Bókastefna flokkanna

Það spyr enginn eftir því nú í kosningabaráttunni hvort flokkarnir hafi menningarstefnu, né virðast margir hafa áhyggjur af því. Við sem vinnum í menningargeiranum virðumst annað hvort treysta því að aukin fjármunamyndun í samfélaginu búi til fyrir okkur efnahagslegan grunn eða þá að við erum einfaldlega á því að þetta komi allt út á eitt, skipti kannski engu máli. Félag íslenskra bókaútgefenda efndi til þings fyrir kosningar 2003 og spurði þá fulltrúa flokkana um "bókastefnu" þeirra. Þeir voru einkum spurðir um afstöðu sína til hins hataða virðisaukaskatts á bækur. Þegar svör þeirra eru skoðuð nú sést að sú mynd sem Björn Bjarnason teiknað þá upp: að virðisaukaskattur á bækur yrði lækkaður í tengslum við almenna lækkun virðisaukaskatts, en annars ekki, var sú sem varð ofan á. Kolbrún Halldórsdóttir, VG, sagðist hins vegar vera á móti lækkun virðisaukaskatts á bækur og yfirleitt lækkun skatta. Framsókn og Samfylking vildu hins vegar ólm lækka virðisaukaskatt á bækur við fyrsta tækifæri: Maður batt þá vonirnar við þau.

Nú þarf að spyrja um menningarstefnu og "bókastefnu" að nýju. Það skiptir máli fyrir alla, ekki síst fyrir þetta samfélag sem þessi misserin finnur svo sterklega til sín, til máttar síns og möguleika. Við höfum á undanförnum árum flotið á hugmyndafræðilegum brimskafli sem ber fjármuni okkar, viðhorf, menningu og lifibrauð sífellt lengra yfir þau landamæri sem við héldum áður að væru náttúruleg mörk lífsins á eyjunni. Við stefnum eitthvað mjög hratt, en erum ekki alveg viss um hvert það er. Bensínið á vélinni er ekki aðeins fjármagnið, það er silfurvefurinn sem spunninn er með hugmyndum og orðum og athöfnum, stiklurnar sem við stöndum á þegar við hugsum um sjálf okkur og opnum munninn. Þessar stiklur eru menning okkar og tungumál og það skiptir miklu að fólk, líka stjórnmálafólk, hugsi eilítið um hvernig best er gera menninguna að almenningseign, styrkja hana og fá hana til að blása fólki í brjóst þær geggjuðu hugmyndir sem við teljum vera svo séríslenskar.

Tökum eitt dæmi um hvernig skortur á menningarpólitík leiðir í raun til þess að stjórnmálaflokkar skilja ekki inntak þess sem andstæðingurinn er að segja. Andspænis "Überfremdung" samfélagsins eins og Þjóðverjar kalla óttaviðbragð Fjálslyndra við erlent fólk hljótum við líka að spyrja af hverju þeir berjast ekki fyrir aukinni innlendri dagskrárgerð, ríflegri og réttlátari styrkjum til höfunda og útgáfu, nýjum og hugmyndaríkum lausnum í fjármögnun íslensks skemmtiefnis fyrir alla hugsanlega miðla: Ef við erum óttaslegin við erlend áhrif og viljum vernda íslenska þjóðmenningu, þá verðum við líka að axla þá hugmyndafræðilegu ábyrgð sem því fylgir. Við hljótum að vilja efla það sem við viljum vernda. Hins vegar er Frjálslyndi flokkurinn ekki með slíkt prógramm á sínum snærum, sem segir sjálfsagt eitthvað. Um leið virðast allir aðrir flokkar sammála um að fjölmenningarsamfélagið sé eftirsóknarvert. Hvernig þá? Hvernig á að halda uppi "fjölmenningu"? Hvar er fjölmenningarútgáfan, fjölmenningarleikhúsið, fjölmenningarsjónvarpsþættirnir, ókeypis pólskunámið okkar? Hvernig fjölmenning lítur út er því miður ekki ljóst nema í almennum orðum meginyfirlýsinga flokkanna. 

Hvað varðar bókaútgáfuna sérstaklega hefur amk einn stjórnmálaflokkur uppi tillögur nú í aðdraganda kosniga sem munu hafa mikil áhrif á hana og það er baráttumál Samfylkingar um að námsbækur í framhaldsskólum verði ókeypis. Ég heyrði þessa fyrst getið á síðustu stundum þinghaldsins um daginn og varð nokkuð hugsi, ekki síst vegna þess að framkvæmd þessa máls myndi hafa nokkur áhrif á afkomu nokkurra bókaforlaga, og ég veit ekki til þess að nokkur hafi haft fyrir því að ræða þetta við þá sem raunverulega sjá um námsbókagerð fyrir framhaldsskóla á Íslandi, en auðvitað útiloka ég ekki að ég hafi rangt fyrir mér.

Þessi háttur er hafður á í nágrannalöndum okkar, þ.e. á hinum Norðurlöndunum, en fer þar saman við þá eðilegu skipan mála að ríkið er ekki sjálft að vasast í bókaútgáfu, sem er raunin hér á landi. En það breytist þó aðeins strax næsta haust. Eitt þeirra frumvarpa sem afgreidd voru sem lög frá Alþingi nýverið, og eru til stórlegra bóta fyrir bókaútgáfuna og rós í hnappagat menntamálaráðherra sem mælti fyrir frumvarpinu, eru ný lög um námsgagnagerð sem koma til móts við þá eðlilegu skipan mála annarra Evrópulanda að samkeppni sé í námsbókaútgáfu á skyldunámsstigi. Hingað til hefur Námsgagnastofnun, sem er jú ríkisstofnun, haft nánast einkaleyfi á því að gefa út skólabækur fyrir grunnskólanema (og einn og hálfur áratugur Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneyti hefur engu um það breytt - þangað til núna). Með nýju lögunum fá skólar rýmri heimild en áður til að kaupa inn annað efni en frá Námsgagnastofnun. Það er hins vegar langur vegur frá því að þessi markaður sé galopnaður. Námsgagnastofnun mun áfram sjá um útgáfu megnisins af því efni sem kennt er í grunnskólum á Íslandi. Ef framhaldsskólanemendur myndu fá allt kennsluefni sitt afhent frá ríkinu, þeim að "kostnaðarlausu", hlýtur það jafnframt að kalla á endurmat á skipan þessara mála. Svipað fyrirkomulag og á grunnskólastigi nú er í það minnsta óásættanlegt. Það er ekki hægt að treysta einkafyrirtækjum einn daginn til að sjá um hlutina og banna þeim það síðan daginn eftir.

Ef námsbækur fyrir framhaldsskóla yrðu ókeypis færi það væntanlega fram með sama hætti og í grunnskólum. Framhaldsskólarnir myndu sjá um innkaup skólabóka, þær yrðu afrgreiddar frá útgefenda inn í skólana og kæmu t.d. aldrei við í búðum, en sala skólabóka f. framhaldsskólanema hefur eins og kunnugt er verið ein af "vertíðum" bóksölunnar. Raunverulegt framlag ríkisins til innkaupa yrði að vera minnst 300 milljónir á ári, líklegast þó meira, ef þjónusta á alla valáfanga og sérnámskeið á iðnbrautum. Þetta þýddi að nemendur myndu ekki eiga bækurnar, heldur skólarnir, sem myndi líka þýða að krafa um kostnaðaraðhald myndi sjálfkrafa draga úr nýsköpun og endurnýjun til að nýta fjárfestingar betur. Eftir sem áður yrðu nemendur valáfanga og sérnámskeiða væntanlega sjálfir að kaupa sitt efni að einhverju leyti, líkt og nú tíðkast í tónlistaskólum og öðru sérnámi, en ef ekki, þá myndu skólarnir væntanlega draga úr framboði á þeim til að halda betur utan um efniskostnað. Þessir litlu markaðir hafa svo sem ekki verið nein gullnáma, helst er að Iðnú hafi sinnt þeim, enda er það hlutverk þess fyrirtækis, en einboðin skylda framhaldsskóla til að láta nemendum sínum ókeypis kennslugögn í té myndi þýða ýmis konar nýbreytni í samskiptum skóla og nemenda, því eins og staðan er nú, hafa skólarnir í raun engar áhyggjur af kaupum kennslugagna, þeir einfaldlega ákveða hvað skuli kennt og svo verða nemendur veskú að redda því. Þessi skipan myndi útrýma ákveðnu vandamáli fyrir útgáfuna, sem eru hinir hræðilegu skiptibókamarkaðir, sem brugðist hefur verið við með stöðugri nýþróun kennsluefnis, enda færa skiptibókamarkaðir sjálfa veltuna meir frá útgefendum til bóksölunnar. Það er því alls ekkert kvíðaefni í sjálfu sér fyrir útgefendur að framhaldsskólar láti nemendum sínum kennsluefni í té. Það gæti hins vegar aukið þrýstinginn á að kennarar búi sjálfir til rafrænt efni f. skólana til að lækka kostnað við skólabókakaup og það myndi að sjálfsögðu rústa skólabókamarkaðnum fyrir bóksölum. Það myndi líklegast leiða til aukinnar einsleitni í útgáfunni, þ.e. bækur yrðu notaðar lengur, en það færi náttúrlega eftir því hve miklu skólarnir hefðu úr að spila, hve mikið þeir gætu látið af hendi rakna til skólabókakaupa. En gaman væri að sjá hvað hinum flokkunum finnst um þetta útspil. Ég reiknaði einhvern tíma út að kostnaður fjölskyldu með tvö börn í framhaldsskólanámi af námsbókum gæti numið á bilinu 60-100.000 kr. á ári, jafnvel meira. Fyrir slíka fjölskyldu mun 7% lækkun virðisaukaskatts skipta nokkru, en að sönnu eru þetta nokkrir fjármunir sem munar um í heimilsbókhaldinu. Spurningin er hins vegar: Er þetta betra eða verra? Hvernig verður upplýsingum og þekkingu dreift á sem bestan hátt, ekki bara séð frá sjónarhóli nemenda, heldur líka þeirra sem búa upplýsingunum búning og gera þær tiltækar fyrir skólana, frá sjónarhóli höfunda og útgáfufyrirtækja?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband