8.11.2008 | 23:53
Myntkörfukynslóðin
Ísland er eins og land sem háir stríð á fjarlægri grundu. Á yfirborðinu virðist allt með felldu, og raunar virðist höfuðverkefni allra frá leikskólakennurum til forsætisráðherra að láta sem allt sé með felldu, en allir vita að ósigurinn er algjör. Þetta sést vel úr fjarlægð. Þjóðargjaldþrotið sem vart er nefnt á nafn hér mitt í hringiðunni er beinhörð staðreynd þegar horft er á málið með augum erlendra fjölmiðla. Smám saman er þó eins og endalaus niðurlægingin á vígstöðvunum í austri og vestri síist inn. Okkar hersveitir fara ekki bara halloka. Stórkostlegt stórtap þeirra er staðreynd, þrátt fyrir fréttir um skipulagt undanhald. Þótt hugmyndafræði, þrjóska og vani haldi þjóðfélaginu enn á réttum kili gefa stoðirnar sig.
Í síðasta mánuði voru 4000 manns hið minnsta reknir úr störfum sínum. Ég hef hitt nokkra úr þeirra röðum. Þeim líður eins og ókunnir kraftar hafi kippt sundur sporbaug lífs þeirra og þeir þjóti nú út í tómið. Ég veit ekki hvort starfandi er ráðgjafahópur um almenna jákvæðniuppbyggingu í samfélaginu, en ef marka má fréttir af því að aðstoðarmenn þriggja ráðherra hafi boðað ritstjóra og yfirmenn fjölmiðla á sinn fund til að fara yfir málin, virðist svo vera. Ekkert almenningstengslastarf heldur hins vegar aftur af manninum á götunni sem upplifir á svolítið ruglingslegan hátt reiði, vanmátt, skilningsleysi og sjálfsásökun í bland við vonleysi þess sem sér enga möguleika á eðlilegu lífi í náinni framtíð.
Ef stjórnvöld eru ofan í afneitunarkaupið að reyna að koma böndum á uppgjafartal" með fjölmiðlaleiðbeiningum, þá er sá starfi ærinn. Hvorki þau né aðrir fá að fullu hamið þá vaxandi ólgu, óánægju og reiði sem hver einasta bensínskvetta frá burreknum bankamönnum magnar. Fyrst les maður fréttirnar" á bloggsíðum. Síðan eru þessar sömu bloggsíður sendar í tölvupóstum. Síðan eru tölvupóstarnir afritaðir og endursendir uns að endingu fréttin" kemst upp úr sínu stafræna kafi, upp á yfirborðið. Inni á vefnum sást fyrst sagt frá skuldþvegnum Kaupþingsmönnum. Inni á vefnum rís nú alda alvarlegrar gagnrýni á hvernig nýi aðallinn í bönkunum virðist svo samofinn fyrra þrotakerfi að ómögulegt er að koma auga á umskiptin. Sagt er að bankastjórar gömlu bankanna stjórni nýju bönkunum á laun. Krafan um alger umskipti verður háværari. Að gefið verði upp á nýtt.
Um tíma hélt maður nefnilega að hið mikla Hrun þýddi í raun byltingu. Að Ísland væri að upplifa atburð á borð við siðbreytinguna þegar heilli valdastétt og nánast öllu efnahags- og félagskerfi hennar var sópað út af borðinu og stærsta eignatilfærsla íslenskrar sögu fór fram. Svo er þó ekki. Sama fólkið og setti Ísland á hausinn stjórnar enn fjármálum þjóðarinnar. Hið mikla Hrun var þrátt fyrir allt ekki hrun fjármálastéttarinnar. Það var fyrst og síðast hrun allra þeirra sem fóru í lautarferð í góðærinu með myntkörfuna fulla af gulleggjum. En eins og í vondu Grimmsævintýri breyttust eggin í myllusteina sem hanga þeim um háls. Í Hruninu missti þetta fólk tök á hinni efnislegu tilveru, en það missti líka tök á trúnni á framtíðina.
Drifkraftur íslenska samfélags á undanförnum árum byggðist á trúnni á að við öll, þjóðin, værum gædd sérstökum eiginleikum sem tryggðu stöðugt áframhaldandi velsæld. Þessi hugmynd dó á einni nóttu. Nú berjast menn við að byggja upp traust á komandi tímum, snúa kreppunni í jákvæðan byr og von um að hægur vöxtur, útsjónarsemi og aðrar góðar dyggðir komi okkur til bjargar. Það er þörf á því að hlusta á allt það góða fólk sem sér möguleikana í ástandinu, en vandamálið er að það eru jarðsprengjur í rústunum. Ef þær verða ekki aftengdar allar strax er öll jákvæðni og framtíðartrú til einskins. Hin reiða myntkörfukynslóð verður að fá uppgjör við valdamenn gömlu bankanna og allt þeirra mikla umbununarsýstem. Annars verður komandi tíð ein skelfingargryfja reiði, tortryggni og óréttlætis.
(Lesbók Morgunblaðsins 8.11.2008)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.