Ferðabækur

Um daginn bloggaði ég um ferðamannabækur. Hélt að þetta væri lítil saklaus færsla en fékk meiri viðbrögð við henni en vant er um mitt blogg. Þetta voru engar skammir, fremur vangaveltur um hvernig lýsa eigi landinu fyrir ferðafólki og svo leiðrétti Páll Ásgeir Ásgeirsson þann misskilning að hann hefði varpað upp rómantískri sýn á Hornstrandir í pistli í Morgunblaðinu síðasta sumar. Þar gerði ég mig sekan um að vitna eftir minni, sem maður skildi aldrei gera, allt er alltaf öðru vísi en mann minnir.

Sveitungar að norðan fundu svo að ýmsu. Ég hefði til að mynda gleymt nýju Árbók Ferðafélags Íslands, sem ég þó bloggaði um einhvern tíma í vetur þegar ég vissi að von var á henni, en hún er nú helguð Austur-Húnavatnssýslu sem er án efa eitt misskildasta svæði landsins. Jón Torfason ritar þá bók og FÍ blés til kynnisferðar á slóðir hennar rétt eftir hvítasunnu en þá var ég í Japan svo ég komst ekki í hana. Ég verð hins vegar hvergi var við að bókin sé komin út, allra síst á vef FÍ þar sem síðasta árbók kom út árið 2003.

Öðrum sveitunga fannst ég ómaklega vega að hinni miklu byggðasögu Skagfirðinga, einu voldugasta grundvallarriti um eina byggð á Íslandi sem út hefur komið. Það var nú ekki ætlunin, ég skil mætavel að það er ekki ferðabók, en ferðabókahöfundar nýta sér alla jafna slík rit og mér vitanlega er ferðamönnum ekki boðið upp á að kynnast byggðinni sem svo mikil elja hefur farið í að lýsa. Ferðamenn fara út í Drangey og nú er hægt að sigla út í Málmey og svo fá menn leiðsögn um Hólastað og þar er nú í sumar við leiðsögu sá margbrotni stórsnillingur og fyrrum samstúdent, Guðmundur Brynjólfsson úr Vogum á Vatnsleysuströnd, einn mesti sagnamaður sem Ísland hefur alið, þannig að engum ætti að leiðast þegar hann fer að þylja upp úttektir Hólastaðar og leika uppvakningu Galdra-Lofts auk náttúrlega virkisgerðar Jóns Arasonar og prentsmiðjustarfs Guðbrands en mest hlakka ég þó til að sjá hann lýsa og leika þann mikla atburð þegar Hóladómkirkju tók af í ofsaveðri árið 1627!

Það væri gaman að fá einhvern á borð við Ósk Vilhjálmsdóttur með hægagangshugsun sína til að finna upp á sniðugum sögugöngum um helstu ógnarstaði skagfirskrar sögu. Ganga sem hæfist við Flugumýri til að mynda og endaði á Örlygsstöðum gæti verið ákaflega skemmtileg og forvitnileg ferð þar sem komið yrði við á einum þremur stórum manndrápsstöðum frá Sturlungaöld, Miklabæjar Solveigu yrði kippt inn í röðina, Skúla Magnússyni og Akramönnum öðrum, Bólu-Hjálmari, Djúpdælingum og öðrum slíkum og svo fengi maður í leiðinni að kynnast smá sporði úr Tröllskeggnum fjöllum.

En enn bíð ég eftir fleiri ferðabókum þetta sumarið. Hornstrandir Páls Ásgeirs virðist enn sem fyrr eina eiginlega bókin í þeim flokki sem enn er út komin. Talandi um Hornstrandir. HDSC00387ér er hetjumynd sem Maggi vinur tók af mér undir Hrolleifsbungu í Drangajökli í júlílok í fyrra. Við vorum þarna á leið niður af jöklinum eftir að hafa farið yfir hann frá Kaldalóni og erum á leið í sund í Reykjafirði. Jökulruðningarnir sem urðu eftir þegar jökullinn í Reykjafirði hopaði alla 20. öld settu hins vegar strik í reikninginn. Reyndar skríður nú jökullinn þarna fram og er svakalega sprunginn. Við fórum upp á Hljóðabungu, horfðum ofan í sprungurnar og hrylltum okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband