Nýtt útgáfulandslag á Norðurlöndum

Norðurlöndin eru þrátt fyrir fámenni sitt einn öflugasti bókamarkaður heims. Bæði er útsöluverð bóka þar hátt, mikill og almennur bóklestur og stuðningur við lestur, menntun, menningu og útgáfu með því skilvirkara sem þekkist á heimsvísu. Flest stærstu og virðulegustu útgáfufyrirtæki Norðurlanda eru gamlar stofnanir á traustum fótum: Gyldendal í Danmörku, Norsk Gyldendal og Aschehoug í Noregi, Bonniers og Nordsteds í Svíþjóð, WSOY og Oktava í Finnlandi. Forlagakerfið hefur verið ákaflega stöðugt um langa hríð og þessi stórfyrirtæki mörg hver nýtt sér fjárhagslega burði til að stækka á heimsvísu. Bonniers og Egmont eru til að mynda fyrirtæki með útbreiðslu um allan heim. Bonniers eitt stærsta "holding" bókaútgáfunnar í Þýskalandi og hefur verið að hasla sér völl á fleiri stöðum.

Á síðustu tveimur áratugum hefur Bonniers stefnt að því að verða stórnorrænn útgáfurisi og tókst með uppkaupum og nýstofnun fyrirtækja að ná fótfestu í Noregi, Danmörku og Finnlandi. Bonnier Forlagene í Danmörku lentu fljótt í harkalegri samkeppni, sérstaklega í rekstri bókaklúbba, við Gyldendal og það forlag sem hlaut nafnið Aschehoug, en er í raun Egmont Media Group, hin mikla fjölmiðlasamsteypa. Í Noregi átti Bonniers forlagið J.W. Cappelens Forlag. Cappelen hefur verið í hálfgerðri lægð undanfarin ár og Bonnier Forlagene í Danmörku tapað gríðarlegum fjármunum á sama tíma. Nú nýverið tókst hins vegar í kjölfar jákvæðra breytinga á danska bókamarkaðinum að snúa rekstri fyrirtækisins við og var forstjóranum Morten Hesseldahl hampað í fagpressunni fyrir árangurinn. Hann bauð svo stjórnendateyminu sínu í verðlaunaferð hingað til Íslands á dögunum. Þegar þetta lá fyrir seldi móðurfélagið í Stokkhólmi sitt danska félag og Egmont keypti. Þar með er orðinn til risi á danska bókamarkaðnum sem er nánast jafnstór og Gyldendal á flestum sviðum, ef ekki stærri. Árleg velta rúmir 7 milljaðar ísl. króna og starfsmenn ríflega 200. Að sjálfsögðu var Hesseldahl sparkað. Hinn nýi forstjóri er Íslandsvinurinn Anette Wad, forstjóri Aschehoug, sem hefur gaman af íslenskum hestum og íslenskum laxveiðám. Hún er energískur stjórnandi með fjármálavit og skapandi sýn á útgáfumál sem nú hefur tryggt henni næst valdamestu stöðu eða jafnvel þá valdamestu í dönskum útgáfuheimi. Nýja fyrirtækið fær nafn stóra imprints Aschehoug Danmark: Lindhardt & Ringhof, sem stendur á gömlum merg. Hið sameinaða fyrirtæki raskar algerlega hefðbundinni uppstillingu forlagsheimsins danska þar sem Gyldendal ríkir eitt stærst en aðrir húka á sínum prikum.

Að sama skapi hefur nú myndast nýr norskur útgáfurisi þegar Egmont og Bonniers komu sér saman um að sameina fyrirtækin Cappelen og Damm. Þar með er líka orðið til annað stærsta forlag Noregs og gamalt valdajafnvægi Aschehoug og Norsk Gyldendal raskað. Í öllum tilvikum er það ljóst að Egmont hefur haft forystu í þessum málum og er nú stóri gerandinn í norrænum útgáfuheimi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband