Árásin á Bastilluna við Hverfisgötu

Ég hafði ekki ætlað mér að fara niður í bæ í dag, heldur baka laufabrauð, en það varð úr á endanum að við pápi lögðum frá okkur skurðarjárnin og brugðum okkur á Austurvöll að skoða mótmælin.

Ég var þarna líka um síðustu helgi og þá fannst mér vera létt stemmning í loftinu. Bjartsýn og umbótaglöð. Maður hitti ótrúlegasta fólk og leið eins og á Þorláksmessukvöldi. Eins og aðfangadagur væri að renna upp. Viðar Þorsteinsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Andri Snær Magnason voru öll með mjög fínar ræður, eða það sem maður heyrði af þeim, því hátalarakerfin voru ekki gerð fyrir mannfjöldann. Mest heyrði ég til Viðars sem kom mér á óvart, þeas það kom mér ekki á óvart að hann væri rökfastur og andkapítalískur, heldur að hann flutti mál sitt mjög sköruglega og með nokkrum tilþrifum. "Nú er pólískt lofttæmi að myndast, kannski er lag fyrir menn eins og hann?" hugsaði ég með mér. Maður vissi svo sem að auðvitað myndi ekkert breytast næstu vikuna , en manni fannst fólk upplifa sig sem gerendur, að það væri í það minnsta að koma einhverju verk, fremur en bara harma sinn hlut.

Í dag var búið að bæta hljóðkerfismálin en stemmningin var niðurdrepandi og þunglyndisleg. Það ýrði úr lofti og svörðurinn á Austurvelli spændist upp og varð að svaði. Ræðurnar voru ýmist örvæntingarfulllar eða hreinlega deprímerandi misheppnaðar. Enginn sem tók til máls hitti á rétta tóninn þrátt fyrir að peppkórinn reyndi hvað hann gat. Við fórum að skoða tómatagengið við Alþingishúsið. Þar voru einhver grey að spandera rándýru grænmeti, vonandi þó ekki innfluttu, á blágrýtið undir vökulu fjölmiðlaauga. Þetta var ekki alvöru. Þetta var bara sviðsetning fyrir myndavélar. Fólk kastaði eins og aular, með hálfum huga og næstum eins og til að prófa, þunglyndislega.

Getur þetta gengið svona áfram? Laugardag eftir laugardag? Er endurtekningin og hið einarða neitunarvald á hinum endanum ekki að hafa það af að kæfa þessa mótmælaglóð?  Samfylkingarfólk hefur uppnefnt þá Geir, Davíð og Árna "hið þrískipta neitunarvald" en svo virðist sem ISG hafi bæst í þann hóp og sé nú orðin "fjórða neitunarvaldið". Ekkert á að gera. En auðvitað að að hlusta á almenning. Það á að taka Groundhoug Day á málið.

Jón Kaldal lýsti því vel um daginn í Fréttalbaðsleiðara að við værum föst í Groundhoug Day. Alltaf sami dagurinn og engin útleið úr svífandi ástandi aðgerðarleysisins. Í myndinni fer Phil Connor (Bill Murray) í gegnum mörg stig þunglyndis uns hann nær að sætta sig við endurtekninguna. Eftir upphaflega undrun og gleði yfir að lifa alltaf sama daginn aftur og aftur kemur tímabil geðdeyfðar, loks sjálfsmorðshneigðar sem ekkert leiðir því endurtekningin þýðir að hann er ódauðlegur. Að lokum brotna hlekkir endurtekningarinnar fyrir tilstilli ástarinnar. Veturinn getur loks haldið áfram. Þau Bill og Andie McDowell kyssast og allt er gott.

Það varð eitthvað að gerast. Þegar Hörður Torfa hrópaði að það yrði að mótmæla á Hverfisgötu skildi ég hann ekki. Af hverju Hverfisgötu? En svo sá maður það í kvöldfréttunum. Liðð marseraði upp brekkuna úr Kvosinni og að Rauðará til að frelsa bandingjann úr "klóm fastistanna". Árásin á Bastilluna líkist hins vegar meira hinum dæmigerðu árásum sem ég man eftir úr æsku minni þegar fullir unglingar og æsingamenn af eldri kynslóð gerðu aðsúg að löggustöðinni á Króknum á gamlárskvöld. Slíkar árasir voru áratugum saman standardar á efnisskrá áramóta og þrettánda víða um land, þar á meðal í Reykjavík. Halldór Laxness taldi þessar óspektir skýrt dæmi um ömurlega firringu unglinga af nýríkri borgarastétt eftirstríðsáranna. Um 1980 kom til gríðarlegra óspekta á Selfossi og Ölfusárbrúnni var lokað klukkustundum saman af unglingum. Hvað eftir annað voru gerðar árásir á lögreglumenn og lögrelgustöðvar í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, Sauðárkróki og Selfossi um áramót og þrettánda. Síðan hurfu þessar óspektir bara einn daginn. Enginn veit af hverju þær komu og af hverju þær hættu.

Þetta voru þunglyndisleg mótmæli vegna þess að þau eru föst í endurtekningunni. Groundhoug Day. Ekkert virðist geta greitt úr stöðunni. Áhrifaleysi mótmælendanna er algert, en um leið er mikill ótti við að mótmælin fari úr böndunum, að eitthvað gerist. Því varð eitthvað að gerast. Það er erfitt að segja hvert leiðin liggur nú. En ef jafn ömurleg stemmning verður á Austurvelli næsta laugardag og ef kröfurnar og hrópin hafa jafn lítið að segja og nú verður þörfin fyrir að drepa óánægjuna úr dróma enn ríkari.

En vonandi sjá menn hversu atburðir dagsins voru fáránlegir. Stendur löggan fyrir efnahagshruninu? Kommon. Stefán Eiríksson og Geir Jón stunduðu ekki flókin afleiðuviðskipti eða nýttu sér rúmar heimildir löggjafar Evrópska efnahagssvæðisins til að stofna til innlánsviðskipta í Evrópulöndum. Mótmælendur eru að komast hægt og rólega á sjálfsmorðsskeiðið. Bráðum finnst þeim þeir hafa engu að tapa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband