Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
12.11.2008 | 14:23
Skorinn niður
Ég fékk póst frá HÍ áðan. Námskeiðið sem ég átti að kenna á vorönn 2009 hefur verið skorið niður. Það fengust ekki nógu margir nemendur. Þeim leist greinilega ekkert á námskeiðslýsinguna: Hold, heimur, djöfull og fagnaðarerindi: Íslenskar bókmenntir 1540-1799. Ógnvekjandi!
Þetta einfaldar lífið aðeins. Það er bévítans púsl að koma kennslu og rannsóknum inn í hagsmunagæslu, skrifstofustörf og útgáfu og hina mörgu og margvíslegu fundi sem maður situr alla daga vikunnar.
En fróðleiksfúsir nemendur í HÍ! 16. og 17. öldin, árnýöldin, early modern age, er eitt merkilegasta tímabil íslenskrar og evrópskrar sögu. Þá fæðist nútíminn og allt sem við höfum í of stórum skömmtum nú var þá í smærra og hrárra formi. Bókmenntirnar eru kostulegar. Líkt og nú voru allir rithöfundar á 17. öld starfsmenn ríkisstofnunar, kirkjunnar, nú fá þeir bara starfslaun og þurfa ekki að predika nema það sé mótmælafundur á Austurvelli eða viðtal í sjónvarpinu. Þeir þurfa heldur ekki lengur að halda uppi opinberri hugmyndafræði, blaðamenn á Markaðnum og viðskiptakálfunum hafa séð um það.
Æi, líklegast verður maður að leggjast í kynningar- og áróðursherferð fyrir töfrum skáldskapar þessa tíma. Kynning á góðum skáldum svo sem Guðmundi Erlendssyni á Felli í Sléttuhlíð eða Bjarna Gissurarsyni á Þingmúla í Skriðdal verður að bíða betri tíma.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2008 | 12:32
Listin er löng en lífið stutt
Og þess vegna gefum við hjá Crymogeu út listaverkabækur. Sú fyrsta er bók um verk Guðrúnar Einarsdóttur og kemur nú í búðir en formleg útgáfuhátíð var síðasta fimmtudag þegar sýning Guðrúnar var opnuð í i8 galleríi. Hún kostar ekki nema 2.980 kr. út úr búð.
Þetta er fyrsta bókin í ritröð sem Crymogea gefur út um íslenska samtímalistamenn og sem Listasjóður Dungal styrkir. Mitt í eymdartalinu sem er að verða að sérstakri íþróttagrein er hægt að búa til fallega gripi sem treysta þræðina sem halda saman stolti okkar og trú á að andlegt líf verði með blóma hér um slóðir til framtíðar þótt mörgum sýnist annað blasa við einmitt nú. Þetta er hægt með dyggum stuðningi framsýns fólks á borð við þau hjón Gunnar Dungal og Þórdísi Öldu Sigurðardóttur sem veita Listasjóðnum forstöðu.
Bókin er hönnuð af Snæfríði Þorsteins. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar undanfarin ár fyrir hönnun. Hún var tilnefnd til Myndstefsverðlauna nú í ár fyrir hönnun sína ásamt Hildigunni Gunnarsdóttur. Þær hafa fengið margvísleg verðlaun saman og í sitt hvoru lagi, til að mynda hönnunarverðlaun FÍT fyrir hönnun á sælgæti fyrir safnabúð Þjóðminjasafns Íslands og fyrir prentefni og útlit safnaverslunar Landnámsseturs í Aðalstræti.
Kíkið endilega: http://bokatidindi.oddi.is/listi/lysing.php?book_id=5505
Bókin fæst í Eymundsson í Austurstræti og Kringlu, BMM við Laugaveg og í Listasafni Reykjavíkur auk i8 Gallerís.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2008 | 11:52
Rithöfundar og erindi þeirra
Rithöfundar starfa við að segja sögur, beisla tungumálið, hugsa. Á tímum þegar fólk er í sífelldri leit að hugmyndum og samræðu er erindi þeirra mikið. Þeir koma til sögunnar eins og kallaðir, ekki vegna þess að þeir hafi endilega vísindakenningar um framtíðina á takteinum, heldur vegna þess að þeir geta fangað samtíman í orðum, búið til orsakakeðjur og frelsað okkur um stundarsakir frá hinum eilífa Spuna, sem gerir það að verkum að orð allra verða svo varhugaverð. Rithöfundar hafa þann höfuðkost að vera í það minnsta á jaðri spunans, þótt spunamenn reyndi jafnan að vefja þeim upp á sína þráðarspólu.
Á síðustu vikum hafa nokkrir rithöfundar lagt orð í belg og umsvifalaust fundið að á þá er hlustað. Einar Már Guðmundsson hefur fengið heilu síðurnar í Morgunblaðinu og ekki staðið á viðbrögðum. Kristín Marja Gunnarsdóttir skammaði þá sem vildu vanda um við þjóðina og fékk mikinn viðbragðsstorm í fangið. Nú síðast sneri Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir vindinum og leyfði sér að gagnrýna nornabrennustemmningu þjóðarinnar í veftímaritinu Nei! og aftur logar allt. Aðrir höfundar í deiglunni eru Andri Snær Magnason sem hefur haldið áfram ótrauður baráttu sinni fyrir fjölbreyttara atvinnulífi og náttúrugæðum og var síðast í Silfri Egils í fínum gír. Hannes Hólmsteinn Gissurarson gekk í nýlegi grein í VB langa leið til að geta ekki aðeins upphafið DO, heldur einnig sparkað í Hallgrím Helgason og Einar Kárason sem handbendi auðmannavaldsins, hina miklu leigupenna þess. Maður bíður svara úr þeim ranni.
En nú spyr maður eðlilega. Hvar eru raddir þeirra sem næst standa hörmungunum: ungu spræku Nýhilingarnir? Er það bara retórískt uppeldi Einar Más í Fylkingarbrjósti mótmæla áttunda áratugarins sem getur fleytt honum að orðagarðanum? Maður vill nú fá fleiri raddir og meiri þátttöku því aldrei hefur verið auðveldara að fá þjóðina til að hlusta en einmitt nú.
Bækur | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2008 | 23:53
Myntkörfukynslóðin
Ísland er eins og land sem háir stríð á fjarlægri grundu. Á yfirborðinu virðist allt með felldu, og raunar virðist höfuðverkefni allra frá leikskólakennurum til forsætisráðherra að láta sem allt sé með felldu, en allir vita að ósigurinn er algjör. Þetta sést vel úr fjarlægð. Þjóðargjaldþrotið sem vart er nefnt á nafn hér mitt í hringiðunni er beinhörð staðreynd þegar horft er á málið með augum erlendra fjölmiðla. Smám saman er þó eins og endalaus niðurlægingin á vígstöðvunum í austri og vestri síist inn. Okkar hersveitir fara ekki bara halloka. Stórkostlegt stórtap þeirra er staðreynd, þrátt fyrir fréttir um skipulagt undanhald. Þótt hugmyndafræði, þrjóska og vani haldi þjóðfélaginu enn á réttum kili gefa stoðirnar sig.
Í síðasta mánuði voru 4000 manns hið minnsta reknir úr störfum sínum. Ég hef hitt nokkra úr þeirra röðum. Þeim líður eins og ókunnir kraftar hafi kippt sundur sporbaug lífs þeirra og þeir þjóti nú út í tómið. Ég veit ekki hvort starfandi er ráðgjafahópur um almenna jákvæðniuppbyggingu í samfélaginu, en ef marka má fréttir af því að aðstoðarmenn þriggja ráðherra hafi boðað ritstjóra og yfirmenn fjölmiðla á sinn fund til að fara yfir málin, virðist svo vera. Ekkert almenningstengslastarf heldur hins vegar aftur af manninum á götunni sem upplifir á svolítið ruglingslegan hátt reiði, vanmátt, skilningsleysi og sjálfsásökun í bland við vonleysi þess sem sér enga möguleika á eðlilegu lífi í náinni framtíð.
Ef stjórnvöld eru ofan í afneitunarkaupið að reyna að koma böndum á uppgjafartal" með fjölmiðlaleiðbeiningum, þá er sá starfi ærinn. Hvorki þau né aðrir fá að fullu hamið þá vaxandi ólgu, óánægju og reiði sem hver einasta bensínskvetta frá burreknum bankamönnum magnar. Fyrst les maður fréttirnar" á bloggsíðum. Síðan eru þessar sömu bloggsíður sendar í tölvupóstum. Síðan eru tölvupóstarnir afritaðir og endursendir uns að endingu fréttin" kemst upp úr sínu stafræna kafi, upp á yfirborðið. Inni á vefnum sást fyrst sagt frá skuldþvegnum Kaupþingsmönnum. Inni á vefnum rís nú alda alvarlegrar gagnrýni á hvernig nýi aðallinn í bönkunum virðist svo samofinn fyrra þrotakerfi að ómögulegt er að koma auga á umskiptin. Sagt er að bankastjórar gömlu bankanna stjórni nýju bönkunum á laun. Krafan um alger umskipti verður háværari. Að gefið verði upp á nýtt.
Um tíma hélt maður nefnilega að hið mikla Hrun þýddi í raun byltingu. Að Ísland væri að upplifa atburð á borð við siðbreytinguna þegar heilli valdastétt og nánast öllu efnahags- og félagskerfi hennar var sópað út af borðinu og stærsta eignatilfærsla íslenskrar sögu fór fram. Svo er þó ekki. Sama fólkið og setti Ísland á hausinn stjórnar enn fjármálum þjóðarinnar. Hið mikla Hrun var þrátt fyrir allt ekki hrun fjármálastéttarinnar. Það var fyrst og síðast hrun allra þeirra sem fóru í lautarferð í góðærinu með myntkörfuna fulla af gulleggjum. En eins og í vondu Grimmsævintýri breyttust eggin í myllusteina sem hanga þeim um háls. Í Hruninu missti þetta fólk tök á hinni efnislegu tilveru, en það missti líka tök á trúnni á framtíðina.
Drifkraftur íslenska samfélags á undanförnum árum byggðist á trúnni á að við öll, þjóðin, værum gædd sérstökum eiginleikum sem tryggðu stöðugt áframhaldandi velsæld. Þessi hugmynd dó á einni nóttu. Nú berjast menn við að byggja upp traust á komandi tímum, snúa kreppunni í jákvæðan byr og von um að hægur vöxtur, útsjónarsemi og aðrar góðar dyggðir komi okkur til bjargar. Það er þörf á því að hlusta á allt það góða fólk sem sér möguleikana í ástandinu, en vandamálið er að það eru jarðsprengjur í rústunum. Ef þær verða ekki aftengdar allar strax er öll jákvæðni og framtíðartrú til einskins. Hin reiða myntkörfukynslóð verður að fá uppgjör við valdamenn gömlu bankanna og allt þeirra mikla umbununarsýstem. Annars verður komandi tíð ein skelfingargryfja reiði, tortryggni og óréttlætis.
(Lesbók Morgunblaðsins 8.11.2008)
Bækur | Breytt 9.11.2008 kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)