Færsluflokkur: Bækur
5.7.2007 | 10:20
Jólabækurnar 2007
Þótt sumarvertíðin í bókaútgáfu sé nú í raun fyrst að fara almennilega í gang og enn séu væntanlegir nýir titlar á markað eru flestir á bókaforlögunum með hugann við haustið og jólin. Á næstu vikum verður hulunni svipt af heitustu titlunum. Óvæntir höfundar verða blásnir upp og almenningi gerð grein fyrir hvað hann á í vændum á haustdögum. Enn eina ferðina mun jólabókaflóðið fara af stað og ef straumar síðustu ára renna enn sinn veg munu um 700 titlar keppa á markaði þar sem eitthvað um 700 milljónir eru í pottinum.
Frá sjónarhóli menningarinnar, þjóðmenningarinnar, er þessi gríðarlega útgáfa, sem að langstærstu leyti er kostuð af einkaaðilum, tákn um trú okkar á bókmiðlinum sem slíkum og raunar líka trú okkar á möguleika tungumálsins því samfara þessari útgáfu má sjá að ýmsir nýir efnisflokkar sem áður hafði ekki verið fjallað um á íslensku eru brotnir undir málplóginn. Frá sjónarhóli þeirra sem um menninguna fjalla í fjölmiðlum, sem eru í raun ekki nema um tugur manns eða svo, er þetta annað hvort hálfgerð vitleysa (hvað er maður búinn að heyra oft kveinstafina um að dreifa nú útgáfunni, líkt og fyrirtækin starfi eftir kröfum nokkurra menningarblaðamanna en ekki viðskiptavina sinna) eða tækifæri til að spyrja: "Hver verður aðalbókin í ár?" "Hvað verður hittið núna?" (Ég hef ekki tölu á hve oft ég hef heyrt þessa spurningu.) Frá sjónarhóli eiginlegra bókaútgefenda er ýmislegt við þessa miklu útgáfu að athuga. Aukningin í útgáfunni er mest hjá litlum aðilum, fólki sem ætlar sér ekki prímert að græða á útgáfu en vildi gjarnan sjá rit sitt útgefið. Vegna þess hve línan hér á landi er þunn milli vel útgefinnar alvöru bókar og þess sem á útlendum málum er nefnt "vanity publishing" skirrast menn alla jafna við að fordæma þessa þróun. Hún lýsir miklum krafti, hún sýnir hve lýðræðislegur þessi bransi er í raun, en um leið gerir hún þeim sem ætla sér að hafa atvinnu af útgáfu erfitt fyrir. Þetta er í raun ekki ósvipað og ef 200 aðilar hérlendis myndu hver um sig bjóða fram sína fatalínu og ætlast til að Hagkaup, Svövuveldið og Rúmfatalagerinn seldu þær allar.
Þessi lýðræðislega opnun (allir geta gefið út það sem þeim sýnist, það er ekkert mál og kostar ekki mikið) er nokkuð sem t.d. stjórnmálamenn í Evrópusambandinu og ýmsir þrýstihópar um afnám höfundarréttar og opnun á rafrænum skjölum til almennings setja á oddinn. Samtök evrópskra útgefenda, FEP, hafa hins vegar miklar efasemdir um að þessi leið sé vænleg til að tryggja fjölbreytni og gæði bókaútgáfu álfunnar. Þau hafa einmitt haldið "vanity publishing" hugtakinu á lofti, enda hefur það holan og hlægilegan hljóm úti í stóru löndunum. Í bestu skáldsögu Umberto Ecos, Pendúll Foucaults, lýsir hann einmitt á mjög kómískan hátt starfsemi "vanity publishing" forlags í Mílanó sem gengur út á að búa til bækur á kostnað höfundanna sem allt eru vellauðug skúffuskáld sem eiga sér þann draum heitastan að sjá eftir sig útgefið verk. Forseti FEP, Svíinn Jonas Modig, hefur til að mynda ritað að útópía Evrópusambandsins um að allir gefi út það sem þeim sýnist á netinu, hafi ekkert annað en dauða alvöru upplýsingamiðlunar í för með sér. Gæðaaðhald forlaga, strangt val á útgáfubókum, mikil og virk ritstjórn, virðing og hár standard á frágangi tryggi að yfirleitt sé hægt að verðleggja upplýsingarnar. Með því sé höfundum tryggð réttlát afkoma af starfi sínu. Um leið og höfundarréttarhugtakinu sé varpað fyrir róða sé efnahagslegum grundvelli hundruð þúsunda Evrópubúa svipt burtu. Annars verður allt höfundarstarf unnið sem sjálfboðavinna, kostað af fyrirtækjum eða borið uppi af opinberum stofnunum. Í markaðshagkerfi þýðir það í raun hrun samfélagslegar innistæðu þessarar starfsemi, hún er orðin að marklausu föndri.
Útgefendur hérlendis hafa sjaldan gagnrýnt þróun undanfarinna ára þar sem sífellt fleiri bækur eru gefnar út af "ekki"-útgefendum. Um leið hefur heldur engin umræða farið fram um það hvernig útgáfulandslag við viljum sjá. Við erum að sönnu með markað sem heldur uppi nokkrum fyrirtækjum, en þau standa öll í miklu stappi við að halda sér á floti og þurfa nú ekki aðeins að keppa sín í milli, heldur í æ meira mæli við yfirfullar bókabúðir af bókum sem margar hverjar eru einfaldlega "vanity publishing". Er það gott eða vont?
Bækur | Breytt s.d. kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2007 | 11:39
Á Esju
Í gærkvöldi blasti við okkur Magga furðuleg sjón, nokkuð sem við höfum aldrei orðið vitni að áður. Við hittum mann uppi á Þverfellshorni Esju sem var að lesa bók. Hann hafði gengið áleiðis að efri vörðunum tveimur upp af horninu þangað sem fæstir nenna að fara og sat þar í makindum í góða veðrinu og las.
Það er ekki oft sem logn er þarna uppi, en það var svo sannarlega í gærkvöldi, nánast reyndar hitasvækja. Við hittum þau hjón Þórarinn Eldjárn og Unni og Unnur skýrði út fyrir okkur fyrirbærið: hafgolan berst ekki upp, hún er bara á láglendi og þá er logn til fjalla. Þegar búið var að segja manni þetta áttaði maður sig á að þetta er rétt, en það var traustvekjandi að heyra þetta frá alvöru veðurfræðingi, þetta var nánast eins og ritskýring við ferðina.
En lesandanum á Esju brá nokkuð því við komum aftan að honum, átti greinilega ekki von á því að fólk kæmi neðan af Esjunni sjálfri. Við fórum nefnilega upp Gunnlaugsskarð og gengum svo hringinn niður á Þverfellshorn og vorum rasandi yfir hve margir voru á leið upp, löng röð göngufólks fikraði sig nær. Ég hafði það sterkt á tilfinningunni að þetta fólk væri á leið að skríni eða helgidómi. Á útbúnaði margra og stuttu spjalli við þá mátti sjá að þessi ganga var nýjung í þeirra lífi en allir voru ákveðnir að komast upp, enda færið sjálfsagt aldrei betra en nú, stígarnir þurrir og auðgengir og keðjurnar sem Höskuldur í ÁTVR og FÍ komu upp fyrir tveimur eða þremur árum eru nánast bylting og hafa leitt af sér að aftur hefur troðist einn fastur stígur. Á tímabili var allt Þverfellshornið orðið að einum vaðli því fólk óð upp þar sem því sýndist og engar leiðbeiningar voru um uppgöngu.
Keðjurnar minntu mig á að þegar þær voru "vígðar", tók Halldór Ásgrímsson þátt í athöfninni. Honum var málið skylt enda þá orðinn að ástríðufullum Esjugöngumanni. Ég rakst á hann nokkrum sinnum utan í horninu en aldrei tókum við tal saman utan einu sinni vorið 2003. Þetta var krítískur tími hjá Framsókn mitt í miklum atgangi um skipan ráðuneyta og stjórnarmyndunarvafstur þar sem Össkur hrærði upp í liðinu með gylliboðum eins og við vitum nú. Ég var þá á leiðinni upp í hreinni skemmtigöngu og fór mér ekki óðslega. Gekk lögboðna stíginn upp með Mógilsánni og þar áfram upp skáann utan í Þverfellshorninu. Þar sem ég kem suður fyrir hornið situr sólin ofan á Kambshorninu og skín beint framan í mig svo ég blindaðist alveg og horfði því niður í götuna. Allt í einu verð ég var við að maður kemur á móti mér og eins og Esjufara er siður lít ég upp til að bjóða góða kvöldið en blindast um leið og sé ekki nema útlínur göngumannsins. Hann kemur nánast eins og út úr sólarkringlunni, helst líkur grísku goði, kannski Appolón og ég stari píreygður á en lít svo niður þar sem maðurinn segir ekkert, muldra svo ofan í svörðinn "Gott kvöld". Við það nemur goðið staðar. Ég lít upp. Þar sé ég vinalegt andlit Halldórs. Hann er rjóður í vöngum og yfirbragðið óvenju létt, ég hugsa að honum sé farið líkt og mörgum, að þeir kasta af sér hamnum á fjöllum og út í náttúrunni og eru þar í raun þeir sjálfir. Halldór býður nú gott kvöld en ég sé á honum að hann vill segja meira svo ég staðnæmist. "Ætlarðu upp?" spyr Halldór og lyftir um leið annarri hendi með tónfalli og sveiflu sem ósjálfrátt minnti mig á Óla Jóh. Ég jánka því. "Alla leið upp?" Jú, það var ætlunin. "Vildurðu þá vera svo vænn að skrifa nafnið mitt í bókina, ég gleymdi því nefnilega áðan." Ég jánkaði því og ætlaði svo að spæna af stað en um leið kom upp í mér strákurinn svo ég vildi spyrja hvaða nafn ég ætti að setja í bókina. Halldór virtist hafa áttað sig á þessu smáræði því hann staðnæmdist sjálfur eftir að hafa tekið tvö skref niður á við: "Það er Halldór," sagði hann. "Halldór Ásgrímsson." Og þakkaði fyrir sig.
Upp kominn skrifaði ég nafnið mitt. Síðan skrifaði ég "Halldór Ásgrímsson". Tveimur dögum síðar fór ég aftur upp og kíkti þá í bókina. Fyrir neðan nöfnin okkar Halldórs hafði einhver skrifað: "Davíð Oddsson".
Bækur | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2007 | 18:16
Auðnin
Að undanförnu hef ég verið að lesa mig í gegnum sögu umhverfisstefnunnar. Það stakk mig allt í einu að þrátt fyrir mikla umræðu um umhverfismál undanfarin misseri að þá veit maður nánast ekkert um sögu þeirra hugmynda sem maður sjálfur og aðrir halda á lofti. Mér hefur komið á óvart að þessi saga er merkilegri og margbrotnari en ég hélt og að hugmyndirnar hafa tekið ótal beygjur og króka. Og að því sögðu saknar maður náttúrlega dýpri umfjöllunar um hérlendar hugmyndir en ef til vill er einhver sagfræðispíran nú að vinna að henni.
Það sem sérstaklega hefur vakið athygli mína er að sjá hve fáar heimildir eru til um róttæka náttúruhyggju fyrir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Flestir sem vildu vernda náttúruna eða mærðu óbyggðirnar fram að því voru þeirrar skoðunar að þær væru einskonar endurhleðslustöð fyrir úrkynjaða nútímamenn sem ekki fengju raunveruleg viðfangsefni lengur að glíma við (Guðmundur Einarsson frá Miðdal er án efa svipmesti talsmaður þessa viðhorfs hér á landi, heillandi lýsingar hans í höfuðriti hans Fjallamenn og í Árbók FÍ þar sem sagt er frá suðurjökulum valda því að maður skammast sín fyrir að húka í bænum þegar sólin skín og fjöllin ljóma) eða að náttúran væri á einhvern hátt andlegs eðlis, yfirskilvitlegur veruleiki og heilagur, og því væri nútíminn og veraldarhyggja hans óvinur hennar.
Þessi viðhorf eru hins vegar mannhverf, hafa yfirleitt velferð mannsins og hamingju að leiðarljósi, og eru því náskyld þeim hófsömu viðhorfum sem við sjáum nú birtast í kolefnisjöfnun, landgræðslu, sambúð nýtingar og verndunar og þjóðgarðastofnun með "bættu aðgengi" að ýmsum náttúruperlum sem talið er ýmsum framkvæmdum á hálendinu til tekna. Það verður að segjast að slíkt er sannarlega "lýðræðislegt", kannski líka "skynsamlegt", en það er hressandi að taka upp bók sem ég þekkti ekki áður og mér skilst að hafi verið grundvallarrit á þeim miklu umbrotatímum um 1970. Þetta er bókin Desert Solitaire eftir Edward Abbey.
Hér er á ferð hrífandi rödd sem mærir auðninar sem veruleika í sjálfu sér. Náttúruna á ekki að vernda "til einhvers", heldur raunverulega "til einskis". Náttúra auðnanna, eyðimörkin, fjöllin, firnindin eru "annar veruleiki" og andmennskur. Við mennirnir verðum að kyngja því í auðnunum að þessi veruleiki er algerlega hlutlaus gagnvart okkur, hann fagnar okkur ekki, hann gerir ekkert við okkur, hann er bara. Reyndar dettur Abbey líka í hetjutal líku því sem sjá má hjá Guðmundi frá Miðdal, mennirnir þurfa þessa ómennsku veröld til að átta sig á sjálfum sér, á náttúruleika sínum. En það er hressandi að lesa ómengaðan viðbjóðinn sem Abbey hefur á skipulögðum þjóðgörðum með "góðu aðgengi", "ferðamannaiðnaðinn" sem er versta skammaryrði í hans munni. Hann ritar: "Við ökum ekki bílum inn í dómkirkjur, tónleikasali, listasöfn, dómssali, svefnherbergi eða önnur heilög vé okkar menningar, þannig eigum við líka að koma fram við þjóðgarðana okkar." Engir vegir, engin "aðstaða", ekkert "aðgengi".
Æi hvað það er upplífgandi að sjá svona alvöru málamiðlunarleysi í öllum málamiðlununum.
Bækur | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2007 | 23:18
Undrahundurinn
Þjóðfélagið virtist um tíma ætla að fara á annan endann út af einum hundi. Það þarf ekki annað en skoða bloggsamfélagið sitt og strax verður manni ljóst að hér er ekki léttvægt mál á ferðinni. Hundurinn Lúkas er nú orðinn nánast að aukaatriði í skrítnu máli þar sem nafnleysi stórbæjarins fer saman við einelti smábæjarins - en Akureyri er einmitt hið fullkomna millistig þessa tveggja - og hefur kosið sér fórnarlamb sem ber nú hönd fyrir höfuð sér, saklaus eða sekur, og fréttin um hann er þegar þetta er ritað vinsælasta netfrétt mbl.is.
Ég verð reyndar að segja að ég lét stóra hundamálið ekki raska mikið ró minni, það voru aðrir hlutir sem sáu um það, eins og að ég uppgötvaði að það þarf vegabréfsáritun til allra Afríkulanda nema þriggja til fjögurra (fer eftir því við hvern maður talar) og ég orðinn of seinn að sækja um mína svo öll plön næstu vikna þurfti að stokka upp. En svo las ég grein í Blaðinu í morgun sem gerði mig eilítið hugsi. Þar ritar Illugi Jökulsson - en við heilsumst stundum á götu og fyrir kemur að við tökum tal saman - eilítið skrítna grein um hundinn Lúkas, en þó mest eiginlega um sjálfan sig og sína tíð sem ritstjóri DV hér um árið.
Greinin er eins og hornskökk kommóða með stífum skúffum. Tosi maður út eina skagar hún yfir hina og það er eitthvað ofan í þeim öllum sem stoppar og stíflar. Fyrir það fyrsta er Illugi - rétt eins og allir sem ég hef heyrt í - undrandi á viðbrögðunum við hundslátinu, minningarathöfnum, logandi kertum, reiðinni gagnvart kvölurum skepnunnar, fárinu. Hann er er eins og annað hugsandi fólk strax farinn að velta fyrir sér hvernig eigi eiginlega að skilja þetta, hvernig beri að túlka þessi ofsafengnu viðbrögð við skepnuskap sem er því miður langt í frá óheyrður né framandi: sögur sem þessi um meðferð dýrum heyrði maður í bernsku og fram á fullorðinsár og vissi að að heimurinn er fullur af ofbeldi og maður getur ekkert gert nema gera sitt og maður vissi líka að það er hægt að hata skepnur og að maðurinn á auðvelt með að stúta þeim og að dauðinn og miskunnarleysið er alls staðar, þannig er bara heimurinn. Um leið og maður fer að vernda og þjást með öðru þá hættir maður að geta drepið flugu, veitt síli og slitið sundur ánamaðk, og eftir því sem maður skilur meira til hálfs, samhengi lífríkisins, hina þunnu skurn vistfræðilegs jafnvægis, verður allur lífheimurinn viðkvæmur og brothættur og við verðum öll eins og börn drykkfeldra foreldra, við viljum taka á okkur ábyrgðina á heiminum þótt við ráðum ekkert við hana, við viljum halda lífi í lífinu án þess að nokkur hafi beðið okkur um það: Kannski var Illugi eitthvað að hugsa á þessa leið og ákvað að skrifa um það grein.
En óðar gleymdist hundurinn. Hann minntist daganna með Mikael á DV þegar þeir og félagar þeirra uppgötvuðu "samfélagið á bak við fágaða hulu fjölmiðlanna" og ákváðu að segja sögur af "pakkinu". Illugi viðurkennir skyndilega í þessari grein eftir að hafa vaðið hrævareld spjallþáttanna á sinni tíð við að halda uppi vörnum fyrir áhuga sinn á málum eins og dauða og minningarfári Lúkasar að þetta sé líklegast hálfgerð vitleysa allt saman, þetta sé eitthvað til að ef til vill velta fyrir sér, en eigi eiginlega takmarkað erindi við okkur. Og enn og aftur kemur röksemdafærsla sem allir sem tóku þátt í meðvirkninni á DV á sínum tíma grípa til þegar þeir minnast góðu gömlu daganna þegar Mikki gekk um með skammbyssu og sagðist vera að breyta heiminum (ég vitna hér í bloggsíðu Símons Birgissonar). DV breytti í raun heiminum: Nú stundi allir fjölmiðlar sömu fréttamennskuna og hafiðið það! Hringnum er lokað. Illugi hóf upp merki sem hann svo lagði niður, er nú undrandi og hissa á því að sjá aðra grípa það, en um leið glaður í hjarta sínu yfir að fánaburðurinn skuli þó hafa haft þessi áhrif. Hefði hann ekki átt, svona kurteisinnar vegna, að bíða eftir því að aðrir skipuðu hans verkum á sinn bás? Hvaðan kemur þessi ríka réttlætingarþörf allra sem komu nálægt gamla DV? Jú, blaðið steytti á skeri. Samskonar hystería og lúkasarmálið, sem DV hefði elskað að segja frá, hitti fyrir blaðið sjálft, og um leið varð hysterían undarleg, eitthvað sem kannski var ekki þess vert að segja frá eftir allt saman.
Ég segi þetta ekki út í bláinn. Fyrir liggur nákvæm greining á þessum uppgötvunum sem Illugi og Mikael gerðu, um hið dularfulla land alþýðuspekinnar. Guðni Elísson ritaði tvær greinar í vor- og hausthefti Skírnis árið 2006, eða öllu heldur eina grein í tveimur hlutum undir nafninu "Dauðinn á forsíðunni: DV og gotnesk heimssýn". Það fór merkilega lítið fyrir þessari grein í fjölmiðlaumræðunni. Ekki hinn silfraði ljóðaunnandi Egill, ekki hið hvassbrýnda og siðdæmda Kastljós ekki hið létta og hressa Ísland í dag sáu ástæðu til að ræða þær hugmyndir sem þarna eru settar fram. Í stuttu og mjög einfölduðu máli segir Guðni einfaldlega: Þetta voru engar uppgötvanir. Einungis yfirþjóðleg frásagnarlögmál gotneskrar frásagnarlistar þar sem stöðluð persónueinkenni, móðursýkisleg dramatík, eðlisvont og eðlisgott fólk, ótrygg aðdáun á ríkum og frægum auk duglegs skammts af hringalógík þar sem fjölmiðillinn og frásögn "fórnarlamba" hans bíta í sporð hvers annars renna saman í ósundurrekjanlega bendu. Tveir starfandi rithöfundar, Illugi og Mikael, sem báðir höfðu áður í greinum og sögum notað mjög dramatísk og krassandi meðul til að koma skoðunum sínum á framfæri voru ritstjórar. Það getur ekki verið tilviljun hve einbeittir DV menn voru í að gotneskuvæða veruleikann, það bara hlýtur að hafa haft sitt að segja að listamenn sátu í ritstjórastólunum.
Þess vegna gerðu orð Illuga um "hinn heiminn" mig lika eilítið hryggan. Ein af helstu uppgötvunum mínum á unglingsárum var þegar þessi "hinn heimur", sem ég er alinn upp í líkt og allflestir, öðlaðist skyndilega sitt mál í skáldsögum Guðbergs Bergssonar. Enn stendur höfundarverk Guðbergs eins og bautasteinn þar sem þessi gallsúra alþýðuspeki sem nú frussast um allar gáttir bloggsins (sem líklegast er ástæðan fyrir því að við þurfum ekki lengur DV, "hinn heimurinn" hefur öðlast sinn eigin miðil) var ekki tekin upp á band og spiluð svo ómenguð til að pína mann enn eina ferðina með deleringum sínum, heldur var mulin saman við Freud, Marx, Nietzsche, Dostojevskí og Platón. Mál fólksins var ekki flutt inn í fjölmiðla sem hasar, heldur fékk að standa í undarlegheitum sínum og lýsa í leiðinni menningu og veruleika sem var raunverulegur en ekki eitt Leiðarljósið enn.
Nú höfum við greinilega misst trúna á skáldskapinn. Við sækjum ekki til skáldsagna skynjun okkar af "hinum heiminum", heldur viljum við matreiða hana í fjölmiðlum. Eftir því sem erindi bókmenntanna er minna eykst erindi fjölmiðlanna. Þá fara jafnvel skáldin að hafna skáldskapnum í skáldskapnum en skálda þess í stað upp frásagnir af veruleikanum í fjölmiðlum.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2007 | 00:34
Koldíoxíð og útjöfnun þess
Ég lagði mitt fram til kolefnisjöfnunar síðustu helgi og kom fyrir 400 græðlingum af heggstaðavíði í reitnum mínum norður í Skagafirði. Þar á að vaxa horn sem brýtur norðaustanáttina og ekki síður austanáttina sem getur orðið nokkuð þæfingsleg vestan undir Tröllaskaganum, sérlega á haustin og snemma vetrar.
Ég ritaði smá pistil í Lesbók Morgunblaðsins um kolefnisjöfnun um síðustu helgi sem er hér að neðan. Þetta var tilraun til að átta mig á hugtakinu sem ég komst að við eftirgrennslan að er nánast nýtt af nálinni. Skógræktarfélagi Íslands hefur tekist að búa til nýja vídd í vitund almennings á undraskömmum tíma. Þetta er ekki bara verk auglýsingastofa, þetta hefur eitthvað með jarðveginn að gera, hinn íslenska almenning.
Miðað við hve ótrúlegu flugi orðið kolefnisjöfnun hefur náð á stuttum tíma gæti það komið einhverjum í opna skjöldu að fyrir tveimur mánuðum virðist það ekki hafa verið til. Um páskaleytið fréttist fyrst af Kolviðarsjóðnum sem hefur með höndum jöfnun á losun koldíoxíðs af völdum bílaumferðar landsmanna og komst stjórnarformaður hans, alþingiskonan Guðfinna Bjarnadóttir, þannig að orði að hlutverk hans væri að afkola kolefnið; jöfnunarhugtakið var enn ekki fætt. Þegar Skógræktarfélag Íslands og Landvernd í samstarfi við Kaupþing banka, Orkuveitu Reykjavíkur og sjálfa ríkisstjórn lýðveldisins hleyptu verkefninu af stokkunum í lok apríl sást kolefnisjöfnunin fyrst. Verkefnið var reyndar ekki kynnt af fullum þrótti, nánast hikandi, því kosningar voru á næsta leyti. Samt náði það fljótt ótrúlegri útbreiðslu og þegar allt var sett á fullt í kynningum um leið og birtingarpláss stjórnmálaflokkanna voru aftur laus gleymdust öll fyrri heiti yfir þessa starfsemi og kolefnisjöfnun varð umsvifalaust að tískuorði. Nú er enginn maður með mönnum nema að hafa kolefnisjafnað sig. Sumir uppi við Heklu eins og Hekla sjálf. Aðrir suður í Afríku eins og Baugsfólkið. Kolefnisjöfnun og útreikningur hennar er orðið að dægrastyttingu og umræðan um hana þegar farin að skiptast í gamalkunnug horn. Harðir umhverfisverndarsinnar eru á móti kolefnisjöfnun af því að hún á að vera villandi. Það er víst ekkert annað en sýndarfriðþæging að borga öðrum fyrir að planta trjám en spæna svo á Hummernum norður til Akureyrar. Harðir frjálshyggjumenn eru farnir að amast við aðkomu Hins Opinbera að verkefninu og benda á að það sé betur komið í höndum erlendra einkaaðila. Öll hringavitleysa hinnar fyrirframgefnu hugsunar er komin á fljúgandi fullt í kolefnisjöfnuninni. Fyrirtæki undirrita samstarfssamninga, almenningur reiknar út á netinu. Í haust verður þetta annað hvort jafn sjálfsagt og að eiga bíl eða fullkomlega gleymt og komið í skókassann þar sem orð á borð við upplýsingahraðbrautin, alnetið og áunnin ónæmisbæklun eru geymd eins og gömul ástarbréf.
Kolviðarsjóðurinn er hugmyndarík og áhrifamikil leið til að fá aukið fjármagn til skógræktar og vekja í leiðinni athygli á hve mikið bílafloti landsmanna mengar í raun og veru. Kolviðarsjóðurinn fær kannski líka einhvern til að hugsa um skóga í hnattrænu samhengi. Það er skortur á viði í heiminum og það er gengið á náttúrulega skóga heimsins af æ meira offorsi. Kínverja vantar timbur í Míru-húsgögnin sín og löndin sem hýsa skógana þurfa sína lífskjarabyltingu og kaupmáttaraukningu. Það má kannski taka undir það með umhverfisverndunarsinnum að í sjálfu sér væri miklu gáfulegra fyrir umhverfið, framtíð vistkerfis jarðarinnar og lungu heimsins að vinda sér beint í að vernda skóginn sem fyrir er í stað þess að búa til excelskjal yfir hve marga græðlinga af rússalerki maður þarf að kaupa til að geta komist frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði. Það breytir hins vegar ekki inntaki verkefnisins: að gera hlutverk hvers og eins í loftlagsjöfnunni sýnilegt.
Kolviðarsjóðurinn, eða öllu heldur viðbrögðin við honum, sýna að umhverfisvitundin er í stöðugri þróun. Eftir ákveðið skeið í umhverfisbaráttunni þar sem umræðan náði að snúast um grundvöll umhverfisverndar á Íslandi hefur hún nú ratað inn á öllu meinlausari brautir. Þau meginrök fyrir verndun íslensks umhverfis að auðnir landsins eigi ekki að vera vettvangur verklegra athafna, að við eigum að þora að gangast við veruleikanum eins og hann er og leggja vegagerð, stíflugerð og hverskonar umbreytingu þessa veruleika á hilluna. Þessi rök hurfu allt í einu úr fjölmiðlum en ýmsar tæknilegar lausnir komu í staðinn. Orkuiðnaðurinn hefur nú hnattrænu hluverki að gegna sem er ekki óáþreifanlegt eða undarlegt eins og það viðhorf að ekki megi gera neitt við tugþúsundir ferkílómetra, heldur er tæknilegt og útreiknanlegt og því tamara í munni og muna. Kolefnisbinding og jöfnun koldíoxíðsútblásturs eru tæknilega leysanleg verkefni sem hægt er að vinda sér í. Hugsjónir athafnamennsku og dugnaðar sem eru hugmyndafræði íslenskra valdastétta svo kærar ná nú einnig fram að ganga í umhverfisbaráttunni. Og í takt við útrásarhugmyndafræðina erum við ekki bara að kolefnisjafna hér á Geitasandi, heldur brátt út um allan heim: Í Búrúndí, Ekvador og Kenía geta íslensk fyrirtæki borgað fólki fyrir að kolefnisjafna víkingseðlið.
Mótsagnirnar í þessu eru himinhrópandi. Stærsti einstaki brennsluaðili jarðefnaeldsneytis á Íslandi, skipaflotinn, hefur til að mynda ekki fengið neina meldingu um að jafna út sitt vélastóð. Og í öllum þessum reiknikúnstum andrúmsloftsins gleymist mjög augljós kolefnisjöfnun. Í öllum Evrópulöndum er rekinn áróður fyrir því að kaupa matvæli sem unnin eru og ræktuð eru á heimaslóð til að koma í veg fyrir hlýnun andrúmsloftsins af völdum flutninga á ferskum matvælum heimsálfa á milli. Hins vegar hamast hérlendir andans vesírar enn sem fyrr við að níða skóinn af bændastéttinni sem hafi svikið launþega landsins um enn eina lífskjarabótina með því að voga sér að standa gegn eðlilegum stórflutningum á ókolefnisjöfnuðum matvælum milli meginlandanna. Ég legg því til að auglýsingar garðyrkju-, sauðfjár-, kúa-, svína- og eggjabænda beinist nú eingöngu að kolefnisjöfnun. Borðum íslenskt og björgum heiminum!
Bækur | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2007 | 00:01
Lesið á fjöllum
Á einum stað í greinum sínum minnist Halldór Laxness á hve þægilegt það hafi verið að ferðast um landið með þýsku Recklam útgáfurnar í brjóstvasanum. Hann hafi til að mynda lesið Fást Goethes á leið um landið í vondum veðrum þegar gista þurfti í litlum kotum og sundríða ár, en alltaf hélst Fást frá Recklam þurr í vasanum og gladdi ferðamanninn með sinni andlegu næringu að kveldi. Fyrir þá sem ekki þekkja þessar bækur þá eru þær pínulitlar og fisléttar og seldar eftir þykkt og geyma allan andlegan kost hins vestræna heims og þótt víðar væri leitað.
Það er vandasamt og raunar flest því andstreymt að taka með sér mikla lesningu þegar maður ber allan útbúnaðinn á sjálfum sér uppi á hálendi. Um daginn gegnum við Magnús Viðar hins vegar frá Landmannalaugum í Þórsmörk eftir nokkrum krókaleiðum og þá var það svo að þegar ég var að raða í pokann greip ég með mér gömlu Menningarsjóðsútgáfuna af Grími Thomsen en gleymdi í staðinn vaðskónum. Þetta eru tiltölulega léttar og litlar bækur og ég komst að því að þær henta ákaflega vel sem ferðabækur. Stóru skáldin frá 19. öldinni hljóma betur þegar maður er uppi á fjöllum. Þau eru nálæg, einskonar vinir sem segja manni hina huldu sögu þess sem fyrir augu ber. Þau eru sönn.
Ég hefði þó betur munað eftir skóræflunum því við Maggi óðum Jökulgilskvísl í mitti einum fjórum sinnum áður en við brutumst upp á Hrygginn milli giljanna og gátum nokkurn veginn þurrir notið útsýnis yfir einn seiðmagnaðasta hluta þessa lands, þetta einstaka töfraland lita og hita og gljúfra og kletta og ríólíts sem Sveinsgil, Jökulgil, Hattver og undirhlíðar Torfajökuls eru. Algóður faðir forði þessu frá öllum orkuveitum heimsins.
Við sváfum á hrafntinnubeði í North Face tjaldi fyrstu nóttina og sváfum vel á grjótinu ofan á írsku loftdýnunum. En áður en við festum blund píndi ég Magnús með upplestri úr Grími. Ég verð að viðurkenna að ef frá eru skilin örlög Sörla hans Skúla sem ollu mér heilabrotum í æsku þegar ég lærði allt Skúlaskeið utan að eins og páfagaukur og ef frá eru skilin undarleg tilvik þar sem útlent fólk hefur orðið þess valdandi að ég hef sungið "Ríðum, ríðum" í vafasamara ástandi en ég kæri mig um að rifja upp, þá hefur Grímur Thomen ekki orkað mjög sterkt á mig sem skáld gegnum tíðina. Í námskeiði við HÍ um árið hjá Sveini Yngva Egilssyni las ég kvæði á borð við Huldur og Ólund, sem er sérdeilis magnað reynar, sem og Ásareiðin. En þarna í tjaldinu, með vatnsnið Jökulgilskvíslar og einmana garg heiðagæsapars í eyrum, sem voru einu heitblóðugu verurnar þarna utan við okkur, þá laukst upp fyrir mér ný vídd í Grími.
Grímur Thomsen er ferðaskáld. Hann er ekki síðri en Hannes Hafstein sem er líka mikill landlýsingarmaður. Eitt og eitt kvæði eftir Gröndal og Steingrím er í þessum anda, þekktast er örugglega Laugardalur eftir Steingrím og lýsing Gröndals á Þingvallaferð sinni, en Grímur er stöðugt að lýsa landi og ferðum sínum í kvæðunum, draga fram þjóðsögur og svipi fortíðar og kveikja í þeim líf mitt á ferðalaginu. Hann teiknar upp fjöll og umfaðmar jökla, hann sækist eftir hinu tröllslega, draugslega og mikilúðlega, en er jafnan feginn þegar hann er "kominn ofan í Kiðagil", sloppinn úr hrömmum þessarar miklu skepnu sem óbyggðirnar eru. Um leið heilla þær hann og hrífa, ótemjuskapurinn í náttúru og veðri er honum að skapi og hann lýsti meira að segja þeim slóðum sem við gengum í kvæðinu Að fjallabaki: "fjórtán tíma reið". Þar mærir hann Torfajökul sem reyndist okkur nokkuð óstöðugur bandamaður og fljótur að snúa við okkur rassinum með þokufýlu þegar hann hafði leyft okkur að gægjast yfir suðurbrúnina og horfa yfir stóra bróður: Mýrdalsjökul.
Uppgötvun hálendisins og könnun Íslands er ekki gömul saga. Grímur opinberaðist mér skyndilega sem mikilvægur ferðamaður meðal annarra 19. aldar garpa á borð við Þorvald Thoroddsen. Hann skapar landið í kvæðum sínum. Hann er goðsagnasmiður og brúargerðarmaður sem býr til tengsl manna og umhverfis. En harmleikur nútímans er að þessar goðsagnir eru brothættar. Þær drukknuðu til að mynda á stað eins og Jósefsdal að baki Vífilfells sem torfærubrjálæðingarnir hafa nú með hjálp sveitafélagsins Ölfuss lagt undir sig og fá að spilla og skemma í friði "vegna þess að þeir verða að fá útrás". Maður nennir ekki lengur að labba á Vífilsfell bara til að hlusta á undirleik torfæruhjólanna. Um þennan stað orti Grímur magnað kvæði um álögin á dalnum og blótvarginn Jósef. Einhver áhrif hafði þetta á Magnús. Þegar við komum niður í Þórsmörk og Eyjafjallajökull blasti við í sólardýrðinni fór hann allt í einu að banga saman dýrum brag og ákaflega knosuðum og bar fyrir sig Grím. Megi svo öll torfæruhjól landsins bila, ryðga og verða að brotajárni.
Bækur | Breytt s.d. kl. 00:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2007 | 22:54
Ferðabækur
Um daginn bloggaði ég um ferðamannabækur. Hélt að þetta væri lítil saklaus færsla en fékk meiri viðbrögð við henni en vant er um mitt blogg. Þetta voru engar skammir, fremur vangaveltur um hvernig lýsa eigi landinu fyrir ferðafólki og svo leiðrétti Páll Ásgeir Ásgeirsson þann misskilning að hann hefði varpað upp rómantískri sýn á Hornstrandir í pistli í Morgunblaðinu síðasta sumar. Þar gerði ég mig sekan um að vitna eftir minni, sem maður skildi aldrei gera, allt er alltaf öðru vísi en mann minnir.
Sveitungar að norðan fundu svo að ýmsu. Ég hefði til að mynda gleymt nýju Árbók Ferðafélags Íslands, sem ég þó bloggaði um einhvern tíma í vetur þegar ég vissi að von var á henni, en hún er nú helguð Austur-Húnavatnssýslu sem er án efa eitt misskildasta svæði landsins. Jón Torfason ritar þá bók og FÍ blés til kynnisferðar á slóðir hennar rétt eftir hvítasunnu en þá var ég í Japan svo ég komst ekki í hana. Ég verð hins vegar hvergi var við að bókin sé komin út, allra síst á vef FÍ þar sem síðasta árbók kom út árið 2003.
Öðrum sveitunga fannst ég ómaklega vega að hinni miklu byggðasögu Skagfirðinga, einu voldugasta grundvallarriti um eina byggð á Íslandi sem út hefur komið. Það var nú ekki ætlunin, ég skil mætavel að það er ekki ferðabók, en ferðabókahöfundar nýta sér alla jafna slík rit og mér vitanlega er ferðamönnum ekki boðið upp á að kynnast byggðinni sem svo mikil elja hefur farið í að lýsa. Ferðamenn fara út í Drangey og nú er hægt að sigla út í Málmey og svo fá menn leiðsögn um Hólastað og þar er nú í sumar við leiðsögu sá margbrotni stórsnillingur og fyrrum samstúdent, Guðmundur Brynjólfsson úr Vogum á Vatnsleysuströnd, einn mesti sagnamaður sem Ísland hefur alið, þannig að engum ætti að leiðast þegar hann fer að þylja upp úttektir Hólastaðar og leika uppvakningu Galdra-Lofts auk náttúrlega virkisgerðar Jóns Arasonar og prentsmiðjustarfs Guðbrands en mest hlakka ég þó til að sjá hann lýsa og leika þann mikla atburð þegar Hóladómkirkju tók af í ofsaveðri árið 1627!
Það væri gaman að fá einhvern á borð við Ósk Vilhjálmsdóttur með hægagangshugsun sína til að finna upp á sniðugum sögugöngum um helstu ógnarstaði skagfirskrar sögu. Ganga sem hæfist við Flugumýri til að mynda og endaði á Örlygsstöðum gæti verið ákaflega skemmtileg og forvitnileg ferð þar sem komið yrði við á einum þremur stórum manndrápsstöðum frá Sturlungaöld, Miklabæjar Solveigu yrði kippt inn í röðina, Skúla Magnússyni og Akramönnum öðrum, Bólu-Hjálmari, Djúpdælingum og öðrum slíkum og svo fengi maður í leiðinni að kynnast smá sporði úr Tröllskeggnum fjöllum.
En enn bíð ég eftir fleiri ferðabókum þetta sumarið. Hornstrandir Páls Ásgeirs virðist enn sem fyrr eina eiginlega bókin í þeim flokki sem enn er út komin. Talandi um Hornstrandir. Hér er hetjumynd sem Maggi vinur tók af mér undir Hrolleifsbungu í Drangajökli í júlílok í fyrra. Við vorum þarna á leið niður af jöklinum eftir að hafa farið yfir hann frá Kaldalóni og erum á leið í sund í Reykjafirði. Jökulruðningarnir sem urðu eftir þegar jökullinn í Reykjafirði hopaði alla 20. öld settu hins vegar strik í reikninginn. Reyndar skríður nú jökullinn þarna fram og er svakalega sprunginn. Við fórum upp á Hljóðabungu, horfðum ofan í sprungurnar og hrylltum okkur.
Bækur | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2007 | 15:19
Erindi bókmenntanna
Kristín Ástgeirsdóttir skrifaði hér á Moggabloggi í gær frábæra færslu um erindi bókmenntanna og þeirrar staðreyndar að æ sjaldnar er vitnað til samtímabókmennta og æ brotakenndar til sígildra bókmennta í samfélagsumræðunni. Það er einfaldlega eins og helstu viðmið okkar menningar og viðmið tungumálsins séu flestum horfin. Hún vitanaði til Toril Moi, þeirrar miklu fræðikonu, sem hafði tekið eftir því að bókmenntir skiptu ekki lengur máli í kvennabaráttunni og til þeirra væri ekki lengur vitnað. Þetta væri annað en á áttunda áratugnum þegar konur notuðu texta til að sjá sig og sjálfsmyndir sínar í gagnrýnu ljósi og virkjuðu bókmenntir í pólitískum tilgangi.
Enginn sem fylgist með bókmenntum samtímans og umræðum í samfélaginu getur horft fram hjá því að fáir nota bókmenntir sem lykilinn að raunverulegum álitaefnum samtímans. Það er vitnað í bloggskrifara, kannski í einn eða tvo fræðimenn eða pistlahöfunda, en bókmenntir, og þótt að væri ekki annað en ljóðhefð þjóðarinnar eða Íslendinga sögur, eru ekki það hnitakerfi sem menn staðsetja umræðu dagsins í.
Ég held hins vegar að þetta snúist í raun meira um viðtökur bókmennta og væntingar til þeirra en bókmenntirnar sjálfar. Þversögnin er að meira er keypt af bókum en nokkru sinni fyrr og meir skrifað en nokkru sinni en bókmenntir, líkt og önnur listaverk reyndar líka, skilgreina ekki eða teikna upp veruleika okkar. Hann er svo staðbundinn, svo "punktúell", að hefð og saga hverfa og um leið missum við minnið og missum líka að vissu leyti stoltið, hugmyndina um okkur sjálf sem hluta af sögu og áframhaldi.
Þetta er þróun sem margir hafa verið að skrifa um undanfarna áratugi og hafa túlkað með ýmsum hætti. Sumir hafa orðið að einskonar andlegum gúrúm með því að kokka upp líkön og lýsingar á þessu tímaleysi og hröðun, góðkunningjar Lesbókarinnar á við Paul Virilo og Baudrillard. En nýverið var mjög vel fjallað um þetta hjá Einar Má Jónssyni í Bréfi hans til Maríu, þeirri frábæru bók, þar sem hann hefur eðlilegar húmanískar áhyggjur af hvarfi þeirrar grundvallarmenningar sem borið hefur uppi vestræna hugsun og vestræna sögu í nokkur árþúsund. Nútímafjölmiðlun er einskonar barbarismi, einskonar gotainnrás í Rómaveldi andans, og hroðinn, allt frá klámi til ofbeldisleikja, frægafólksslúðurs og almennrar dellu, sest í tannhjól menningarinar eins og jökulleir uns allt höktir. Ný viðmið í menntun og markaðsvæðing menntunar sem hafnar tveggja alda gömlu háskólamódeli Humbolts þar sem þekkingaröflun var hafin til vegs og virðingar sem merkileg starfsemi í sjálfu sér koma svo til skjalanna af fullum þunga. Menntun er einskonar iðnaður í nútímanum sem hefur beina praktíska skírskotun. Húmanísk rannsókn á textum og menningarbrotum "bara af því að" verður nú hlutskipti nokkurra sérvitringa, ríkra furðumenna og skringilýðs. Í þessu andlega tómarúmi verða pistlahöfundar og sérfræðingar "í málefnum þessa og hins" að helstu parametrum andlega lífsins.
En ef við skrifuðum upp samtímasögu okkar út frá túlkun á listaverkum þá væri niðurstaðan áreiðanlega mjög athyglisverð. Gleymum því ekki að mikið af því sem við þykjumst vita um heiminn er upphaflega túlkun á textum, mjög oft bókmenntatextum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2007 | 16:57
Nýtt útgáfulandslag á Norðurlöndum
Norðurlöndin eru þrátt fyrir fámenni sitt einn öflugasti bókamarkaður heims. Bæði er útsöluverð bóka þar hátt, mikill og almennur bóklestur og stuðningur við lestur, menntun, menningu og útgáfu með því skilvirkara sem þekkist á heimsvísu. Flest stærstu og virðulegustu útgáfufyrirtæki Norðurlanda eru gamlar stofnanir á traustum fótum: Gyldendal í Danmörku, Norsk Gyldendal og Aschehoug í Noregi, Bonniers og Nordsteds í Svíþjóð, WSOY og Oktava í Finnlandi. Forlagakerfið hefur verið ákaflega stöðugt um langa hríð og þessi stórfyrirtæki mörg hver nýtt sér fjárhagslega burði til að stækka á heimsvísu. Bonniers og Egmont eru til að mynda fyrirtæki með útbreiðslu um allan heim. Bonniers eitt stærsta "holding" bókaútgáfunnar í Þýskalandi og hefur verið að hasla sér völl á fleiri stöðum.
Á síðustu tveimur áratugum hefur Bonniers stefnt að því að verða stórnorrænn útgáfurisi og tókst með uppkaupum og nýstofnun fyrirtækja að ná fótfestu í Noregi, Danmörku og Finnlandi. Bonnier Forlagene í Danmörku lentu fljótt í harkalegri samkeppni, sérstaklega í rekstri bókaklúbba, við Gyldendal og það forlag sem hlaut nafnið Aschehoug, en er í raun Egmont Media Group, hin mikla fjölmiðlasamsteypa. Í Noregi átti Bonniers forlagið J.W. Cappelens Forlag. Cappelen hefur verið í hálfgerðri lægð undanfarin ár og Bonnier Forlagene í Danmörku tapað gríðarlegum fjármunum á sama tíma. Nú nýverið tókst hins vegar í kjölfar jákvæðra breytinga á danska bókamarkaðinum að snúa rekstri fyrirtækisins við og var forstjóranum Morten Hesseldahl hampað í fagpressunni fyrir árangurinn. Hann bauð svo stjórnendateyminu sínu í verðlaunaferð hingað til Íslands á dögunum. Þegar þetta lá fyrir seldi móðurfélagið í Stokkhólmi sitt danska félag og Egmont keypti. Þar með er orðinn til risi á danska bókamarkaðnum sem er nánast jafnstór og Gyldendal á flestum sviðum, ef ekki stærri. Árleg velta rúmir 7 milljaðar ísl. króna og starfsmenn ríflega 200. Að sjálfsögðu var Hesseldahl sparkað. Hinn nýi forstjóri er Íslandsvinurinn Anette Wad, forstjóri Aschehoug, sem hefur gaman af íslenskum hestum og íslenskum laxveiðám. Hún er energískur stjórnandi með fjármálavit og skapandi sýn á útgáfumál sem nú hefur tryggt henni næst valdamestu stöðu eða jafnvel þá valdamestu í dönskum útgáfuheimi. Nýja fyrirtækið fær nafn stóra imprints Aschehoug Danmark: Lindhardt & Ringhof, sem stendur á gömlum merg. Hið sameinaða fyrirtæki raskar algerlega hefðbundinni uppstillingu forlagsheimsins danska þar sem Gyldendal ríkir eitt stærst en aðrir húka á sínum prikum.
Að sama skapi hefur nú myndast nýr norskur útgáfurisi þegar Egmont og Bonniers komu sér saman um að sameina fyrirtækin Cappelen og Damm. Þar með er líka orðið til annað stærsta forlag Noregs og gamalt valdajafnvægi Aschehoug og Norsk Gyldendal raskað. Í öllum tilvikum er það ljóst að Egmont hefur haft forystu í þessum málum og er nú stóri gerandinn í norrænum útgáfuheimi.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2007 | 13:24
Ferðabókavertíðin
Átti leið um miðbæinn í morgun og skyggndist um eftir nýjum bókum fyrir erlenda og innlenda ferðamenn en sá ekkert nema nýja bók Páls Ásgeirs Ásgeirssonar um Hornstrandir sem er spennandi. Minnist þess þó að það kona einhver setti ofan í við hann í fyrra vegna skrifa um Hornstrandir vegna þess að henni fannst hann full rómantískur og upphefjandi og vildi draga fram að fólk hefði búið þarna og starfað og tíndi til útsvarsgreiðslur og aðrar heimildir. Þessi skoðanaskipti sátu aðeins í mér því það er oft ótraust brúin á milli byggðasögu og útivistar. Ég var einu sinni sem oftar að fletta þriðja og síðast útkomna bindinu í Byggðasögu Skagafjarðar um daginn sem Hjalti Pálsson ritar, og er ekkert minna en eitt risavaxið stórvirki. Þar er gríðarlega mikið um upplýsingar um land og landslag en minna um hvernig er best að ferðast um það.
En sjálfsagt eiga eftir að koma fleiri ferðabækur á næstunni og ég veit að von er á stórri ljósmyndabók eftir Thorsten Henn ljósmyndara sem yrði þá nýjasta Íslandsbókin. Á metsölulista Eymundsson yfir erlendar ferðamannabækur er hins vegar nú ný bók sem kaliforníska framúrstefnuútgáfan Ginkopress gefur út, bókin Icepick eftir Þórdísi Claessen. Þórdís hefur í langan tíma safnað myndum af íslenskri götulist og er sjálf hönnuður. Hún hefur lengi verið að vinna í bók með sýnishornum af þessu og nú er hún komin á alþjóðlegan markað og virðist einnig ganga vel í Reykjavík. Athyglisverð og rosalega flott hönnuð bók sem sýnir algerlega nýja hlið á Íslandi. Það stakk mig um daginn þegar ég var á ferðalagi í Japan að það er hvergi graffití í Japan. Það er algjör hending að maður sjái graffítí í Tókíó en í Reykjavík er hins vegar í raun útkröbbuð því mikið sem maður sér er náttúrlega bara bjánalegt krass. En af hverju? Af hverju eru Íslendingar svona svakalegir graffarar?
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)