Haldreipin

Ísland í dag er eins og land sem hefur tapað í stríði. Við spyrjum okkur í örvæntingu: Hvernig gat þetta gerst? Við sem börðumst fyrir réttlátum málstað. Við sem áttum rétt á því að þenja út áhrifasvæði okkar. Við sem áttum rétt á því að vera stolt. Nú hafa herforingjar okkar tapað og senda óbreytta embættismenn upp í járnbrautavagnana með útsendurum Bandamanna til að undirrita smánarlega friðarsamninga þar sem þjóðinni eru settir afarkostir. Okkar Versalasamningar. Stríðið tapaðist og hugmyndafræðin sem bar það uppi líka. Herforingjarnir eru farnir í útlegð. Þjóðin er eins og sprungin blaðra.

Þá grípa menn í haldreipi. Það er ákaflega mikilvægt að þau haldreipi séu til uppbyggingar góðu samfélagi þar sem gagnrýnin skoðun, siðferðileg heilindi og víðsýni eru höfð að leiðarljósi. Til þess þurfum við að kynna hugmyndir, viðhorf og sjónarmið. Nú þegar nýjar bækur koma út margar á dag og höfuðútgáfutíminn fer í hönd verða sögur og fræði einu leiðsögumennirnir sem við getum treyst til að leiða okkur ekki fram af brúninni.

Allt orkar nú á okkur sterkar en fyrr, við erum vitrari, næmari. Við erum tilbúin að læra. Starx skynjar maður þetta í tali við fólk. Það les öðru vísi en áður, það er til í að túlka og tala, kryfja hlutina og vill sækja sér upplýsingar til að skilja betur. Við lítum til baka og sjáum að það er eins og við höfum verið í transi, leidd áfram af draumum. Nú er tímabili draumanna lokið. Nú er allt sem á vetrarmorgni: Skýrt og klárt. Nú er kominn tími fyrir haldreipi sem við vefum sjálf. Tími til að lesa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband