Stærsta bókavertíð allra tíma!

Þá er það staðfest. Bókavertíðin 2007 verður stærsta bókavertíð í sögu íslenskrar bókaútgáfu. Aldrei hafa jafn margar bækur verið skráðar til leiks í Bókatíðindum, einir 800 titlar. Þetta er gríðarleg fjölgun frá því í fyrra þegar 677 titlar voru alls í Tíðindunum. Fyrir vikið verða Bókatíðindi nú einum 40 blaðsíðum stærri en í fyrra. Við eigum enn eftir að skoða þetta í smáatriðum og fara yfir flokkana og skoða hvar fjölgunin hefur verið mest. En fljótt á litið eru meðalstóru útgáfurnar mjög að fjölga sínum útgáfutitlum. Fleiri einnar og tveggja bóka útgefendur eru með en áður og svo er það risinn, Forlagið, rúmur fjórðungur bókanna í Bókatíðindum koma út á vegum þess. Það eru allar útgáfubækur Eddu útgáfu og JPV samanlagt. Það er í raun ekki fyrr en maður skoðar listann sem maður áttar sig á því hverskonar risaútgáfa þetta er.

Bókatíðindum verður dreift í öll hús upp úr mánaðarmótum og nú er betra en nokkru sinni að halda fast í þau og skoða vel því þau gefa nú æ betri mynd af bókamarkaðinum í heild sinni. Ef miðað er við að um 1500 bækur komi út á Íslandi árlega er þetta ansi stór hluti af markaðnum. Síðan má reikna með um 100 titlum sem bókaútgáfurnar setja ekki inn í Bókatíðindi, s.s. kennslubækur og ýmislegt smáefni annað. Í raun eru það mest útgáfur stofnana og fyrirtækja auk sjálfsútgáfuverka sem verða eftir. Bókatíðindi gefa því æ betri mynd af markaðnum í heild.

Árið 1994 voru 332 titlar í Bókatíðindum. Árið 1997 voru 392 titlar í Bókatíðindum. Nú eru helmingi fleiri titlar en þá en heildarfjöldi útgáfutitla það ár hefur án efa verið nálægt 1500 bóka markinu, skv. tölum frá 1999 voru jafnvel ívið meira en 1500 bækur gefnar út það ár. Fjölgunin á skráðum titlum í Bókatíðindum er gríðarleg á einum áratug.

En þeir sem vilja skoða Bókatíðindi á netinu geta nú þegar hafist handa. Allar bækur sem skráðar eru í gagnagrunninn sjást á vefsíðu Félags íslenskra bókatíðinda. Þar má fletta fram og aftur og lesa innihaldslýsingar á þessum 800 titlum.

Já, og svo er að kaupa bækurnar þegar þær koma út. Raunar er vertíðin nú hafin því slagurinn er byrjaður. Biblían leiðir í bili en strax í næstu viku kemur út næsti stórseller, ný bók Arnaldar Indriðasonar sem heitir því tungubrjótandi nafni Harðskafi. Svo er það Harry Potter og síðan allt hitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband