði söknuðinn eftir bjartsýninni.

Eins og sakir standa geta fjölmiðlar á Íslandi ekki með góðri samvisku selt bjartsýni og uppgang. Það er kreppan sem selur. Grein í 24 stundum um gamalgróið vandamál, veggjakrot á Laugavegi, fær fyrirsögnina „Kreppa á Laugavegi". Sjónvarpsfréttir RÚV og útvarpsfréttir Rásar 1 rekja samviskusamlega teikn og ummerki hrapsins. En á engan er hallað þegar sagt er að Morgunblaðið hafi haslað sér völl sem helsti söluaðili kreppunnar hérlendis. Þar blasti fyrst við sú fullkomnma eymdarsamfella sem aðrir fjölmiðlar streða við að búa til. Hvern dag greiða árvakrir áskrifendur fyrir breiðsíðu áminninga um tyftun og straff fyrir freklegan hofmóð fjármagnseigenda og almennings. Og þótt skilaboðunum hafi verið komið á framfæri og besta leiðin til að fá ráðvilltan múginn til að hlusta sé að nefna nafn kreppunnar, er enn mikið að starfa. Enn dansa bjánarnir þótt búið sé að skjóta hljómsveitina. Forherðing þeirra sem keyptu Range Rover eða pöntuðu sér utanlandsferð þegar búið var að blása til samdráttar hlýtur að vera steini lík. Því má nú sjá farandpredikara úr leikmannareglum stjórnmálaflokkanna á stjákli í bloggþorpinu með iðrunarólar á lofti í von um að hitta fleiri krossburðarmenn, hrópandi hátt um að menn geri nú yfirbót strax svo afstýra megi enn stærra straffi. Hættið að kaupa!

Er nema von að venjulegt fólk sem búið hefur við uppgíraða bjartsýnisinnrætingu í góðan áratug hiki aðeins. Það þætti ekki góð lexía í tamningu á hrossi að rugla skepnuna svona. Hætt við að hún glutraði niður ganginum eða yrði vitlaus í taumum. Hvað svo þegar næsta uppsveifla kemur? Þá verður aftur að kveikja á hreyflunum og opna fyrir áveitukerfið og aftur að telja sem flestum trú um að það séu mannréttindi að deila lífsstíl sínum með efri millistéttum þróaðra iðnríkja sem eiga sér alvöru gjaldmiðil en ekki skopparaboltakrónu: „Don't stop me now!"

Það er ekki nema ár síðan menningarbylting bjartsýninnar reis hæst með takmarkalausri trú á að engar hindranir væru í vegi Íslendinga, allra Íslendinga. Hugmyndafræði efna- og valdastéttanna varð að sameiginlegum viðmiðum samfélagsins. Árangur þeirra var ausinn lofi af sömu fjölmiðlum og nú stíga varfærin og hikandi skref inn í nýja kreppuorðræðu sem á köflum minnir á talsmáta valdastétta 16. og 17. aldar þar sem áföll samfélagsins og hræringar náttúrunnar voru talin bein afleiðing yfirskilvitlegrar ákvarðanatöku. Sú samlíking er langt frá því út í hött. Enn og aftur er allur almenningur ávarpaður í nafni hagsmuna sem að síðustu eru honum huldir. Einhverjir hafa af því hag að kreppan magnist, annars væri hún ekki boðuð af jafn miklu offorsi. Um leið er talað um kreppuna sem rökrétta afleiðingu þess að grundvallarlögmálum hafi verið storkað. „Don't stop me now!" er ekki lengur kokhraust hróp, heldur klökk bæn: „Don't stop me now ..." í veikri von um að einhver ókunnug öfl heyri og rjóði dyrastaf okkar með blóði svo refsiengill kreppunnar gangi framhjá en rispi ekki kaupleigujeppana. Næstu vikur og mánuðir leiða í ljós hvort einhver sé að hlusta ...

(Birt í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 29. mars)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband