Svarti Jónas og Bjarti Jónas

Ég hef aldrei rekist á Íslending sem ekki þekkir Jónas Hallgrímsson. Þótt ekki rifjist upp kvæði veit viðkomandi samt að Jónas var skáld. En ég hef heldur aldrei rekist á Íslending sem veit ekki að saga Jónasar er örlagasaga. Dularfullt og spegilslétt fjallavatn bak mikilúðlegum tindum hrifsar til sín föðurinn þegar skáldið er barnungt. Skáldið fetar erfiða slóð í skugga föðurmissis og nærist á metnaði fátækrar móður, berst til mennta. Hann er frelsisunnandi, lífsnautnamaður, skáldmæltur og ör. Hann hefði getað fetað settlega stigu en kýs sér annan veg. Í samræmi við rökfræði borgaralegra skáldsagana úr samtíð hans er viðgangur hans í veröldinni þar með ráðinn. Í hinu melódramatíska úniversi verður sá sem snýr baki við regluverki borgaraskaparins ógæfu sinni og innri djöflum að bráð. Hann hlýtur að falla í valinn, helsjúkur, langdrukkinn og uppétinn af fransós. Dauðann ber að í ísköldu kvistherbergi í borg þar sem tötrum vafðir fátæklingar vafra um göturnar og berjast um brauðmola við rotturnar innan um fætur vellauðugra dándimanna sem hreyta í þá spesíu eða ónotum, allt eftir því hvernig kúrsinn stendur á börsinum. Einu reitur skáldsins eru frakki á slitnum snaga og pappírar á borði þar sem hálfskrifað höfuðkvæði bíður þess að skáldið rísi kaldsveitt af beðnum og skipi sorgmæddum, trúföstum félaga sínum, sem einn vakir þegar aðrir sofa, að pára síðustu hendinguna. Endurminning um einu hreinu ástina kvelur hann. Þá sem hann hlaut að skiljast við því hún var ætluð öðrum og virðulegri kosti. „En anda sem unnast, fær aldregi eilífð ...“ Síðan deyr hann. Hann týnist í ómerktri gröf, fjarri föðurlandi og vinum. Það eina sem lifir eru kvæðin. Örlagagusturinn stendur af þeim. Og við klárum lögfræðina til þess að það fari nú ekki eins fyrir okkur.

Ef ímynd Jónasar er tindaröð á Tröllaskaga gnæfir melódramatískan strýtan þar hæst. Glæsileg uppbygging ógæfunnar stendur styrk þrátt fyrir að rannsóknir, útgáfur og heil ævisaga hafi sundurgreint jafnt banamein skáldsins sem hlutdeild hans í vísindarannsóknum 19. aldar. Yfirveguð ímynd af 19. aldar skáldi sem endurnýjaði ljóðmál íslenskrar bókmenntahefðar og reyndi en mistókst að marka spor í vísindasöguna hefur ekki orðið ofan á. Þegar rætt er um Jónas verður flestum það enn á orði að hann hafi í sínum merkilegu rannsóknarferðum um landið verið meira og minna fullur, og þetta sagt með vorkunn og aðdáun í senn, enda hlýtur að vera hæsta stig sælunnar að fá að velta um á traustum klár kengfullur í boði danskra vísindastofnana. Renna sér svo til Kaupmannahafnar að hausti „með allt niðrum sig“ til að komast aftur upp á hanbjálkann, svangur og umkomulaus með þrá í brjósti eftir sólardögum sumarsins og ástinni sem aldrei varð höndluð. Í þessari dramamynd er Kaupmannahöfn eins og leikmyndin úr Davíð Kopperfield. Þar má líta skítug stræti þar sem hórur og vasaþjófar, barnaræningjar og gráðugir svikahundar keppast um að krækja brauðmolana af borðum hinna ríku og voldugu. Í þessum heimi komast menn hins vegar ekki í álnir nema með ómennskri óbilgirni. Góða fólkið er ríkt og voldugt frá fæðingu og ber í sér erfðaefni göfugmennskunnar. Því geta Íslendingar rasað yfir gráðugu Danahyski en mært í sömu mund kónginn.

 

Og þótt búið sé að sanna vísindalega að banameinið hlýst af fótbroti og að brjóstveikin hafi stafað af því að Jónas forkælist í hrakför um eyðimörkina Nýjabæjarfjall, þá virðist Megas í gríni eða kannski bara einhverjir langdrukknir menningarmenn í höfuðborginni, komið þeirri hugmynd inn hjá alþjóð að „Jónas hafi ekki verið allur þar sem hann var séður“, og hafi gert það sem nú er kallað „að kaupa vændisþjónustu“, smitast fyrir vikið af herfilegum kynsjúkdómi og legið marineraður í sífilis lungann úr sínum efri árum. Ekkert bendir til þess að þetta hafi verið rétt, en þessi fransóssaga er meiriháttar stykki í ímyndarpúsli Jónasar og varpar á hann þeim gangsterblæ sem kannski hefur meira en nokkuð annað haldið minningu hans á lofti meðal þeirra sem nú eru yngri en fimmtugir. Helstu hetjur íslensks samtíma eru fíklar, glæpamenn og auðkýfingar. Með brennivínið og fransósinn að vopni lendir Jónas í tveimur fyrstu flokkunum. Það tryggir honum traustan sess í allraguðahofinu nú á upphafsárum 21. aldar þegar ringlaður almenningshugurinn hringsólar um óöldina í miðbænum, handrukkanir, fíkniefni og óhóflegt ríkidæmi fáeinna fjármagnseigenda.

Skáldskapur Jónasar og raunar heildarverk hans allt er meira og betur rannsakað en nokkurt annað heildarverk íslenskrar ljóðsögu. Við höfum fyllri upplýsingar í höndunum um flest kvæði Jónasar en nokkurs annars íslensks skálds fyrri alda. Og raunar er það svo að við höfum margar mismunandi túlkanir á kvæðum hans í höndum, ögrandi greiningar sem vísa okkur leið inn í ný híbýli. Á bak við hlera koma í ljós óvænt bæjargöng sem liggja inn í búr og baðstofur annarra tímabila bókmenntasögunnar, svið hugsunar þar sem fæstir héldu fyrsta kastið að íslenskt skáld hefði borið niður. Ef skáldskapur Jónasar væri veglegur bær væri ein skemman tileinkuð klassískri hefð elegíunnar þar sem Ísland, farsælda frón trónar á stalli sem frumlegt innlegg í langa röð sem teygir sig aftur til latneskrar fornaldar. Við finnum Jónas fyrir í endurreisnarham í kammersi þar sem tersínur Gunnarshólma hljóma í senn eins og nýlatneskt glæsikvæði og rómantískt goðmagnaljóð. Og við sjáum hann í eldaskála við fótskör margvísra kvenna sem leiða hann inn í Edduhefðir sem verða honum svo inngrónar að þær verða að sjálfsögðum tjáningarmáta fyrir nútíðarfólk. Hvar sem borið er niður hafa góðir menn og konur búið til fyrir okkur skilningsleiðir og göngustíga. En við fylgjum engu að síður ímyndinni og hún er svört. Er þetta ekki kvæði um þyngslin sem koma yfir hann? Hinn þungi Jónas, svarti Jónas. Það er okkar skáld. Fullt með fransós.

Þetta er hins vegar Jónas fyrir fullorðna. Til að gera hann smekklegri fyrir börn og bjartsýnt fólk var fyrir löngu þróuð skilningslína sem um skeið átti meira gengi að fagna sem ímynd. Þetta er myndin af sólarmanninum Jónasi. Margir sem komnir eru af léttasta skeiði kannast vel við hreiminn í þessari björtu rödd sem færði sólina og vorið inn í huga Íslendinga. Að heyra Ég bið að heilsa! sungið af Karlakór Reykjavíkur og Guðmundi Jónssyni heitnum í klassískri upptöku frá árinu 1957 í Óskalögum sjúklinga á hverjum einasta laugardagsmorgni sjöunda og áttunda áratugar 20. aldar hafði varanleg mótunaráhrif á heila kynslóð. Það var stórbrotið að heyra þessu lagi blastað úr risaútvörpum af gerðinni Telefunken eða Philips mitt yfir laugardagshreingerningarnar á meðan grjónagrauturinn eða saltfiskurinn kraumuðu í pottunum og horfa í leiðinni út yfir úfið haf eða á fjarlæg fjöll þar sem skýjaflókar virtust sem snöggvast víkja til hliðar á meðan lagið var leikið. Auðvitað er þrá og þyngsli í þessu ljóði ef maður vill hafa það svo, en túlkun Karlakórsins og Guðmundar óperusöngvara á lagi Inga T. Lárussonar er ekki á þann veg. Raddir kórsins eru léttar, kátar, líkt og trillur sem vagga á bárum eða hross sem hlaupa í haga sér til skemmtunar áður en þau skyndilega nema staðar og sperra eyrun. Frostið er farið úr jörðu, allt er deigt og lint og opið og til í hvað sem er. Farfuglarnir hafa uppi „sælla söngfugla kvak“ og „röðull brosir“, „snjórinn eyðist, gata greiðist“ og nóg er að gera „nóttu bjartri á“. Vorið er komið. Hinn einfaldi og tæri fögnuður yfir vorkomunni og birtunni var bundinn í orð af Jónasi á þann hátt að kynslóðir leituðu til hans eins og flugur í ljós.

Því þegar gætt er að því sérstaklega hafa kvæði Jónasar hafa ótrúlega margar tilvísanir til sólarinnar og birtunnar. Maður getur raunar svo sem skilið að þeim sem eitthvað púður þótti í Jónasi hafi loks þótt nóg komið af upphafningu birtunnar og sætsúputali í kringum „ástmögur þjóðarinar“. En fyrir vikið verður að víkja megninu af skáldskap Jónasar til hliðar eða í það minnsta endurtúlka hann sem afrakstur brennivíns, þunglyndis og kramar. Hins vegar þarf ekki annað en að slá upp í heildarútgáfu þeirra fóstbræðra Haups Hannessonar, Páls Valssonar og Sveins Yngva Egilssonar til að sjá birtuspilið blasa við. Og um leið rifjast upp ímyndin eins og hún eitt sinn var og er enn í munni Mjólkursamsölunnar. Þar birtist Jónas sem einskonar Gandálfur á gangi um landið með ljóðstaf í hönd, ekki hreifur af víni, heldur upphafinn af anda náttúrunnar. Hann slær prikinu við grundir og björg svo hjúpur vana og sljóleika hrekkur af náttúrunni. Hann er eins og forvörður sem kemst í renessanshiminn á ítalskri fresku og fágar burt gamalt gróm en skilur eftir bláma og ljóma. Þessi Bjarti Jónas var raunar sérstakt dálætisefni Halldórs Laxness, sem á efri árum skrifaði frábæra hugleiðingu um eina helstu uppfinningu Jónasar, íslensk landslag, í formálsorðum sínum að bókinni Reginfjöll að haustnóttum eftir Kjartan Júlíusson frá Skáldstöðum Efri. Hann sá að það var verk þessa töframanns að draga niður gömlu skúmtjöldin og birta landið í nýjum ljóma.

Það væri ofsagt að segja að Svarti Jónas og Bjarti Jónas tækjust á. En þótt báðar ímyndirnar hafi margt að sækja til rannsókna og könnunar á skáldskap Jónasar eru þær skemmtilega ósamstæðar og lýsa einskonar geðklofasýn á Jónas Hallgrímsson. Hann verður með öðrum orðum að dæmigerðum sundurklofnum nútímamanni. Annars vegar fórnarlamb menningarinnar. Hins vegar hið hreina barn náttúrunnar. Hann er í senn gangster og krútt.

Birtist í Lesbók Morgunblaðsins 17. nóvember 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband