26.6.2007 | 15:19
Erindi bókmenntanna
Kristín Ástgeirsdóttir skrifaði hér á Moggabloggi í gær frábæra færslu um erindi bókmenntanna og þeirrar staðreyndar að æ sjaldnar er vitnað til samtímabókmennta og æ brotakenndar til sígildra bókmennta í samfélagsumræðunni. Það er einfaldlega eins og helstu viðmið okkar menningar og viðmið tungumálsins séu flestum horfin. Hún vitanaði til Toril Moi, þeirrar miklu fræðikonu, sem hafði tekið eftir því að bókmenntir skiptu ekki lengur máli í kvennabaráttunni og til þeirra væri ekki lengur vitnað. Þetta væri annað en á áttunda áratugnum þegar konur notuðu texta til að sjá sig og sjálfsmyndir sínar í gagnrýnu ljósi og virkjuðu bókmenntir í pólitískum tilgangi.
Enginn sem fylgist með bókmenntum samtímans og umræðum í samfélaginu getur horft fram hjá því að fáir nota bókmenntir sem lykilinn að raunverulegum álitaefnum samtímans. Það er vitnað í bloggskrifara, kannski í einn eða tvo fræðimenn eða pistlahöfunda, en bókmenntir, og þótt að væri ekki annað en ljóðhefð þjóðarinnar eða Íslendinga sögur, eru ekki það hnitakerfi sem menn staðsetja umræðu dagsins í.
Ég held hins vegar að þetta snúist í raun meira um viðtökur bókmennta og væntingar til þeirra en bókmenntirnar sjálfar. Þversögnin er að meira er keypt af bókum en nokkru sinni fyrr og meir skrifað en nokkru sinni en bókmenntir, líkt og önnur listaverk reyndar líka, skilgreina ekki eða teikna upp veruleika okkar. Hann er svo staðbundinn, svo "punktúell", að hefð og saga hverfa og um leið missum við minnið og missum líka að vissu leyti stoltið, hugmyndina um okkur sjálf sem hluta af sögu og áframhaldi.
Þetta er þróun sem margir hafa verið að skrifa um undanfarna áratugi og hafa túlkað með ýmsum hætti. Sumir hafa orðið að einskonar andlegum gúrúm með því að kokka upp líkön og lýsingar á þessu tímaleysi og hröðun, góðkunningjar Lesbókarinnar á við Paul Virilo og Baudrillard. En nýverið var mjög vel fjallað um þetta hjá Einar Má Jónssyni í Bréfi hans til Maríu, þeirri frábæru bók, þar sem hann hefur eðlilegar húmanískar áhyggjur af hvarfi þeirrar grundvallarmenningar sem borið hefur uppi vestræna hugsun og vestræna sögu í nokkur árþúsund. Nútímafjölmiðlun er einskonar barbarismi, einskonar gotainnrás í Rómaveldi andans, og hroðinn, allt frá klámi til ofbeldisleikja, frægafólksslúðurs og almennrar dellu, sest í tannhjól menningarinar eins og jökulleir uns allt höktir. Ný viðmið í menntun og markaðsvæðing menntunar sem hafnar tveggja alda gömlu háskólamódeli Humbolts þar sem þekkingaröflun var hafin til vegs og virðingar sem merkileg starfsemi í sjálfu sér koma svo til skjalanna af fullum þunga. Menntun er einskonar iðnaður í nútímanum sem hefur beina praktíska skírskotun. Húmanísk rannsókn á textum og menningarbrotum "bara af því að" verður nú hlutskipti nokkurra sérvitringa, ríkra furðumenna og skringilýðs. Í þessu andlega tómarúmi verða pistlahöfundar og sérfræðingar "í málefnum þessa og hins" að helstu parametrum andlega lífsins.
En ef við skrifuðum upp samtímasögu okkar út frá túlkun á listaverkum þá væri niðurstaðan áreiðanlega mjög athyglisverð. Gleymum því ekki að mikið af því sem við þykjumst vita um heiminn er upphaflega túlkun á textum, mjög oft bókmenntatextum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.